Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 276. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 319  —  276. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á öryggisbúnaði Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs.

Flm.: Árni Johnsen, Björgvin G. Sigurðsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,


Ragnheiður E. Árnadóttir, Ásbjörn Óttarsson, Eygló Harðardóttir,
Unnur Brá Konráðsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að láta nú þegar gera úttekt á öryggisbúnaði Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs.

Greinargerð.


    Ferjan Herjólfur er komin til ára sinna. Dráttur hefur orðið á byggingu nýs skips í hans stað. Ástæða er til að fara nú þegar yfir öryggisbúnað skipsins.
    Valinkunnir áhugamenn og átaksmenn í öryggismálum sjómanna á Íslandsmiðum, Sigmund Jóhannsson, uppfinningamaður og teiknari, og Friðrik Ásmundsson, fyrrverandi skipstjóri og skólastjóri Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum, hafa vakið athygli á því, fyrir hönd Félags áhugamanna í Vestmannaeyjum um öryggismál sjómanna, að alvarlegar brotalamir séu í öryggisbúnaði Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs. Herjólfur nálgast nú tvítugt en lífaldur slíkra skipa er að öllu jöfnu 15 ár. Sýnt er að Herjólfur verður nýttur einhvern tíma enn til siglinga á milli lands og Eyja. Landeyjahöfn er hönnuð eins og pylsubrauð, fyrir ákveðna gerð skips og djúpristu sem er mun grynnri en Herjólfs. Eins og á stendur er alltaf verið að reyna að troða bjúga í pylsubrauðið.
    Það er brýn nauðsyn að tryggja á allan hátt öryggisbúnað skipsins og nýtingu hans á hagkvæmastan hátt. Eftirfarandi eru ábendingar þeirra félaga, Friðriks og Sigmunds, sem ekki telja ásættanlegt:
     1.      að 12 af 13 gúmmíbjörgunarbátum Herjólfs séu sjósettir með handaflinu einu saman,
     2.      að tveir aðalbjörgunarbátar skipsins séu sjósettir, einungis með eigin þyngdarafli,
     3.      að rýra gildi búnaðarins með því að skipta út öðrum léttbátnum, sem ætlaður er til bjargar „maður fyrir borð“ eða til að pikka upp farþega sem ekki hafa náð í björgunarbát, fyrir lítinn gúmmíbjörgunarbát og það eina björgunarbátnum á skipinu sem sjósettur er með krana þannig að ekki þarf handafls við,
     4.      að krani til sjósetningar annars léttbáts skipsins, er að hálfu leyti virkjaður með handafli,
     5.      að öllum farþegum sé stefnt úr kojum upp stiga í aðalsal skipsins og þaðan ásamt öðrum farþegum upp annan stiga upp á efsta dekk til að komast í bátana, þótt sex aðrar útgönguleiðir séu fyrir hendi,
     6.      að hluti farþega komist ekki í þá báta sem opnaðir eru við efsta dekk og eiga þá ekki annarra kosta völ en að príla niður kaðalstiga þaðan til að komast í einhvern af þeim 10 bátum sem ekki er annað aðgengi að og það án hjálpar frá léttbáti sem fjarlægður hefur verið frá öðru borði skipsins,
     7.      að báðar aðaldyr skipsins, sem eru vökvastýrðar, séu með handtjakk sem varaafl,
     8.      að opna þurfi þung lunningahlið á báðum síðum skipsins með handafli til að koma út björgunarbátum,
     9.      að geta ekki sjósett björgunarbát þegar ísing er,
     10.      að engin sjósetning björgunarbáta geti farið fram ef skipið leggst á hliðina eða því hvolfi,
     11.      að koma engum vörnum við þegar skipið hallar 30–40 gráður.