154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

sértækur húsnæðisstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

537. mál
[16:34]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Frumvarpið er liður í nánari áætlun ríkisstjórnarinnar til að mæta húsnæðisvanda íbúa Grindavíkur í kjölfar jarðhræringanna á Reykjanesskaga.

Markmið frumvarpsins er þannig að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurfa að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkurbæjar vegna náttúruhamfaranna.

Ég mun nú gera stuttlega grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að um tímabundið stuðningsúrræði verði að ræða sem taki til tímabilsins frá 10. nóvember 2023 til 29. febrúar 2024. Er það sama tímabil og lagt er til grundvallar í frumvarpi félags- og vinnumarkaðsráðherra um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfaranna í Grindavíkurbæ. Í því sambandi er þó lagt til að kveðið verði á um það í bráðabirgðaákvæði við lögin að úrrræðið skuli endurskoðað fyrir lok febrúar 2024 með tilliti til þarfar á áframhaldandi stuðningi, þá eftir atvikum með hugsanlegum breytingum á fyrirkomulagi úrræðisins.

Lagt er til að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annist framkvæmd sértæks húsnæðisstuðnings en stofnun hefur nú þegar víðtæka reynslu af framkvæmd sambærilegs stuðningskerfis á grundvelli laga um húsnæðisbætur. Því mun bæði reynsla stofnunarinnar á þessu sviði sem og fyrirliggjandi umsóknar- og úrvinnslukerfi koma til með að nýtast við framkvæmd þessa úrræðis. Frumvarpið byggir af þeim ástæðum á fyrirkomulagi húsnæðisbótakerfisins þar sem við getur átt, ekki síst þegar kemur að umsóknum um stuðninginn og úrvinnslu þeirra sem og leiðréttingu á greiðslum vegna breyttra aðstæðna.

Þá er gert ráð fyrir að stjórnvaldsákvarðanir Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem teknar eru á grundvelli laganna, verði frumvarpið að lögum, verði kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála, líkt og gildir um ákvarðanir stofnunarinnar um húsnæðisbætur.

Gert er ráð fyrir að sértækur húsnæðisstuðningur samkvæmt frumvarpinu feli í sér mánaðarlega greiðslu sem miðist við fjölda heimilismanna, óháð aldri, að teknu tilliti til hámarkshlutdeildar ríkisins í húsnæðiskostnaði. Í skilyrði um hámarkshlutdeild hins opinbera felst að stuðningurinn geti að hámarki numið 75% af leigufjárhæð vegna hins leigða húsnæðis, þ.e. húsnæðiskostnaði eins og það hugtak er skilgreint í frumvarpinu. Með húsnæðiskostnaði er átt við þann hluta leigufjárhæðar sem greiddur er fyrir leiguafnot af húsnæði. Aðrar greiðslur og kostnaðarþættir sem leigjanda ber að greiða samkvæmt samningi eða lögum, svo sem fyrir hita, vatn, rafmagn, hússjóð, viðhald o.fl., teljast því ekki til húsnæðiskostnaðar í skilningi laga frumvarpsins.

Gert er ráð fyrir að stuðningurinn verði almennur við íbúa Grindavíkurbæjar sem taka á leigu húsnæði utan bæjarins og er því ekki gert ráð fyrir að hann miðist við tiltekin tekju- og eignamörk.

Lagt er til að fjárhæðir sértæks húsnæðisstuðnings fari eftir fjölda heimilismanna og fari eftir svokölluðum stuðlum húsnæðisbóta samkvæmt lögum um húsnæðisbætur sem ætlað er að endurspegla hvernig leiguverð hækkar hér á landi með auknum fjölda heimilismanna. Þannig er gert ráð fyrir að einstaklingur geti fengið allt að 150.000 kr. á mánuði í sértækan húsnæðisstuðning að því gefnu að húsnæðisstuðningur eða leigukostnaður viðkomandi nemi 200.000 kr. eða hærri fjárhæð á mánuði. Þegar tveir búi saman geti hámarksfjárhæð sértæks húsnæðisstuðnings numið allt að 198.000 kr. og 232.500 kr. ef heimilismenn eru þrír í heimili. Séu heimilismenn fjórir eða fleiri geti stuðningurinn að hámarki numið 252.000 kr. á mánuði sem miðast við að húsnæðiskostnaður viðkomandi sé 336.000 kr. á mánuði eða hærri. Er þannig lagt til grundvallar að stuðningurinn geti að hámarki numið 75% af húsnæðiskostnaði viðkomandi heimilis, eins og ég nefndi áður.

