Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 447. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1182  —  447. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða,
með síðari breytingum (stærðarmörk krókaaflamarksbáta, strandveiðar).

Frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar.


    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Breytingarnar varða skilgreiningu á stærðarmörkum krókaaflamarksbáta annars vegar og hins vegar þeirra sem hafa almennt leyfi til veiða með aflamarki auk þess sem lagðar eru til breytingar á ákvæðum laganna um strandveiðar. Meiri hlutinn leggur svo að auki til fjölda breytingartillagna án þess að leitað hafi verið viðbragða hagsmunaaðila eða sérfræðinga eða tími hafi gefist til að fjalla nægilega um þær. Nú sem áður gafst ónógur tími til umfjöllunar um málið og það var afgreitt í andstöðu við minni hluta nefndarinnar. 2. minni hluti telur ófagleg vinnubrögð meiri hlutans ámælisverð.

Stærð krókaaflamarksbáta.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til skilgreining á krókaaflamarksbátum og þar kveðið á um að miða eigi við að slíkir bátar séu undir 15 brúttótonnum. Þá er þar kveðið á um að bátar sem eru eða verða stærri skuli sviptir veiðileyfi með krókaaflamarki frá og með næstu fiskveiðiáramótum. Fyrir nefndinni var bent á að mikil einföldun og sparnaður yrði bæði fyrir hið opinbera og útgerðir af því að breyta viðmiðinu á krókaaflamarksbátum í 15 metra lengd í stað 15 brúttótonna stærð. 2. minni hluti tekur undir þessi sjónarmið og áréttar að mörg og veigamikil rök voru færð fyrir því að breyta viðmiðinu á þennan veg. Þannig kom m.a. fram fyrir nefndinni að viðmiðið „metrar að lengd“ væri alþjóðleg mælieining á skip sem almennt væri notuð en brúttótonn væri séríslenskt fyrirbæri. Þar sem Ísland væri aðili að samnorrænum reglum um smíði og búnað báta með mestu lengd allt að 15 metrum sem tóku gildi 1990 væri einnig hagræði að því að nota staðlaðar stærðir við að afmarka fiskiskip í veiðiflokka, líkt og nú er gert í sambandi við eftirlits- og öryggismál. Komið hefur fram að ríkar öryggiskröfur eru í Norðurlandareglum auk þess sem eftirlit sé til fyrirmyndar á Íslandi. Með því að hafa stærðarmörk krókaaflamarksbáta undir 15 metrum að lengd mundu þeir rúmast áfram innan þessara reglna og áfram yrði stuðlað að þróun þeirra. Öryggi bátanna yrði betur tryggt auk þess sem stærðarviðmið gerði það að verkum að stærri bátar féllu undir skilgreininguna sem eykur pláss, bætir vinnutilhögun um borð og bætir meðferð á afla.
    Þá var bent á að breyting af þessu tagi mundi minnka flækjustig og einfalda eftirlit Siglingastofnunar. Jafnframt kom fram að þörf fyrir stækkun báta er mikil.
    Þá áréttar 2. minni hluti að ákvæði 1. gr. hefur ekki verið nægilega rökstutt. Í athugasemdum við frumvarpið er ekki að finna eiginlegan rökstuðning við þetta viðmið en m.a. vísað til fyrri ákvarðana og hættu á að bátar verði breiðari. Fyrir nefndinni kom þó fram að áhyggjur af mikilli breikkun báta væru óþarfar og engin hætta væri á að því að bátar mundu þróast sem yrðu allt að því jafn breiðir og þeir eru langir eins og gefið hefur verið í skyn. Nefndinni var bent á að enginn skipasmiður mundi koma fram með slíka vöru, sé tekið tillit til þeirrar hönnunar á bátum sem þekkist nú, en ef hér væri um raunverulegar áhyggjur að ræða mætti auðveldlega koma til móts við þær með því að kveða á um að krókaaflamarksbátar þyrftu að vera undir 30 brúttótonnum auk þess að vera undir 15 metrum að lengd.
    Engin vilji var til staðar hjá meiri hlutanum til að ræða þær hugmyndir að breytingum sem komið hafa fram þó svo að fagleg og rík rök hafi staðið þeim að baki og mikill stuðningur hafi verið við þær.

