Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um Kennaraháskóla Íslands

1988 nr. 29 18. maí


I. kafli.
Hlutverk Kennaraháskóla Íslands.
1. gr.
     1. Kennaraháskóli Íslands er miðstöð kennaramenntunar hér á landi að því er tekur til grunnskólastigs og annast rannsóknir á sviði uppeldis- og kennslumála.
2.
Kennaraháskólinn annast menntun grunnskólakennara, þar með taldar forskóladeildir grunnskóla.
3.
Kennaraháskólanum er heimilt að annast uppeldis- og kennslufræðilega menntun framhaldsskólakennara sem hafa hlotið tilskilda menntun í kennslugrein annars staðar.
4.
Kennaraháskólinn annast endurmenntun með skipulegri fræðslu, kynningu á markverðum nýjungum í skóla- og uppeldismálum og stuðningi við nýbreytni- og þróunarstörf.
5.
Kennaraháskólinn annast framhaldsmenntun og viðbótarmenntun, einkum á sviði uppeldis- og kennslufræði.
6.
Kennaraháskólinn skal stuðla að því að kennaraefni temji sér fræðileg viðhorf og þann heildarskilning á nemendum og umhverfi þeirra er geri þá hæfa til að taka ábyrga afstöðu í starfi sínu og koma til móts við einstaklingsþarfir nemenda.
7.
Kennaraháskólinn skal leggja áherslu á rannsóknir á sviði skólastarfs við íslenskar aðstæður og stuðla með þeim hætti að þróun og umbótum í skólakerfinu.
8.
Setja skal í reglugerð ákvæði um samstarf Kennaraháskólans við Háskóla Íslands og aðrar menntastofnanir á sviði kennara- og uppeldismenntunar.


II. kafli.
Stjórn Kennaraháskólans.
2. gr.
     Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn Kennaraháskólans.
     Stjórn skólans er falin skólaráði, rektor, aðstoðarrektor, kennslustjóra og fjármálastjóra. Skólaráð hefur, svo sem lög mæla fyrir um og nánar segir í reglugerð, ákvörðunarvald í málefnum skólans og vinnur að þróun og eflingu þeirra. Rektor er yfirmaður stjórnsýslu skólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan skólans og utan. Rektor er forseti skólaráðs. Hann vinnur sérstaklega að stefnumótun í málefnum skólans og hefur yfirumsjón með starfsemi hans.
     Aðstoðarrektor, kennslustjóri og fjármálastjóri annast í umboði rektors eftirlit með daglegri starfsemi skólans.
     Aðstoðarrektor hefur í umboði rektors og skólaráðs umsjón með málum sem snerta rannsóknir og öðru því er rektor felur honum. Hann gegnir störfum rektors ef hann forfallast vegna veikinda eða fær leyfi frá störfum.
     Kennslustjóri hefur í umboði rektors og skólaráðs umsjón með málefnum er snerta kennslu og kennara.
     Fjármálastjóri hefur í umboði rektors og skólaráðs umsjón með fjárreiðum og starfsmannahaldi skólans. Hann hefur umsjón með gerð fjárhagsáætlunar skólans og framkvæmd hennar samkvæmt fjárlögum. Fjármálastjóri hefur heimild til að skuldbinda skólann fjárhagslega í umboði rektors eða skólaráðs.
     Heimilt er rektor í umboði skólaráðs að fela öðrum starfsmönnum skólans umsjón með tilteknum verkefnum. Nánar skal kveðið á um störf stjórnenda skólans í reglugerð.

