Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.
Lög um veitingu prestakalla
1987 nr. 44 30. mars
I. kafli.Um val á sóknarpresti.
1. gr. Þegar prestakall losnar og prestur er eigi kallaður til embættis, sbr. 7. gr., auglýsir biskup kallið með hæfilegum umsóknarfresti.
2. gr. Að liðnum umsóknarfresti sendir biskup prófasti hlutaðeigandi prófastsdæmis, sé hann eigi umsækjandi, svo og sóknarnefndarmönnum prestakallsins skrá yfir þá er sótt hafa, ásamt skýrslu um aldur þeirra, náms- og embættisferil og störf. Jafnframt sendir hann prófasti nægilega marga atkvæðaseðla með nöfnum umsækjenda og felur honum að boða kjörmenn prestakallsins á sameiginlegan fund innan tiltekins tíma.
Kjörmenn eru sóknarnefndarmenn og varamenn þeirra.
Sé prófastur héraðsins umsækjandi um kallið nefnir biskup til annan prófast í hans stað.
3. gr. Kjörmannafundur er lokaður og stýrir prófastur honum.
Á fundinum skulu umsóknir ásamt umsögnum biskups liggja frammi til athugunar og eru umsagnirnar algjört trúnaðarmál.
Að lokinni athugun gagna fer fram val á umsækjanda þegar á þeim fundi eða í síðasta lagi innan tveggja sólarhringa ef ósk um frestun kemur fram frá kjörmanni eða prófasti.
Atkvæðagreiðslan er leynileg.
Prófastur afhendir hverjum kjörmanni atkvæðaseðil og setur kjörmaður kross fyrir framan nafn þess er hann velur. Að loknu vali eru atkvæði talin á kjörmannafundi. Ef umsækjandi er einn telst val hans bindandi hafi hann hlotið 2/3 atkvæða.
Ef umsækjendur eru fleiri nægir helmingur atkvæða.
Nú eru umsækjendur þrír eða fleiri og enginn hefur hlotið helming greiddra atkvæða og skal þá endurtaka valið bundið þannig að sá sem fæst atkvæði hefur hlotið við síðustu atkvæðagreiðslu fellur úr.
Nú er valið milli tveggja umsækjenda og hvorugur hlýtur helming greiddra atkvæða og er þá valið ekki bindandi.
Nú vill meiri hluti kjörmanna hafna umsækjendum með því að skila auðum atkvæðaseðlum og er þá ráðherra óheimilt að veita embættið.
4. gr. Að loknum kjörmannafundi skal prófastur hlutast til um að sóknarnefnd eða nefndir hlutaðeigandi prestakalls kynni á almennum safnaðarfundi eða á annan sannanlegan hátt, innan sjö daga frá því að fundi lauk, hver hafi verið valinn eða hverjir hafa hlotið flest atkvæði sé valið eigi bindandi.
5. gr. Nú berst skrifleg ósk um það frá minnst 25 af hundraði atkvæðisbærra sóknarbarna í prestakallinu, innan sjö daga frá því að niðurstöður voru kynntar, sbr. 4. gr., að almennar prestskosningar fari fram í prestakallinu og er þá skylt að verða við því. Fjöldi atkvæðisbærra manna miðast við þá sem eru skráðir í þjóðkirkjuna í prestakallinu samkvæmt þjóðskrá 1. desember næstan á undan. Ef ágreiningur rís um hvort almenn kosning eigi að fara fram úrskurðar yfirkjörstjórn, sbr. 9. gr., um það. Framkvæmd kosningar fer fram eftir ákvæðum III. kafla laga þessara.
6. gr. Nú er ekki óskað eftir almennum kosningum, sbr. 5. gr., og skal þá prófastur senda biskupi afrit af gerðabók kjörmannafundar ásamt staðfestingu þess að niðurstöður hafi verið kynntar, sbr. 4. gr.
Biskup sendir kirkjumálaráðherra niðurstöður kjörmannafundar ásamt umsögn sinni.
Ráðherra veitir þeim embættið sem hlotið hefur bindandi val en ákvarðar að öðrum kosti veitingu, að fenginni tillögu biskups.
II. kafli.Um köllun.
7. gr. Heimilt er kjörmönnum að kalla prest.
Ef 3/4 kjörmanna prestakallsins eru einhuga um að kalla tiltekinn prest eða guðfræðikandídat án umsóknar gera þeir prófasti viðvart um það í tæka tíð en hann tilkynnir biskupi sem felur þá prófasti að boða kjörmenn prestakallsins á sameiginlegan fund innan viku og er þá embættið eigi auglýst.
Samþykki 3/4 kjörmanna að kalla tiltekinn mann til embættis sem lögum samkvæmt á rétt til prestsembættis í íslensku þjóðkirkjunni skal biskup birta köllunina þeim presti eða kandídat sem í hlut á. Taki hann köllun skal veita honum embættið tímabundið en eigi lengur en til fjögurra ára í senn.
III. kafli.Um kosningu.
8. gr. Jafnskjótt og prófastur hefur fengið í hendur óskir frá lögboðnum fjölda atkvæðisbærra manna í prestakallinu um almenna kosningu, sbr. 5. gr., skal hann hefja kosningarundirbúning.
Biskup ákveður í samráði við prófast hvenær kosning skuli fara fram. Biskup annast prentun kjörseðla. Sendir hann prófasti hæfilegan fjölda kjörseðla. Prófastur sendir síðan kjörstjórnum. Á kjörseðla skal prenta nöfn umsækjenda í stafrófsröð.
Prófastur auglýsir hvenær og hvar kosning skuli fara fram og hverjir séu í kjöri. Nú er prófastur í kjöri og tilnefnir þá biskup annan í hans stað. Í prestakalli, þar sem eru fleiri en ein sókn, skal kosning fara fram í öllum sóknum á sama degi.
