Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 105. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 105  —  105. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010.

Flm.: Eygló Harðardóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Oddný G. Harðardóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Árni Johnsen.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
     a.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi Skipulagsstofnun ekki afgreitt aðalskipulagstillögu með staðfestingu, synjun eða frestun staðfestingar þess að öllu leyti eða hluta að liðnum fjögurra vikna fresti er sveitarstjórn heimilt að ákveða að aðalskipulagið skuli taka gildi uns ákvörðun Skipulagsstofnunar liggur fyrir og skal sveitarstjórn þá auglýsa það í B-deild Stjórnartíðinda.
     b.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra skal synja, fresta eða staðfesta aðalskipulag innan fjögurra vikna frá því að tillaga frá Skipulagsstofnun barst ráðuneytinu.
     c.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi ráðherra ekki afgreitt aðalskipulagstillögu með synjun, frestun eða staðfestingu aðalskipulags skv. 4. mgr. er sveitarstjórn heimilt að ákveða að aðalskipulagið skuli taka gildi uns ákvörðun ráðherra liggur fyrir og skal sveitarstjórn þá auglýsa það í B-deild Stjórnartíðinda.

2. gr.

    Við 2. mgr. 36. gr. laganna bætist nýr málsliður, 5. málsl., svohljóðandi: Hafi Skipulagsstofnun ekki afgreitt tillögu sveitarstjórnar innan fjögurra vikna frests er sveitarstjórn heimilt að ákveða að tillagan skuli taka gildi uns ákvörðun Skipulagsstofnunar liggur fyrir og skal sveitarstjórn þá auglýsa hana í B-deild Stjórnartíðinda.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Töluverð umræða hefur verið um tafir á afgreiðslu tillagna að aðalskipulagi fyrir ýmis sveitarfélög hjá Skipulagsstofnun og umhverfisráðherra. Má þar nefna Flóahrepp, Skeiða- og Gnúpverjahrepp, sveitarfélagið Ölfus og Mýrdalshrepp. Umhverfisráðherra hefur fært rök fyrir því af hverju tafir hafa orðið á afgreiðslunni og lagt áherslu á að unnið hafi verið að öllum málum eins hratt og kostur er.
    Þrátt fyrir það hefur afgreiðsla ýmissa mála dregist, jafnvel umfram gefna kærufresti, eða afgreiðsla ráðuneytisins hafnað fyrir dómstólum líkt og í tilfelli Flóahrepps.
    Fjárfestingar í atvinnulífinu eru forsenda hagvaxtar í landinu og endurreisnar Íslands. Til þess að fyrirtæki taki ákvörðun um fjárfestingu þarf að huga að ákveðnum atriðum og skapa hagstætt umhverfi fyrir fjárfesta. Fjárfestingin þarf að vera arðsöm þrátt fyrir áhættu, fjárfestingargetan þarf að vera til staðar og fjárfestingarviljinn. Þá er mjög mikilvægt að það umhverfi sem stjórnvöld búa fyrirtækjum sé fyrirsjáanlegt og samkvæmt sjálfu sér, svo sem skattar, leyfisveitingar og ýmsar stjórnsýslulegar eða lagalegar reglur.
    Skilvirk afgreiðsla skipulags skiptir þar miklu máli enda forsenda þess að framkvæmdir geti hafist að gert sé ráð fyrir viðkomandi verkefnum í aðalskipulagi sveitarfélags. Til þess að skerpa á regluverki stjórnsýslunnar og tryggja vandaðri vinnubrögð er því lagt til hér að sveitarstjórn geti einhliða ákveðið að aðalskipulag sveitarfélagsins taki gildi ef Skipulagsstofnun afgreiðir ekki aðalskipulagstillögu innan lögformlegs frests. Jafnframt er lagt til að sendi stofnunin tillöguna til ráðherra vegna þess að hún telji að synja eða fresta skuli staðfestingu verði ráðherra settur lögformlegur frestur til að afgreiða tillögu Skipulagsstofnunar. Hafi ráðherra ekki tekið ákvörðun innan þess frests geti sveitarstjórn einhliða ákveðið að aðalskipulagið taki gildi þar til ákvörðun liggur fyrir. Í þeim tilfellum þegar farið er fram úr lögbundnum fresti og sveitarstjórn ákveður að aðalskipulag taki gildi er gert ráð fyrir að sveitarstjórn auglýsi það í B-deild Stjórnartíðinda.
    Lagt er til að lögin taki þegar gildi og eigi eftir það við um öll aðalskipulög sem send eru Skipulagsstofnun til afgreiðslu. Flutningsmenn vona að breytingin tryggi vandaðri vinnubrögð og skilvirkari afgreiðslu Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra á aðalskipulagi sveitarfélaga.
    Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta löggjafarþingi (þskj. 122, 113. mál 139. þings) en hlaut ekki afgreiðslu. Umhverfisnefnd bárust þó 10 umsagnir um málið, helmingur þeirra var jákvæður, einn umsagnaraðili tók ekki afstöðu til málsins og fjórir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við það. Umsagnaraðilar inntu m.a. eftir upplýsingum um bótaskyldu þegar sveitarstjórn hefur ákveðið að aðalskipulag taki gildi og gefið út framkvæmdaleyfi í samræmi við það. Fari svo að Skipulagsstofnun hafni aðalskipulagi eftir að sveitarstjórn hefur ákveðið að láta skipulagið taka gildi og gefa út leyfi í samræmi við það er það Skipulagsstofnun sem hefur brugðist lögbundinni skyldu sinni. Sveitarstjórn gaf út leyfi í samræmi við lög og gildandi skipulag og verður því ekki séð að á það falli bótaskylda ef slíkt leyfi fellur úr gildi vegna synjunar Skipulagsstofnunar á aðalskipulagi. Þá höfðu umsagnaraðilar uppi efasemdir um að þetta fyrirkomulag yrði til þess að auka skilvirkni og að tímafrestur sem Skipulagsstofnunar væri veittur samkvæmt frumvarpinu væri nægilega langur.
    Flutningsmenn árétta að það er ekki algengt að Skipulagsstofnun synji samþykktar aðalskipulags. Verður því ekki annað séð en að það fyrirkomulag sem hér er lagt til auki á skilvirkni þar sem ekki verður óþarflega mikill dráttur á samþykkt skipulags. Unnt er að láta það taka gildi að fjórum vikum liðnum óháð því hvort Skipulagsstofnun hefur lokið afgreiðslu sinni. Veitir þetta stofnuninni ákveðið aðhald jafnframt því sem hún fær nægilegan tíma til að sinna starfi sínu og fara yfir aðalskipulag. Þá verður að hafa í huga þá gríðarlegu hagsmuni sem í húfi geta verið fyrir sveitarstjórn að fá aðalskipulag sitt samþykkt sem fyrst. Verður ekki annað séð en að fjórar vikur sé nægilegur tími fyrir Skipulagsstofnun til að fara yfir aðalskipulag að teknu tilliti til hagsmuna sveitarfélaga.