154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

450. mál
[15:55]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Styrkirnir skiptast þannig, þetta eru bara upplýsingar úr skýrslunni og hv. þingmaður getur eins og aðrir hérna dýpkað þekkingu sína enn frekar ef hann vill, að um 46% umsókna koma frá Norðurlandi eystra, 20% af Vestfjörðum og önnur svæði eru með 10% eða minna. Framlögin eru vissulega ekki nema 60% af framreiknuðu framlagi frá árinu 2013 og væri auðvitað ágætt að hækka þau. En ég veit að hv. þingmaður á sæti í fjárlaganefnd og gerir sér þar af leiðandi mjög vel grein fyrir því að á þeim tímum sem við búum við í dag, í verðbólgu, er jú mikilvægt að halda frekar aftur af aukningu fjármuna í fjárlögum en ella því að stærsta verkefnið er að ná niður verðbólgunni og vöxtunum. Það myndi örugglega gagnast þessum fyrirtækjum enn betur en að bæta í alla peninga sem ríkið sendir út.

Að öðru leyti vil ég bara segja að kerfið og ferlið er í sjálfu sér mjög einfalt. Auðvitað má alltaf gera betur og er sjálfsagt að skoða það ef hv. þingmaður er með góðar hugmyndir og ábendingar um það.