Ferill 579. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1139  —  579. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um gagnasöfnun vegna byggða- og atvinnuþróunar.


     1.      Er einhver nefnd eða stofnun starfandi sem hefur það hlutverk að greina þörf landsbyggðarinnar á gögnum sem nýta má til byggða- og atvinnuþróunar?
    Byggðastofnun hefur í samstarfi við atvinnuráðgjöf landshluta greint þörf fyrir upplýsingar sem nýta má til byggða- og atvinnuþróunar. Þá er fyrirliggjandi mikið af upplýsingum hjá Byggðastofnun sem að stórum hluta eru aðgengilegar á vef stofnunarinnar. Einnig búa ýmsar aðrar stofnanir yfir upplýsingum sem nýtast vegna byggða- og atvinnuþróunar, svo sem Landmælingar Íslands, Þjóðskrá Íslands og Hagstofa Íslands.
    Sem dæmi um upplýsingar sem Byggðastofnun hefur aflað má nefna ítarlegar þjónustukannanir fyrir hvern landshluta og þjónustusóknarsvæði innan þeirra, stöðugreiningar fyrir hvern landshluta, spár um mannfjölda eftir landshlutum og sveitarfélögum, upplýsingar um hagvöxt í landshlutum, atvinnutekjur eftir landshlutum og svæðum og aðgengi landsmanna að ýmiss konar þjónustu. Þá er hafin vinna við að skilgreina rétt íbúa til opinberrar þjónustu.
    Hjá Byggðastofnun er nú unnið að uppbyggingu gagnagrunns með margháttuðum byggðatengdum upplýsingum. Þá er hafin vinna við gerð þjónustukorts sem mun m.a. nýtast við stefnumótun og ákvarðanatöku í tengslum við byggðaþróun. Samband íslenskra sveitarfélaga kemur að þeirri vinnu með Byggðastofnun og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Loks er hafinn undirbúningur að viðamikilli rannsókn á orsökum búferlaflutninga.

     2.      Hefur ráðuneytið skoðað leiðir til að tryggja aðgengi stoðkerfis atvinnulífs á landsbyggðinni að upplýsingum og gögnum, til að mynda frá Hagstofunni, fyrir einstaka landshluta eða landsvæði?
    Eins og fram kemur hér að framan eru gögn og upplýsingar sem Byggðastofnun býr yfir almennt opin og aðgengileg á vef stofnunarinnar. Er þar m.a. um að ræða gögn sem sérunnin hafa verið fyrir stofnunina af Hagstofu Íslands, Þjóðskrá Íslands og fleiri aðilum. Er það í samræmi við áherslur ráðuneytisins um aðgengi að upplýsingum og gögnum á málefnasviðum þess.