Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

1971 nr. 45 16. apríl


[I. kafli.
Um Stofnlánadeild landbúnaðarins.]
1)

1)L. 68/1973, 1. gr.

1. gr.
     [Stofnlánadeild landbúnaðarins er deild í Búnaðarbanka Íslands. Um samband Stofnlánadeildarinnar við aðrar deildir bankans fer eftir lögum um Búnaðarbanka Íslands og ákvæðum þessara laga.
     Hlutverk Stofnlánadeildar landbúnaðarins er að efla framleiðslu og framleiðni í íslenskum landbúnaði og treysta byggð í sveitum landsins. Hún veitir fjármagn til framkvæmda á sveitabýlum og til þjónustufyrirtækja landbúnaðarins, svo sem nánar er tilgreint í lögum þessum.
     Landbúnaðarráðherra hefur yfirstjórn þeirra mála, er lög þessi taka til.]1)

1)L. 68/1973, 1. gr.


2. gr.
     [Stjórn Búnaðarbanka Íslands hefur á hendi stjórn Stofnlánadeildar. Þegar bankaráð tekur til meðferðar og ákvörðunar málefni Stofnlánadeildar eða Byggingastofnunar landbúnaðarins, [skulu tveir fulltrúar frá Bændasamtökum Íslands]1) taka sæti í bankaráði Búnaðarbanka Íslands sem fullgildir bankaráðsmenn. Fulltrúar þessir og varamenn þeirra skulu tilnefndir til fjögurra ára í senn, í fyrsta sinn gildir sú tilnefning til 31. desember 1976.]2)

1)L. 73/1996, 13. gr.2)L. 68/1973, 1. gr.


3. gr.
     [Bankaráð skal ráða deildinni forstöðumann og ákveður starfssvið hans með erindisbréfi. Forstöðumaður gerir tillögur til bankastjórnar um lánveitingar deildarinnar samkvæmt reglum, sem settar verða samkvæmt lögum þessum.
     Verði ágreiningur um einstakar lánveitingar milli bankastjórnar og forstöðumanns, getur forstöðumaður skotið þeim ágreiningi til bankaráðs til endanlegrar ákvörðunar.]1)

1)L. 68/1973, 1. gr.


4. gr.
     [Tekjur deildarinnar eru:
1.
[Framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.]1)
2.
...2)
3.
Gjald á óniðurgreitt heildsöluverð landbúnaðarvara, er nemi 1%. Gjald á vörur, sem ekki eru verðlagðar af sexmannanefnd, skal miða við áætlað heildsöluverð. Heimilt er landbúnaðarráðherra að ákveða endurgreiðslu þessa gjalds eða niðurfellingu þess við útflutning afurða, sem ekki njóta útflutningsbóta úr ríkissjóði eða þegar útflutningsbætur hrökkva ekki lengur til. Sölusamtök framleiðenda og aðrir seljendur á heildsölustigi skulu standa skil á gjöldunum. Gjald þetta nær til allra sömu vörutegunda og gjald skv. 2. tölul. þessarar greinar.

Innheimta skal sama gjald af innfluttum kartöflum og tekið er af kartöflum framleiddum innanlands.

4.
Jöfnunargjald 1%, er skal reikna og innheimta á sama hátt og segir í 3. tölul.
5.
...1)
6.
Vaxtatekjur.

     Framleiðsluráð landbúnaðarins annast innheimtu á gjöldum skv. 2., 3. og 4. tölul. þessarar greinar og skal innheimta og álagning gjaldanna fara fram samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.]3)

1)L. 144/1995, 6. gr.2)L. 41/1990, 8. gr.3)L. 41/1982, 1. gr.


5. gr.
     [Stofnlánadeildin veitir lán til eftirtalinna verkefna:
1.
Til jarðakaupa.
2.
[Til að breyta í föst lán lausaskuldum bænda vegna fjárfestingar í búrekstri á jörðum þeirra, svo og lausaskuldum vegna jarðakaupa, véla-, bústofns- og fóðurkaupa, eins og nánar greinir í 12. gr. þessara laga.]1)
3.
Til ræktunar, útihúsa, vatnsveitna og varmaveitna og annarra mannvirkja, er varða landbúnað, þar með talin ylrækt, loðdýrarækt og lax- og silungseldi.
4.
Til vinnslustöðva landbúnaðarafurða.
5.
Til heykögglaverksmiðja og heyþurrkunarstöðva, viðgerðarverkstæða fyrir landbúnaðarvélar og annarra verkstæða, er veita þjónustu fyrir viðkomandi sveitir; til bústofnskaupa, búvéla og þungavinnuvéla búnaðar- og ræktunarsambanda.]2)

1)L. 37/1986, 1. gr.2)L. 68/1973, 1. gr.


