Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 689. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1563  —  689. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, með síðari breytingum (stofnstyrkir, frádráttarákvæði).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar kom Ingvi Már Pálsson frá iðnaðarráðuneytinu. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Sveitarfélaginu Skagaströnd, Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, Byggðastofnun, Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum og Orkustofnun.
    Frumvarpið inniheldur aðeins tvær greinar, gildistökugrein og grein þar sem lagt er til að lokamálsliður 1. mgr. 12. gr. laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar verði felldur brott.
    Í 12. gr. laganna er fjallað um fjárhæð og útreikning styrkja vegna stofnunar nýrra hitaveitna. Þar segir í 1. málsl. að styrkur til hverrar hitaveitu geti numið allt að átta ára áætluðum niðurgreiðslum á rafmagni eða olíu til húshitunar á orkuveitusvæði viðkomandi hitaveitu miðað við meðalnotkun til húshitunar næstu fimm ár á undan. Í lokamálslið greinarinnar kemur svo fram að frá styrkfjárhæðinni skuli dreginn annar beinn eða óbeinn fjárhagslegur stuðningur ríkisins, stofnana þess eða sjóða til viðkomandi hitaveitu eða byggingar hennar.
    Umsagnaraðilar eru allir jákvæðir í garð frumvarpsins og hvetja til samþykktar þess.
    Í desember 2011 kom út skýrsla starfshóps um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar. Starfshópurinn var skipaður eftir að ríkisstjórnin samþykkti á fundi á Ísafirði 5. apríl 2011 að unnið yrði að því með Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum að leita leiða til að lækka og jafna húshitunarkostnað. Í skýrslunni kemur eftirfarandi m.a. fram: „[L]eggur starfshópurinn til að ákvæði sem kveður á um að frá stofnstyrkjum hitaveitu skuli dreginn frá annar beinn og óbeinn fjárhagslegur stuðningur ríkisins, verði lagt niður. Jarðhitaleit og boranir kosta svipað hvort sem leitað er að heitu vatni fyrir þúsund manna eða hundrað manna byggð. Það er verulega íþyngjandi fyrir smærri jarðhitaverkefni ef allur stofnstyrkur þurrkast út vegna þess opinbera fjármagns sem lagt var í jarðhitaleitina.“
    Í skýrslunni segir einnig: „Þar sem eðli jarðvarmaveituframkvæmda er að þeim fylgir hár stofnkostnaður en lágur rekstrarkostnaður ættu hærri stofnstyrkir að vega þungt í hagkvæmni slíkra framkvæmda. Til að tryggja enn frekari jarðvarmavæðingu er lagt til að viðmiðunartími stofnstyrkja verði rýmkaður […] í allt að 12 ár ef þörf krefur.“
    Þrátt fyrir að nefndin hafi aðeins rætt málið á tveimur fundum myndaðist fljótt veruleg samstaða um afgreiðslu málsins þannig að tekið yrði tillit til beggja framangreindra tillagna starfshópsins. Þess skal getið að nefndin hafði áður fjallað um niðurgreiðslur húshitunar eftir að hafa fengið kynningu á skýrslu starfshóps um niðurgreiðslu húshitunar í janúar síðastliðinn. Að mati nefndarinnar er sú skýrsla vel unnin. Hvetur nefndin iðnaðarráðuneytið til þess að hraða vinnu við endurskoðun lagaumhverfis niðurgreiðslna húshitunar til samræmis við tillögur sem þar koma fram. Það er mat nefndarinnar að frumvarpið feli í sér fyrsta skrefið í átt til betra fyrirkomulags niðurgreiðslna húshitunar.
    Í minnisblaði sem nefndinni barst frá Orkustofnun er fjallað um möguleg áhrif þess að miða stofnstyrki skv. 1. mgr. 12. gr. laganna við tólf ára áætlaðar niðurgreiðslur á rafmagni eða olíu til húshitunar í stað átta ára eins og nú er. Þar er m.a. bent á að þjóðhagslegur sparnaður jarðvarmaveitna byggist ekki einungis á minni þörf fyrir niðurgreiðslu af hendi ríkissjóðs heldur einnig á því að hverja kílóvattstund af raforku sem sparast við rafhitun megi nýta á annan hátt. Mat stofnunarinnar er að raforkusparnaður sem verður við að taka jarðvarmaveitur í notkun sé hagstæð leið til að virkja eða losa um græna raforku til annarrar uppbyggingar. Þá bendir stofnunin á að útgjöld ríkissjóðs vegna stofnstyrkja til hitaveitna séu ólík hefðbundnum útgjöldum þar um fyrirframgreiðslu framtíðarniðurgreiðslna sé að ræða og eftir ákveðinn tíma verði heildaráhrif á útgjöld ríkissjóðs engin og eftir það fari ríkissjóður að spara. Að auki bendir stofnunin á að upphæð stofnstyrkja miðist við þær niðurgreiðslur sem sparist í framkvæmd og að með hækkandi verðlagi hafi kostnaður við hitaveituframkvæmdir hækkað. Engu að síður hafi upphæð niðurgreiðslna ekki hækkað því til samræmis enda ekki tengd hreyfingum á verðvísitölu neysluverðs. Það er mat stofnunarinnar að átta ára stofnstyrkur nú sé lægri að raungildi en átta ára stofnstyrkur árið 2005 og meðalupphæð niðurgreiðslna þyrfti að hækka um tæplega 50% til að halda í við verðvísitölu. Niðurstaða stofnunarinnar er sú að lenging eingreiðslu áætlaðrar niðurgreiðslu á rafmagni eða olíu til húshitunar í 12 ár samsvari uppfærslu stofnstyrks til hitaveitna í samræmi við almennar verðlagshækkanir. Að lokum birtir Orkustofnun mat á kostnaðaraukningu í tveimur töflum. Í fyrri töflunni, þar sem sýndar eru þær stækkanir sem eru fyrirhugaðar eða í gangi, virðist stofnunin gera ráð fyrir 132,5 millj. kr. hækkun fjárframlaga. Í seinni töflunni, þar sem sýnd eru þau verkefni sem stofnunin telur það langt komin í undirbúningi að réttlætanlegt sé að nefna þau þó að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um að ráðast í þau, virðist stofnunin gera ráð fyrir 302,45 millj. kr. hækkun fjárframlaga. Tekið skal fram að í hvorugu tilvikinu virðist tekið tillit til áhrifa verðlagsbreytinga eða þess sparnaðar sem stofnun hitaveitu hefur í för með sér fyrir ríkissjóð. Því síður eru tekjur af sölu þess rafmagns sem annars hefði farið til húshitunar teknar með í reikninginn.
    Álit nefndarinnar er að efni frumvarpsins sé mjög jákvætt. Nefndin telur eðlilegt að hvatar til undirbúnings og stofnsetningar hitaveitu á köldum svæðum verði efldir. Því leggur nefndin til að stofnstyrksviðmið 12. gr. laganna verði lengt úr átta árum í tólf.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1. gr. orðist svo:
    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „átta ára“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: tólf ára.
     b.      Lokamálsliður 1. mgr. fellur brott.

    Kristján L. Möller, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir og Þór Saari voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. júní 2012.



Sigmundur Ernir Rúnarsson,


2. varaform., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Björn Valur Gíslason.



Einar K. Guðfinnsson.


Jón Gunnarsson.


Sigurður Ingi Jóhannsson.