154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

húsnæðisstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

509. mál
[16:03]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru alla vega risastórar áskoranir sem hv. þingmaður kemur hér með og ég held að við hljótum að vera heimsmeistarar eða alla vega að keppa um efstu þrjú sætin í fólksfjölgun með 1.000 manna fjölgun á mánuði í einhverja 20 mánuði.

Það er alla vega þannig varðandi allar okkar áætlanir að við erum farin að byggja á einhverju raunkerfum, þannig að það er mat sveitarfélaganna hvað þarf mikið af húsnæði á hverjum tíma. Síðan leggur HMS heildarmat á það hvort þessar tölur séu raunhæfar og við erum þannig komin með einhverja sýn til langs tíma. Þegar það fjölgar mjög mikið þá þurfum við væntanlega að uppfæra þessar tölur. Ein leiðin sem við höfum farið til að geta tekið á móti öllum þessum ferðamönnum hefur verið sú að við höfum hleypt mjög mörgum í að fara í svokallaðar Airbnb-íbúðir. Kannski ættum við aðeins að taka það upp og ræða í þessu samhengi hvort það aðgengi þurfi að vera með einhverjum hætti meira takmarkað. (Forseti hringir.) Það er nú ein af þeim tillögum sem kemur fram í stefnunni og þarf kannski að taka aðeins frekari umræðu um.