Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.
Lög um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar
1962 nr. 62 21. apríl
1. gr. [Síldarútvegsnefnd skipuleggur og hefur eftirlit með verkun saltaðrar síldar, svo og með útflutningi hennar, eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.
Nefndin skal skipuð átta mönnum til þriggja ára í senn, sem hér segir: Sameinað Alþingi kýs þrjá menn hlutfallskosningu, en ráðherra skipar fimm menn, eftir tilnefningu Alþýðusambands Íslands, Landssambands ísl. útvegsmanna, Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, Félags síldarsaltenda á Suðvesturlandi og einn eftir sameiginlegri tilnefningu tveggja síðast greindra félaga. Varamenn skulu kosnir og tilnefndir á sama hátt. Vanræki aðili tilnefningu aðalmanns eða varamanns í nefndina, skipar ráðherra þá án tilnefningar.
Ráðherra skipar formann og varaformann nefndarinnar úr hópi hinna þingkjörnu nefndarmanna, til eins árs í senn.
Séu atkvæði jöfn við atkvæðagreiðslu í nefndinni, ræður atkvæði formanns úrslitum.
Heimili síldarútvegsnefndar, varnarþing og aðalskrifstofa skal vera á Siglufirði, en nefndin skal einnig hafa skrifstofur í Reykjavík og á Austurlandi.
Nefndin ræður sér starfsfólk.
Ráðherra ákveður laun nefndarmanna, og greiðast þau af tekjum nefndarinnar.]1)
1)L. 54/1968, 1. gr.
2. gr. Tekjur síldarútvegsnefndar skulu vera 2% af fob-verði útfluttrar síldar og allt að 5% af rekstrarvörum til síldarsöltunar, sem nefndin hefur til sölumeðferðar. Árlegur tekjuafgangur nefndarinnar skal lagður í sérstakan sjóð í vörslu nefndarinnar. Sjóði þessum má eingöngu verja í þágu síldarútvegsins samkvæmt ákvörðun nefndarinnar og með samþykki ráðherra.
3. gr. Síldarútvegsnefnd veitir leyfi til söltunar á síld fyrir innlendan og erlendan markað með þeim skilyrðum, sem hún telur nauðsynleg til að tryggja sem best rétt hlutföll söltunar á hina einstöku markaði, góða verkun og geymslu síldarinnar. Hún hefur forgöngu um markaðsleit fyrir síld og annast um, að gerðar séu tilraunir með útflutning á síld, sem verkuð er með öðrum aðferðum en nú eru tíðkaðar, og annað það, sem orðið getur þeim til hagsbóta, sem vinna að framleiðslu saltaðrar síldar.
Heimilt er síldarútvegsnefnd að setja umráðamönnum skipa þeirra, er veiða síld til söltunar, reglur um meðferð síldarinnar um borð í skipunum og við löndun síldarinnar. Sé réttum reglum eigi hlýtt, getur nefndin svipt viðkomandi rétti til þess að leggja upp síld til söltunar um lengri eða skemmri tíma.
4. gr. Enginn má bjóða til sölu, selja eða flytja til útlanda saltaða síld, sem íslensk skip veiða, eða verkuð er hér á landi eða lögð á land verkuð, nema löggilding síldarútvegsnefndar komi til.
Eigi má afgreiða farmskírteini fyrir síldarsendingum til útlanda, nema ákvæðum 4. og 5. gr. sé fullnægt.
Söltuð síld í neytendaumbúðum, s.s. niðurlögð síld og niðursoðin, er undanskilin ákvæðum þessara laga, eins og nánar verður kveðið á um í reglugerð.
Þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar, er síldarútvegsnefnd heimilt að veita undanþágu fyrir smásendingum af síld, þegar sérstaklega stendur á.
5. gr. Síldarútvegsnefnd löggildir útflytjendur saltaðrar síldar með þeim skilmálum, sem nefndin telur nauðsynlega um löggildingartíma, framboð og lágmarksverð, um skiptingu markaðsstaða, útflutningstíma og annað það, sem tryggir sem öruggasta sölu saltsíldarframleiðslu landsmanna. Nefndin gerir þær ráðstafanir, sem hún telur við þurfa til að tryggja, að löggildingarskilmálum sé fullnægt.
Til þess að geta fengið löggildingu sem útflytjandi samkvæmt þessari grein, skal hlutaðeigandi fullnægja ákvæðum laga nr. 52 27. júní 1925,1) um verslunaratvinnu, og ráða yfir því lágmarksmagni saltsíldar, sem nefndin ákveður.
Með reglugerð má ákveða, að síldarútflytjendur skuli skyldir að taka síld til sölu af framleiðendum, gegn hæfilegri hámarksþóknun, enda sé síldin markaðshæf vara, og annað það, sem greiðir fyrir því, að allir síldarframleiðendur njóti sem fyllsts jafnréttis um sölu framleiðslu sinnar.
1)Nú l. 41/1968.
6. gr. Útflytjendur og síldarsaltendur eru skyldir að gefa nefndinni allar upplýsingar, sem hún óskar, um hvað eina, sem snertir söltun, sölu og útflutning síldar, og hefur nefndin frjálsan aðgang að verslunarbókum og skjölum þeirra hér að lútandi. Nefndin og starfsmenn hennar eru bundin þagnarheiti um viðskiptamál útflytjanda, er þau verða áskynja um á þennan hátt.
Skýrslur um síldarsöltun skulu sendar nefndinni daglega.
7. gr. Síldarútvegsnefnd er heimilt að takmarka síldarsöltun, ákveða hvenær söltun megi hefjast eða banna söltun um skemmri eða lengri tíma, ef nefndin telur slíkar ráðstafanir nauðsynlegar til að tryggja gæði saltsíldarinnar eða sölu hennar.
8. gr. Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum síldarútvegsnefndar, að veita heildarsamtökum síldarsaltenda eða síldarútvegsnefnd einkarétt til útflutnings á saltaðri síld eða einkarétt til útflutnings á saltaðri síld, sem verkuð er með tilteknum verkunaraðferðum eða seld til ákveðinna landa.
9. gr. Sé síldarútvegsnefnd eða heildarsamtökum síldarsaltenda veittur einkaréttur samkvæmt 8. gr., skal hver síldarsaltandi bera ábyrgð á gæðum sinnar síldar, en allir saltendur fá jafnt verð fyrir síld, sömu gæða, pökkunar og tegundar, enda sé síldin flutt út með leyfi nefndarinnar og fengist hafi fyrir hana eigi lægra verð en fyrirframselda síld af sambærilegum gæðum.
Greiða skal af óskiptu síldarandvirði, áður en jafnaðarverð er fundið, hæfilegt gjald að dómi síldarútvegsnefndar fyrir geymslu, pökkun og annan kostnað í sambandi við sérstaka verkun og meðferð síldarinnar.
10. gr. Ráðherra setur með reglugerð1) nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara.
1)Rg. 243/1968
, sbr. 199/1969 og 194/1991.
11. gr. Brjóti löggiltur útflytjandi eða söltunarleyfishafi gegn ákvæðum laga þessara eða fyrirmæla, sem sett eru samkvæmt þeim, getur síldarútvegsnefnd svipt hann þeim réttindum sínum, enda hafi hann ekki sinnt áminningu nefndarinnar.
Brot gegn lögum þessum og reglugerðum, settum samkvæmt þeim, skulu sæta meðferð opinberra mála og varða sektum ...,1) nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
1)L. 75/1982, 29. gr.