154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

umferðarlög.

400. mál
[15:39]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019. Með frumvarpinu er ætlunin að tryggja lagastoð til innleiðingar fimm reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins og einnar tilskipunar. Efni frumvarpsins var að mestu lagt fram á 153. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu.

Með frumvarpi þessu hafa ákvæði er varða innleiðingu reglugerða og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins verið skilin frá öðrum ákvæðum og er um að ræða hreint innleiðingarfrumvarp. Þá hafa minni háttar leiðréttingar verið gerðar auk þess sem ákvæði til innleiðingar einnar gerðar til viðbótar hefur bæst við, sem ég mun gera nánar grein fyrir hér á eftir.

Með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2018/956 er mælt fyrir um kröfur er varða vöktun og skýrslugjöf vegna koltvísýringslosunar og eldsneytisnotkunar nýrra þungra ökutækja. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, í tilviki EFTA-ríkjanna er veitt heimild til að leggja á sektir þegar skýrslugjöf framleiðenda ökutækja er ekki í samræmi við gerðar kröfur og ekki er hægt að réttlæta frávik frá þeim með fullnægjandi hætti. Felur frumvarpið í sér lagastoð heimildarinnar. Það skal þó tekið fram að nú um stundir er enginn framleiðandi ökutækja í skilningi reglugerðarinnar hér á landi og áhrif á innlenda aðila takmarkast sökum þess. Viðmiðunargildi fyrir koltvísýringslosun nýrra þungra ökutækja eru svo ákveðin samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2019/1242, og er henni einnig búin stoð til innleiðingar með frumvarpinu. Framleiðendum ökutækja eru samkvæmt henni veittar losunarheimildir og geta þeir hvort heldur sem er átt inneign eða staðið í skuld. Verði framleiðandi innan EFTA-ríkjanna talinn bera ábyrgð á umframlosun koltvísýrings á tilteknu skýrslutímabili frá og með árinu 2025 er ESA falið að leggja á gjald vegna hennar. ESA er samkvæmt núgildandi umferðarlögum heimilt að leggja á umframlosunargjald þegar vegið meðaltal útblásturs er yfir mörkum og er nú lögð til smávægileg orðalagsbreyting á ákvæðinu svo að heimildir ESA samkvæmt reglugerðinni falli einnig skýrlega þar undir. Benda má á að líkt og vegna fyrri reglugerðar er enginn framleiðandi ökutækja í skilningi reglugerðarinnar hér á landi og áhrif þessarar heimildar gagnvart innlendum aðilum því takmörkuð í ljósi þess.

Með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2018/858 eru tilteknar breytingar gerðar á reglum um vélknúin ökutæki, eftirvagna þeirra og kerfi, íhluti og aðskildar tæknieiningar. Er aðildarríkjum samkvæmt henni skylt að tilnefna viðurkenningar- og markaðseftirlitsstjórnvald á þessu sviði. Hér á landi annast Samgöngustofa viðurkenningar ökutækja, íhluta o.fl. og er lagt til að mælt verði með skýrum hætti fyrir um það hlutverk í lögum. Þá er lagt til að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði falið markaðseftirlit þar sem Samgöngustofa getur ekki með góðu móti sinnt því samhliða viðurkenningarhlutverki sínu án verulegra breytinga á skipulagi stofnunarinnar. Löggjafinn hefur þegar falið Húsnæðis- og mannvirkjastofnun markaðseftirlitshlutverk með lögum nr. 18/2021, um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum, varðandi stjórnsýslu neytendamála.

Með áðurnefndri reglugerð ESB er aðildarríkjum einnig falið að setja reglur um viðurlög við brotum markaðsaðila og grípa til ráðstafana til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlögin skulu vera skilvirk í réttu hlutfalli við brot og hafa varnaðaráhrif. Innan EES-svæðisins er ESA þá í ákveðnum tilvikum heimilað að leggja sektir á markaðsaðila vegna þess að ökutæki, kerfi, íhlutur eða aðskilin tæknieining uppfyllir ekki þær kröfur sem mælt er fyrir um. Til að svo megi verða þarf í umferðarlögum að heimila stofnuninni að leggja slíkar sektir á markaðsaðila. Heimildin hefur helst verið talin hafa þýðingu gagnvart framleiðendum ökutækja og viðurkenndum tækniþjónustum og er þá aðila ekki að finna hér á landi.