Strandveiðar.
    Í 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á ákvæðum er varða strandveiðar. 2. minni hluti áréttar andstöðu sína við að festa það hámark sem ráðherra hefur til ráðstöfunar við 3,6% af heildarafla þorsks og sama hlutfall af heildarafla ufsa. 2. minni hluti telur að óskynsamlegt sé að búa til slíkan sérsmábátastrandveiðiflota, m.a. af öryggisástæðum. Ljóst er að mikil eftirspurn hefur verið eftir kerfi sem gefur nýliðum tækifæri til að stunda veiðar. Strandveiðikerfið hefur verið tilraun til að svara þessari eftirspurn og telur 2. minni hluti brýnt að kerfið verði byggt upp með þeim hætti að nýliðum verði gefið tækifæri án þess að kvóti sé tekinn frá þeim sem hafa atvinnu af sjómennsku og færður til annarra sem stunda hana í frítíma sínum. 2. minni hluti áréttar að ekki hefur verið sýnt fram á að strandveiðar séu hagkvæmar eða skili þjóðarbúinu meiru en hefðbundnar fiskveiðar. Kerfið hefur aftur á móti sætt alvarlegri gagnrýni nær allra samfélagshópa, þ.m.t. strandveiðiflotans sjálfs. Stjórn veiðanna stuðlar að mismunun eftir stærð báta og landshlutum, lágu fiskverði til þátttakenda, misjöfnum og stundum minni gæðum hráefnisins, óhagkvæmri sjósókn með hærri olíukostnaði þegar bátar þurfa að sigla heim úr góðri veiði vegna ákvæða um hámarksveiði, útilokun frá nýsköpun á bestu mánuðum ársins og þjóðhagslegri óhagkvæmni sem felst í að fjölga bátum til veiða þrátt fyrir að núverandi floti sé með verulega umframgetu til veiða. Margir hópar samfélagsins eru tilbúnir að leggja til heimildir til nýliðunar en hafa hins vegar ekki áhuga á að heimildir séu teknar af útgerðum landsins til að færa öðrum starfandi útgerðum eða fyrrverandi útgerðarmönnum fiskveiðiheimildir, eða að aflaheimildir séu fluttar úr aflamarkskerfinu í einum landshluta til tímabundinna félagslegra veiða í öðrum landshluta.
    2. minni hluti ítrekar þá afstöðu sína að núverandi tilhögun strandveiða sé meingölluð. Margir hafa bent á að veiðina þurfi að opna og gera mögulegri í öllum landshlutum til að styðja við nýliða, kvótalausar útgerðir og frumkvöðla. Þessi sjónarmið setti 2. minni hluti m.a. fram í áliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða á 139. þingi (þingskjal 1709 í 826. máli á 139. þingi).

