Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 819  —  217. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um slys á hjólandi vegfarendum.


     1.      Hversu mörg slys hafa orðið á hjólandi vegfarendum síðastliðin tíu ár, sundurliðað eftir árum og tegund hjóla (reiðhjól, rafmagnshjól, hlaupahjól, skellinöðrur, mótorhjól o.s.frv.)?
    Tölur um það hversu mörg slys hafa orðið á hjólandi vegfarendum undanfarin tíu ár, sundurliðað eftir árum og tegund hjóla, má finna í fylgiskjali I. Tölurnar eru samkvæmt skráningu Samgöngustofu sem byggist á lögregluskýrslum. Tilvik þar sem aðilar leita læknis eftir slys án aðkomu lögreglu liggja ekki fyrir hjá stofnuninni.

     2.      Hversu mörg banaslys hafa orðið á hjólandi vegfarendum síðastliðin tíu ár, sundurliðað eftir árum og tegund hjóla (reiðhjól, rafmagnshjól, hlaupahjól, skellinöðrur, mótorhjól o.s.frv.)?
    Tölur um það hversu margir hjólandi vegfarendur hafi látið lífið í slysi undanfarin tíu ár, sundurliðað eftir árum og tegund hjóla, má finna í fylgiskjali I. Að öðru leyti er vísað í svar við 1. tölul.

     3.      Hversu mikið samráð hefur verið haft við hagsmunasamtök sem fara með málefni hjólandi vegfarenda?
    Innviðaráðuneyti og undirstofnanir þess leita reglulega til og eiga samráð við hagsmunasamtök sem fara með málefni hjólandi vegfarenda.
    Starfandi er fagráð um umferðarmál sem skipað er af innviðaráðherra en stjórn fagráðsins fundar að jafnaði einu sinni í mánuði. Hlutverk fagráðsins er að vera vettvangur samráðs og upplýsingaskipta ásamt því að beita sér fyrir auknu umferðaröryggi og bættum umferðarháttum. Fulltrúar Landssamtaka hjólreiðamanna, innviðaráðuneytis og Samgöngustofu ásamt fleirum sitja í ráðinu og eiga þar að auki í samskiptum þegar þörf er á.
    Unnið var náið með fulltrúum hjólreiðafólks við gerð sáttmála milli hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra sem og við gerð ýmiss konar fræðslu- og kynningarefnis um samgöngumál. Þá hefur verið stutt fjárhagslega við árlega hjólaráðstefnu á vegum Landssamtaka hjólreiðamanna.
    Þá má nefna að við gerð hönnunarleiðbeininga vegna uppbyggingar innviða fyrir hjólreiðar var haft samráð við Landssamtök hjólreiðamanna og leitað eftir athugasemdum almennings. Við undirbúning einstakra vegaframkvæmda hefur einnig verið haft samráð við Landssamtök hjólreiðamanna. Má þar nefna undirbúning framkvæmda við undirgöng við Arnarneshæð vestan Hafnarfjarðarvegar sem eru ætluð gangandi og hjólandi vegfarendum. Enn fremur voru fulltrúar Landssamtaka hjólreiðamanna boðaðir á hugarflugsfund þar sem tekið var á framtíðarsýn innviða fyrir hjólandi vegfarendur á höfuðborgarsvæðinu.
    Að lokum má nefna samráð í samráðsgátt stjórnvalda. Ráðuneytið hefur móttekið og yfirfarið umsagnir hagsmunasamtaka hjólreiðafólks, eins og Landssamtaka hjólreiðamanna, vegna ýmissa mála. Sem dæmi má nefna hvítbók um samgöngur, drög að skýrslu starfshóps um smáfarartæki, og frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019, sem lagt var fyrir Alþingi á 153. löggjafarþingi.