Með heimilismönnum er átt við alla þá sem raunverulega búa í hinu leigða húsnæði og uppfylla nánari skilyrði sem sett eru fyrir stuðningnum, m.a. um lögheimili eða tímabundið aðsetur. Almennt er því lagt til grundvallar að fólk geti aðeins átt eitt heimili og þar með einungis talist til heimilismanna á einum stað á hverjum tíma. Er þó gert ráð fyrir ákveðnum undantekningum vegna barna sem eiga tvö heimili, og er þar um sömu tilvik að ræða og í lögum um húsnæðisbætur.

Er þannig í fyrsta lagi gert ráð fyrir að búi foreldrar eða forsjáraðilar barns ekki saman teljist barn búsett bæði á lögheimili sínu og í húsnæði þess foreldris eða forsjáraðila sem það á ekki lögheimili hjá, enda dvelji barnið hjá foreldrinu eða forsjáraðilanum í að lágmarki 30 daga á ári. Telst barnið þá sem heimilismaður hjá báðum foreldrum sínum eða forsjáraðilum til 18 ára aldurs.

Í öðru lagi geti barn sem hefur tímabundið aðsetur hjá fósturforeldrum vegna tímabundins fósturs samkvæmt barnaverndarlögum talist til heimilismanna á heimili foreldra eða forsjáraðila þess.

Í þriðja lagi geti barn sem hefur tímabundið aðsetur á heimavist eða námsgörðum einnig talist til heimilismanna hjá foreldri eða forsjáraðila þess ef það á þar lögheimili.

Virðulegi forseti. Gert er ráð fyrir að eftirfarandi skilyrði þurfi að vera uppfyllt til greiðslu sértæks húsnæðisstuðnings:

Í fyrsta lagi þurfi umsækjandi og aðrir heimilismenn að hafa verið með lögheimili eða tímabundið aðsetur í Grindavíkurbæ hinn 10. nóvember síðastliðinn en verið gert að yfirgefa heimili sín á grundvelli laga um almannavarnir. Í þessu sambandi er þó ekki gert ráð fyrir að viðkomandi þurfi að hafa verið stödd heima fyrir þegar rýmingin fór fram heldur er með skilyrðinu vísað til þess að heimili viðkomandi séu á því svæði sem fyrirmæli stjórnvalda um rýmingu tóku til.

Í öðru lagi er gert að skilyrði að umsækjandi og aðrir heimilismenn séu búsettir í hinu leigða húsnæði og eigi þar lögheimili eða tímabundið aðsetur. Í þessu horfi ég til frumvarps til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur, lögum um mannvirki og lögum um brunavarnir, sem væntanlegt er á þingið og mun veita Grindvíkingum auknar heimildir til að skrá tímabundið aðsetur í húsnæði utan Grindavíkurbæjar, svo sem í orlofshúsnæði í sumarhúsabyggð.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að umsækjandi sé 18 ára eða eldri, enda eru börn ófjárráða fram að þeim tíma og á framfæri foreldra sinna eða forsjáraðila.

Í fjórða lagi skuli umsækjandi verða aðili að leigusamningi um hið leigða húsnæði sem skráður hefur verið í leiguskrá húsnæðisgrunns Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Í fimmta og síðasta lagi liggi fyrir umboð umsækjanda og annarra heimilismanna, 18 ára og eldri, til nauðsynlegrar upplýsingaöflunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til að staðfesta rétt viðkomandi til stuðningsins.

Einnig er gert ráð fyrir að kveðið verði á um tilvik sem girði fyrir rétt til sértæks húsnæðisstuðnings. Þannig verði slíkur stuðningur ekki veittur í fyrsta lagi ef umsækjandi eða aðrir heimilismenn teljast þegar til heimilismanna í öðru húsnæði samkvæmt samþykktri umsókn um sértækan húsnæðisstuðning. Í þessu felst að synja ber umsókn að svo stöddu ef slíkur stuðningur er þegar greiddur vegna einhverra umræddra heimilismanna vegna annars leiguhúsnæðis. Gefst viðkomandi þá færi á að leiðrétta umsóknina og eftir atvikum heimilisskráningu viðkomandi.

