Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.
Lög um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra
1986 nr. 48 2. maí
I. kafli.Starfsheiti.
1. gr. Rétt til að nota starfsheitið grunnskólakennari eða framhaldsskólakennari og til að starfa sem slíkur hér á landi við grunnskóla eða framhaldsskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra.
2. gr. Leyfi til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari skv. 1. gr. má aðeins veita þeim sem lokið hefur
- a.
- námi við Kennaraskóla Íslands ásamt fullgildum prófum;
- b.
- námi við Kennaraháskóla Íslands ásamt fullgildum prófum sem miðast við kennslu í grunnskóla;
- c.
- B.A.-prófi, B.S.-prófi eða cand. mag.-prófi frá Háskóla Íslands ásamt fullgildu námi í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda;
- d.
- námi við tónmenntakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík ásamt fullgildum prófum;
- e.
- námi við teiknikennaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands ásamt fullgildum prófum;
- f.
- námi við Íþróttakennaraskóla Íslands ásamt fullgildum prófum;
- g.
- námi við Hússtjórnarkennaraskóla Íslands ásamt fullgildum prófum;
- h.
- öðru jafngildu námi.
Leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari skv. 1. gr. má aðeins veita þeim sem lokið hefur
- a.
- námi á háskólastigi er jafngildir a.m.k. 120 námseiningum ásamt fullgildum prófum. Þar af skulu eigi færri en 30 einingar vera nám í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda og eigi færri en 60 einingar í sérgrein;
- b.
- námi í faggrein eða sérgrein ásamt fullgildum prófum frá skóla er menntamálaráðuneytið viðurkennir, auk þess námi í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda er jafngildir 30 einingum;
- c.
- námi við Íþróttakennaraskóla Íslands ásamt fullgildum prófum;
- d.
- öðru jafngildu námi.
Leyfi skv. 1. gr. má enn fremur veita þeim sem ekki uppfyllir skilyrði þessarar greinar en hefur verið skipaður í kennarastöðu eða skólastjórastöðu fyrir gildistöku laga þessara.
3. gr. Leiki vafi á hvort umsækjandi um leyfi til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari skv. 1. gr. fullnægi skilyrðum 1. mgr. 2. gr. skal leita úrskurðar matsnefndar sem menntamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Kennaraháskóla Íslands, einum fulltrúa tilnefndum af Bandalagi kennarafélaga og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
Leiki vafi á hvort umsækjandi um leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari skv. 1. gr. fullnægi skilyrðum 2. mgr. 2. gr. skal leita úrskurðar matsnefndar sem menntamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Háskóla Íslands, einum fulltrúa tilnefndum af Bandalagi kennarafélaga og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
Matsnefndir úrskurða einnig leiki vafi á hvort umsækjandi um kennslu- eða stjórnunarstarf fullnægi skilyrðum 4., 6., 7., 9. eða 10. gr.
Nám kennara skal metið í námseiningum og skal hver eining jafngilda námsvinnu einnar viku. Mat samkvæmt þessu kerfi skal staðfest af matsnefnd, sbr. 1. eða 2. mgr. þessarar greinar.
Matsnefndir leita upplýsinga og umsagna kennarasamtaka og sérfræðinga eftir því sem við á en starfssvið hennar og starfshætti skal skilgreina nánar í erindisbréfi.
II. kafli.Starfsréttindi.
4. gr. Til þess að vera skipaður, settur eða ráðinn kennari við grunnskóla skal umsækjandi hafa öðlast leyfi menntamálaráðherra til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari skv. 1. gr. og skal hann hafa lokið
- a.
- námi við Kennaraskóla Íslands ásamt fullgildum prófum;
- b.
- B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands eða öðrum jafngildum prófum sem miðast við kennslu í grunnskóla og jafngilda a.m.k. 90 einingum. Þar af skulu eigi færri en 30 einingar vera nám í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda og eigi færri en 30 einingar í sérgrein, valgrein eða á sérsviði;
- c.
