Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um almenningsbókasöfn

1976 nr. 50 25. maí


1. gr.
     Allar byggðir landsins skulu njóta þjónustu almenningsbókasafna, svo sem nánar er ákveðið í lögum þessum.
     Almenningsbókasöfn eru mennta-, upplýsinga- og tómstundastofnanir fyrir almenning. Þau skulu gefa fólki sem bestan kost á að lesa og færa sér í nyt bækur og veita afnot af nýsigögnum, svo sem hljómplötum, segulböndum og öðrum miðlunargögnum til fræðslu og dægradvalar.

2. gr.
     Almenningsbókasöfn eru: Bæjarbókasöfn (borgarbókasafn í Reykjavík), bæjar- og héraðsbókasöfn, héraðsbókasöfn, hreppsbókasöfn, bókasöfn í sjúkrahúsum, hælum, vistheimilum og fangahúsum.

3. gr.
     Landið skiptist í bókasafnsumdæmi.
     Bæjarbókasöfn starfa í kaupstöðum og skulu hafa útibú í bæjarhverfum eftir ástæðum.
     Bæjar- og héraðsbókasöfn starfa í kaupstöðum en rækja jafnframt bókasafnsþjónustu í byggðunum í kring. Héraðsbókasöfn eru aðalsöfn hvert í sínu umdæmi og skulu vera sem næst miðsvæðis.
     Bókasafnsumdæmi skulu ákveðin í reglugerð, svo og aðsetur héraðsbókasafna.

4. gr.
     Hreppsbókasöfn starfa í hreppum þar sem héraðsbókasöfn eru ekki. Í hverjum hreppi skal vera bókasafnsþjónusta en heimilt er að fela héraðsbókasafni að annast þessa þjónustu gegn lögboðnu fjárframlagi. Einnig geta tveir eða fleiri hreppar sameinast um rekstur bókasafns ef um það næst samkomulag.

5. gr.
     Heimilt er að sameina almenningsbókasafn og skólasafn og reka sameiginlega ef forráðamenn beggja telja slíkt æskilegt og menntamálaráðuneytið samþykkir.

6. gr.
     Í öllum sjúkrahúsum landsins, hælum, vistheimilum og fangahúsum skal vera bókasafn kostað og rekið af viðkomandi stofnun.
     Heimilt er að fela almenningsbókasafni í byggðarlaginu þessa þjónustu enda greiði stofnunin hæfilega þóknun fyrir að mati viðkomandi aðila. Nánari ákvæði um búnað og starfsemi þessara bókasafna skulu sett í reglugerð.

7. gr.
     Almenningsbókasöfn eru rekin af sveitarfélögum og kjósa sveitarstjórnir bókasafnsstjórnir. Þó er heimilt að gömul lestrarfélög starfi áfram á svipuðum grundvelli og verið hefur og í samráði við hreppsnefndir.

8. gr.
     Lágmarksfjárframlög sveitarfélaga til almenningsbókasafna skulu vera sem hér segir:
a.
Til bæjarbókasafns greiðir bæjarsjóður 1300 kr. á hvern íbúa kaupstaðarins.
b.
Til bæjar- og héraðsbókasafns greiðir bæjarsjóður 1300 kr. á hvern íbúa kaupstaðarins. Önnur sveitarfélög í umdæminu greiða 130 kr. á hvern íbúa og stendur [sveitarsjóður]1) skil á þessari greiðslu.
c.
Til héraðsbókasafns greiðir sveitarsjóður þar sem safnið er 1300 kr. á hvern íbúa hreppsfélagsins. Önnur sveitarfélög í umdæminu greiða til safnsins 130 kr. á hvern íbúa og stendur [sveitarsjóður]1) skil á þessari greiðslu.
d.
Til hreppsbókasafns greiðir viðkomandi hreppssjóður (hreppssjóðir) 1000 kr. á hvern íbúa hreppsins (hreppanna).

     Þessi lágmarksfjárframlög sveitarfélaganna skulu endurskoðuð árlega og færð til samræmis við verðlag í landinu samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þessarar greinar getur sveitarstjórn ákveðið annað lágmark ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, enda mæli félagsmálaráðuneytið með undanþágu hverju sinni.

1)L. 108/1988, 63. gr.


9. gr.
     Sveitarfélög reisa bókhlöður og búa þær nauðsynlegum húsbúnaði og tækjum, eftir því sem fé er til veitt. Heimilt er að kaupa eða leigja húsnæði fyrir söfnin.

10. gr.
     Menntamálaráðuneyti fer með málefni almenningsbókasafna. Sérstakur fulltrúi í ráðuneytinu annast málefni safnanna, og skal að öðru jöfnu ráða eða skipa í það starf bókasafnsfræðing með reynslu í starfi. Nánari ákvæði um starfsundirbúning hans og starfssvið skal setja í reglugerð. Heimilt er ráðherra að skipa sérstaka ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna. Í nefndinni skulu eiga sæti tveir fulltrúar, annar tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga, hinn tilnefndur af Bókavarðafélagi Íslands, og sé hann starfandi í almenningsbókasafni.

11. gr.
     Ríkissjóður greiðir árlega 12 milljónir króna í Rithöfundasjóð Íslands fyrir afnot bóka íslenskra höfunda í þeim söfnum sem þessi lög gilda um. Þessi fjárhæð skal endurskoðuð árlega til samræmis við verðlag, sbr. 8. gr.
     Sérstaka reglugerð skal setja um Rithöfundasjóð Íslands í samráði við Rithöfundasamband Íslands.1)

1)Rg. 84/1977.


12. gr.
     Við bæjarbókasöfn (borgarbókasafn í Reykjavík) og bæjar- og héraðsbókasöfn skal forstöðumaður (yfirbókavörður) að jafnaði vera bókasafnsfræðingur.
     Einnig skulu bókasafnsfræðingar að jafnaði hafa forgangsrétt til bókavarðarstarfa.
     Nánari ákvæði um menntun og starfsundirbúning starfsmanna almenningsbókasafna skal setja í reglugerð.

13. gr.
     Ráðherra setur reglugerð1) um starfsemi almenningsbókasafna. Skal reglugerðin samin í nánu samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga, að höfðu samráði við sérstaka fulltrúa Bókavarðafélags Íslands og Félags bókasafnsfræðinga, einn frá hvoru félagi.

1)Rg. 138/1978.


14. gr.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     ...

Ákvæði til bráðabirgða.
     Menntamálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga skulu sameiginlega gangast fyrir gerð heildaráætlunar um uppbyggingu og aðsetur almenningsbókasafna.