Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 97. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 321  —  97. mál.

3. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2011.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.


    Samkomulag varð um það í fjárlaganefnd að greiða fyrir framgangi fjáraukalaga fyrir árið 2011 með því að flýta umræðum um frumvarpið. Þegar tillögur ríkisstjórnarinnar fyrir 2. umræðu lágu fyrir kom í ljós að þær fólu í sér mjög miklar fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð og að auki komu í umsögn Ríkisendurskoðunar fram alvarlegar athugasemdir, sérstaklega varðandi meðferð SPK og Landsbankans og sérstakar vaxtaniðurgreiðslur. Gögn um Vaðlaheiðargöng, Byr og kaup á landi af Reykjanesbæ fékk nefndin í hendur á sama fundi og málið var tekið út. Samningur um sölu eignarhluta í Byr hf. var ekki lagður fyrir nefndina fyrr en undir lok þess fundar sem málið var tekið út og þá sem trúnaðargagn í einu eintaki sem nefndarmenn gátu lesið hjá formanni.
    Í ljósi þeirra athugasemda sem komu fram er ástæða til að hafa áhyggjur af þeim veikleikum sem voru í fjárlögum fyrir árið 2011. Þeir endurspeglast í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012. Má sem dæmi taka 1,3 ma.kr. veikleika í sjúkratryggingum og 6 ma.kr. til sérstakra vaxtaniðurgreiðslna. Þetta hefur ekki verið lagfært við fjárlagagerðina fyrir árið 2012. Minni hlutinn gerir athugasemdir við þær tillögur sem meiri hlutinn leggur fram við 3. umræðu. Ljóst er að við þá tillögugerð var ekki vandað nægilega til verka og tekin upp sú nýbreytni að við fjáraukalagagerð er ráðuneyti sett markmið að fjárhæð 85 m.kr. fyrir fjárlagagerð næsta árs. Þau hljóða svo: „Gerð verður niðurskurðarkrafa á innanríkisráðuneyti sem nemur þessari fjárhæð á fjárlögum fyrir árið 2012.“
    Af framansögðu er ljóst að minni hluti fjárlaganefndar gerir alvarlegar athugasemdir við þá málsmeðferð sem viðhöfð hefur verið við gerð fjáraukalaga fyrir árið 2011 og væntir þess að vinnubrögð sem þessi verði ekki endurtekin.

Alþingi, 16. nóv. 2011.



Kristján Þór Júlíusson,


frsm.


Ásbjörn Óttarsson.


Höskuldur Þórhallsson.



Illugi Gunnarsson.