- B.A.-prófi, B.S.-prófi eða cand. mag.-prófi frá Háskóla Íslands eða öðrum jafngildum prófum ásamt námi í uppeldis- og kennslufræði sem jafngildir a.m.k. 30 einingum. Skal við það miðað að þessir kennarar kenni sérgreinar sínar við grunnskóla;
- d.
- öðru jafngildu námi.
Til þess að vera skipaður, settur eða ráðinn kennari við grunnskóla í handmennt, myndmennt, tónmennt eða í heimilisfræðum skal umsækjandi hafa tekið viðkomandi grein sem valgrein í almennu kennaranámi eða lokið sérnámi í viðkomandi grein ásamt fullgildum prófum sem miðast við kennslu í grunnskóla. Námið skal jafngilda a.m.k. 90 einingum. Þar af skulu eigi færri en 30 einingar vera nám í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda og eigi færri en 30 einingar í sérgrein.
Til þess að vera skipaður, settur eða ráðinn kennari í íþróttum við grunnskóla skal umsækjandi hafa lokið
- a.
- námi við Íþróttakennaraskóla Íslands ásamt fullgildum prófum;
- b.
- öðru jafngildu námi.
Til þess að vera skipaður, settur eða ráðinn sérkennari nemenda með sérþarfir í almennum skólum á grunnskólastigi skal grunnskólakennari hafa lokið
- a.
- framhaldsnámi í sérkennslufræðum, 30 til 60 einingum eftir nánari ákvörðun Kennaraháskóla Íslands, ásamt fullgildum prófum;
- b.
- öðru jafngildu námi.
Til þess að vera skipaður, settur eða ráðinn sérkennari við sérdeildir eða skóla fyrir börn með sérþarfir skal grunnskólakennari hafa lokið
- a.
- 60 eininga framhaldsnámi í sérkennslufræðum ásamt fullgildum prófum;
- b.
- öðru jafngildu námi.
Heimilt er að setja kennara með fullgilt kennarapróf við sérdeildir eða skóla fyrir börn með sérþarfir um eins árs skeið til reynslu enda sérhæfi hann sig til starfsins ef hann óskar að starfa áfram við stofnunina.
5. gr. Engan skal skipa kennara við grunnskóla nema hann hafi gegnt kennslustarfi sem settur kennari við sama skóla eða hliðstæðan í a.m.k. eitt ár samtals með góðum árangri að mati hlutaðeigandi skólastjóra og skólanefndar.
6. gr. Til þess að vera skipaður, settur eða ráðinn til kennslustarfa við forskóla skal umsækjandi uppfylla skilyrði 4. gr. og jafnframt skilyrði 5. gr. ef um skipun er að ræða.
7. gr. Til þess að vera skipaður, settur eða ráðinn kennari við framhaldsskóla skal umsækjandi hafa öðlast leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari skv. 1. gr.
Til skipunar, setningar eða ráðningar í eftirtalin kennslustörf við framhaldsskóla gilda auk þess eftirtalin skilyrði:
- a.
- Kennari í íþróttum skal hafa lokið námi við Íþróttakennaraskóla Íslands eða öðru jafngildu námi.
- b.
- Kennari í list- og verkmenntagreinum skal hafa lokið námi við listaháskóla eða aðra sérskóla sem jafngildir a.m.k. 90 einingum ásamt fullgildum prófum. Þar af skulu eigi færri en 60 einingar vera nám í sérgrein.
- c.
- Kennari í sérgreinum eða faggreinum iðnfræðsluskóla skal hafa lokið prófi í tæknifræði eða öðru hliðstæðu námi með kennslugrein sína sem aðalgrein eða hafa meistararéttindi í þeirri iðngrein sem um er að ræða og hafa starfað í tvö ár sem tæknifræðingur eða meistari á sérsviði sínu.
- d.
- Kennari í sérgreinum stýrimannanáms skal hafa lokið 4. stigs prófi frá stýrimannaskóla og siglt eigi skemur en eitt ár sem fullgildur stýrimaður á farskipi eða varðskipi eða sem skipstjóri á fiskiskipi yfir 120 rúmlestir.