Í öðru lagi verður slíkur stuðningur ekki veittur þegar einhver heimilismanna er eigandi viðkomandi leiguhúsnæðis. Hið sama gildir ef eigandi hins leigða húsnæðis er lögaðili sem er nátengdur heimilismanni með nánar skilgreindum hætti. Þessu skilyrði er ætlað að koma í veg fyrir málamyndagerninga þar sem leigjandi og leigusali eru í raun sami aðili.

Í þriðja lagi verður slíkur stuðningur ekki veittur þegar sértækur húsnæðisstuðningur er þegar greiddur öðrum vegna sama húsnæðis og er það einnig til að koma í veg fyrir málamyndagerninga. Í því sambandi reynir þó á rannsóknarskyldu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem og lýsingu í leigusamningi á hinu leigða, þar sem gert er ráð fyrir að unnt verði að greiða sértækan húsnæðisstuðning vegna herbergjaleigu. Kemur því til greina, sem dæmi, að greiða sitthvorri fjölskyldunni sem leigja saman íbúð, húsnæðisstuðninginn að því gefnu að það kom skýrt fram í viðkomandi leigusamningum hvernig húsnæðið skiptist á milli þessara tveggja leigjenda.

Í fjórða og síðasta lagi er gert ráð fyrir að sértækur húsnæðisstuðningur verði ekki greiddur ef viðkomandi húsnæði fullnægir ekki kröfum um brunavarnir íbúðarhúsnæðis sem settar eru fram í lögum og reglugerðum.

Að öðru leyti eru ekki gerðar sérstakar kröfur til húsnæðisins svo lengi sem um er að ræða íbúðarhúsnæði eða annað húsnæði sem leigt er til íbúðar hér á landi. Gæti því, líkt og ég nefndi áðan, m.a. verið um að ræða herbergjaleigu, leigu sumarbústaða eða jafnvel atvinnuhúsnæðis að því gefnu að húsnæðið uppfylli allar þær kröfur sem gerðar eru til brunavarna íbúðarhúsnæðis. Með þessu er ekki verið að viðurkenna atvinnuhúsnæði sem íbúðarhúsnæði heldur verið að horfast í augu við þann húsnæðisskort sem við búum við og Grindvíkingar hafa, líkt og aðrir, fengið að reyna á eigin skinni. Ég mælti hér í síðustu viku fyrir þingsályktunartillögu um húsnæðisstefnu til 15 ára ásamt fimm ára aðgerðaáætlun, sem telur 43 aðgerðir sem er m.a. ætlað að mæta þessum skorti á íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði. Á meðan við vinnum að því að koma á auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði er þó mikilvægt að tryggja að allir Grindvíkingar sem hafa þurft að leigja sér húsnæði vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga geti notið húsnæðisstuðningsins, ekki aðeins þeir sem hafa náð að tryggja sér hefðbundið íbúðarhúsnæði til leigu. Verður þó engu að síður að gera kröfu um að þar sé ekki um að ræða húsnæði þar sem brunavarnir eru ófullnægjandi. Því miður virðist mikið um búsetu í slíku húsnæði og er það eitt af viðfangsefnum húsnæðisstefnu að tryggja betur öryggi fólks sem þar býr. Vinna þarf markvisst að því að leysa þann vanda og ná búsetu í atvinnuhúsnæðið upp á yfirborðið. Ég nefndi hér áðan frumvarp um breytingu á lögum um brunavarnir m.a., sem dreift verður á Alþingi í dag vonandi og stefnt er að því að geta mælt fyrir á morgun, en það hefur einmitt að markmiði auka öryggi þeirra sem hafa fasta búsetu í atvinnuhúsnæði, efla brunaeftirlit og auka öryggi slökkviliðsmanna við störf.

