154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

aðgerðir stjórnvalda fyrir fólk á húsnæðismarkaði.

[15:07]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður veit hefur ríkisstjórnin að sjálfsögðu og stjórnvöld, og þegar ég segi stjórnvöld þá tala ég auðvitað líka um Seðlabankann, fylgst náið með því hvað er að gerast á húsnæðismarkaðnum. Ég veit að hv. þingmaður, sem hefur meira að segja, ef ég man rétt, starfsreynslu úr Seðlabankanum, fylgist náið með því sem þar gerist og þeim gögnum sem þau leggja fram og hafa verið að greina, að við séum þrátt fyrir allt búin að komast býsna vel frá því ástandi sem verið hefur. En á síðustu mánuðum hafa hlutirnir verið að versna og við þurfum að vera á tánum gagnvart því sem næst gerist. Þess vegna er mikilvægast af öllu, og því er ríkisstjórnin svo sannarlega að vinna að, að tryggja að hér séu skynsamleg fjárlög lögð fram sem styðja við peningastefnuna til þess að ná tökum á að verðbólgan fari niður og vextirnir fari niður. Það er langsamlega stærsti ávinningurinn fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu og það held ég að við séum öll sammála um.

En af því að hv. þingmaður byrjaði á því að spyrja: Hvað er ríkisstjórnin að gera á húsnæðismarkaði á þessum tíma? þá erum við að glíma við óvæntan atburð. Ég er ekki að fela mig á bak við hann. Við tökumst á við verkefnið í Grindavík eins og það er. En ef við værum ekkert búin að vera að undirbúa, ef það væri engin húsnæðisstefna, ef við værum ekki að setja fjármuni í stofnframlög eða hlutdeildarlán, við erum í raun búin að búa til nýtt húsnæðiskerfi á síðustu árum að norrænni fyrirmynd, þá væri ekki verið að byggja 800 íbúðir á þessu ári og 1.000 á því næsta og 1.000 á því þarnæsta, þ.e. 2.800 íbúðir. Það væri þá þessum 2.800 íbúðum færra á markaðnum. Þannig að ríkisstjórnin er sammála um að það þarf að stíga inn á markaðinn og hafa þar ákveðin áhrif, en auðvitað þurfum við líka að búa til aðstæður á markaðnum þannig að hann sjálfur geti byggt meira af húsnæði.