Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um Orkubú Vestfjarða

1976 nr. 66 31. maí


1. gr.
     Ríkissjóði Íslands og sveitarfélögum á Vestfjörðum skal heimilt að setja á stofn orkufyrirtæki, er nefnist Orkubú Vestfjarða.

2. gr.
     Tilgangur fyrirtækisins skal vera að virkja vatnsafl og jarðhita á Vestfjörðum, þar sem hagkvæmt þykir. Skal Orkubú Vestfjarða eiga og reka vatnsorkuver og dísilraforkustöðvar til raforkuframleiðslu, ásamt nauðsynlegum mannvirkjum til raforkuflutnings og raforkudreifingar. Fyrirtækið skal eiga og reka jarðvarmavirki og reka fjarvarmakyndistöðvar ásamt nauðsynlegu dreifikerfi.
     Fyrirtækið skal annast virkjunarrannsóknir og aðrar undirbúningsrannsóknir eftir því sem ákveðið er hverju sinni.

3. gr.
     Orkubú Vestfjarða er sameignarfélag ríkisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum.
     Eignarhluti ríkissjóðs skal vera 40%, en eignarhlutir sveitarfélaganna skulu nema samtals 60%.
     Eignarhlutdeild sveitarfélaganna skiptist innbyrðis í hlutfalli við íbúatölu þeirra.
     Eignarhlutföllum verður ekki breytt nema til samræmis við íbúafjölda, sbr. 9. gr., og engum sameignarfélaga er heimilt að ganga úr fyrirtækinu án samþykkis allra sameigenda.
     Fyrirtækið er sjálfstæður réttaraðili og hefur sjálfstæðan fjárhag og reikningshald.
     Heimili þess og varnarþing er á Ísafirði.

4. gr.
     Sameigendur beri einfalda óskipta ábyrgð á skuldbindingum Orkubús Vestfjarða gagnvart kröfuhöfum. Innbyrðis skiptist ábyrgð samkvæmt eignarhlutföllum.

5. gr.
     Rafmagnsveitur ríkisins og ríkissjóður, svo og orkuveitur sveitarfélaga á Vestfjörðum skulu afhenda Orkubúi Vestfjarða til eignar sem stofnframlag öll mannvirki sín á Vestfjörðum í raforkuverum, rafstöðvum, kyndistöðvum og jarðvarmavirkjunum ásamt tilheyrandi flutnings- og dreifikerfi, enda yfirtaki fyrirtækið samkvæmt samkomulagi skuldir vegna mannvirkja þeirra, sem það tekur við.

6. gr.
     Iðnaðarráðherra veitir Orkubúi Vestfjarða einkaleyfi til þeirrar starfsemi, sem felst í tilgangi fyrirtækisins samkvæmt 2. gr. Ráðherra er þó heimilt, að fengnu áliti stjórnar Orkubús Vestfjarða, að ákveða, að rekstur einstakra orkumannvirkja skuli vera undanþeginn, svo sem bygging og rekstur mannvirkja til raforkudreifingar, jarðvarmaveitna og fjarvarmaveitna með kyndistöðvum innan þeirra sveitarfélaga, sem þess óska.

7. gr.
     Stjórn Orkubús Vestfjarða skal skipuð 5 mönnum. Á aðalfundi skulu fulltrúar sveitarfélaganna kjósa 3 menn og jafnmarga til vara. Iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra skulu skipa einn mann hvor og einn mann hvor til vara. Stjórnin skiptir með sér verkum.
     Undirskrift meiri hluta stjórnar bindur félagið.

8. gr.
     Stjórn Orkubús Vestfjarða hefur á hendi yfirstjórn á framkvæmdum fyrirtækisins og rekstri.
     Stjórn Orkubús Vestfjarða ræður framkvæmdastjóra, er veitir fyrirtækinu forstöðu. Framkvæmdastjóri skal annast allan daglegan rekstur fyrirtækisins. Skal hann eiga sæti á stjórnarfundum og hafa þar málfrelsi og tillögurétt, en eigi atkvæðisrétt.

