Ferill 1075. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2204  —  1075. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um byggingareftirlit.


     1.      Telur ráðherra fullnægjandi eftirlit vera með stærri framkvæmdum opinberra aðila, þ.e. þeim framkvæmdum þar sem áætlað er að kostnaður verði umfram 2 milljarða kr.?
    Fyrirspurnin takmarkast við byggingareftirlit með stærri framkvæmdum opinberra aðila, þ.e. framkvæmdum á vegum íslenska ríkisins eða á vegum sveitarfélaga. Samkvæmt lögum um mannvirki, nr. 110/2010, ber hvert sveitarfélag, gegnum byggingarnefnd eða byggingarfulltrúa, ábyrgð á eftirliti með byggingarframkvæmdum eða að slíkt eftirlit fari fram á þann hátt sem byggingarfulltrúi samþykkir.
    Við byggingareftirlit skulu skoðunarhandbækur HMS notaðar, hvort sem það sé byggingarstjóri, byggingarfulltrúi eða samningsbundinn þriðji aðili sem sinnir framkvæmd eftirlitsins. Farið er eftir fjórum skoðunarhandbókum stofnunarinnar sem varða a) hönnunargögn (áður er byggingarleyfi er samþykkt), b) framkvæmd, c) öryggisúttekt og d) lokaúttekt. Byggingareftirlit er unnið innan ramma þessara skoðunarhandbóka hvort sem viðkomandi mannvirki er lítið eða stórt eða hvaða aðili sinni framkvæmd eftirlitsins. Í samræmi við þær breytingar á byggingarreglugerð sem fylgdu umfangsflokkun mannvirkjagerðar er vinnuferlið tiltölulega einfalt hvað varðar smærri framkvæmdir en getur orðið nokkuð umfangsmikið við stærri framkvæmdir. Þau mannvirki sem hér um ræðir myndu falla í umfangsflokk þrjú og í byggingarreglugerð eru gerðar ítarlegri kröfur til eftirlits með mannvirkjagerð sem fellur í þann umfangsflokk.
    Nefna ber að Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) hefur umsjón með mótun og rekstri bygginga íslenska ríkisins og stýrir framkvæmdum við breytingar, endurbætur og nýbyggingar sem eru reistar og reknar af íslenska ríkinu. Eiganda mannvirkis ber að hafa virkt innra eftirlit með því að þeir sem hann ræður til að hanna, byggja og reka mannvirkið fari eftir lögum um mannvirki og reglugerðir settar með stoð í þeim. Það er síðan hlutverk byggingarnefndar eða byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa ytra eftirlit með því að hönnun mannvirkis sé í samræmi við lög og reglur og að byggt sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög og reglugerðir sem um mannvirkjagerðina gilda.
    Ráðherra telur að eftirlit með stærri opinberum framkvæmdum virki á tilætlaðan hátt ef eftirlitið er framkvæmt í samræmi við gildandi lög, regluverk og viðeigandi verklagsreglur.

     2.      Liggur fyrir vinna í ráðuneytinu um útfærslu og endurbætur á slíku eftirliti?
    Innviðaráðherra hefur skipað stýrihóp um endurskoðun byggingarreglugerðar og hefur sá hópur hafið störf. Í stýrihópnum sitja fulltrúar innviðaráðuneytisins, HMS, Samtaka iðnaðarins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fleiri. Stýrihópnum er m.a. ætlað að einfalda umgjörð byggingariðnaðarins, auka sjálfbærni, stafræna stjórnsýslu og gæði í mannvirkjagerð.
    Endurskoðun reglugerðarinnar hefur verið skipt niður í ellefu þætti og jafnmarga starfshópa sem eru skipaðir þeim hagaðilum sem helst eiga við hverju sinni. Þessir hópar munu svo hafa samráð sín á milli og vítt samráð við aðra hagaðila.
    Nú þegar hafa fimm starfshópar hafið störf, þar á meðal er annars vegar hópur sem fjallar um endurskoðun ákvæða er varða eftirlit með hönnun mannvirkja og hins vegar hópur sem fjallar um eftirlit með nýframkvæmdum og eftirlit með mannvirkjum sem tekin hafa verið í notkun.
    Stefnt er að því að þessari vinnu ljúki fyrir árslok 2024.

     3.      Telur ráðherra þörf á miðlægri stofnun sem hefði yfirumsjón og eftirlit með framvindu slíkra framkvæmda?
    Fyrirspurnin varðar opinberar framkvæmdir og er þeim gjarnan skipt í framkvæmdir á vegum ríkisins og framkvæmdir á vegum sveitarfélaga. Byggingarframkvæmdir á vegum ríkisins sæta ákveðnu yfireftirliti FSRE, þó svo að ytra eftirlit sé á ábyrgð byggingarfulltrúa. Framkvæmdir á vegum sveitarfélaga sæta yfireftirliti eigin stjórnvalds, byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar. Ríki og sveitarfélög geta jafnframt falið þriðja aðila að fara með framkvæmdaeftirlit með sérstaklega stórum framkvæmdum. Ráðherra telur ekki að þörf sé á sérstakri miðlægri stofnun sem hafi yfirumsjón og eftirlit með framvindu stærri opinberra byggingarframkvæmda.