Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 586  —  422. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um blóðmerahald.


     1.      Hvaða áhrif mun það hafa á framkvæmd blóðmerahalds þegar starfsemin verður færð undir gildissvið reglugerðar um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni nr. 460/2017, í staðinn fyrir nú úrelta reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum nr. 900/2022?
    Frá 1. nóvember 2023 gildir reglugerð nr. 460/2017, um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni, um blóðtöku úr fylfullum hryssum til framleiðslu PMSG/eCG-hormóns og hefur reglugerð nr. 900/2022, sem áður gilti um starfsemina, verið felld úr gildi. Breytingin felst einna helst í formkröfum til ákveðinna þátta starfseminnar, þá einna helst varðandi leyfisveitingar. Samkvæmt reglugerð nr. 460/2017 þarf notandi að sækja bæði um starfsleyfi og leyfi til tilrauna til Matvælastofnunar. Þá þurfa birgjar einnig að sækja um leyfi, sem í tilfelli blóðmerahalds eru blóðmerabændur. Þess má geta að hestahald þar sem framkvæmd er blóðtaka úr hrossum til framleiðslu afurða er tilkynningarskylt samkvæmt reglugerð nr. 910/2014, um velferð hrossa. Matvælastofnun mun meta umsóknir og eftir atvikum veita leyfi til starfseminnar á grundvelli reglugerðar nr. 460/2017.

     2.      Stendur til að herða kröfur um blóðmerahald eða jafnvel banna það með hliðsjón af því að nú þegar eru framleiddar staðkvæmdarvörur sem hafa sömu notkunareiginleika og þau lyf sem framleidd eru úr hormóni fylfullra mera, enda samrýmist það skilyrði 10. gr. reglugerðar um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni nr. 460/2017?
    Óvissa var uppi um regluverk sem gilti um blóðmerahald árið 2022 og var þá brugðist við með setningu reglugerðar árið 2022. Regluverkið hefur nú verið skýrt og gilda ákvæði reglugerðar nr. 460/2017, um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni, um starfsemina. Matvælastofnun mun meta umsókn um blóðtöku úr fylfullum merum út frá regluverkinu, berist umsókn þess efnis. Ákvörðun um leyfisveitingu verður tekin á grundvelli umsóknar og verður sérstaklega litið til rökstuðnings við val á aðferðum líkt og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 460/2017 kveður á um.