154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

húsnæðisvandi Grindvíkinga.

[11:18]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Já, greining hefur auðvitað verið mjög mikil og skiptingin er sirka þannig að um 20% íbúa eru leigjendur. Af þessum 1.200 íbúðaeiningum eru um 240 á leigumarkaði. Síðan eru auðvitað þessi 80% sem eiga sitt húsnæði. Það er mjög fjölbreyttur hópur líka hvað varðar skuldsetningu og aðra þætti. Ég vil bara segja að í þessum fyrsta fasa þá höfum við verið að halda mjög vel utan um það og það hefur verið gert í þjónustumiðstöðinni niðri í Tollhúsi síðustu daga, að halda utan um það að tryggja að allir komist í húsnæði hér og nú. Síðan erum við að vinna að því hvernig við getum tryggt húsnæði til meðallangs tíma og einhvern stuðning við það kerfi. Hvenær það nákvæmlega liggur fyrir get ég bara sagt að við stefnum að því að það gæti verið að gerast í dag eða í síðasta lagi á morgun.