     4.      Hvaða forvarnaaðgerðir hefur ráðuneytið ráðist í til að draga úr slysum á hjólandi vegfarendum? Hvaða forvarnastarf er ráðgert?
    Innviðaráðherra hefur lagt fram breytingar á umferðarlögum, nr. 77/2019, en þær hafa ekki náð fram að ganga. Þessar breytingar eru til þess fallnar að skýra reglur sem snúa að smáfarartækjum (rafhlaupahjólum) og byggjast að miklu leyti á niðurstöðum starfshóps innviðaráðherra um smáfarartæki sem lagði fram tillögur um aðgerðir til að auka öryggi notenda slíkra farartækja.
    Þá leggur innviðaráðuneyti fram tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun á þriggja ára fresti. Hluti af samgönguáætlun er umferðaröryggisáætlun sem er stefnumarkandi áætlun sem hefur það hlutverk að auka umferðaröryggi á Íslandi, fækka umferðarslysum og bæta umferðarmenningu að því er varðar alla ferðamáta, þ.m.t. hjólreiðar.
    Á grundvelli samgönguáætlunar hafa styrkir verið veittir til sveitarfélaga frá árinu 2011 vegna framkvæmda við hjóla- og göngustíga meðfram þjóðvegum, en bættir innviðir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur eru ein forsenda þess að draga megi úr slysum. Á árunum 2011–2019 veitti ríkið um 2 milljarða kr. til verkefna á öllu landinu sem sneru að hjóla- og göngustígauppbyggingu.
    Með samþykkt samgöngusáttmála 2019 kom sérstök fjárveiting til hjólaleiða á höfuðborgarsvæðinu sem er 750 millj. kr. á ári. Inni í þeirri upphæð er framlag sveitarfélaga. Fjárveiting í samgönguáætlun eftir 2020 er því til verkefna utan svæðis samgöngusáttmálans.
    Öll verkefni á hjólastígum sem ríkið kemur að fara í sérstaka umferðaröryggisrýni. Helstu verkefni til ársins 2022 utan höfuðborgarsvæðisins eru talin upp í fylgiskjali II. Framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu má finna í fylgiskjali III.
    Með tilkomu samgöngusáttmálans var stofnaður samstarfshópur Vegagerðarinnar og sveitarfélaga sem hefur það hlutverk að skilgreina stofnhjólanet höfuðborgarsvæðisins og forgangsraða uppbyggingu þess. Þeirri vinnu er lokið og er uppbygging öruggra innviða fyrir hjólreiðar, bæði hjólastíga og undirganga, komin á nokkurn skrið.
    Að lokum má nefna ýmsa fræðslu og upplýsingamiðlun sem unnin hefur verið í þeim tilgangi að stuðla að öryggi í samgöngum. Í ár fór fram viðamikil herferð sem sneri að öryggi á rafhlaupahjólum ( Ekki skúta upp á bak). Fræðslumyndir voru gerðar fyrir nokkrum árum um hjólreiðar á götum, hjólreiðar á stígum og akstur ökumanna innan um hjólandi vegfarendur. Herferðir gegn farsímanotkun og hraðakstri hafa verið settar í gang en með því að stuðla að aukinni athygli ökumanna og lægri hraða er með beinum hætti stuðlað að öryggi hjólreiðamanna innan um vélknúin ökutæki. Umferðarþing var haldið árið 2022 og laut dagskrá þess að miklu leyti að öryggi hjólreiðamanna en þar var þemað gangandi og hjólandi vegfarendur. Á næsta umferðarþingi verður fjallað um samspil mismunandi hópa vegfarenda og munu hjólreiðar skipa stóran sess.


Fylgiskjal I.


Reiðhjól Reiðhjól með hjálparvél
Látnir Alvarlega slasaðir Lítið slasaðir Samtals Látnir Alvarlega slasaðir Lítið slasaðir Samtals
2003 0 7 44 51 2003 0 0 0 0
2004 0 3 27 30 2004 0 0 0 0
2005 0 4 16 20 2005 0 0 0 0
2006 0 9 35 44 2006 0 0 0 0
2007 0 10 53 63 2007 0 0 0 0
2008 0 12 44 56 2008 0 0 0 0
2009 0 9 35 44 2009 0 0 0 0
2010 0 21 59 80 2010 0 0 0 0
2011 0 19 61 80 2011 0 0 0 0
2012 0 20 62 82 2012 0 0 3 3
2013 0 32 49 81 2013 0 2 1 3
2014 0 29 87 116 2014 0 1 0 1
2015 1 30 77 108 2015 0 0 0 0
2016 0 33 92 125 2016 0 3 1 4
2017 2 29 89 120 2017 0 1 2 3
2018 0 16 80 96 2018 0 0 0 0
2019 0 28 59 87 2019 0 1 1 2
2020 0 27 77 104 2020 0 4 5 9
2021 1 21 68 90 2021 0 3 5 8
2022 0 28 60 88 2022 0 2 4 6
Samtals 4 387 1.174 1.565 Samtals 0 17 22 39