3. gr.
     Rektor er kjörinn til fjögurra ára í senn. Kjörgengur er hver sá er uppfyllir hæfnisskilyrði 32. gr. um stöðu prófessors. Skipa skal dómnefnd til að meta hæfni þeirra er gefa kost á sér til rektorskjörs með sama hætti og um væri að ræða umsóknir um stöðu prófessors.
     [Atkvæðisrétt við rektorskjör eiga: Allir fastráðnir kennarar Kennaraháskólans og allir þeir sem fastráðnir eru eða settir til fulls starfs við Kennaraháskólann og hafa háskólapróf, skólastjóri Æfingaskóla Kennaraháskóla Íslands, tveir fulltrúar fastráðinna æfingakennara, fulltrúi lausráðinna kennara við Kennaraháskólann, allir nemendur sem skrásettir eru í skólann, þannig að greidd atkvæði nemenda gildi sem einn þriðji hluti allra greiddra atkvæða, en greidd atkvæði annarra atkvæðisbærra aðila skulu gilda sem tveir þriðju hlutar allra greiddra atkvæða.
     Endurkjósa má rektor einu sinni án lotuskila. Rektor skal kjörinn í janúarmánuði og tekur hann við störfum 1. ágúst á sama ári, utan hvað hann ber ábyrgð á tillögum til fjárlaga fyrir næsta ár eftir að hann var kjörinn, sbr. þó lokamálsgrein þessarar greinar.]1)
     [Sá er rétt kjörinn rektor sem hlotið hefur meiri hluta greiddra atkvæða. Ef enginn fær svo mörg atkvæði skal kjósa að nýju um þá tvo eða fleiri sem flest atkvæði fengu og er þá sá rétt kjörinn sem flest atkvæði fær. Séu atkvæði jöfn ræður hlutkesti. Í reglugerð skal kveða nánar á um tilhögun rektorskjörs.]2)
     Nú fellur rektor frá eða lætur af störfum áður en kjörtímabil hans er liðið og skal þá kjósa nýjan rektor svo fljótt sem því verður við komið, en aðstoðarrektor gegnir rektorsstörfum þangað til.

1)L. 122/1990, 1. gr.2)L. 46/1994, 1. gr.


4. gr.
     Í skólaráði eiga sæti: rektor, sjö fulltrúar kjörnir úr hópi fastráðinna kennara, einn fulltrúi kjörinn úr hópi lausráðinna kennara, einn fulltrúi kjörinn af starfsmönnum í a.m.k. hálfu starfi, öðrum en kennurum, tveir fulltrúar kjörnir af stjórnendum Æfingaskóla Kennaraháskóla Íslands og fastráðnum æfingakennurum hans, þrír fulltrúar nemenda kjörnir af nemendaráði.
     Skólaráð skal kjörið til þriggja ára í senn, að hluta ár hvert samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Fulltrúi lausráðinna kennara og fulltrúar nemenda skulu kjörnir til eins árs í senn. Með sama hætti skal kjósa varamenn fyrir hvern fulltrúa í skólaráði.
     Í reglugerð skal kveða nánar á um kjör fulltrúa í skólaráð.
     Aðstoðarrektor, kennslustjóri og fjármálastjóri eiga sæti á fundum skólaráðs og hafa þar málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.
     Nú hefur kjörinn fulltrúi í ráðinu ekki tök á að sækja fund og tekur þá varamaður hans sætið.
     Rektor er forseti skólaráðs, en aðstoðarrektor í forföllum hans. Aðstoðarrektor er ritari ráðsins.

5. gr.
     Skólaráð heldur fundi eftir þörfum. Óski fimm skólaráðsmenn fundar er rektor skylt að boða til hans.
     Skólaráð er ályktunarfært ef tveir þriðju hlutar atkvæðisbærra skólaráðsmanna sækja fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði forseta úr.

6. gr.
     Rektor eða skólaráð skulu boða til starfsmannafunda til umræðna um málefni Kennaraháskólans eða stofnana hans að minnsta kosti tvisvar á ári. Skylt er rektor að boða til slíks fundar ef stjórn kennarafélags eða starfsmannafélags skólans eða 1/3 hluti félagsmanna annars hvors félagsins æskir þess. Breytingar á námsskrám og formlegum starfsreglum skulu ætíð hljóta umsögn starfsmannafundar áður en þær eru afgreiddar í skólaráði. Allir kennarar skólans og aðrir fastir starfsmenn eiga rétt á að sækja fundi og njóta atkvæðisréttar þar. Ályktanir starfsmannafunda eru ekki bindandi fyrir skólaráð.

7. gr.
     Í reglugerð skal kveða á um skiptingu Kennaraháskólans í deildir. Heimilt er að fela tilteknum starfsmönnum skólans umsjón með deildum eða afmörkuðum verksviðum.