9. gr.
     Aðalfund Orkubús Vestfjarða skal halda fyrir 1. júní ár hvert. Stjórnin boðar til aðalfundar með dagskrá og með tveggja vikna fyrirvara. Á aðalfundi eiga sæti fulltrúar sameignaraðila, sem fara með atkvæðisrétt í hlutfalli við eignarhlutdeild umbjóðenda sinna. Fyrir aðalfund skal leggja skrá um skiptingu eignarhlutdeildar sameignaraðila og atkvæðisrétt samkvæmt manntali 1. desember árið áður. Fulltrúar sveitarfélaganna fara með eitt atkvæði fyrir hvern íbúa í hverju viðkomandi sveitarfélagi. Fulltrúi ríkisins fer með atkvæðisrétt sem svarar til 40% heildaratkvæða. Afl atkvæða ræður á aðalfundi.
     Á aðalfundi skal fjalla um eftirgreind mál:
1.
Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra.
2.
Lagðir skulu fram til samþykktar endurskoðaðir reikningar félagsins.
3.
Kosning stjórnar skv. 7. gr.
4.
Kosning eins endurskoðanda, en fjármálaráðherra skal tilnefna annan. Varamenn skal velja með sama hætti.


10. gr.
     Stjórn Orkubús Vestfjarða setur gjaldskrá um verð á seldri orku til notenda.
     Gætt skal almennra arðsemissjónarmiða við setningu gjaldskrár.
     Gjaldskrá öðlast eigi gildi fyrr en hún hefur verið staðfest af iðnaðarráðherra og birt í Stjórnartíðindum eða Lögbirtingablaði.

11. gr.
     Heimilt er stjórn Orkubús Vestfjarða að taka lán til þarfa fyrirtækisins og taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni.
     Stjórnin getur ekki skuldbundið eignaraðila að því er varðar greiðsluskuldbindingar og ábyrgð á lánum til framkvæmda og breytinga á mannvirkjum, nema að fengnu samþykki þeirra. Þó þarf stjórnin ekki að leita slíks samþykkis, ef samanlagðar skuldbindingar og ábyrgðir, sem gengist er undir á hverju ári, eru minna en 10% af brúttótekjum fyrirtækisins á næstliðnu ári.

12. gr.
     Ríkisstjórninni er heimilt að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á lánum er Orkubú Vestfjarða tekur til orkuframkvæmda, að fjárhæð allt að 2500 m.kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Ábyrgðin skal vera með þeim kjörum og skilmálum, er ríkisstjórnin ákveður, og tekur hún jafnt til greiðslu afborgana, vaxta og annars kostnaðar.
     Ríkisstjórninni er einnig heimilt að taka lán, er kæmi að hluta eða öllu leyti í stað ábyrgðar skv. 1. mgr. Lánið endurlánar ríkisstjórnin Orkubúi Vestfjarða með þeim kjörum og skilmálum, sem hún ákveður.

13. gr.
     Orkubú Vestfjarða er undanþegið tekjuskatti, útsvari, aðstöðugjaldi, stimpilgjaldi og öðrum sköttum til ríkis, sýslu- og sveitarfélaga.

14. gr.
     Ráðherra getur heimilað Orkubúi Vestfjarða að taka eignarnámi jarðhitaréttindi, vatnsréttindi, lönd og mannvirki og önnur réttindi, sem nauðsynleg eru til framkvæmda samkvæmt lögum þessum. Um framkvæmd eignarnáms fer eftir lögum nr. 11/1973.

15. gr.
     Þegar eftir að heimild samkvæmt 1. gr. þessara laga er notuð, skal iðnaðarráðherra beita sér fyrir, að sameignarsamningur sé gerður milli aðila og stofnfundur fyrirtækisins haldinn samkvæmt reglum 9. gr. eftir því sem við á.
     Iðnaðarráðherra setur reglugerð,1) þar sem nánar skal ákveðið um framkvæmd þessara laga og starfsemi Orkubús Vestfjarða. Skal stjórn Orkubús Vestfjarða undirbúa reglugerðina í samráði við eignaraðila.

1)Rg. 192/1978.


16. gr.
     ...