Ferill 71. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 226  —  71. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um eftirlitsstjórnvöld/eftirlitsaðila.


     1.      Hvaða ríkisstofnanir, sem heyra undir ráðherra, gegna hlutverki eftirlitsstjórnvalda/eftirlitsaðila? Svar óskast sundurliðað eftir málaflokkum og tegundum eftirlits.
    Nokkrar stofnanir sem heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið gegna tilteknu eftirliti samkvæmt lögum. Starfsemi Umhverfisstofnunar er þar umfangsmest en stofnunin fer með eftirlit með framkvæmd laga á sviði veiðistjórnunar villtra fugla og spendýra, efnamála, erfðabreyttra lífvera, hollustuhátta og mengunarvarna, náttúruverndar og umhverfisábyrgðar. Í því felst m.a. að veita leyfi fyrir ýmiss konar starfsemi, þar á meðal mengandi starfsemi, og hafa eftirlit með starfseminni á grundvelli umræddrar löggjafar. Í sumum tilvikum eru það þó heilbrigðisnefndir sveitarfélaga sem fara með leyfisveitingar og eftirlit samkvæmt umræddri löggjöf, einkum lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Mannvirkjastofnun er stjórnsýslustofnun á sviði byggingarmála, brunavarna og rafmagnsöryggismála og fer með margháttað eftirlit á því sviði, m.a. í tengslum við útgáfu starfsleyfa, byggingarleyfa, löggildinga o.fl. Skipulagsstofnun fer með eftirlit með framkvæmd skipulagslaga og löggjafar um umhverfismat áætlana og framkvæmda og sér m.a. um staðfestingar skipulagsáætlana, gefur út álit um umhverfismat einstakra framkvæmda og tekur ákvarðanir um tilkynningarskyldar framkvæmdir. Að lokum fer Landgræðsla ríkisins með landgræðslumál og þ.m.t. gróðureftirlit í landinu og Skógrækt ríkisins með skógræktarmál hér á landi og þar með ákveðið eftirlit því tengdu samkvæmt lögum um skógrækt.

     2.      Telur ráðherra þörf á því að yfirfara athugunar- og rannsóknarheimildir með það fyrir augum að samræma og bæta efni þeirra? Ef svo er, hvaða atriði eða þætti þyrfti að samræma eða bæta?
    Í ráðuneytinu hefur ekki verið tilefni til sérstakrar umræðu um hvort þörf sé á að yfirfara heimildir eftirlitsstofnana í tengslum við eftirlitshlutverk þeirra. Hins vegar hefur verið til umræðu að einfalda eins og kostur er eftirlit með leyfisskyldri starfsemi til hagsbóta fyrir fyrirtæki og hið opinbera og að verkaskipting milli eftirlitsstofnana þurfi að vera skýr og hagkvæm. Þá hefur Umhverfisstofnun m.a. bent á að skilvirkari úrræði þurfi að vera til staðar vegna starfsemi sem framfylgir ekki tilsettum kröfum eftirlitsaðila í samræmi við lög og reglur og hefur ráðuneytið þegar brugðist við þeim ábendingum. Í nýlegum efnalögum, nr. 61/2013, er því að finna heimildir Umhverfisstofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir í slíkum tilvikum og til umræðu er að setja slíkar heimildir í önnur lög, sbr. löggjöf á sviði úrgangsmála og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.

     3.      Telur ráðherra þörf á að samræma og bæta framkvæmd eftirlits af hálfu eftirlitsstjórnvalda/eftirlitsaðila betur en nú er? Ef svo er, hvaða atriði eða þætti þyrfti helst að samræma eða bæta?
    Á þingmálaskrá ráðuneytisins er frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem gert er ráð fyrir að lagðar verði fram breytingar á verkaskiptingu Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga hvað varðar eftirlit með starfsleyfisskyldri starfsemi. Þar verður m.a. litið til hagkvæmnissjónarmiða, eins og samlegðaráhrifa með öðrum verkefnum eftirlitsaðila, og einföldun á eftirlitinu eins og kostur er. Á þingmálaskránni er einnig frumvarp til laga um breytingu á efnalögum þar sem lagt verður til að Mannvirkjastofnun fari í stað Umhverfisstofnunar með eftirlit með notkun hættulegra efna í raf- og rafeindabúnaði í ljósi samlegðaráhrifa þar sem Mannvirkjastofnun hefur nú þegar undir höndum annað markaðseftirlit með rafföngum. Þá er fyrirhugað að hefja endurskoðun úrgangslöggjafarinnar í heild sinni á næsta ári þar sem gera má ráð fyrir að eftirlitsþátturinn verði einnig skoðaður.
    Auk þess er vinnuhópur að störfum sem forsætisráðherra skipaði í apríl sl. sem hefur það hlutverk að fara yfir lög, reglur og stjórnsýslu mikilvægra eftirlitsstofnana og meta hvernig viðmið um vandað regluverk og stjórnsýslu eru uppfyllt, með einföldun, samræmi og skilvirkni að markmiði. Vinnuhópnum er ætlað að taka starfsemi þeirra eftirlitsstofnana til skoðunar sem hafa umtalsverð áhrif á atvinnulíf og samkeppni, ásamt tengdum úrskurðarnefndum. Þá er hópnum ætlað að móta viðmið um starfsemi og stjórnskipulag slíkra stofnana, ásamt því að leggja mat á hvernig lög, reglur og stjórnsýsla viðkomandi stofnana uppfylla slík viðmið. Loks er hópnum ætlað að gera tillögur til forsætisráðherra um úrbætur og benda á leiðir til sparnaðar fyrir ríki, sveitarfélög og atvinnulífið. Vinna hópsins er í samræmi við stefnuyfirlýsingu og aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið. Gert er ráð fyrir að vinnuhópurinn ljúki störfum 1. mars 2015.

     4.      Hafa einhver mistök átt sér stað við framkvæmd eftirlitsstjórnvalda/eftirlitsaðila síðustu ár? Ef svo er, hvers konar mistök var þá um að ræða?

    Í þeim tilvikum þegar aðilar einstakra mála eru ekki sáttir við ákvarðanir stjórnvalda, m.a. sökum þess að þeir telja þær ekki standast lög, er unnt að nýta kæruheimildir einstakra laga eða eftir atvikum almenna kæruheimild stjórnsýslulaga þegar um er að ræða kæranlegar stjórnvaldsákvarðanir. Séu kæruheimildir ekki til staðar er ætíð unnt að kvarta til viðkomandi stjórnvalds, þess stjórnvalds sem fer með framkvæmd viðkomandi laga eða eftir atvikum til viðkomandi ráðuneytis.
    Þegar þessi úrræði hafa verið reynd án þess að viðkomandi sé sáttur við niðurstöðu málsins er einnig unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis. Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur tekið mál til úrskurðar sem tengjast eftirlitsskyldri starfsemi þar sem niðurstaðan í einhverjum tilvikum hefur orðið sú að breyta starfsleyfisskilyrðum fyrir viðkomandi starfsemi eða fella umrædda stjórnvaldsákvörðun úr gildi. Við gildistöku laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, eru nú flest mál tengd leyfisskyldri starfsemi kæranleg til úrskurðarnefndarinnar í stað ráðherra.