- e.
- Kennari í sérgreinum vélstjóranáms skal hafa lokið tæknifræði- eða verkfræðinámi sem tekur til þeirrar kennslugreinar sem viðkomandi á að annast kennslu í eða hafa lokapróf 4. stigs frá Vélskóla Íslands og hafa hlotið þá menntun sem krafist er til að öðlast ótakmörkuð vélstjórnarréttindi auk starfsreynslu og meistararéttinda.
- f.
- Kennari í sérgreinum heilbrigðisnáms skal hafa lokið námi hjúkrunarkennara ásamt fullgildum prófum frá skóla, sem menntamálaráðuneytið viðurkennir, eða öðru jafngildu námi.
- g.
- Kennari við hússtjórnarskóla eða í heimilisfræðum skal hafa lokið hússtjórnarkennaraprófi, handavinnukennaraprófi eða vefnaðarkennaraprófi í viðkomandi kennslugrein eða öðru jafngildu námi.
- h.
- Kennari við Íþróttakennaraskóla Íslands skal hafa lokið prófi frá viðurkenndum íþróttakennaraskóla að viðbættu framhaldsnámi í sérgrein sem menntamálaráðuneytið metur gilt.
- i.
- Kennari í myndlistar- og listiðnaðargreinum við Myndlista- og handíðaskóla Íslands eða aðra hliðstæða skóla skal hafa lokið námi sem menntamálaráðuneytið viðurkennir við listaskóla eða æðri sérskóla eða hafa með listferli sínum, starfsárangri og viðurkenningu sýnt að hann hafi hlotið jafngilda listræna menntun.
- j.
- Kennari í tónlistargreinum við tónmenntakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík skal hafa
- 1.
- tekið lokapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík eða öðrum hliðstæðum skóla og stundað a.m.k. tveggja til þriggja ára framhaldsnám í sérgrein, t.d. hljóðfæraleik, söng eða tónfræðum, eða sérhæft sig á einhverju sviði tónlistarkennslu;
- 2.
- lokið fullgildu prófi frá viðurkenndum erlendum tónlistarskóla (conservatoire) eða tónlistarháskóla;
- 3.
- sannað með listferli sínum, starfsárangri og viðurkenningu að hann hafi hlotið jafngilda listræna menntun.
- k.
- Kennari í sérgreinum við Hótel- og veitingaskóla Íslands skal hafa lokið framhaldsnámi við hótelskóla, sem menntamálaráðuneytið viðurkennir, og hafa tveggja ára starfsreynslu við hótelstörf eða skyldan rekstur.
- l.
- Kennari í sérgreinum við Fósturskóla Íslands skal hafa lokið prófi frá Fósturskóla Íslands eða sambærilegum skóla og a.m.k. eins árs viðurkenndu framhaldsnámi fyrir fóstrur. Einnig skal hann hafa unnið fósturstörf eigi skemur en þrjú ár.
- m.
- Sérkennari nemenda með sérþarfir skal hafa lokið framhaldsnámi í sérkennslufræðum, 30 til 60 einingum, ásamt fullgildum prófum.
8. gr. Engan skal skipa kennara við framhaldsskóla nema hann hafi gegnt kennslustarfi sem settur kennari við sama skóla eða hliðstæðan í a.m.k. eitt ár samtals með góðum árangri að mati hlutaðeigandi skólastjóra og skólanefndar.
9. gr. Til þess að vera settur skólastjóri við grunnskóla eða framhaldsskóla skal umsækjandi hafa kennsluréttindi á viðkomandi skólastigi.
Til þess að vera skipaður skólastjóri við grunnskóla eða framhaldsskóla skal umsækjandi hafa kennsluréttindi á viðkomandi skólastigi og hafa kennt þar í a.m.k. tvö ár, þar af a.m.k. eitt ár sem settur skólastjóri. Séu sérstök ákvæði í lögum um skólastjóra sérskóla skal umsækjandi einnig fullnægja þeim ákvæðum.
