Ferill 695. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1541  —  695. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um undanþágu á notkun fiskiskipa á sjálfvirkum auðkenniskerfum.


     1.      Hversu oft á hverju undanfarinna fimm ára hefur skipstjóri skips tilkynnt að slökkt hafi verið á sjálfvirku auðkenniskerfi í samræmi við heimild í 6. gr. a reglugerðar nr. 80/2013 um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa? Hverjar hafa ástæðurnar verið í hverju tilviki og hversu langur tími hefur liðið þar til kveikt hefur verið aftur á auðkenniskerfinu?
    Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslu Íslands sem annast rekstur vaktstöðvar siglinga hefur ekki verið haldið sérstaklega utan um þau tilvik þar sem skipstjóri skips hefur tilkynnt að slökkt hafi verið á sjálfvirku auðkenniskerfi í samræmi við undanþáguheimild í 6. gr. a í reglugerð nr. 80/2013, en slík tilvik heyri þó til algjörra undantekninga. Samkvæmt nefndu ákvæði er skipstjóra skylt að tilkynna það án tafar til vaktstöðvar siglinga, hafi hann slökkt á kerfinu og jafnframt skal hann tilkynna reglulega um staðsetningu og hraða skipsins þar til kveikt hefur verið á auðkenniskerfinu á ný. Skip geta verið búin annars konar búnaði en sjálfvirka auðkenniskerfinu til að tilkynna sjálfvirkt um staðsetningu sína. Ekki er um það að ræða að vaktstöð siglinga veiti leyfi til þess, heldur byggir þessi heimild á mati skipstjóra um það hvort hann telji það nauðsynlegt í þágu öryggis eða verndar skipsins. Vaktstöð siglinga hefur ekki endurskoðunarvald á því mati skipstjóra. Umrætt ákvæði er innleiðing á 6. gr. a í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/59/EB, eins og henni var breytt með tilskipun 2009/17/EB og er ákvæðið nær samhljóða því ákvæði.

     2.      Hvaða ástæður eru fyrir því að hvalveiðiskip eru almennt með slökkt á sjálfvirku auðkenniskerfi, þrátt fyrir að undanþágur einskorðist við undantekningartilvik samkvæmt fyrrgreindri reglugerð? Byggist sú framkvæmd á samkomulagi við stjórnvöld? Sé svo, við hvaða lagaheimild er stuðst og telur ráðherra það samræmast jafnræðisreglu eða alþjóðasamningum?
    Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar hefur ekki verið gert samkomulag við hvalveiðiskip um að þau geti almennt haft slökkt á sjálfvirku auðkenniskerfi. Slökkvi skipstjórar þessara skipa á sjálfvirka auðkenniskerfinu gera þeir það á grundvelli eigin mats á öryggis- og verndarþörfum skipanna. Rétt er að vekja athygli á því að skipstjórar þessara skipa tilkynna sig með reglubundnum hætti til vaktstöðvar siglinga og eru einnig í fjareftirliti í gegnum gervitunglaferilvöktun. Vaktstöð siglinga er því ávallt upplýst um staðsetningu þessara skipa eins og annarra skipa sem falla undir reglugerð nr. 80/2013.