III. kafli.
Nemendur.
8. gr.
     Inntökuskilyrði í Kennaraháskóla Íslands eru:
1.
Almennt kennaranám: Stúdentspróf eða önnur próf við lok framhaldsskólastigs svo og náms- og starfsreynsla sem að mati skólaráðs tryggir jafngildan undirbúning. Í reglugerð skal kveða á um lágmarkskunnáttu í íslensku og heimilt er að setja sambærileg ákvæði um aðrar námsgreinar.
2.
Um inntökuskilyrði til náms í uppeldis- og kennslufræðum fyrir þá sem hljóta annars staðar tilskilda menntun í kennslugreinum fer eftir ákvæðum í reglugerð sem sett skulu að fengnum tillögum skólaráðs.
3.
Um inntökuskilyrði í viðbótar- eða framhaldsnám skal kveða á um í reglugerð og námsskrá að fengnum tillögum skólaráðs.

     Setja má í reglugerð nánari ákvæði um inntöku nemenda í skólann eða einstaka námsþætti.
     Inntaka nemenda er í höndum skólaráðs.

9. gr.
     Ákvæði um heilbrigðisskilyrði við skrásetningu nemenda má setja í reglugerð.
     Öllum skrásettum nemendum er skylt að ganga undir heilbrigðisrannsóknir eftir því sem skólaráð ákveður í samráði við heilbrigðisyfirvöld.

10. gr.
     Skólaráð getur veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu ef hann hefur gerst sekur um brot á lögum eða öðrum reglum skólans. Ákvörðun um brottrekstur getur nemandi skotið til úrskurðar menntamálaráðherra. Ekki má nemandi ganga undir próf meðan á málskoti stendur.
     Ætíð skal skólaráð leita álits nemendaráðs áður en brottvikning er ráðin. Veita skal nemanda kost á að svara til saka.
     Hljóti nemandi dóm fyrir refsivert brot er hefur flekkun mannorðs í för með sér skv. 2. gr. laga nr. 52/19591) er skólaráði heimilt að víkja honum úr skóla. Nemandi getur skotið þeirri ákvörðun til menntamálaráðherra með þeim hætti er segir í 1. mgr. Heimilt er skólaráði að víkja nemanda úr skóla til bráðabirgða meðan réttarrannsókn í slíku máli stendur yfir.

1)l. 80/1987.


11. gr.
     Tilkynni nemandi að hann sé hættur námi við skólann skal má nafn hans af nemendatali skólans. Sama máli gegnir hafi hann ekki stundað nám við skólann heilt kennsluár án gildra forfalla samkvæmt þeim kröfum sem gerðar eru um námsástundun.
     Ákveða skal tímamörk náms í reglugerð, bæði námsins í heild og færslu nemenda milli ára. [Deildarráð getur leyft undanþágu frá tímamörkum ef til þess eru gildar ástæður.]1)
     Heimilt er að áskilja í reglugerð að nemendur láti skrá sig til náms hvert kennsluár sem þeir stunda nám við skólann, enda falli þeir út af nemendatali ef þeir láta ekki skrá sig. Sömuleiðis er heimilt að ákveða skrásetningargjöld í reglugerð og hvernig þeim skuli varið.
     Skrásetningargjöld, pappírsgjöld og önnur efnisgjöld skulu háð samþykki skólaráðs. Ákvæði um eftirlit með námsástundun nemenda má setja í reglugerð.

1)L. 46/1994, 2. gr.


12. gr.
     Í Kennaraháskóla Íslands skal starfa nemendaráð er kjósi fulltrúa nemenda í skólaráð. Breytingar á námsskrám skulu hljóta umsögn nemendaráðs áður en þær eru afgreiddar í skólaráði. Enn fremur er það rektor til ráðuneytis í málefnum skólans. Skal það kosið af nemendum skólans til eins árs í senn.

IV. kafli.
Kennaranám.
13. gr.
     Almennt kennaranám í Kennaraháskólanum skal skipuleggja sem fjögurra ára nám sem lýkur með B.Ed.-prófi. Námið skal skipulagt í námseiningum og svari hver námseining til námsvinnu einnar viku. Hvert námsár er 30 starfsvikur og námið í heild því 120 námseiningar. Gefa skal árlega út kennsluskrá. Í reglugerð skal kveða á um annaskiptingu kennsluársins.

14. gr.
     ...1)
     [Um námsgreinar í almennu kennaranámi, skiptingu þeirra á svið og skipan æfingakennslu skal ákveða í reglugerð að fenginni tillögu skólaráðs Kennaraháskóla Íslands.
     Í námsskrá, er skólaráð setur að fengnum tillögum kennslustjóra, skal gerð grein fyrir námsskipan og kennsluháttum, svo og námsefni í einstökum greinum.]1)

1)L. 46/1994, 3. gr.


