Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 498. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 735  —  498. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara (breyting á hlutfalli af álagningarstofni).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, Ágúst Þór Sigurðsson, Hrafnkel Hjörleifsson og Lísu Margréti Sigurðardóttur frá velferðarráðuneyti, Ástu S. Helgadóttur, umboðsmann skuldara, og Jón Óskar Þórhallsson, starfsmann embættis umboðsmanns skuldara, Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Einar Jónsson frá Íbúðalánasjóði og Þóreyju S. Þórðardóttur og Óskar Magnússon frá Landssamtökum lífeyrissjóða.
    Með frumvarpinu er lagt til að álagningarstofn 1. mgr. 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, nr. 166/2011, hækki úr 0,03% af öllum útlánum gjaldskyldra aðila, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og verði 0,0343% af öllum útlánum viðkomandi aðila í lok árs miðað við ársreikning. Með öllum útlánum er átt við heildarfjárhæð útlána. Gjaldskyldir aðilar greiða með þessum hætti til reksturs umboðsmanns skuldara í réttu hlutfalli við umfang útlána þeirra og er með því reynt að ná fram sanngjarnri skiptingu á kostnaðinum við rekstur embættisins.
    Fulltrúar gjaldskyldra aðila sem komu á fund nefndarinnar fjölluðu um að úrvinnsla mála hjá embætti umboðsmanns skuldara væri of hæg og tæki því of langan tíma. Sú gagnrýni hefur áður heyrst en nefndin telur rétt að taka fram að embættið er ungt og var sett var á stofn til að sinna flóknum skuldaúrvinnsluverkefnum, sem hafði ekki verið tekist á við áður, samkvæmt nýrri og óreyndri löggjöf. Er því óhjákvæmilegt að það taki nokkurn tíma að slípa til verklag og þau lög sem embættið vinnur eftir. Þá hefur einnig komið í ljós að verkefnið sem slíkt er viðvarandi, þ.e. þeir samningar sem gerðir hafa verið um greiðsluaðlögun koma margir hverjir aftur inn á borð umboðsmanns skuldara sem kærumál eða svokölluð 15. gr. mál en það eru mál þar sem umsjónarmaður telur að fram séu komnar upplýsingar sem valda því að greiðsluaðlögun sé ekki heimil og umboðsmaður skuldara þarf þá að taka afstöðu til þess hvort fella eigi niður greiðsluaðlögunarumleitanir. Þá er einnig ljóst að ekki er embættinu einu um að kenna varðandi málsmeðferðartíma heldur ljóst að viðsemjendur umboðsmanns skuldara, kröfuhafar skuldara og gjaldskyldir aðilar skv. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 166/2011, koma þar einnig að. Telja verður það hag allra að mál fái nokkuð skjóta afgreiðslu hjá umboðsmanni skuldara. Þá kom fram að frá stofnun embættisins væri rekstrarkostnaður að nálgast 3 milljarða kr. í heild sem væri töluverður kostnaður fyrir fjármálafyrirtækin. Sérstaklega væri um mikinn kostnað að ræða fyrir Íbúðalánasjóð sem mun að öllum líkindum greiða um 250 millj. kr. til reksturs umboðsmanns skuldara á næsta ári. Sjóðurinn stendur illa og er þetta þungur baggi fyrir hann að bera.
    Í fjárlögum fyrir árið 2012 var gert ráð fyrir að dregið yrði úr starfsemi umboðsmanns skuldara á árinu 2012 og því gert ráð fyrir 170 millj. kr. samdrætti hjá stofnuninni. Ljóst er að það mun ekki ganga eftir. Gert er ráð fyrir að embættið fari liðlega 247 millj. kr. fram úr fjárheimildum fyrir árið 2012. Gert er ráð fyrir að hækkun gjaldsins muni skila um 417 millj. kr. í auknar tekjur og heildartekjur af gjaldinu fyrir árið 2013 verði um 1.192 millj. kr. Verði með því komið til móts við uppsafnaðan hallarekstur á árinu 2012, sem og rekstrarkostnað fyrir árið 2013.
    Fyrir nefndinni liggur skýrsla umboðsmanns skuldara um áætlaðan rekstrarkostnað ársins 2013 sem barst velferðarráðuneytinu 2. nóvember sl. og álit samráðsskyldra aðila á skýrslunni, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, nr. 166/2011. Í álitinu kemur fram að áætlun umboðsmanns skuldara gefi ekki skýra mynd af hversu mörg mál verði afgreidd hjá embættinu á árinu 2013. Í skýrslu umboðsmanns er fjallað um ný verkefni embættisins, þ.e. aukinn fjölda kærumála og 15. gr. mála eins og vikið var að hér að framan. Kemur fram að á árinu 2012 er áætlað að kærumál verði 311 og 15. gr. mál um 404. Í áliti samráðsnefndar er dregin sú ályktun að löggjöfin um greiðsluaðlögun sé ekki nógu skýr. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir þessar athugasemdir enda hefur það legið ljóst fyrir frá setningu laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, að þau þyrftu að vera í stöðugri endurskoðun fyrstu árin á meðan reynsla kæmist á þau. Unnið er að endurskoðun laganna og telur meiri hlutinn mikilvægt að þeirri vinnu seinki ekki.
    Ekki er mikil reynsla af rekstri embættis umboðsmanns skuldara og því erfitt um vik um áætlanagerð. Á fundi nefndarinnar kom fram af hálfu umboðsmanns að nú þegar komið er á þriðja ár frá stofnun embættisins væri rétt að staldra við og endurskoða hlutverk embættisins, kanna hvað hefði gengið vel og hvað hefði farið úrskeiðis, hvaða verkefni ættu best heima hjá embættinu og hver ekki. Þá er mikilvægt að hugað verði að stefnumótun embættisins og framtíðarhlutverki þess. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur eðlilegt að horft verði til þessara atriða á næstu missirum þar sem búast má við að það taki að hægja á nýjum umsóknum um greiðsluaðlögun til umboðsmanns skuldara og bendir í þessu samhengi jafnframt á að með þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi 21. mars sl. (þskj. 1032 á 140. löggjafarþingi) ályktaði Alþingi að skipuð skyldi nefnd sem gerði úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði á Íslandi með það fyrir augum að styrkja stöðu viðskiptavina fjármálafyrirtækja. Nefndin á m.a. að skoða verkaskiptingu Stjórnarráðsins og stöðu sjálfstæðra stofnana sérstaklega og gera tillögur um breytingar ef þörf krefur.
    Að þessum athugasemdum virtum leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt.
    Unnur Brá Konráðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. des. 2012.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Þuríður Backman.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Skúli Helgason.


Árni Þór Sigurðsson.


Guðmundur Steingrímsson.