Breytingar á VS-afla.
    Miklir erfiðleikar eru uppi vegna takmarkaðs framboðs á heimildum til veiða á ýsu. Líkt og rakið er í nefndaráliti meiri hlutans gerir hátt verð á ýsu í viðskiptum með aflamark það að verkum að erfitt er fyrir krókaaflamarksbáta að leigja til sín heimildir. Það hefur einnig áhrif að bátum er óheimilt að skipta á aflaheimildum í þorski og öðrum tegundum við fiskiskip í aflamarkskerfinu. Margir bátar hafa þegar nýtt VS-heimildir sínar að fullu og fari þeir umfram heimildir sínar eru þeir sviptir veiðileyfi út fiskveiðiárið. Meiri hlutinn gerir tilraun til að mæta þeim vanda sem er til staðar með því að auka heimildir til að landa VS-afla telji ráðherra erfitt að komast hjá veiðum í stofni og ef aflamark er torfengið. Tilgangurinn er væntanlega að koma í veg fyrir brottkast.
    2. minni hluti bendir á að þótt þessi tillaga geti verið til bóta verður vandinn enn til staðar. Þá er gagnrýnivert að þessi lausn eykur ekki verðmætasköpun í sjávarútveginum þar sem einungis 20% þess verðs sem fæst fyrir aflann skiptast milli útgerðar og áhafnar í samræmi við kjarasamning. 2. minni hluti telur að leita hefði átt annarra leiða til að leysa þann vanda sem lýst hefur verið. Brýnt hefði einnig verið að fá álit hagsmunaaðila, ekki síst sjómanna, á þessari útfærslu meiri hlutans enda laun þeirra rýrð vegna þeirrar leiðar sem valin er.

Byggðakvóti Byggðastofnunar.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á frumvarpinu sem felur í sér aukinn byggðakvóta sem Byggðastofnun getur úthlutað. Í nefndaráliti meiri hlutans er vísað til þess að byggðakvóti sé eitt öflugasta úrræðið sem ríkisvaldið getur beitt til að sporna við neikvæðri byggðaþróun í einstökum sjávarbyggðum. 2. minni hluti tekur undir að mikilvægt geti verið að grípa til sérstakra aðgerða á grundvelli byggðasjónarmiða og aðstoða byggðarlög í vanda. Ekki er þó sýnt að breytingartillaga meiri hlutans skili þeim árangri sem henni er ætlað. Ekki var vilji til þess hjá meiri hlutanum að fá umsagnir og viðbrögð hagsmunaaðila og sérfræðinga við henni. Benda má m.a. á hugmyndir stjórnarformanns Byggðastofnunnar um að úthluta aflaheimildum annars vegar skilyrtum og hinsvegar óskilyrtum með það markmið að stækka atvinnusvæði og efla þannig byggðirnar. Sú leið virðist ekkert hafa verið skoðuð af stjórnarmeirihlutanum.
    Það skýtur einnig skökku við að samhliða því að í öðru frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða (þingskjali 968 í 570. máli) er lagt til að hinn almenni byggðakvóti verði minnkaður, þá skuli meiri hlutinn leggja til breytingu á fyrirliggjandi frumvarpi sem felur í sér nýjan byggðakvóta til úthlutunar. Ljóst er að engin heildarsýn er til staðar hjá meiri hlutanum í þessu máli en mikill vandræðagangur.
    Ekki hefur heldur verið rökstutt hvernig úthluta eigi þessum nýja byggðakvóta og hvaða viðmið eigi að viðhafa að öðru leyti en að kvótanum skuli ráðstafa til byggðarlaga í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Hér mætti velta því upp hvort ekki væri betra að úthluta kvótanum ef slíkur vandi væri fyrirséður frekar en orðinn staðreynd. Ekki liggur heldur fyrir hvort og þá hvaða áhrif þessi sértæki kvóti kann að hafa á úthlutun almenns byggðakvóta og hugsanlegt er að til skerðinga á honum komi. Þá er óljóst hvaða reglur eiga að gilda við mat á vanda byggða.
    2. minni hluti leggst gegn þeirri breytingu sem um ræðir enda algjör óvissa um hvort hún kemur til með að skila nokkrum árangri til aðstoðar fámennum byggðalögum í vanda.

    Að öllu framansögðu er ljóst að 2. minni hluti telur frumvarpið vanbúið. Þá telur hann breytingartillögur meiri hlutans vanhugsaðar og illa ígrundaðar. 2. minni hluti leggst gegn frumvarpinu og leggur til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar til gagngerrar endurskoðunar þar sem samráð og samvinna verði við alla hagsmunaaðila.

Alþingi, 8. mars 2013.



Sigurður Ingi Jóhannsson.