Ferill 382. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 747  —  382. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Þór Gunnarssyni um aðgerðir til að draga úr nagladekkjanotkun.


     1.      Til hvaða aðgerða telur ráðherra rétt að grípa til þess að draga úr nagladekkjanotkun og sporna við meiri svifryksmengun með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á heilsu fólks?
    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur öryggi og slysavarnir í umferðinni í forgangi og leggur áherslu á að valinn sé sá dekkjabúnaður sem hentar best aðstæðum hvers og eins. Aðstæður á vegum í dreifbýli og þéttbýli geta því verið mismunandi með tilliti til notkunar á nagladekkjum.
    Árið 2011 var gerð sænsk rannsókn á áhrifum negldra hjólbarða á umferðaröryggi. Þar kemur fram að mikill öryggisávinningur er af negldum hjólbörðum ef ekið er reglulega á ísilögðum vegum eða vegum með þjöppuðum snjó, sérstaklega á bifreiðum sem ekki eru útbúnar stöðugleikakerfi. Jafnframt kom fram að enginn ávinningur er af nöglum undir öðrum kringumstæðum, svo sem blautu og þurru malbiki. Þá kom fram að mikilvægt er að aka ekki á slitnum negldum hjólbörðum í hálku. Þegar nöglunum fækkar og hjólbarðarnir slitna eykst slysatíðnin og öryggisávinningurinn hverfur. Könnunin nefndist: Strandroth et. al, 2011. „The effect of studded tires on fatal crashes withpassenger cars and the benefits of electronic stability control (ESC) in Swedish winter driving.“ Accident Analysis and Prevention 45 (2012) 50–60.
    Helstu uppsprettur svifryks í þéttbýli eru af umferð (slit gatna, útblástur bíla o.fl.), byggingarframkvæmdum og uppþyrlun göturyks sem hægt er að minnka með tíðari hreinsun gatna. Rétt að geta þess að notkun negldra hjólbarða hafa verið takmörk sett með ákvæðum í reglugerð settri samkvæmt heimild í umferðarlögum. Um notkun þeirra er fjallað í 6. tölul. liðar 16.02 í 16. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004. Samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að nota keðjur og neglda hjólbarða á tímabilinu frá og með 15. apríl til og með 31. október nema þess sé þörf vegna akstursaðstæðna. Það er svo í höndum lögreglu á hverjum og einum stað að meta hvort akstursaðstæður séu með þeim hætti að réttlætanlegt sé að ökumenn notist við keðjur eða neglda hjólbarða innan umrædds tímabils.
    Samkvæmt 8. tölul. 9. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 119/2018, frá 7. desember 2018, fer umhverfis- og auðlindaráðuneytið með mengunarvarnir, þ.m.t. loftgæði.

     2.      Hefur ráðuneytið hvatt sveitarfélögin til að grípa til aðgerða í þessu tilliti?
    Ráðuneytið hefur ekki hvatt sveitarfélög með beinum hætti til að beita sér gegn notkun nagladekkja. Ráðherra lagði á 150. löggjafarþingi fram frumvarp sem varð að umferðarlögum nr. 77/2019. Í lögunum er Vegagerðinni og sveitarstjórnum veitt heimild til að takmarka eða banna umferð um stundarsakir á vegi eða svæði þegar mengun er yfir heilsufarsmörkum eða hætta er talin á að svo verði. Ráðuneytið hefur sett reglugerðardrög í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda þar sem þessar heimildir eru útfærðar nánar. Í reglugerðardrögunum er meðal annars gert ráð fyrir að sveitarstjórnir geti, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, bannað umferð vélknúinna ökutækja á negldum hjólbörðum um stundarsakir.
    Að öðru leyti vísast til reglugerðar um skiptingu stjórnarmálefna, sbr. síðustu málsgrein í 1. tölul. hér að framan.

     3.      Með hvaða hætti telur ráðherra að mæta mætti sjónarmiðum landsbyggðar að þessu leyti?
    Vegagerðin er veghaldari þeirra vega sem tilheyra ríkinu. Þeim er haldið greiðfærum í samræmi við reglur um vetrarþjónustu sem settar eru samkvæmt fyrirmælum í vegalögum að teknu tilliti til fjárheimilda til þjónustunnar. Vegir í veghaldi Vegagerðarinnar eru um 13 þúsund km og vetrarþjónusta, ekki síst hálkuvarnir, er afar kostnaðarsöm og mikilvægt að forgangsraða vetrarþjónustu á skilvirkan hátt fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

     4.      Hefur komið til tals í ráðuneytinu að vinna með heilbrigðisyfirvöldum að aðgerðum í þessum málum?
    Eins og áður segir þá er mikill öryggisávinningur af negldum hjólbörðum ef ekið er reglulega á ísilögðum vegum eða vegum með þjöppuðum snjó. Slíkar aðstæður eru líklegri í dreifbýli en þéttbýli. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur öryggi og slysavarnir í umferðinni í forgangi og leggur áherslu á að valinn sé sá dekkjabúnaður sem hentar best aðstæðum hvers og eins. Ekki hefur verið rætt um formlega samvinnu við heilbrigðisyfirvöld á þessu sviði. Ráðuneytið tekur þó þátt í ýmiss konar samstarfi í tengslum við þessi mál. Má þar nefna að ráðuneytið á t.d. fulltrúa í starfshópum um loftgæði og í stýrihópi um eftirfylgni áætlunar um loftgæði á Íslandi. Í hópnum situr m.a. fulltrúi landlæknis.
    Að öðru leyti vísast til þess sem að framan greinir um skiptingu stjórnarmálefna í Stjórnarráði Íslands.