Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 216. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 675  —  216. mál.
Leiðréttingar.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar um fiskveiðisamninga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er að mati ráðherra ávinningur Íslendinga af fiskveiðisamningi við Færeyinga?
     2.      Hvaða fiskveiðisamningar eru í gildi við erlendar þjóðir? Við hverja eru samningarnir, hvert er efni þeirra og hver er gildistíminn?
     3.      Hver er að mati ráðherra ávinningur Íslendinga af samningunum?


    Hinn almenni ávinningur af samningum um veiðar úr deilistofnum er veiðistjórnun sem er forsenda sjálfbærrar nýtingar á auðlindinni.

Fiskveiðisamningur við Færeyjar.
    Samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu er gerður til eins árs í senn. Samningurinn kveður á um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir innan lögsögu ríkjanna. Færeyskum skipum er heimilt að veiða 30 þúsund lestir af loðnu innan íslenskrar lögsögu ef leyfilegur heildarafli verður a.m.k. 500 þúsund lestir. Verði heildarafli minni en 500 þúsund lestir nemur hlutdeild færeyskra skipa 5% af honum. Takmarkanir eru á hve mikið færeysk skip mega vinna til manneldis af þeim afla sem þeir veiða innan lögsögu Íslands. Að auki er færeyskum skipum heimilt að veiða allt að 10 þúsund lestir af loðnu innan lögsögu Íslands úr veiðiheimildum sem fengnar eru með samningi færeyskra og grænlenskra stjórnvalda.
    Færeysk og íslensk skip hafa aðgengi að lögsögum beggja ríkja til að veiða heimildir sínar í kolmunna og norsk-íslenskri síld og getur hvort ríki um sig sett takmarkanir á fjölda veiðiskipa. Íslenskum skipum er heimilt að veiða allt að 1.300 lestir af makríl innan lögsögu Færeyja og 2.000 lestir af síld annarri en norsk-íslenskri.
    Skip ríkjanna skulu hlíta þeim reglum sem eru í gildi við veiðar í lögsögu þess ríkis sem þau veiða í, t.d. varðandi aflatilkynningar og annað.
     Ávinningur: Aðgengi að færeyskri lögsögu við veiðar á síld og kolmunna. Kvóti í makríl sem auðveldar veiðar á síld innan færeysku lögsögunnar. Sérstaklega er aðgengi mikilvægt til kolmunnaveiða þar sem kolmunninn hefur haldið sig sunnarlega undanfarin ár.
    Á grundvelli viðræðna sem fram fóru 1976 var samþykkt fyrirkomulag sem enn er í gildi milli ríkjanna og felur í sér að færeyskum skipum eru heimilaðar línu- og handfæraveiðar á botnfiski með takmörkunum um skipafjölda, tímabilatakmörkum og svæðatakmörkunum.
    Árið 2010 voru þessar heimildir 5.600 lestir af botnfiski, þó má heildarafli þorsks aldrei verða meiri en 1.200 lestir og lúðu 40 lestir.

Samningur við Efnahagsbandalag Evrópu um fiskveiðimál og lífríki hafsins.
    Samningur er gerður til eins árs í senn. Samningurinn kveður á um að Ísland úthluti ESB 3.000 lestum af karfa sem ESB getur veitt innan íslenskrar lögsögu á afmörkuðu svæði og á tilteknu tímabili. Meðafli er innifalinn í kvótanum en enginn meðafli er leyfður af þorski. Takmörkun er einnig á fjölda veiðileyfa til ESB og verksmiðjutogarar fá ekki heimild til að veiða karfakvótann. Ísland getur farið fram á að eftirlitsmaður sé um borð á kostnað útgerðar. Í staðinn fær Íslands 30 þúsund lestir af loðnu á grundvelli samnings milli ESB og Grænlands. Íslands getur veitt þann kvóta innan grænlenskrar lögsögu. Skip ríkjanna skulu hlíta þeim reglum sem eru í gildi við veiðar í lögsögu þess ríkis sem þau veiða í, t.d. varðandi aflatilkynningar og annað.
     Ávinningur: 30 þúsund lestir af loðnu í skiptum fyrir 3.000 lestir af karfa.

Samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs (Smugusamningur).
    Árlega hittist „Íslensk-rússneska fiskveiðinefndin“ og semur á grundvelli þessara tveggja samninga. Fyrri samningurinn ásamt tvíhliða bókun við Rússa felur í sér samkomulag um lausn á Smugudeilunni svokölluðu og þorskveiðar Íslendinga í Barentshafi.
    Samningurinn gildir í fjögur ár í senn og framlengist sjálfkrafa segi aðilar honum ekki upp. Samningurinn var uppsegjanlegur 2010. Íslendingar skuldbinda sig til að stunda ekki veiðar í svokallaðri Smugu en fá 1,86% af heildaraflamarki þorsks í Barentshafi sem þeir geta veitt innan norskrar og rússneskrar lögsögu. Fari hins vegar leyfilegur heildarafli niður fyrir 350 þúsund lestir fellur kvóti Íslendinga niður. Falli kvótinn niður tvö ár í röð er íslenskum stjórnvöldum heimilt að fara fram á endurskoðun bókananna.
    Íslensk skip geta veitt helming kvótans innan lögsögu Rússlands og hinn helminginn innan lögsögu Noregs. Hluta kvótans, eða 37,5%, stendur íslenskum útgerðum til boða að kaupa af Rússum á markaðsverði. Íslendingum er úthlutað árlegum kvóta í öðrum tegundum vegna meðafla við þorskveiðarnar. Meðaflakvótinn nemur 30% af þorskkvótanum. Rússnesk stjórnvöld gefa út leyfi til handa íslenskum skipum og ber útgerðum að hlíta þeim reglum sem gilda um veiðar í rússneskri lögsögu. Íslendingar skuldbinda sig til að stunda ekki loðnuveiðar í Barentshafi meðan samningurinn er í gildi.
     Ávinningur: Þorskheimildirnar í Barentshafi, sem árið 2011 eru tæplega 13 þúsund lestir auk 30% meðafla.

Samningur um samstarf á sviði sjávarútvegs milli Rússlands og Íslands.
    Í samningnum eru engin ákvæði um veiðiheimildir heldur almennt um samstarf ríkjanna á sviði sjávarútvegs og hafrannsókna. Samningurinn er uppsegjanlegur með sex mánaða fyrirvara.

Samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs frá 1999 (Smugusamningur).
    Samningurinn ásamt tvíhliða bókun við Norðmenn felur í sér samkomulag um lausn á Smugudeilunni og þorskveiðar Íslendinga í Barentshafi. (Sjá að framan.)

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í bókun Íslands og Noregs er gert ráð fyrir að íslensk skip geti veitt helming þorskkvótans innan lögsögu Noregs norðan 62°. Norsk skip fá að veiða 500 lestir af löngu, keilu og blálöngu á línu innan íslenskrar lögsögu utan 12 sjómílna frá grunnlínum og sunnan 64°N og loðnukvóta af okkar hlut innan íslenskrar lögsögu norðan 64°30´N á tímabilinu 20. júní til 15. febrúar. Loðnukvótinn er lagaður hlutfallslega að árlegum þorskkvóta Íslendinga. Fari loðnustofninn hins vegar niður fyrir líffræðileg hættumörk fellur kvóti Norðmanna niður og skulu aðilar taka upp viðræður um endurgjald. Kveðið er á um hámarksfjölda norskra skipa sem heimilað er að veiði hverju sinni. Norskum útgerðum ber að hlíta þeim reglum sem gilda um veiðar í íslenskri lögsögu.
     Ávinningur: Aðgengi að norskri lögsögu til veiða á þorskheimildum.

Samkomulag milli Íslands og Noregs um fiskveiði og landgrunnsmál.
    Samkomulag um samstarf og gagnkvæmar upplýsingar varðandi veiðar og rannsóknir innan lögsögu Jan Mayen, þ.m.t. loðnustofninn.

Þríhliða samningur um loðnu við Grænland/Danmörku og Noreg.
    Samningur er gerður til eins árs í senn en framlengist sjálfkrafa sé honum ekki sagt upp með a.m.k. sex mánaða fyrirvara. Í þríhliða samningnum felst að hlutdeild landanna í leyfilegum heildarafla er óbreytt frá fyrri samningi. Hlutur Íslands er 81%, hlutur Grænlands 11% og hlutur Noregs 8%. Ákvörðun um leyfilegan heildarafla er í höndum íslenskra stjórnvalda náist ekki samkomulag milli aðila þar að lútandi. Ef í ljós kemur að hlutur Noregs eða Grænlands veiðist ekki skal Íslandi heimilt að veiða það magn sem óveitt er.
     Ávinningur: Samningur um veiðar úr mikilvægum deilistofni sem er forsenda sjálfbærrar nýtingar. Réttur Íslands að veiða það sem ekki veiðist af kvóta hinna.