Hvað varðar sértækan húsnæðisstuðning til Grindvíkinga vil ég rétt í lokin nefna að gert er ráð fyrir því að slíkur stuðningur hafi ekki áhrif á aðrar opinberar greiðslur. Þannig teljist stuðningurinn ekki til skattskyldra tekna og hafi ekki áhrif á greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar eða lögum um félagslega aðstoð.

Enn fremur er lagt til grundvallar að komi til þess, sem ég sannarlega vona, að fólk geti snúið aftur heim fyrir lok tímabils úrræðisins muni það áfram njóta stuðningsins út tímabilið svo lengi sem leigusamningur er enn í gildi og leigugreiðslur inntar af hendi. Mikilvægt er að ákveðinn fyrirsjáanleiki gildi í þessum efnum og Grindvíkingar geti við gerð leigusamnings reitt sig á að þeir hafi stuðninginn út tímabilið að öðrum skilyrðum uppfylltum, enda ljóst að tímabundnum leigusamningum verður almennt ekki sagt upp á gildistíma þeirra heldur ljúki á umsömdum degi. Þá er uppsagnarfrestur á ótímabundnum samningum þrír mánuðir vegna leigu á einstökum herbergjum en sex mánuðir ef um hefðbundnar íbúðir er að ræða. Þannig verði heimilt að greiða stuðninginn áfram þrátt fyrir að viðkomandi heimilismenn búi ekki lengur í leiguhúsnæðinu, að því gefnu að leigusamningur sé enn í gildi og leiga greidd samkvæmt honum.

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu er enn fremur gert ráð fyrir að ákveðnar breytingar verði gerðar samhliða á öðrum lögum. Er þar í fyrsta lagi um að ræða breytingar á lögum um húsnæðisbætur, sem ætlað er að skýra nánar samspil þessara tveggja húsnæðisstuðningsúrræða. Í fyrsta lagi er gert er ráð fyrir að breytingar verði gerðar á lögunum í því skyni að heimilt verði að greiða húsnæðisbætur vegna leiguhúsnæðis í Grindavík enda þótt umsækjandi og aðrir heimilismenn séu þar ekki búsettir vegna fyrirmæla stjórnvalda um rýmingu á grundvelli laga um almannavarnir. Þannig er gert ráð fyrir að rýmingin hafi ekki áhrif á rétt viðkomandi til húsnæðisbóta.

Í þessu sambandi er í öðru lagi lagt til að viðkomandi heimili geti samtímis notið slíkra húsnæðisbóta vegna leiguhúsnæðis í Grindavík og sértæks húsnæðisstuðnings vegna húsnæðis sem tekið er á leigu annars staðar á landinu.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að heimilt verði að greiða húsnæðisbætur vegna íbúðarhúsnæðis þótt sértækur húsnæðisstuðningur sé greiddur samtímis vegna sama húsnæðis. Þó er gert að skilyrði að húsnæðisbæturnar séu ekki greiddar vegna sömu heimilismanna og sértæki húsnæðisstuðningurinn. Þessu er ætlað að tryggja að húsnæðisbótalöggjöfin feli ekki í sér hindrun þess að þau sem njóti húsnæðisbóta geti boðið Grindvíkingum inn á heimili sín.

Aftur á móti er ekki gert ráð fyrir að sömu einstaklingar geti notið bæði húsnæðisbóta og sértæks húsnæðisstuðnings vegna leigu á sama húsnæðinu. Í því sambandi verði skerpt á því að þeir einstaklingar sem njóta sértæks húsnæðisstuðnings teljist ekki jafnframt til heimilismanna í skilningi laga um húsnæðisbætur. Þeir hafi þannig ekki áhrif á rétt annarra til húsnæðisbóta.

Þá eru í öðru lagi lagðar til breytingar á húsaleigulögum til að skýra nánari réttarstöðu leigjenda við þær aðstæður sem leigjendur húsnæðis í Grindavík stóðu frammi fyrir í kjölfar rýmingar bæjarins. Í þessu sambandi er ljóst að húsaleigulögin taka ekki sérstaklega á því hvernig fara skuli með efndir leigusamninga við afnotamissi leiguhúsnæðis við slíkar aðstæður. Þó hefur almennt verið talið að þeir hafi getað rift samningnum við þessar aðstæður og þar með losnað undan leigugreiðslum, þó ekki fyrr en íbúðin hafi verið tæmd sem var auðvitað ómögulegt vegna rýmingarinnar þar til nýlega.

