Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 227. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 474  —  227. mál.
Leiðréttur texti.




Svar



umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar
um friðlýst svæði og landvörslu.


     1.      Hvað eru friðlýst svæði mörg á landinu?
    Á Íslandi eru alls 108 friðlýst svæði, þ.e. svæði friðlýst samkvæmt lögum um náttúruvernd sem flokkast í þjóðgarða, friðlönd, náttúruvætti, búsvæði og fólkvanga ásamt svæðum sem njóta verndar samkvæmt sérlögum á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

     2.      Á hvað mörgum stöðum starfa landverðir?
    Í samræmi við 29. gr. laga um náttúruvernd starfa landverðir á náttúruverndarsvæðum við umsjón, eftirlit og fræðslu yfir sumarmánuðina og er um tímabundið starf að ræða. Á vegum stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, þ.e. hjá Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarði, starfa einnig þjóðgarðsverðir og sérfræðingar sem hafa fasta búsetu innan verndarsvæðisins eða í næsta nágrenni. Á vegum Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs störfuðu landverðir á 24 svæðum sumarið 2012 og sinntu þeir jafnframt eftirliti á 22 öðrum svæðum.
    Umhverfisstofnun er sú stofnun hér á landi sem hefur umsjón með flestum friðlýstum svæðum. Landverðir Umhverfisstofnunar starfa nú á átta svæðum en hafa auk þess eftirlit með 22 öðrum svæðum. Sumarið 2012 störfuðu landverðir á vegum stofnunarinnar í tímabundnum störfum á eftirtöldum svæðum:
          Þjóðgarðinum Snæfellsjökli og hafa landverðir þar einnig umsjón með náttúruvættinu Bárðarlaug, friðlandinu á ströndinni við Stapa og Hellna og friðlandinu á Búðum.
          Verndarsvæði Mývatns og Laxár ásamt friðlandinu Dimmuborgum, náttúruvættinu Hverfelli og náttúruvættinu Skútustaðagígum.
          Friðlandinu Hornströndum.
          Látrabjargi.
          Á Suðurlandi er svæðalandvarsla og hefur landvörður meginaðstöðu í friðlandi að Fjallabaki en sinnir einnig eftirliti með friðlandinu við Gullfoss, friðlandinu Pollengi og Tunguey ásamt Geysissvæðinu í Haukadal en það svæði hefur ekki verið friðlýst.
          Á Vesturlandi er svæðalandvarsla og hefur landvörður eftirlit með náttúruvættinu Grábrókargígum, náttúruvættinu Eldborg í Hnappadal, náttúruvættinu Hraunfossum og Barnafossi, friðlandinu Húsafelli, náttúruvættinu Steðja, friðlandinu í Geitlandi, friðlandinu Grunnafirði, friðlandinu Blautósi og Innstavogsnesi og friðlandinu Vatnshornsskógi.
          Í friðlandinu Vatnsfirði og hefur landvörður einnig eftirlit með náttúruvættinu Surtarbrandsgili og náttúruvættinu Dynjanda.
          Á miðhálendinu er svæðalandvarsla og hefur landvörður meginaðstöðu í náttúruvættinu á Hveravöllum og eftirlit með friðlandinu í Guðlaugstungum og friðlandinu í Þjórsárverum.
    Vatnajökulsþjóðgarður hefur umsjón með þjóðgarðslandinu og starfa landverðir á þeirra vegum á 16 svæðum. Sumarið 2012 störfuðu landverðir á vegum stofnunarinnar í tímabundnum störfum á eftirtöldum stöðum:
          Ásbyrgi.
          Jökulsárgljúfrum.
          Dettifossi.
          Öskju.
          Herðubreiðarlindum.
          Hvannalindum.
          Kverkfjöllum.
          Snæfelli.
          Lónsöræfum.
          Í nágrenni Hafnar í Hornafirði, en þar hefur landvörður eftirlit á Heinabergssvæði, við Hoffell og við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi.
          Skaftafelli.
          Lakagígasvæðinu.
          Við Eldgjá.
          Við Langasjó.
          Á Tungnaáröræfum.
          Út frá Nýjadal, þ.e. í Vonarskarði og Gjallandi.
    Þá má geta þess að í friðlandinu í Dyrhólaey starfar einn landvörður yfir sumarmánuðina sem er starfsmaður sveitarfélagsins.

     3.      Hvað eru landverðir margir og í hve mörgum stöðugildum?
    Á vegum Umhverfisstofnunar störfuðu 20 landverðir í alls 190 vinnuvikur sumarið 2012. Á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs störfuðu 37,5 landverðir í alls 448 vinnuvikur sumarið 2012.
    Eins og fram kemur hér að framan starfa einnig þjóðgarðsverðir og sérfræðingar í heilsársstöðum hjá stofnununum, en þessir starfsmenn sinna landvörslu með öðrum hefðbundnum störfum yfir sumarmánuðina. Fjöldi þeirra árið 2012 er sem hér segir: Hjá Umhverfisstofnun starfa sex, þ.e. tveir á Snæfellsnesi, einn í Mývatnssveit, tveir á Vestfjörðum og einn í Vestmannaeyjum. Hjá Vatnajökulsþjóðgarði starfa 10, þ.e. þrír á norðursvæði, tveir á austursvæði, þrír á suðursvæði og tveir á vestursvæði.

     4.      Er til regla um það hver greiðir laun og annan kostnað á friðlýstum svæðum, og þá hver? Ef slík regla er ekki til óskast sundurliðun á fyrirkomulagi greiðslna á hverju friðlýstu svæði fyrir sig.
    Laun landvarða eru greidd af viðkomandi stofnun í samræmi við kjarasamning Landvarðafélags Íslands sem er í Starfsgreinasambandinu.
    Þá er stofnanasamningur Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir hönd Landvarðafélags Ísland þar sem kveðið er frekar á um ýmis réttindi landvarða.
    Annar tengdur kostnaður vegna útgjalda við landvörslu er hluti af rekstrarkostnaði stofnananna.