15. gr.
     Um nám í uppeldis- og kennslufræðum til kennsluréttinda á framhaldsskólastigi fyrir nemendur, sem hljóta tilskilda menntun í kennslugrein annars staðar, skal ákvarða í reglugerð.

16. gr.
     Að afloknu samfelldu námi og kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands skulu kennarar njóta a.m.k. eins árs leiðsagnar og þjálfunar í starfi.
     Kennaraháskóli Íslands hefur umsjón með leiðsögn kennara í samráði við fræðsluyfirvöld, þ.e. menntamálaráðuneyti og fræðsluskrifstofur, sem sjái um framkvæmd þessarar leiðsagnar í samræmi við 12. gr. laga nr. 63/1974, um grunnskóla.1)

1)l. 66/1995.


V. kafli.
Endurmenntun.
17. gr.
     Kennaraháskóli Íslands annast menntun kennara samhliða starfi þeirra. Kosta skal kapps um að móta og skipuleggja fjölþætta fræðslustarfsemi og kynna kennurum nýjungar í skóla- og menntamálum. Einnig skal Kennaraháskóli Íslands í samstarfi við fræðsluyfirvöld stuðla að þróun skólastarfs með því að veita fræðslu og ráðgjöf sem tekur mið af fræðilegri þekkingu, rannsóknum á skólastarfi, óskum skóla og staðbundnum aðstæðum.

18. gr.
     Endurmenntunarstjóri hefur í umboði rektors og skólaráðs umsjón með endurmenntun. Hann vinnur að stefnumótun og stýrir daglegri framkvæmd.

19. gr.
     Rektor og endurmenntunarstjóra til ráðuneytis um endurmenntun er endurmenntunarnefnd sem skipuð skal þannig að skólaráð tilnefnir tvo fulltrúa, samtök kennara á grunnskóla- og framhaldsskólastigi tilnefna tvo fulltrúa og menntamálaráðuneytið tilnefnir tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera úr hópi fræðslustjóra. Tilnefning er til fjögurra ára í senn.
     Rektor, eða fulltrúi hans, boðar til funda og stýrir þeim.

20. gr.
     Heimilt er rektor, að fengnum tillögum endurmenntunarstjóra, að ráða umsjónarmenn með tilteknum verkefnum á sviði endurmenntunar.

21. gr.
     Ákvæði um hvernig að þessari starfsemi skuli staðið, m.a. um samstarf við Háskóla Íslands og aðrar menntastofnanir, skal setja í reglugerð.

VI. kafli.
Framhaldsmenntun.
22. gr.
     Kennaraháskólanum er heimilt, að fengnu samþykki menntamálaráðherra, að stofna til framhaldsnáms er lýkur með æðri prófgráðu en B.Ed.- eða BA-gráðu.
     Setja skal í reglugerð ákvæði um með hvaða hætti framhaldsnám er skipulagt af skólans hálfu og hvernig stjórn þess skal hagað.

23. gr.
     Þegar stofnað er til framhaldsnáms við Kennaraháskólann á tilteknu sviði skal setja um það námsskrá og kennsluskrá þar sem meðal annars er kveðið á um umfang námsins, inntak þess, inntökuskilyrði og prófgráðu.

24. gr.
     Heimilt er Kennaraháskólanum, að fengnu samþykki menntamálaráðherra, að bjóða fram viðbótarnám er lýkur með sérstakri staðfestingu. Nám þetta má meta sem hluta framhaldsmenntunar eftir B.Ed.-gráðu að fullnægðum vissum skilyrðum.
     Setja skal í reglugerð ákvæði um með hvaða hætti viðbótarnám er skipulagt af skólans hálfu og hvernig stjórn þess skal hagað.
     Skilgreina skal í námsskrá og kennsluskrá inntökuskilyrði, inntak, markmið, umfang og námslok.

VII. kafli.
Rannsóknir.
25. gr.
     Heimilt er skólaráði, að fengnu samþykki menntamálaráðherra, að ákvarða um heildarskipulag og stjórnun rannsókna og útgáfustarfsemi innan Kennaraháskóla Íslands.
     Skólaráð skal setja reglur um ráðstöfun á rannsóknasjóðum sem Kennaraháskólinn hefur til umráða.

