154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

landsskipulagsstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

535. mál
[17:30]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að þingsályktunartillögur eru ekki endilega allar kostnaðarmetnar í bak og fyrir. Hér er auðvitað annars vegar um að ræða ákveðnar leiðbeiningar til sveitarfélaga um skipulagsgerð til næstu 15 ára, aðgerðir til næstu fimm ára. Margar af þeim aðgerðum eru hjá Skipulagsstofnun. Við erum líka með ákveðinn skipulagssjóð sem greiðir af öllum kláruðum byggingum og sveitarfélög geta sótt í, sum sveitarfélög fá reyndar að fullu greitt. Það er hlutur sem við höfum verið með til skoðunar og kannski skýrist það núna á næstu mánuðum hvaða tillögur við munum gera þar um komi til einhverra breytinga. Fyrst og fremst eru þetta auðvitað verkefni sem eru til lengri tíma. Að einhverju leyti munu þau koma til með að kosta fjármuni seinna meir en ekki endilega í þessu ferli og margt af því sem er nú þegar hjá sveitarfélögunum kostar þau í dag. Hér er kannski meira um að ræða leiðbeiningar um hvernig eigi að nálgast skipulagsferlið.