Með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1054/2020 hafa breytingar verið gerðar á gildandi reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna í farþega- og farmflutningum í atvinnuskyni. Meðal þeirra breytinga er að reglurnar taka nú til ökutækja að meðtöldum eftirvögnum eða festivögnum yfir 2,5 tonnum að heildarþyngd þegar um ræðir farmflutninga þvert á landamæri eða gestaflutninga en í gildandi umferðarlögum er kveðið á um að þær taki aðeins til ökutækja yfir 3,5 tonnum að heildarþyngd. Sökum þess er lagt til að ákvæðið verði lagað að þeim breytingum sem orðið hafa. Því til viðbótar er í reglugerðinni mælt fyrir um að flutningsaðili skuli skipuleggja vinnu ökumanns svo hann komist að jafnaði aftur á bækistöð flutningsaðilans þar sem hann hefur aðsetur og þar sem vikulegur hvíldartími hans hefst. Þá er flutningsaðila gert að skrásetja hvernig hann uppfyllir þær skyldur og geyma gögn þar um á athafnasvæði sínu til framvísunar að beiðni eftirlitsyfirvalda og að bera kostnað af hvíldaraðstöðu ökumanns sem er við störf fjarri eigin heimili. Í ljósi þessa er lagt til að reglugerðarheimild ráðherra verði skýrð og við hana aukið svo að nánar megi útfæra fyrrgreindar skyldur.

Þá hafa verið gerðar breytingar á reglum um endurmenntun ökumanna sem stjórna ökutækjum til farþega- og farmflutninga í atvinnuskyni og mælt er fyrir um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 645/2018. Nánar tiltekið snúa þær að kröfum um að aðeins megi kenna tiltekinn hluta endurmenntunar í fjarnámi. Þó að fengist hafi ákveðin aðlögun að þessum kröfum hér á landi þarf að kenna einhvern hluta endurmenntunar í verklegu staðnámi. Er lögð til breyting á umferðarlögum til samræmis við það.

Við efni frumvarpsins eins og mælt var fyrir því á 153. löggjafarþingi hefur þá bæst ákvæði vegna innleiðingar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2022/1280 um sértækar og tímabundnar ráðstafanir í ljósi innrásar Rússlands í Úkraínu, varðandi skjöl fyrir ökumenn sem gefin eru út í Úkraínu í samræmi við löggjöf landsins. Með reglugerðinni er sameiginlegum ramma komið á um tímabundna viðurkenningu og útskipti ökuskírteina sem útgefin eru í Úkraínu og starfshæfnisvottorð ökumanna, sem aka ákveðnum ökutækjum í atvinnuskyni, eftir að handhafar þeirra hafa hlotið alþjóðlega vernd. Þá er einnig gert ráð fyrir mögulegri útgáfu ökuskírteina í stað þeirra sem glatast hafa. Það er í því skyni að draga úr álagi á einstaklinga sem njóta tímabundinnar verndar sem og yfirvöld. Með því má, auk þess að auðvelda daglegt líf fyrrgreinds hóps, stuðla að aðlögun hans hér að nýju samfélagi.

Rétt þykir í ljósi skýrleika að kveða sérstaklega á um að leiði það af skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að erlent ökuskírteini skuli gilda hér á landi vegna aðstæðna í útgáfuríkinu, eða að íslenskt ökuskírteini skuli útgefið í stað þess, skuli ráðherra mæla nánar fyrir um það í reglugerð.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir helstu efnisatriði frumvarpsins og vísa að öðru leyti til frumvarpsins sjálfs og greinargerðar sem því fylgir. Það er mitt mat að samþykkt frumvarpsins komi til með að stuðla að auknu umferðaröryggi auk þess að stuðla að því að íslenska ríkið uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Legg ég því til að eftir 1. umræðu verði málinu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umræðu.