10. gr. Sé um að ræða setningu eða skipun kennara eða skólastjóra við skóla, sem ekki er sérstaklega tilgreindur í lögum þessum, skal matsnefnd skv. 3. gr., að höfðu samráði við hlutaðeigandi aðila, ákvarða með hliðsjón af lögum þessum hvaða menntunarkröfur sé eðlilegt að gera til fastra kennara og skólastjóra skólans. Hæfni umsækjenda til þess að gegna stöðu við skólann skal síðan metin með hliðsjón af niðurstöðum nefndarinnar.
III. kafli.Ráðningarreglur.
11. gr. Menntamálaráðuneytið skipar og setur kennara, yfirkennara og skólastjóra við grunnskóla og framhaldsskóla. Skólastjórar ráða stundakennara, sbr. 12. gr., með samþykki skólanefnda þar sem þær eru starfandi.
Um meðferð umsókna um kennslu- og stjórnunarstörf við grunnskóla vísast til IV. kafla laga nr. 63/1974, um grunnskóla.1)
Þegar fjallað er um umsóknir um kennslu- og stjórnunarstörf við framhaldsskóla skal leita umsagna skólastjóra og skólanefndar þar sem þær eru starfandi. Leita skal umsagnar skólanefndar ef um stöðu skólastjóra er að ræða.
Auglýsa skal öll laus kennslu- og stjórnunarstörf. Í auglýsingum skal m.a. tilgreina sérsvið, þ.e. aðalkennslugreinar og aldursstig nemenda. Nú er heimilt að ráða stundakennara skv. 12. gr. og getur skólastjóri þá ráðið grunnskólakennara eða framhaldsskólakennara án undangenginnar auglýsingar.
Sæki fleiri en einn kennari um sama starf og uppfylli allir umsækjendur þær kröfur sem gerðar eru skal við veitingu starfsins m.a. taka tillit til menntunar, kennsluferils, starfsaldurs, starfsreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjenda.
1)Nú l. 66/1995.
12. gr. Kennsla skal falin föstum kennurum eftir því sem við verður komið.
Stundakennara má þó ráða
- a.
- ef um er að ræða tímabundna heimild um stöðu frá menntamálaráðuneytinu eða viðkomandi fræðslustjóra;
- b.
- ef um er að ræða minna en hálfa stöðu;
- c.
- til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga;
- d.
- þann sem gegnir launuðu aðalstarfi öðru en kennslustarfi.
Stundakennara skv. a-, b- og d-liðum skal ráða með ráðningarsamningi eigi lengur en til eins árs í senn með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti.
13. gr. Óheimilt er að skipa, setja eða ráða til kennslu við grunnskóla, sérdeildir eða við skóla fyrir börn með sérþarfir á vegum opinberra aðila eða hliðstæða skóla aðra en þá sem uppfylla ákvæði laga þessara.
Nú sækir enginn grunnskólakennari samkvæmt lögum þessum um auglýst kennslustarf þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar og getur þá skólastjóri sótt um heimild til undanþágunefndar grunnskóla við menntamálaráðuneytið til að lausráða tiltekinn starfsmann til kennslustarfa til bráðabirgða, þó aldrei lengur en til eins árs í senn. Undanþágunefnd metur umsóknir og úrskurðar hvort heimila skuli að lausráða tiltekinn réttindalausan umsækjanda til kennslustarfa.
Ef hvorki skólastjóri, neinn skólanefndarmaður eða fræðslustjóri mælir með umsókn grunnskólakennara getur skólastjóri þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. leitað til undanþágunefndar grunnskóla og óskað eftir heimild nefndarinnar til að lausráða annan starfsmann.
Nú fæst heimild frá undanþágunefnd til að lausráða starfsmann skv. 2. eða 3. mgr. og skal hann þá ráðinn með sérstökum ráðningarsamningi til ákveðins tíma með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti. Slíkur starfsmaður má ekki bera starfsheitið grunnskólakennari og má ekki endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.
