154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

skipulagslög.

183. mál
[16:28]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skipulagslögum varðandi hagkvæmar íbúðir.

Með frumvarpinu er lagt til að sveitarfélög fái heimild til að skilyrða allt að 25% af heildarfermetrafjölda íbúða við gerð deiliskipulags fyrir ný íbúðasvæði fyrir íbúðir sem falla undir lög um almennar íbúðir, þ.e. leiguíbúðir þar sem stuðlað er að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu, íbúðir sem uppfylla skilyrði fyrir hlutdeildarlánum og lánum til leiguíbúða samkvæmt lögum um húsnæðismál. Er hér um að ræða íbúðir fyrir fólk sem eru undir tilteknum tekju- og eignaviðmiðum, sem stjórnvöld hafa lagt áherslu á að styðja við til að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.  

Frumvarpið byggir á tillögum sem komið hafa fram í vinnu stjórnvalda og heildarsamtaka á vinnumarkaði um aðgerðir til að auka framboð á íbúðum og bæta stöðu á húsnæðismarkaði, nánar tiltekið á vettvangi átakshóps árið 2019 og í kjölfarið starfshóps árið 2022.

Kallað hefur verið eftir lögfestingu svipaðs ákvæðis og finna má í danskri löggjöf, svokallaðs Carlsberg-ákvæðis, í tillögum áðurnefndra hópa, þ.e. átakshóps stjórnvalda og heildarsamtaka á vinnumarkaði og starfshóps forsætisráðherra um umbætur á húsnæðismarkaði. Báðir hópar hafa lagt til að gerðar verði úrbætur á skipulagslögum með lögfestingu fyrrnefnds Carlsberg-ákvæðis.  

Ákall um innleiðingu ákvæðisins var áréttað með rammasamningi ríkisins og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023–2032 sem undirritaður var í júlí 2022. Þar kemur fram að stefnt sé að því að auka framboð nýrra íbúða til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins til skemmri og lengri tíma og stuðla þannig að auknum stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði. Liður í því sé að veita sveitarfélögum heimild til að skilyrða uppbyggingu húsnæðis við ákveðna blöndun íbúðarhúsnæðis vegna ólíkra íbúahópa.

Ákvæði frumvarpsins tekur mið af danska Carlsberg-ákvæðinu. Danska ákvæðinu var ætlað að stuðla að blandaðri byggð og nær það til almennra íbúða samkvæmt dönsku lögunum um almennar íbúðir en undir þau fellur leiguhúsnæði með svipuðum skilyrðum og fjallað er um í íslensku lögunum.   Eins og áður segir þá tekur útfærsla ákvæðisins mið af áðurnefndu Carlsberg-ákvæði en nær þó einnig til íbúða sem uppfylla skilyrði um hlutdeildarlán sem og lán til leiguíbúða sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni. Er það í samræmi við áðurnefndar tillögur átakshóps og starfshóps sem og rammasamning ríkis og sveitarfélaga. Með þessari útfærslu nær ákvæðið til fjölbreyttari tegunda íbúða, aðallega þó til leigu og kaups fyrir tekjulægri hópa. Frumvarpinu er þannig ætlað að aðstoða sveitarfélög og hvetja þau til að skipuleggja byggð fyrir fjölbreyttari tegundir íbúða og stuðla þannig að því að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga.  

Þrátt fyrir að um heimildarákvæði sé að ræða má telja að lögfesting ákvæðisins skjóti styrkari stoðum undir ákvörðun sveitarfélaga um að setja fram í skipulagsskilmálum deiliskipulags kröfu um að ákveðið hlutfall af heildarfermetrafjölda verði skilyrtur við tilgreindar tegundir íbúða við gerð deiliskipulags fyrir ný íbúðasvæði. Þannig er frumvarpið liður í því að auka framboð af hagkvæmu leiguhúsnæði til langtímaleigu. Á grundvelli skipulagslaga ber sveitarstjórnum að setja fram stefnu sína um þróun sveitarfélagsins varðandi t.d. landnotkun, byggðaþróun og byggðamynstur. Þar er lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags. Í deiliskipulagi eru svo teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þar með talið nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar þær skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa.   Þá ber sveitarfélögum að greina með reglubundnum hætti þörf fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu með tilliti til mismunandi búsetuforma á grundvelli laga um húsnæðismál. Þeim ber að gera húsnæðisáætlun til fjögurra ára um það hvernig þörf fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu verði mætt og tryggja framboð á lóðum til að mæta þeirri áætlun. Skal sérstaklega meta þörf fyrir húsnæði til að mæta þörfum einstakra hópa, svo sem fatlaðs fólks, aldraðra, tekju- og eignaminni og námsmanna, auk húsnæðisþarfar á almennum markaði. Ber sveitarfélögum að greina þörfina niður á félagshópa, gera áætlun til að mæta þörfinni og tryggja framboð lóða til að áætlunin raungerist og er frumvarpsákvæðið sem hér er lagt til mikilvægur liður í þeirri vegferð.  

Líkt og ég kom inná áðan þá er með frumvarpinu lagt til að sveitarfélögum séu veittar heimildir til að gera kröfu um það við gerð deiliskipulags að allt að 25% af heildarfermetrafjölda íbúða innan skipulagssvæðis verði fyrir íbúðir sem falla undir lög um almennar íbúðir og íbúðir sem falla undir VI. kafla A og VIII. kafla laga um húsnæðismál.

Markmið laga um almennar íbúðir er að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum með því að auka framboð af öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda. Er um að ræða leiguíbúðir á viðráðanlegu verði, þar með talið fyrir námsmenn, ungt fólk, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda.  

Í VI. kafla A í lögum um húsnæðismál er fjallað um hlutdeildarlán sem ætluð eru þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð og þeim sem ekki hafa átt íbúðarhúsnæði síðastliðin fimm ár og eru undir ákveðnum tekjuviðmiðum. Frumvarpið nær einnig til íbúða sem falla undir VIII. kafla laga um húsnæðismál, en þar er um að ræða lán til leiguíbúða sem heimilt er að veita sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og hafa það sem langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis. Ákveði sveitarfélag að beita heimildinni veitir ákvæðið sveitarfélaginu svigrúm til að útfæra prósentuhlutfallið sem og hvernig það deilist á milli þeirra íbúða sem tilteknar eru í ákvæðinu, þ.e. hvort það taki til einnar tegundar, tveggja eða allra þriggja tegundanna af íbúðum.   Þá nær heimildin til nýrra íbúðasvæða, hvort sem er í nýjum hverfum eða á þegar byggðum svæðum, svo sem á þéttingarreitum eða þegar um breytta nýtingu skipulagsreits er að ræða. Er með því ætlunin að styðja við þá viðleitni sveitarfélaga að þétta og þróa byggð með t.d. breyttri nýtingu skipulagssvæða. Til að sveitarfélög geti þróað skipulagssvæði innan sinna staðarmarka með heildarhagsmuni sveitarfélags og íbúa að leiðarljósi er einnig eðlilegt að heimildin nái til lands í eigu sveitarfélaga, ríkis eða einkaaðila.

Það er von mín að lögfesting ákvæðisins muni auðvelda sveitarfélögum að stuðla að félagslegri fjölbreytni í íbúðarhverfum sínum. Þá hef ég þá trú að það muni til lengri tíma stuðla að auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði og tryggja betur fjölbreytni og framboð búsetuúrræða fyrir almenning.   Stöðugleiki í húsnæðismálum til lengri og skemmri tíma er sameiginlegt hagsmuna- og efnahagsmál okkar allra.

Virðulegi forseti Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umræðu.