Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 141. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 315  —  141. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar um uppbyggingu fjarskipta á landsbyggðinni.

     1.      Hyggst ráðherra endurskoða núverandi stefnu um uppbyggingu fjarskipta um land allt með tilstyrk Fjarskiptasjóðs?
     2.      Ef svo er, hvernig mun sú endurskoðun þá fara fram? Ef svo er ekki, er það þá mat ráðherra að núverandi uppbygging sé fullnægjandi? Óskað er eftir yfirliti sem sýnir útbreiðslu háhraðatenginga á landinu.

    Nú er í gildi fjarskiptaáætlun fyrir árin 2005–2010. Framkvæmdaverkefni fjarskiptaáætlunar eru fjármögnuð af fjarskiptasjóði í samræmi við lög og reglugerð um hann. Eftirfarandi eru sérstaklega skilgeind framkvæmdaverkefni fjarskiptaáætlunar sem fjarskiptasjóði var falið að framfylgja:
    Verkefni 1.    Að allir landsmenn, sem þess óska, hafi aðgang að háhraðanettengingum.
    Verkefni 2.    GSM-farsímaþjónusta verði aðgengileg á þjóðvegi 1, öðrum helstu stofnvegum og á helstu ferðamannastöðum.
    Verkefni 3.    Dreifing sjónvarpsdagskrár Ríkisútvarpsins, auk hljóðvarps Rásar 1 og Rásar 2, til sjómanna á miðum við landið og til strjálbýlli svæða verði stafræn um gervihnött.
    Verkefni 1. 25. febrúar sl. var skrifað undir samning við Símann um uppbyggingu á háhraðanettengingum til þeirra rúmlega 1.700 staða sem samkvæmt upplýsingum sjóðsins hafa ekki aðgang að slíkri þjónustu á markaðslegum forsendum. Uppbygging er hafin og gerir verkáætlun ráð fyrir að um 500 staðir muni eiga kost á tengingu í lok ágúst á þessu ári, þ.e. að sala verði hafin á þeim stöðum. Verklok eru áætluð í nóvember 2010.
    Verkefni 2 og 3 er lokið.
    Endurskoðun fjarskiptaáætlunar er hafin og hefur m.a. verið haldinn vinnufundur með hagsmunaaðilum þar sem þeim var gefinn kostur að koma á framfæri þeim atriðum sem þeir telja að mestu máli skipti varðandi þróun fjarskipta á næstu árum. Á haustþingi verður svo lagt fram á Alþingi frumvarp um endurskoðaða samskiptaáætlun fyrir árin 2010–2013. Framhald uppbyggingar fjarskipta ræðst síðan m.a. af því að fjármagni sem fæst af fjárlögum til áframhaldandi stuðnings við uppbyggingu fjarskipta á landsbyggðinni.
    Varðandi ósk um yfirlit sem sýnir útbreiðslu háhraðanettenginga á landinu þá er því til að svara að unnið er að uppfærslu yfirlitsins og verður það gert aðgengilegt þegar þeirri vinnu lýkur.

     3.      Kemur til greina að mati ráðherra að kaupa upp minni sprotafyrirtæki sem af fórnfýsi og frumkvöðlaþrótti hafa byggt upp fjarskiptasambönd á einstökum svæðum, en eru nú talin vera fyrir „markaðslegri uppbyggingu“ fjarskipta á landsbyggðinni?

    Tekið er undir með fyrirspyrjanda að mörg minni og oft staðbundin fjarskiptafyrirtæki hafa haft mikla þýðingu fyrir uppbyggingu fjarskipta á einstökum landsvæðum. Þau hafa séð íbúum fyrir mikilvægum internettengingum í mörgum byggðarlögum. Aðkoma ríkisins að uppbyggingu fjarskipta er mörkuð með fjarskiptaáætlun sem fjármögnuð er af fjarskiptasjóði eins og áður var vikið að. Samkvæmt löggjöf um fjarskiptasjóð skal hann að undangengnu útboði, úthluta fjármagni til verkefna sem stuðla að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna, enda sé kveðið á um þau í fjarskiptaáætlun og ætla má að ekki verði ráðist í á markaðslegum forsendum
    Í undirbúningi útboðs fjarskiptasjóðs var óskað eftir að fyrirtæki gerðu grein fyrir þeim svæðum sem þau þjónuðu á markaðslegum forsendum. Í útboði fjarskiptasjóðs á háhraðanettengingum var tekið fullt tillit til markaðssvæða og markaðsáforma þessara aðila. Þau landsvæði sem þeir upplýstu um fyrir undirritun samnings að þeir þjónuðu á markaðslegum forsendum eru ekki með í útboðinu.
    Varðandi kaup á minni sprotafyrirtækjum þá er því til að svara að fjarskiptasjóði er ekki heimilt að úthluta fjármunum nema í kjölfar útboðs sem fyrr segir, að því tilskildu að markaðslegar forsendur séu ekki til staðar. Erfitt er að sjá að hægt sé að koma þessu við með öðrum hætti án þess að það varði samkeppnislög. Því verður ekki séð að forsendur séu til þess að kaupa upp minni sprotafyrirtæki með þeim hætti sem vikið er að í fyrirspurninni.