154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[16:39]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir fína ræðu. Ég er sammála þingmanninum um að samgöngumál eru kannski stærstu velferðarmálin. Þetta snýst oft og tíðum bara um lífsgæði. Öryggi er auðvitað bara hluti af því að líða vel, að þora að fara um vegi og komast hratt og örugglega en líka að geta gert það á heilbrigðan hátt. Það skiptir líka máli.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt að átta sig á því að samgönguáætlun er svo víðfeðm. Reiðvegirnir, það var t.d. skýrsla sem var unnin þar sem kom fram að við þyrftum kannski að fara að horfa aðeins til lengri tíma hvernig við ætlum að byggja upp og að við getum ekki gert allt akkúrat núna en þurfum að horfa þá til lengri tíma.

Hv. þingmaður nefndi styrkvegina og landvegina, það gildir það sama þar. Tengivegirnir, þar vildi ég svo gjarnan hafa miklu meiri fjármuni úr að spila en 2,5 milljarðar eru auðvitað umtalsvert meira en þessar 900 milljónir sem við vorum að dreifa á öllu Íslandi til margra ára. En ég er sammála hv. þingmanni að ef við hefðum úr að spila meiru gætum við gert það betur.

Varðandi síðan Hafnabótasjóð þá ætla ég að nota tækifærið og koma að þeim málum sem ég náði ekki í ræðu minni. Þar eru 7,7 milljarðar á fyrsta tímabilinu 2024–2028 og þeim er forgangsraðað, m.a. með hliðsjón af mikilvægi fyrir samgöngukerfið, viðhaldsþörf, öryggi sjófarenda og hagkvæmni. Áætlaður framkvæmdakostnaður í höfnunum innan grunnnetsins eru 12,5 milljarðar en utan um 1,7. Þannig að þið sjáið að grunnnetið skiptir máli í því hvernig við erum að flokka þetta. Í þessum tölum eru hins vegar ekki Faxaflóahafnir, Fjarðabyggðarhafnir, Hafnarfjarðarhöfn og Kópavogshöfn, af því að þessir fjórir hafnarsjóðir fjármagna að fullu sínar framkvæmdir með eigin aflafé. Þetta skiptir gríðarlegu máli. Það hefur tekist hjá okkur á síðustu árum að geta fullnægt þessari uppbyggingu í höfnunum. Það hefur skipt alveg gríðarlegu máli þar sem það hefur gengið eftir. Þess vegna er gaman að hafa nægilega fjármuni úr að spila á því sviði.