Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um norrænan tækni- og iðnþróunarsjóð

1973 nr. 54 25. apríl


1. gr.
     Ríkisstjórninni er heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd samning ríkisstjórna Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um stofnun norræns tækni- og iðnþróunarsjóðs, sem gerður var í Osló 20. febrúar 1973. Texti samningsins fylgir lögum þessum og telst hluti af þeim, og skulu ákvæði hans hafa lagagildi hér á landi.

2. gr.
     Sjóðurinn er undanþeginn opinberum gjöldum og sköttum hér á landi.
     Sjóðurinn er undanþeginn stimpilgjöldum af lánum og öðrum fjárskuldbindingum, er hann kann að taka á sig hér á landi.

Fylgiskjal.
Samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um norrænan tækni- og iðnþróunarsjóð.
     Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafa ákveðið að stofna norrænan tækni- og iðnþróunarsjóð sem þátt í þróun samstarfs á sviði iðnaðar og hafa gert með sér svofelldan samning:
Markmið.
1. gr.
     Markmið sjóðsins er að styrkja og auka nýtingu á norrænum auðlindum á sviði tækni og iðnþróunar með því að efla og auka samstarf samningsaðilanna, svo og með því að styðja fjárhagslega framkvæmdir, sem hafa þýðingu fyrir tvö eða fleiri Norðurlandanna, og alþjóðlegar framkvæmdir, sem hafa þýðingu fyrir Norðurlönd í heild.

Fjármagn.
2. gr.
     Fjármagn sjóðsins, sem upphaflega er 10 milljónir sænskra króna, er framlag að upphæð 2,2 milljónir sænskra króna frá Danmörku, 1,6 milljónir sænskra króna frá Finnlandi, 0,1 milljón sænskra króna frá Íslandi, 1,6 milljónir sænskra króna frá Noregi og 4,5 milljónir sænskra króna frá Svíþjóð.
     Norræna ráðherranefndin kveður á eftir þörf um áframhaldandi fjárframlög til sjóðsins og um rétt sjóðsins til þess að veita fjárhagsábyrgðir umfram fyrirliggjandi fjármagn og veita margra ára stuðning, jafnframt því sem nefndin skiptir framlögum til sjóðsins milli samningsaðila.

Starfsvið.
3. gr.
     Ráðherranefndin ákveður almenna stefnuskrá og verkefnaröðun í starfsemi sjóðsins.
     Ráðherranefndin ákveður stofnskrá sjóðsins.

4. gr.
     Endurskoðandi þess ríkis, þar sem sjóðurinn er staðsettur, hefur eftirlit með fjármálum sjóðsins.
     Ráðherranefndin gefur Norðurlandaráði árlega skýrslu um starfsemi sjóðsins.

Lokaákvæði.
5. gr.
     Samning þennan skal fullgilda og skulu fullgildingarskjölin, svo skjótt sem við verður komið, afhent norska utanríkisráðuneytinu.
     Samningur þessi skal varðveittur í norska utanríkisráðuneytinu, sem sendir hverjum samningsaðila staðfest afrit.
     Samningurinn tekur gildi þann dag, er ráðherranefndin ákveður.

6. gr.
     Æski einhver samningsaðila að segja samningnum upp, skal skrifleg tilkynning um það send ríkisstjórn Noregs, er tafarlaust skal skýra hinum samningsaðilunum frá því, svo og hvenær tilkynningin hafi borist.
     Samningurinn fellur úr gildi við lok þess almanaksárs, er einhver samningsaðila segir honum upp, svo framarlega að uppsagnartilkynningin hafi borist norsku ríkisstjórninni eigi síðar en 30. júní það ár, en ella við lok næsta almanaksárs.

7. gr.
     Eftir viðtöku uppsagnartilkynningar skulu allir samningsaðilar hafa samráð sín á milli um niðurfellingu þeirra réttinda og skyldna, sem samningsaðilum voru fengin samkvæmt samningnum.
     ...