26. gr.
     Heimilt er að innan Kennaraháskólans starfi rannsóknastofnun. Kennarar skólans geta fullnægt rannsóknaskyldu sinni að nokkru eða öllu leyti með störfum í þágu stofnunarinnar. Heimilt er að ráða sérfræðinga til starfa við hana.
     Fela má rannsóknastofnuninni umsjón með útgáfustarfsemi á vegum Kennaraháskólans.
     Rannsóknastofnunin getur veitt kennurum og kennaraefnum ráðgjöf og fræðslu um framkvæmd rannsókna.
     Í reglugerð skal m.a. kveða á um starfssvið stofnunarinnar, stjórn, tengsl við skólaráð, samstarf við Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála og aðra aðila er rannsóknum sinna.

VIII. kafli.
Námsmat.
27. gr.
     Í reglugerð og námsskrám Kennaraháskólans skal setja ákvæði um námsmat. Kveða skal á um matsform, prófgreinar, próftíma, skiptingu fullnaðarprófs í fleiri en einn hluta, undirbúningspróf, einkunnir og annað er að námsmati lýtur.

28. gr.
     Ef nemandi stenst ekki próf, gengur frá því eftir að hann hefur byrjað próf eða kemur ekki til prófs og hefur ekki boðað gild forföll er honum heimilt að þreyta það einu sinni að nýju næst þegar prófið er haldið. [Deildarráð getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstaklega stendur á.]1)
     Í reglugerð má mæla fyrir um rétt nemenda, sem staðist hafa próf, til að endurtaka prófið.

1)L. 46/1994, 4. gr.


29. gr.
     Við munnleg og verkleg próf, sem teljast til lokaprófs og lokaritgerðar, þar á meðal B.Ed.-ritgerð, skal vera einn prófdómandi utan skólans. Skrifleg próf dæma hlutaðeigandi kennarar einir.
     Nemandi á rétt til þess að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar ef hann æskir þess bréflega innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemandinn þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til kennslustjóra. Skal þá prófdómari skipaður í hverju tilviki. Einnig getur kennari, telji hann til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstökum námsþáttum.
     Menntamálaráðherra skipar prófdómara að fengnum tillögum skólaráðs. Þá eina má skipa prófdómara sem lokið hafa viðurkenndu fullnaðarprófi frá háskóla eða sérkennaraskóla í þeirri grein sem prófdómari skal dæma. Prófdómarar skulu skipaðir til þriggja ára í senn nema skipun sé skv. 2. mgr. hér á undan.

30. gr.
     [Deildarráð metur, að höfðu samráði við kennslustjóra og hlutaðeigandi greinakennara, hvort viðurkenna skuli nám sem nemandi hefur lokið í öðrum háskóla eða sérkennaraskóla og að hvaða leyti.]1)

1)L. 46/1994, 5. gr.


IX. kafli.
Starfslið.
31. gr.
     Kennarar við Kennaraháskóla Íslands eru prófessorar, dósentar, lektorar, aðjúnktar og stundakennarar, auk kennara Æfingaskólans, sbr. X. kafla laganna.
     Um stofnun nýrra kennaraembætta fer eftir ákvörðun menntamálaráðherra, að fengnum tillögum skólaráðs, þegar fé er veitt til á fjárlögum.
     Prófessorar, dósentar og lektorar skulu vera þeir einir sem hafa kennslu og rannsóknir við Kennaraháskólann að aðalstarfi.
     [Heimilt er að tillögu skólaráðs að ráða dósent eða lektor tímabundið til allt að tveggja ára í senn. Um tilhögun slíkrar ráðningar skal setja ákvæði í reglugerð.]1)
     Aðjúnktar eru ráðnir til eins árs hið skemmsta og taka þeir mánaðar- eða árslaun. Stundakennarar eru ráðnir til eins árs eða skemmri tíma.
     Í hvert skipti er nýr kennari ræðst að skólanum skal afmarka stöðu hans með starfsheiti.
     Í reglugerð skal setja meginreglur um starfsskyldur fastráðinna kennara, m.a. um tengsl þeirra við grunnskóla. Ef þörf þykir leysir skólaráð úr því hvernig starfsskylda einstakra kennara skuli skiptast.

1)L. 150/1996, 12. gr.


