154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[14:58]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina um einmitt þetta atriði, tekjustofnanefndina. Ég kom inn á það að því miður hefði orðið ákveðin misklíð sem varð til þess að menn skiluðu ekki sameiginlegu áliti heldur sitthvoru. Það lá hins vegar fyrir gríðarlega góð greining innan svokallaðrar Jónsmessunefndar sem ég veit að hv. þingmaður þekkir, sem er samstarfsvettvangur ríkis og sveitarfélaga um fjármál sérstaklega. Þar hefur verið rætt um að halda þessu áfram, hugsanlega með sömu fulltrúum eða jafnvel nýjum. Sú vinna er því í gangi. Hún tengist óneitanlega líka þessum breytingum sem við erum að reyna að gera á regluverki jöfnunarsjóðs, ekki kannski alfarið en allt er þetta hluti af því að tryggja ákveðna sjálfbærni í fjármálum sveitarfélaga.

Tvö verkefni hafa síðan verið til umfjöllunar; annars vegar svokallað gistináttagjald sem hefur verið á stefnu ríkisstjórnarinnar um nokkurt skeið, að færa það til sveitarfélaganna. Það var fellt niður á Covid-tímanum en hefur verið til skoðunar upp á síðkastið.

Síðan hefur verið að margra mati og líka þess sem hér stendur eðlileg krafa frá svokölluðum orkusveitarfélögum að auknar tekjur renni til þeirra. Til skamms tíma var á sínum tíma í vinnslu hjá mínu ráðuneyti, sveitarstjórnarráðuneytinu, að skoða fasteignagjöld af frekari orkumannvirkjum. Því miður varð ekki úr því en kannski hefði þá verið betri staða uppi. En þetta er eitt af því sem verið er að skoða og ég er sammála hv. þingmanni um að það þurfi að hafa alla þessa þætti til hliðsjónar þegar við erum að ræða sjálfbærni sveitarfélaga til lengri tíma.