154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[16:20]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það var margt áhugavert sem þar kom fram og nokkrar spurningar sem ég ætla að reyna komast yfir að svara. Varðandi jarðgangaáætlunina þá byggir hún í raun og veru á heildstæðri greiningu á öllum jarðgangakostum á Íslandi þar sem þeim var forgangsraðað til lengri tíma. Þeir voru metnir með tilliti til fýsileika, kostnaðar sem og félagshagfræðilegs ábata. Vegagerðin gaf út yfirlitsáætlun árið 2021 um þá sem hafa helst verið til umræðu og skoðunar, sem var grunnurinn. Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri vann síðan í framhaldinu mat á arðsemi, umferðaröryggi, tengingu svæða og byggðaþróun fyrir þessa kosti. Vegagerðin lagði svo fram tillögu að forgangsröðun með hliðsjón af markmiðum samgönguáætlunar um greiðar samgöngur, öruggar samgöngur, hagkvæmar samgöngur, umhverfislega sjálfbærar samgöngur og jákvæða byggðaþróun. Auðvitað var einnig tekið tillit til hversu brýnt vandamálið er sem viðkomandi jarðgöng leysa. Svo er auðvitað í gildi samgönguáætlun þar sem Fjarðarheiðargöng eru fyrst. Þau eru einu jarðgöngin sem eru í raun og veru búin að fara í gegnum umhverfismat og eru þar af leiðandi tilbúin til útboðs. Þau taka hins vegar mjög langan tíma, kosta ákveðna fjármuni. Ég er sammála hv. þingmanni að við eigum að geta rætt kosti og galla forgangsröðunar. Við höfum, held ég, úr nægu að spila þar, þessum valkostum sem þarna eru.

Mig langaði líka aðeins að nefna varðandi viðhaldsþörfina upp á 70–80 milljarða að þá þyrftum við væntanlega að hækka viðhaldið á vegunum um nokkra milljarða til að ná til baka á einhverju tímabili þessum 70–80 milljörðum, sem ég held að sé nokkurn veginn sú tala sem hefur verið nefnd. Varðandi hins vegar þessa 20 milljarða sem flugvallarskuldin er þá sjáum við fyrir okkur að með nýju varaflugvallargjaldi munum við ná því til baka á kannski 15 árum sem við höfum búið til í skuld á síðastliðnum 10–12 árum. Ég held að þar séum við einfaldlega í nokkuð góðum málum. (Forseti hringir.) En það er talsvert verk að vinna á vegunum. — Nú komst ég ekki í PPP-verkefnin og flýti- og umferðargjöldin en ég geri það kannski í seinna andsvari.