Rafmagnshlaupahjól Létt bifhjól í flokki I (rafmagnsvespur)
Látnir Alvarlega slasaðir Lítið slasaðir Samtals Látnir Alvarlega slasaðir Lítið slasaðir Samtals
2003 0 0 0 0 2003 0 0 0 0
2004 0 0 0 0 2004 0 0 0 0
2005 0 0 0 0 2005 0 0 0 0
2006 0 0 0 0 2006 0 0 0 0
2007 0 0 0 0 2007 0 0 0 0
2008 0 0 0 0 2008 0 0 0 0
2009 0 0 0 0 2009 0 0 0 0
2010 0 0 0 0 2010 0 0 0 0
2011 0 0 0 0 2011 0 0 0 0
2012 0 0 0 0 2012 0 1 1 2
2013 0 0 0 0 2013 0 2 6 8
2014 0 0 0 0 2014 0 1 3 4
2015 0 0 0 0 2015 0 1 5 6
2016 0 0 0 0 2016 0 1 7 8
2017 0 0 0 0 2017 0 1 15 16
2018 0 0 0 0 2018 0 5 17 22
2019 0 0 0 0 2019 0 0 9 9
2020 0 4 31 35 2020 0 7 6 13
2021 1 34 96 131 2021 0 4 7 11
2022 1 48 127 176 2022 0 3 9 12
Samtals 2 86 254 342 Samtals 0 26 85 111

Létt bifhjól í flokki II (vespur/skellinöðrur) Bifhjól
Látnir Alvarlega slasaðir Lítið slasaðir Samtals Látnir Alvarlega slasaðir Lítið slasaðir Samtals
2003 0 2 7 9 2003 0 6 10 16
2004 0 0 3 3 2004 2 6 20 28
2005 0 0 10 10 2005 1 10 24 35
2006 0 0 11 11 2006 3 20 34 57
2007 0 4 8 12 2007 3 21 54 78
2008 0 2 10 12 2008 1 33 61 95
2009 0 1 9 10 2009 2 30 47 79
2010 0 5 5 10 2010 1 37 33 71
2011 1 0 8 9 2011 0 29 36 65
2012 0 0 10 10 2012 0 17 36 53
2013 0 1 4 5 2013 1 24 26 51
2014 0 2 3 5 2014 0 28 26 54
2015 0 0 2 2 2015 1 8 24 33
2016 0 0 3 3 2016 2 21 24 47
2017 0 0 4 4 2017 1 17 30 48
2018 0 0 5 5 2018 0 14 20 34
2019 0 1 4 5 2019 1 19 19 39
2020 0 2 5 7 2020 3 18 18 39
2021 0 4 8 12 2021 0 17 12 29
2022 0 1 3 4 2022 0 21 15 36
Samtals 1 25 122 148 Samtals 22 396 569 987


Fylgiskjal II.


    Helstu verkefni sem snúa að bættum innviðum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur til ársins 2022 utan höfuðborgarsvæðisins eru talin upp að aftan. Í nánast öllum framkvæmdum er útfært aðskilið stígakerfi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Í sumum tilvikum er stígur sem er þegar til staðar nýttur fyrir gangandi vegfarendur og nýr hjólastígur útfærður en í öðrum tilvikum þarf að leggja bæði nýjan hjólastíg og nýjan göngustíg. Í undantekningartilvikum, t.d. þar sem pláss er af skornum skammti, eins og yfir brúna yfir Bústaðaveg, er ekki með góðu móti hægt að útfæra aðskilið kerfi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
    Verkefnin eru þessi:
     *      Meðfram hringvegi á Selfossi (1 km).
     *      Meðfram Eyrarbakkavegi milli Selfoss og Eyrarbakka (6 km).
     *      Fjörustígur milli Eyrarbakka og Stokkseyrar (4 km).
     *      Meðfram Suðurstrandarvegi við Þorlákshöfn (4 km).
     *      Frá Grindavík að golfvelli (4 km).
     *      Meðfram Grindavíkurvegi (12 km).
     *      Suðurnesjabær milli Garðsins og Sandgerðis (4 km).
     *      Frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar til Reykjanesbæjar (2 km).
     *      Meðfram Vatnsleysustrandarvegi við Voga (3 km).
     *      Meðfram Snæfellsnesvegi milli Ólafsvíkur og Rifs (6 km).
     *      Meðfram Ólafsfjarðarvegi í Dalvík (1 km).
     *      Meðfram hringvegi á Akureyri (1 km).
     *      Milli Akureyrar og Hrafnagils í Eyjafjarðarsveit (7 km).
     *      Milli Vaðlaheiðarganga og Skógarbaðanna í Svalbarðsstrandarhrepp (2 km).
     *      Meðfram Mývatnssveitarvegi frá Reykjahlíð að Dimmuborgum (5 km).
     *      Meðfram hringvegi í Fellabæ (1 km).
    Á árinu 2023 er unnið að þessum verkefnum utan höfuðborgarsvæðisins:
     *      Meðfram Garðskagavegi frá Reykjanesbæ að golfvelli.
     *      Meðfram Eyrarbakkavegi milli Selfoss og Eyrarbakka.
     *      Leirustígur meðfram hringvegi á Akureyri.
     *      Meðfram Mývatnssveitarvegi frá Dimmuborgum að Skútustöðum.
     *      Meðfram hringvegi í Fellabæ.
     *      Auk þess er unnið að stígagerð í einstökum framkvæmdaverkum eins og við hringveg á Kjalarnesi og Reykjanesbraut í Hafnarfirði.
    Til ársins 2027 eru þessir göngu- og hjólastígar fyrirhugaðir:
     *      Meðfram hringvegi milli Hvolsvallar og Hellu.
     *      Framhald á stíg meðfram Eyrarbakkavegi.
     *      Milli Voga og gatnamóta við Grindavíkurveg.
     *      Meðfram hringvegi í Borgarbyggð.
     *      Meðfram Snæfellsnesvegi í Grundarfirði.
     *      Meðfram Ólafsfjarðarvegi í Fjallabyggð.
     *      Meðfram hringvegi á Akureyri.
     *      Meðfram Mývatnssveitarvegi frá Dimmuborgum að Skútustöðum.


