154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

framkvæmd samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

[15:49]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að taka þetta mikilvæga mál hérna upp og fá tækifæri til þess að ræða þetta hérna í sölum Alþingis. Það er einfaldlega þannig að það er rétt sem kemur fram hjá þingmanninum að miðað við þær aðstæður sem hafa skapast á síðustu árum hefur ótrúlega lítill hluti farið til framkvæmda hér á þessu svæði, enda var gerður samningur 2011 milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu við ríkið um að í stað þess að fara í stofnframkvæmdir á þessu svæði til 10 ára, til ársins 2021, myndi ríkið setja sirka milljarð á ári til að styrkja almenningssamgöngur.

Þegar ég kom í ráðuneytið var mér því ljóst að hér væri að byggjast upp gríðarlegur vandi sem yrði ekki leystur öðruvísi en með því að langstærsti hlutinn af því framkvæmdafé og fjárfestingarfé sem við hefðum í samgönguáætlun úr ríkissjóði myndi einmitt fara hingað. En þá myndum við ekki geta gert neitt úti á landi; engin jarðgöng, engar stórframkvæmdir, ekki neitt af því sem við erum að reyna að gera. Þannig að þess vegna urðum við að reyna að hugsa aðeins út fyrir boxið.

Það tókst sem betur fer að fá öll sveitarfélögin hérna á höfuðborgarsvæðinu ásamt ríkinu í sameiginlega sýn, sameiginlega sýn Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna um það hvernig við ættum að byggja upp. Áætlunin var gerð til 15 ára, þetta var 2018, 2019. Það er búið að framkvæma fyrir 14 milljarða á þessu tímabili, þegar menn segja að það sé ekkert búið að gera. Það er er búið að gera helling. Það eru fjórar stofnframkvæmdir búnar, sú fimmta er í gangi. Það eru hjólastígar úti um allt og undirbúningurinn að almenningssamgönguverkefninu á góðu skriði. Við munum sjá miklu meiri framkvæmdir á næstu árum. Það sem við höfum verið að gera núna með sveitarfélögunum er að horfa á hvernig við getum endurnýjað, uppfært samninginn, hugsanlega lengt í honum til að koma honum einfaldlega fyrir vegna þess að þetta eru mjög stórar framkvæmdir, sem hafa aukinheldur stækkað í hugum og framkvæmdum fólks, og á sama tíma tryggt að við getum verið í samgönguáætlun og verkefnum úti um allt land. Þá þurfum við að fara svolítið aðrar leiðir og það er þessi samgöngusáttmáli sem er forsenda fyrir því. Og takk fyrir að fá tækifæri til að ræða það hér.