Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.
Lög um tryggingardeild útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð
1970 nr. 60 12. maí
1. gr. Stofna skal deild við Ríkisábyrgðasjóð, er nefnist tryggingardeild útflutningslána.
2. gr. Hlutverk tryggingardeildar er að taka að sér að tryggja lán, sem bankar eða aðrar lánastofnanir veita innlendum útflytjendum til fjármögnunar á útflutningslánum, sem þeir veita eða útvega erlendum kaupendum.
Enn fremur er tryggingardeild heimilt að tryggja aðrar kröfur íslenskra útflytjenda á hendur erlendum kaupendum, enda hafi þær orðið til vegna útflutnings á íslenskum vörum.
Þegar sérstaklega stendur á, er tryggingardeild einnig heimilt að tryggja samkeppnislán til innlendra aðila, er kaupa vélar og tæki, sem framleidd eru innanlands.
3. gr. Hámark skuldbindinga deildarinnar á hverjum tíma vegna trygginga á útflutningslánum eða öðrum kröfum má nema samtals 250 millj. króna, eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.
4. gr. Umsóknir um tryggingu á útflutningslánum skulu lagðar fyrir fjögurra manna nefnd, sem tekur afstöðu til umsóknanna auk þess sem hún ákveður, með hvaða kjörum tryggt er hverju sinni. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og Seðlabanka Íslands fyrir hönd Ríkisábyrgðasjóðs.
Nefndin ákveður iðgjöld af einstökum tryggingum eftir taxta, sem ákveðinn er skv. 6. gr. Einnig úrskurðar hún um tjónabætur, en skjóta má þeim úrskurði til fjármálaráðherra.
5. gr. Tryggingardeildin tryggir gegn áhættu, sem getur verið viðskiptalegs eða stjórnmálalegs eðlis. Í reglugerð skal setja nánari ákvæði um efni og eðli þeirra áhættuflokka, sem um getur verið að ræða.
6. gr. Fjármálaráðherra ákveður iðgjaldataxta tryggingardeildar. Iðgjöld skulu við það miðuð, að þau standi straum af kostnaði deildarinnar og greiðslu tjónabóta.
Tekjuafgangur leggst í sérstakan varasjóð deildarinnar og skal honum varið til greiðslu tjóna, sem kunna að verða. Nú er eigi fé fyrir hendi í varasjóði til greiðslu tjónabóta, og skal þá það, sem á vantar, greiðast úr Ríkisábyrgðasjóði.
7. gr. Fjármálaráðherra skal, að fenginni umsögn aðila þeirra, sem nefndir eru í 4. gr., setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.