Samkvæmt húsaleigulögum hefur leigjandi þannig m.a. heimild til riftunar ef húsnæði spillist svo á leigutímanum, af ástæðum sem ekki verða raktar til leigjandans, að það nýtist ekki lengur til fyrirhugaðra nota eða telst heilsuspillandi að mati heilbrigðisyfirvalda. Hið sama á við ef réttur leigjanda er verulega skertur vegna laga eða annarra opinberra fyrirmæla. Slík riftun þarf að vera skrifleg og skal henni fylgja rökstuðningur. Réttaráhrif riftunar eru þá þau að réttindi og skyldur leigusala og leigjanda samkvæmt leigusamningi falla niður frá dagsetningu riftunar og skal leigjandi rýma leiguhúsnæðið þegar í stað nema aðilar semji um annað og skal leigusali þá eiga rétt á leigugreiðslum vegna þess tíma sem líður frá riftun þar til leigjandi hefur rýmt húsnæðið samkvæmt samkomulaginu.

Lögin gera þannig ekki ráð fyrir þeim aðstæðum að leigjandi geti ekki tæmt íbúðina í beinu framhaldi af riftuninni, líkt og gerðist í Grindavík. Þannig var þeim leigjendum í Grindavík sem kusu að rifta leigusamningum sínum vegna afnotamissis húsnæðisins í raun ómögulegt að tæma hið leigða húsnæði þegar í stað og losna þannig undan leigugreiðslum. Þykir því mikilvægt að skýra nánar heimildir húsaleigulaga til riftunar á leigusamningi við þessar aðstæður og hvernig skuli fara um rýmingu, þ.e. tæmingu, húsnæðisins af eigum leigjanda.

Er því lagt til að kveðið verði með skýrum hætti á um heimild leigjanda jafnt sem leigusala til riftunar ef leigjandi missir afnot af hinu leigða húsnæði um lengri tíma vegna opinberra fyrirmæla um brottflutning fólks af hættusvæði þar sem húsnæðið stendur. Lagt er til að leigjandi skuli þá rýma leiguhúsnæðið án ástæðulauss dráttar þegar fyrirmælunum hefur verið aflétt og eigi síðar en innan sjö daga frá afléttingu þeirra. Hafi húsnæðið ekki verið rýmt innan þess frests skuli leigusali eiga rétt á greiðslu leigu vegna þess tíma sem líður frá lokum frestsins þar til leiguhúsnæðið hefur verið rýmt.

Virðulegi forseti. Í þessu sambandi er þó ljóst að leigjendur kunna margir hverjir að vilja viðhalda samningssambandi við leigusala sinn um leiguhúsnæðið þannig að þeir geti snúið aftur heim þegar og ef aðstæður leyfa. Til að skýra nánar réttarstöðu leigjenda er því lagt til að kveðið verði á um að við slíkar aðstæður skuli leigusali bæta leigjanda afnotamissinn með hlutfallslegum afslætti af leigugjaldi vegna þess tíma sem afnotamissirinn varði eða á annan hátt sem aðilar koma sér saman um. Verði aðilar ekki ásáttir um bætur eða afslátt geti þeir leitað álits sérstaks úttektaraðila samkvæmt húsaleigulögum en þeir geti jafnframt borið álit slíks úttektaraðila undir kærunefnd húsamála sem kveður upp bindandi úrskurði í slíkum málum.

Virðulegi forseti. Samkvæmt mati á kostnaðaráhrifum frumvarpsins er talið að áætlaður heildarkostnaður ríkissjóðs á mánuði vegna úrræðisins nemi um 220–242 millj. kr. á mánuði. Þar af nemi kostnaður vegna uppsetningar umsóknargáttar, greiðslukerfis og umsýslukostnaðar hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um 2,4–3 millj. kr. Á fjögurra mánaða tímabili nemi heildarkostnaður úrræðisins því á bilinu 880–970 millj. kr.

Ég tel mikilvægt að þær lagabreytingar sem hér hafa verið kynntar nái fram að ganga til að unnt verði að tryggja Grindvíkingum húsnæðisöryggi.

Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umræðu.