Verði ágreiningur í undanþágunefnd um heimild til lausráðningar samkvæmt þessari grein skal leita úrskurðar menntamálaráðherra.
Menntamálaráðherra skipar undanþágunefnd grunnskóla til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð þremur fulltrúum, einum fulltrúa tilnefndum af Bandalagi kennarafélaga, einum fulltrúa tilnefndum af Kennaraháskóla Íslands og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
Starfsreglur undanþágunefndar skal ákveða nánar í reglugerð.1)
1)Rg. 507/1986
.
14. gr. Óheimilt er að skipa, setja eða ráða til kennslu við framhaldsskóla á vegum opinberra aðila eða hliðstæða skóla aðra en þá sem uppfylla ákvæði laga þessara.
Nú sækir enginn framhaldsskólakennari samkvæmt lögum þessum um auglýst kennslustarf þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar og getur þá skólastjóri sótt um heimild til undanþágunefndar framhaldsskóla við menntamálaráðuneytið um að lausráða tiltekinn starfsmann til kennslustarfa til bráðabirgða, þó aldrei lengur en til eins árs í senn. Undanþágunefnd metur umsóknir og úrskurðar hvort heimila skuli að lausráða tiltekinn réttindalausan umsækjanda til kennslustarfa.
Ef hvorki skólastjóri né neinn skólanefndarmanna mælir með umsókn framhaldsskólakennara um kennslustarf getur skólastjóri þrátt fyrir ákv. 2. mgr. leitað til undanþágunefndar framhaldsskóla og óskað eftir heimild nefndarinnar til að lausráða annan starfsmann.
Nú fæst heimild frá undanþágunefnd til að lausráða starfsmann skv. 2. eða 3. mgr. og skal hann þá ráðinn með sérstökum ráðningarsamningi til ákveðins tíma með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti. Slíkur starfsmaður má ekki bera starfsheitið framhaldsskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.
Verði ágreiningur í undanþágunefnd um heimild til lausráðningar samkvæmt þessari grein skal leita úrskurðar menntamálaráðherra.
Menntamálaráðherra skipar undanþágunefnd framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð þremur fulltrúum, einum fulltrúa tilnefndum af Bandalagi kennarafélaga, einum fulltrúa tilnefndum af Háskóla Íslands og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt. Þegar fjallað er um málefni sérskóla skal kveðja til sérmenntaðan mann á því sviði sem um er að ræða.
Starfsreglur undanþágunefndar skal ákveða nánar í reglugerð.1)
1)Rg. 506/1986
.
15. gr. Kennari, sem hefur lokið fullgildu kennaraprófi fyrir gildistöku laga þessara eða hefur verið skipaður í kennarastöðu eða skólastjórastöðu fyrir sama tíma, heldur óskertum þeim réttindum sem hann hefur nú lögum samkvæmt.
16. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1987. ...
Grein til bráðabirgða. Þeir, sem fyrir gildistöku þessara laga hafa starfað sem settir kennarar sex ár eða lengur en fullnægja ekki skilyrðum laganna til starfsheitis og starfsréttinda, skulu eiga kost á því að ljúka námi á vegum Kennaraháskóla Íslands eða Háskóla Íslands til að öðlast slík réttindi. Um tilhögun námsins skal setja ákvæði í reglugerð.1)
Heimilt er að ráða eða setja þá, sem slíka starfsreynslu hafa að baki, í kennslustarf til eins árs í senn en þó ekki til lengri tíma en fjögurra skólaára samtals frá gildistöku laga þessara.
Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. má setja eða ráða sem framhaldsskólakennara þann sem hefur verið settur í sama starf í fjögur ár eða lengur og hefur lokið fullgildum prófum í kennslugrein þótt ekki hafi hann réttindi samkvæmt lögum þessum. Þessi undanþága gildir næstu fjögur ár eftir gildistöku laganna en til loka starfsævinnar ef um er að ræða kennara sem náð hefur 55 ára aldri við gildistöku laganna.
Lög þessi skal endurskoða innan fjögurra ára frá setningu þeirra.
1)Rg. 457/1987
.