Fylgiskjal III.


    Í kjölfar samgöngusáttmálans og þeirrar fjárveitingar sem honum fylgir til innviðauppbyggingar fyrir hjólreiðar á höfuðborgarsvæðinu var stofnaður samstarfshópur sem hefur það hlutverk að skilgreina stofnhjólanet höfuðborgarsvæðisins og forgangsraða uppbyggingu þess. Þeirri vinnu er lokið og nú þegar hafa komið til framkvæmda um 9 km af innviðum fyrir hjólreiðar, þar með talið þrenn undirgöng.
    Framkvæmdirnar eru eftirfarandi:
     *      Geirsgata, nýr tvístefnuhjólastígur við Miðbakka.
     *      Eiðsgrandi, nýr tvístefnuhjólastígur frá Boðagranda að JL-húsinu.
     *      Ánanaust, nýtt aðskilið stígakerfi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur frá JL-húsinu að Mýrargötu.
     *      Sprengisandur við Bústaðaveg og Rauðagerði, nýtt aðskilið stígakerfi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur ásamt undirgöngum við Bústaðaveg.
     *      Bústaðavegur við brú yfir Kringlumýrarbraut, gangstéttir á brú breikkaðar ásamt nýjum tvístefnuhjólastíg meðfram norðvesturrampi frá Miklubraut inn á Bústaðaveg.
     *      Bústaðavegur, nýr tvístefnuhjólastígur frá Veðurstofu Íslands að Litluhlíð ásamt nýjum undirgöngum við Litluhlíð.
     *      Ævintýragarður í Mosfellsbæ, nýir aðskildir stígar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur ásamt tveimur nýjum brúm frá Varmá að Leirvogstungu.
     *      Elliðaárdalur, nýir tvístefnuhjólastígar frá Höfðabakka í átt að Breiðholtsbraut að svæði sem kallast Grænagróf.
     *      Fífuhvammsvegur, nýir tvístefnuhjólastígar frá Salavegi að Suðursölum við Arnarnesveg.
     *      Ný undirgöng fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur við Arnarneshæð vestan Hafnarfjarðarvegar.
     *      Strandgata í Hafnarfirði, nýir göngu- og hjólastígar.
    Árið 2024 er stefnt að eftirfarandi framkvæmdum:
     *      Skógarhlíð, nýr tvístefnuhjólastígur.
     *      Meðfram Kringlumýrarbraut við Suðurhlíðar, nýir stígar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
     *      Elliðaárdalur, tvær nýjar brýr fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, ein við Grænugróf og önnur við Dimmu, ásamt nýju stígakerfi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur á milli þeirra.
     *      Nýr Arnarnesvegur, nýir stígar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur samhliða uppbyggingu Arnarnesvegar.
     *      Ásbraut og Hábraut í Kópavogi, nýir hjólastígar.
     *      Suður með Kársneshálsi, nýir stígar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
     *      Einnig mun hefjast hönnun á nýjum stígum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur vestan Hafnarfjarðarvegar og Reykjavíkurvegar, við Voginn í Kópavogi, við Tún í Garðabæ og við Norðurbæ í Hafnarfirði og Ásahverfi í Garðabæ. Ef undirbúningur gengur vel verður hægt að hefja framkvæmdir haustið 2024.