154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[14:53]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég man rétt var fjallað um þessa áskorun í texta fjármálaáætlunar og þá staðreynd að starfshópar hafa verið að störfum. Svo má heldur ekki gleyma því, hv. þingmaður, að við síðustu fjárlagagerð varð sú breyting á að við færðum um 5 milljarða til sveitarfélaganna af tekjum ríkisins til að mæta því að kostnaður við þennan málaflokk væri sannarlega meiri en menn hefðu gert sér grein fyrir. Menn sögðu hins vegar að við þyrftum að leggjast í greiningu á því af hverju sá kostnaður hefði orðið. Er það vegna lagabreytinga sem urðu á Alþingi? Er það vegna þess að sveitarfélögin hafa hugsanlega túlkað þær lagabreytingar með mismunandi hætti? Er það vegna þess að við höfum á einhvern hátt gert eitthvað sem ríkisvaldið hefur staðið fyrir sem hefur valdið kostnaðarauka hjá sveitarfélögunum eða hafa sveitarfélögin tekið þá ákvörðun sjálf, alveg eins og sveitarfélögin tóku þá ákvörðun að lækka tekjur sínar af leikskólagjöldum um 15 milljarða, sem er sirka upphæðin sem hv. þingmaður var að nefna? Talandi um sjálfbærni. Nú er ég ekki að tala þá ákvörðun niður vegna þess að hún var gríðarlega góð fyrir barnafólk í landinu og gerir það að verkum að við erum með meiri stuðning við barnafólk hjá hinu opinbera heldur en á Norðurlöndunum almennt. Það var ákvörðun sem sveitarstjórnarstigið tók. Ég vil því ekki setja þetta upp þannig að eitthvert vandamál sé við þennan málaflokk, málefni fatlaðra. Við þurfum hins vegar að greina af hverju kostnaðurinn hefur vaxið svona mikið og reyna að finna leiðir. Ég veit ekki annað en að sú skýrsla sem kennd er við Harald Líndal, hann er formaður hópsins, muni brátt liggja fyrir og lokaniðurstaðan. Við munum væntanlega fá að sjá inn í hana á næstu dögum eða vikum. Í kjölfarið hljótum við að þurfa að leggjast yfir það hvernig við ætlum að leysa þann vanda eins og þar er lagt til.