Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um löggilta endurskoðendur

1976 nr. 67 31. maí


1. gr.
     Tilgangur laga þessara er að tryggja að til sé í landinu á hverjum tíma stétt manna sem hefur þekkingu til að gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikningsskilum til notkunar í viðskiptum.

2. gr.
     Ráðherra veitir löggildingu til endurskoðunar manni sem
1.
er búsettur hér á landi,
2.
er lögráða og hefur forræði fjár síns,
3.
hefur lokið brottfararprófi frá viðskiptadeild Háskóla Íslands með endurskoðun sem kjörsvið,
4.
hefur eftir 18 ára aldur unnið að alhliða endurskoðunarstörfum undir stjórn löggilts endurskoðanda samtals í þrjú ár, þar af a.m.k. eitt ár að loknu brottfararprófi frá viðskiptadeild, sbr. 3. tölul.,
5.
hefur staðist prófraun skv. 3. gr.

     Heimilt er að synja manni um löggildingu ef ákvæði 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga eiga við hagi hans.

3. gr.
     Sá sem öðlast vill löggildingu til endurskoðunar skv. 1. gr. skal ganga undir verklegt próf, sbr. 5. tölul. 2. gr., fyrir prófnefnd, er ráðherra skipar, enda fullnægi hann skilyrðum 1.–4. tölul. 2. gr. ...1)
     Ráðherra setur með reglugerð ákvæði um framkvæmd prófs, skipan prófnefndar og störf prófnefndarmanna.2)

1)L. 122/1984, 1. gr.2)Rg. 403/1989.


4. gr.
     Ráðherra er heimilt að veita manni, sem lokið hefur prófi eða hlotið hefur löggildingu endurskoðanda erlendis, undanþágu að nokkru leyti eða öllu frá ákvæðum 3., 4. og 5. tölul. 2. gr. enda mæli prófnefnd og/eða viðskiptadeild Háskóla Íslands með því, eftir því sem við á.

5. gr.
     Endurskoðandi skal fá um löggildingu sína skírteini er ráðherra gefur út.

6. gr.
     Þeim einum er heimilt að nefna sig „löggiltur endurskoðandi“ sem ráðherra hefur löggilt til endurskoðunar.
     Öðrum mönnum en löggiltum endurskoðendum er eigi heimilt að nota orðið endurskoðandi í starfsheiti sínu. Þá er og óheimil notkun starfsheitis sem til þess er fallið að vekja þá trú að maður sé löggiltur endurskoðandi, ef hann er það ekki.

7. gr.
     Löggiltir endurskoðendur hafa réttindi og skyldur opinberra sýslunarmanna, þ. á m. þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um í starfa sínum og leynt á að fara. Ráðherra getur sett nánari reglur um réttindi og skyldur löggiltra endurskoðenda og starfsmanna þeirra.

8. gr.
     Endurskoðandi, sem fær löggildingu samkvæmt lögum þessum, skal vinna svofellt heit: Því heiti ég og legg við drengskap minn og heiður að endurskoðunarstarf mitt skal ég rækja með kostgæfni og samviskusemi í hvívetna og halda lög og reglur sem að starfi mínu og framkvæmd þess lúta.

9. gr.
     Löggiltum endurskoðendum er skylt að tilkynna ráðherra í hvaða sveitarfélögum þeir reka skrifstofur.
     Starfræki löggiltur endurskoðandi, eða félagsskapur löggiltra endurskoðenda, skrifstofur í fleiri en einu sveitarfélagi skal hverri skrifstofu veitt forstaða af löggiltum endurskoðanda.

10. gr.
     Áritun löggilts endurskoðanda á reikningsskil þýðir, nema annað sé fram tekið með árituninni, að reikningsskilin og bókhaldið, sem þau eru byggð á, hafi verið endurskoðuð af honum og að reikningsskilin gefi, að hans mati, glögga mynd af hag og afkomu aðila og að bókhaldið sé fært eftir viðurkenndum bókhaldsreglum.

11. gr.
     Löggiltum endurskoðanda er óheimilt að framkvæma endurskoðun hjá þeim stofnunum og fyrirtækjum þar sem hann er, að öllu leyti eða að hluta, ábyrgur fyrir skuldbindingum viðkomandi stofnana eða fyrirtækja.
     Þá má hann ekki vera í stjórn eða fulltrúanefnd, framkvæmdastjóri eða starfsmaður viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis.
     Hann má heldur ekki vera undir stjórn eða á annan hátt háður stjórnarmönnum, framkvæmdastjóra, prókúruhafa eða þeim starfsmönnum sem annast eða hafa eftirlit með bókhaldi og fjármálum.
     Hann má ekki vera maki þessara aðila, skyldur þeim eða tengdur að feðgatali eða niðja, fyrsta lið til hliðar, kjörforeldri þeirra eða kjörbarn, fósturforeldri eða fósturbarn.
     Hann má ekki vera fjárhagslega háður viðkomandi stofnun eða fyrirtæki.

12. gr.
     Nú ákveður dómari að endurskoðun bókhalds eða reikninga skuli fram fara og skal þá til þess starfa kveðja löggiltan endurskoðanda, ef hans er kostur.

13. gr.
     Ráðherra ákveður að fengnum tillögum Álitsnefndar Félags löggiltra endurskoðenda hvort endurskoðunarstarf samrýmist öðru starfi eða starfrækslu fyrirtækis. Nú gegnir löggiltur endurskoðandi öðru starfi eða rekur atvinnufyrirtæki andstætt fyrirmælum ráðherra og getur ráðherra þá svipt endurskoðanda löggildingu sinni.

14. gr.
     Nú missir löggiltur endurskoðandi lögmæt skilyrði til löggildingar eða til endurskoðunarstarfa samkvæmt löggildingu, sbr. 13. gr., og fellur þá úr gildi löggilding hans, enda ber honum þá að skila aftur löggildingarskírteini sínu. Ef hann síðar fullnægir lagaskilyrðum skal ráðherra, að fengnum tillögum Álitsnefndar Félags löggiltra endurskoðenda, veita honum löggildingu að nýju.

15. gr.
     Nú sætir löggiltur endurskoðandi ákæru í opinberu máli um brot á refsilögum og ber þá ákvörðun um sviptingu löggildingar hans af því efni, eftir kröfu ákæruvalds, undir dómara þess máls.
     Ákvörðun um sviptingu löggildingar vegna atvika, sem eigi leiða til ákæru ber undir ráðherra. Nú vill endurskoðandi ekki una úrlausn ráðherra og getur hann þá borið sakarefnið undir dómstóla. Fer um meðferð þess máls að hætti opinberra mála. Ákvörðun ráðherra í málinu skal halda gildi uns dómur gengur.

16. gr.
     Allur kostnaður af framkvæmd laga þessara, þ. á m. þóknun prófnefndarmanna, er ráðherra ákveður, greiðist úr ríkissjóði.

17. gr.
     Brot gegn lögum þessum og reglum, sem settar verða samkvæmt þeim, varðar ...1) sekt til ríkissjóðs, nema þyngri hegning liggi við að öðrum lögum.

1)L. 10/1983, 47. gr.


18. gr.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. ...