32. gr.
     [ Ráðherra ræður prófessora, en rektor ræður dósenta og lektora.]1) Eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum ræður skólaráð aðjúnkta og stundakennara.
     Umsækjendur um [prófessorsstarf],1) dósents- og lektorsstöður skulu láta fylgja umsókn sinni rækilega skýrslu um háskólamenntun sína, vísindastörf og önnur störf, ritsmíðar og rannsóknir. Þann einan má [ráða]1) í þessar stöður sem auk fullgilds háskólaprófs hefur lokið prófi í uppeldis- og kennslufræðum eða er að öðru leyti talinn hafa nægilegan kennslufræðilegan undirbúning, enda hafi dómnefnd fjallað um umsóknir og metið umsækjanda hæfan til starfsins. Taka skal tillit til reynslu umsækjenda af kennslu og skólastarfi.
     [Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það hvort af vísindagildi rita umsækjenda og rannsókna, svo og námsferli þeirra og störfum, megi ráða að þeir séu hæfir til að gegna embættinu eða starfinu. Skólaráð fjallar um umsækjendur sem dómnefnd telur hæfa og eiga fulltrúar stúdenta þá ekki atkvæðisrétt. Engum má veita prófessorsembætti, dósentsstarf eða lektorsstarf við Kennaraháskóla Íslands nema meiri hluti dómnefndar telji hann hæfan og meiri hluti viðstaddra á skólaráðsfundi greiði honum atkvæði í embættið eða starfið. Ef fleiri umsækjendur en tveir eru í kjöri við atkvæðagreiðsluna og enginn þeirra hlýtur meiri hluta við fyrstu atkvæðagreiðslu skal kosið á ný milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Nú fellst menntamálaráðherra ekki á tillögu skólaráðs og skal þá auglýsa embættið eða starfið að nýju.]2)
     Enn fremur skal leita álits skólaráðs Kennaraháskóla Íslands um umsækjendur hvort heldur um er að tefla stöðu prófessors, dósents eða lektors.
     Heimilt er að kveða svo á í reglugerð að framangreind ákvæði skuli gilda við ráðningu sérfræðinga á sviði rannsókna, sbr. ákvæði 26. gr.
     Heimilt er að flytja lektor úr lektorsstöðu í dósentsstöðu og dósent úr dósentsstöðu í prófessorsstöðu samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

1)L. 150/1996, 13. gr.2)L. 46/1994, 6. gr.


33. gr.
     ...1)
     Rektor ræður aðstoðarrektor úr hópi fastra kennara.
     [Rektor ræður annað starfslið skólans en getið er um í 32. gr.]1) Kveða skal nánar á í reglugerð um starfssvið, ráðningartíma, réttindi og skyldur ofangreindra starfsmanna. Heimilt er að fjölga starfsheitum að fengnum tillögum skólaráðs og eftir því sem fé er veitt á fjárlögum.

1)L. 150/1996, 14. gr.


34. gr.
     Skólaráð veitir kennurum Kennaraháskólans reglubundin orlof samkvæmt kjarasamningum.
     Enn fremur getur menntamálaráðuneytið veitt fastráðnum starfsmanni Kennaraháskólans orlof um allt að eins árs skeið með föstum embættislaunum, enda liggi fyrir fullnægjandi greinargerð um hvernig starfsmaðurinn hyggst verja orlofinu til að auka þekkingu sína eða sinna sérstökum verkefnum. Leita skal umsagnar rektors um orlofsumsókn.
     Eftir því sem fjárlög heimila getur ráðuneytið veitt starfsmanni, sem orlof hlýtur, styrk til að standa straum af nauðsynlegum ferðalögum og námsdvöl í sambandi við orlofið.
     Ákvæði þessarar greinar taka einnig til fastráðinna starfsmanna Æfingaskólans, sbr. X. kafla laganna.
     Nánari reglur um orlof og styrkveitingar í því sambandi má setja í reglugerð.

X. kafli.
...1)

1)L. 66/1995, 57. gr.

XI. kafli.
Gildistaka og reglugerð.
43. gr.
     Menntamálaráðuneytið getur sett nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þessara laga.1)

1)Rg. 496/1990, sbr. 149/1990. Rg. 393/1996.


44. gr.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     ...

Ákvæði til bráðabirgða.
     [Ákvæði 13. gr. koma til framkvæmda innan 10 ára frá gildistöku laga nr. 29/1988 samkvæmt nánari ákvörðun menntamálaráðherra, nema annað hafi verið ákveðið með lögum.]1)

1)L. 46/1994, 7. gr.