Samningur um gagnkvæmar veiðar í fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands.
    Samningur er gerður til eins árs í senn en framlengist sjálfkrafa sé honum ekki sagt upp með a.m.k. sex mánaða fyrirvara. Tvíhliða samningur Íslands og Grænlands nær til loðnu- og karfaveiða í lögsögu ríkjanna. Grænlenskum skipum er heimilt að stunda loðnuveiðar úr kvóta Grænlands innan íslenskrar lögsögu með svæðatakmörkunum og fram til 15. febrúar. Eftir 15. febrúar fá þeir einungis að veiða hluta af kvótanum. Íslenskum skipum er heimilt að stunda loðnuveiðar úr kvóta Íslands í lögsögu Grænlands með svæðatakmörkunum. Íslenskum og grænlenskum skipum er heimilt að veiða helming úthafskarfakvóta síns innan lögsögu hvors ríkis. Skip ríkjanna skulu hlíta þeim reglum sem eru í gildi við veiðar í lögsögu þess ríkis sem þau veiða í, t.d. varðandi aflatilkynningar og annað.
     Ávinningur: Aðgengi að lögsögu Grænlands.

Tvíhliða samkomulag milli Íslands og Noregs.
    Í tvíhliða samkomulagi milli Íslands og Noregs heimilar Ísland norskum skipum að veiða 35% af loðnukvóta Norðmanna í lögsögu Íslands með svæðatakmörkunum og fram til 15. febrúar. Takmörkun er á fjölda norskra skipa sem fá að stunda þessar veiðar. Íslands fær að veiða 35% af loðnukvóta sínum innan lögsögu Jan Mayen til 15. febrúar. Skip ríkjanna skulu hlíta þeim reglum sem eru í gildi við veiðar í lögsögu þess ríkis sem þau veiða í, t.d. varðandi aflatilkynningar og annað.
     Ávinningur: Aðgengi að lögsögu Jan Mayen. Mikilvægt þar sem loðnan heldur sig norðarlega.

Samningur um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum.
    Samið um þessar veiðar árlega. Ísland er aðili að strandríkjasamningi um norsk-íslenska síld ásamt ESB, Noregi, Færeyjum og Rússlandi. Hlutur Íslands er 14,51%. Þessi samningur inniheldur einnig tvíhliða samninga milli ríkja varðandi síldveiðarnar, þ.m.t. tvíhliða samninga milli Íslands og Rússlands og Íslands og Noregs. Í fyrrnefnda samningnum fá Rússar heimild til að veiða 3,36% af hlut sínum innan afmarkaðs svæðis í íslenskri lögsögu. Í síðarnefnda samningnum hafa íslensk skip heimild til að veiða allan kvóta sinn í norsk-íslenskri

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


síld innan lögsögu Jan Mayen eða 18,6% kvótans innan norskrar lögsögu norðan 62°N. Norsk skip hafa heimild til að veiða 11,53% norsks kvóta innan íslenskrar lögsögu. Veiði Íslendingar innan við 74% af þeim afla sem þeir hafa heimild til að veiða innan norskrar efnahagslögsögu mun Noregur flytja 0,1% af heildaraflamarki í norsk-íslenskri síld til Íslands árið eftir. Skip ríkjanna skulu hlíta þeim reglum sem eru í gildi við veiðar í lögsögu þess ríkis sem þau veiða í, t.d. varðandi aflatilkynningar og annað.
     Ávinningur: Veiðistjórnun á mikilvægum deilistofni. Norsk-íslenska síldin er líklega eitt besta dæmið um hversu mikilvægt er að samningur sé á milli ríkja um veiðar úr deilistofni en í mörg ár var engin sameiginleg veiðistjórnun með tilheyrandi afleiðingum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Aðgengi að lögsögu Noregs og Jan Mayen. Eykur möguleika til veiða á lengri tíma miðað við göngu stofnsins.

Samningur um veiðar úr kolmunnastofninum.
    Samið um þessar veiðar árlega. Ísland er aðili að strandríkjasamningi að kolmunnastofninum ásamt ESB, Noregi og Færeyjum. Hlutur Íslands er 17,63%.
     Ávinningur: Veiðistjórnun á mikilvægum deilistofni.