154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

skipulagslög.

183. mál
[16:37]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að svona ákvæði kemur inn er til að skilgreina ákveðna blöndun sem uppfyllir þá þær áætlanir sem viðkomandi sveitarfélög hafa verið að vinna með. Af hverju 25%? Jú, það er væntanlega vegna þess að það er kannski talið að það uppfylli þær áætlanir sem þar eru. Er eitthvað sem bannar sveitarfélögum að setja einhverjar aðrar kröfur? Nei, það er ekki. Þetta heimildarákvæði mun hins vegar án efa skjóta skýrari og sterkari stoðum undir það ef sveitarfélag vill beita þessu ákvæði, hvort sem það er 25% eða 20% eða 18% eða hvað það nú annað er. Ef það fer í 30% mun þetta heimildarákvæði ekki styðja við það heldur er það þá bara eins og er í dag að sveitarfélögin geta í sjálfu sér tekið þá ákvörðun sem þau vilja á grundvelli skipulagslaga. Hér er verið að skjóta sterkari og styrkari stoðum undir það að vilji menn fara þessa leið, sem er að mínu mati skynsamleg, og 25% er vegna þess að það er talið skynsamlegt, að það sé nóg til þess að búa til blöndun af þessu tagi, þá er verið að setja fram þessa heimild í því.