9. gr. Í hverri sókn skal vera kjörstjórn skipuð þremur mönnum, kjörnum af sóknarnefnd á fyrsta fundi eftir hverjar kosningar til sóknarnefndar. Sóknarnefnd kýs formann kjörstjórnar.
Heimilt er sóknarnefnd að skipta sókn í kjördeildir. Skal þá kjósa þriggja manna undirkjörstjórnir er annist framkvæmd kosninga í hverri kjördeild. Enn fremur er sóknarnefndum heimilt að sameinast um kjördeild að fengnu samþykki prófasts.
10. gr. Í hverju prófastsdæmi skal vera yfirkjörstjórn skipuð prófasti og tveimur mönnum kjörnum af héraðsfundi til fjögurra ára í senn ásamt jafnmörgum varamönnum. Að jafnaði skal vera löglærður maður í yfirkjörstjórn.
11. gr. Kjörstjórn annast gerð kjörskrár í hverri sókn. Skal hún lögð fram eigi síðar en fjórum vikum fyrir kjördag.
Kjörskrá skal liggja frammi til sýnis hið minnsta í tvær vikur á hentugum stað er kjörstjórn auglýsir samkvæmt því sem venja er að birta opinberar auglýsingar á þeim stað.
12. gr. Hver sá, sem kæra vill að einhvern vanti á kjörskrá eða sé ofaukið þar, þarf að hafa afhent formanni kjörstjórnar kæru sína, ásamt rökum og gögnum máli sínu til stuðnings, eigi síðar en tveimur vikum fyrir kjördag. Sé kæran um það að einhver sé á skrá tekinn sem ekki hafi rétt til að standa þar skal formaður senda þeim sem yfir er kært eftirrit af kærunni.
13. gr. Aðfinnslum þeim við kjörskrána, sem fram eru komnar, skal hlutaðeigandi kjörstjórn úrskurða í síðasta lagi viku fyrir kjördag. Skal gefa þeim, er kæran varðar, kost á að tjá sig og koma að gögnum áður en kæran er úrskurðuð.
Úrskurði kjörstjórnar má áfrýja til yfirkjörstjórnar. Hún skal hafa úrskurðað fram komnar kærur degi fyrir kjördag. Eftir þetta verður engin breyting gerð á kjörskránni.
14. gr. Á kjörskrá skal taka þá sem voru í íslensku þjóðkirkjunni og áttu lögheimili í prestakallinu 1. desember næstan á undan og hafa náð 16 ára aldri þegar kosning fer fram, sbr. 7. og 10. gr. laga nr. 25/1985.
15. gr. Þeir sem staddir eru eða gera ráð fyrir að vera staddir utan sinnar sóknar þegar kosning fer fram og af þeim sökum geta ekki sótt kjörfund hafa heimild til að greiða atkvæði utan kjörfundar samkvæmt þeim reglum sem settar eru í lögum þessum.
16. gr. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram hjá formönnum kjörstjórna eða öðrum úr kjörstjórn er formaður tilnefnir.
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar getur hafist þá er tvær vikur eru til kjördags.
Kjörstjórn auglýsir í samráði við prófast hvar og hvenær atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fari fram.
Heimilt er að binda atkvæðagreiðslu við ákveðinn tíma á degi hverjum, þó eigi skemur en klukkustund. Tilgreina skal í fundargerðabók hverjir greiði atkvæði utan kjörfundar.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið ákveður gerð atkvæðaseðla fyrir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og kveður nánar á um framkvæmd hennar.
17. gr. Þegar að lokinni kosningu sendir kjörstjórn yfirkjörstjórn kjörkassa, fundargerðir og önnur kjörgögn. Talning atkvæða fer fram hjá yfirkjörstjórn er hún hefur fengið öll kjörgögn í hendur. Yfirkjörstjórn tilkynnir biskupi úrslit kosningar og sendir honum afrit úr gerðabók. Biskup sendir kirkjumálaráðherra úrslitin ásamt umsögn sinni.
Hafi helmingur kjósenda í prestakallinu greitt atkvæði og fái einhver umsækjenda meiri hluta greiddra atkvæða er kosningin bindandi og fær kjörinn prestur veitingarbréf ráðherra fyrir prestakallinu. Að öðrum kosti ákvarðar ráðherra veitinguna.
18. gr. Nú er aðeins einn umsækjandi í kjöri og fer þá fram kosning með sama hætti. Kjósendur, sem hafna vilja honum, skila auðum atkvæðaseðli.
Greiði helmingur kjósenda atkvæði en umsækjandi fær ekki fullan helming greiddra atkvæða er óheimilt að veita honum embættið.
19. gr. Prestskosningar má kæra skriflega fyrir yfirkjörstjórn innan viku frá því að kosning fór fram. Getur yfirkjörstjórn ógilt kosninguna og fyrirskipað nýja ef verulegir gallar eru á undirbúningi eða framkvæmd hennar.
Áður en yfirkjörstjórn úrskurðar skal hún leita umsagna kjörstjórna. Úrskurði yfirkjörstjórnar má áfrýja til nefndar er í eiga sæti biskup og tveir menn tilnefndir af kirkjumálaráðherra.
20. gr. Með þeim frávikum, sem lög þessi ákveða og eftir því sem við getur átt, skulu lög um kosningar til Alþingis, nr. 52 frá 14. ágúst 1959,1) gilda um framkvæmd prestskosninga.
1)Nú l. 80/1987.
21. gr. ...
22. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða. Lög þessi skal endurskoða innan fimm ára frá gildistöku þeirra.