6. gr.
     [Stjórn Stofnlánadeildar setur henni útlánareglur, sem landbúnaðarráðherra staðfestir. Þær skulu miða að því, að fjárfestingarlán til landbúnaðarins og þjónustufyrirtækja hans stuðli að þeirri þróun, sem æskilegust er fyrir atvinnuveginn og þjóðarbúið í heild.
     Lánareglur deildarinnar skulu miðaðar við það, að bændur, sem hafa minna en verðlagsgrundvallarbú, en hafa möguleika til að ná aukinni hagkvæmni með stækkun búanna, njóti hagkvæmustu lánakjara til umbóta á jörðum sínum, að því marki, að náð sé bústærð, sem svarar einu og hálfu verðlagsgrundvallarbúi, eins og það er á hverjum tíma.
     Þegar um viðurkenndan félagsbúskap er að ræða, nýtur hver aðili að búinu lánaréttinda sem sjálfstæður bóndi.
     Nú hefur bóndi stærra bú en sem svarar einu og hálfu verðlagsgrundvallarbúi, eða sækir um lán til framkvæmda, sem svara til stærra bús, og er þá heimilt að skipta lánum til viðkomandi framkvæmda þannig, að hluti þeirra sé með öðrum kjörum eða lægri hundraðshluti verði veittur út á framkvæmdina.
     Upphæð lána má að jafnaði vera allt að 60% kostnaðarverðs, eins og meðalkostnaður sambærilegra framkvæmda er talinn ár hvert. Heimilt er þó, ef sérstaklega stendur á, að veita hærri lán, eða allt að 70%, ef ástæða þykir til að örva ákveðna framleiðslugrein á einstökum landssvæðum eða aðrar ástæður mæla sérstaklega með auknum stuðningi við viðkomandi framkvæmdir.
     ...1)
     Njóti framkvæmdir framlags samkvæmt jarðræktarlögum, lækkar lánsupphæðin sem svarar framlaginu.
     Um ákvörðun lána skal stjórn deildarinnar hafa hliðsjón af því, hve mikil önnur veðlán hvíla á eigninni, og skal eigi veita lán, ef ástæða er til að ætla, að búrekstur á jörðinni fái ekki staðið undir auknum lánum, og ekki heldur þegar um er að ræða framkvæmdir á býlum, sem eru innan þéttbýlismarka, ef fyrirsjáanlegt þykir, að ekki verði þar um framtíðarbúrekstur að ræða.
     Lán til húsa er heimilt að veita í áföngum, eftir að hús eru fokheld.]2)

1)L. 60/1978, 3. gr.2)L. 68/1973, 1. gr.


7. gr.
     [Lán má veita gegn þessum tryggingum:
1.
Gegn veði í fasteign, enda hvíli eigi veðskuldir á henni til annarra en Stofnlánadeildarinnar eða annarra opinberra sjóða á undan veðrétti þeim, sem Stofnlánadeildin fær. Ef umbætur þær, sem lán eru veitt til, eru gerðar á fasteign þeirri sjálfri, sem veðsett er, skal heimilt að telja verð umbótanna til viðbótar verðgildi eignarinnar óbættrar.
2.
Gegn veði í þeim húsum, sem lánað er til, ásamt tilheyrandi lóð og lóðaréttindum, ef þau eru byggð fyrir sjálfstæðan rekstur, svo sem sláturhús, mjólkurvinnslustöðvar, verkstæði o.þ.h.
3.
Gegn veði í þeim vélum, sem keyptar eru.
4.
Gegn veði í tilteknum flokki eða flokkum búfjár, þrátt fyrir ákvæði 4. gr. laga um veð frá 4. nóvember 1887.

     [Tryggingar þær, sem taldar eru undir 1. tölul., skulu fullgildar einar saman ef um er að ræða lán til jarðakaupa, ræktunar eða byggingar íbúðarhúsa, peningshúsa og geymsluhúsa á lögbýlum, en ef um er að ræða lán til verksmiðja, véla, gróðurhúsa og bústofnsauka skulu þau veð, sem látin eru til tryggingar skv. 2.–4. tölul., styrkt með fasteignaveði eða einfaldri ábyrgð sveitarfélags ef nauðsynlegt þykir.]1)
     Hús og vélar eru því aðeins fullgilt veð fyrir lánum úr Stofnlánadeild, að vátryggð séu í vátryggingarstofnun, sem deildin tekur gilda.]2)

1)L. 108/1988, 34. gr.2)L. 68/1973, 1. gr.


8. gr.
     [Lánstími skal vera 5–25 ár, eftir því til hvers lánað er.
     Lán til nýrra bygginga og ræktunar mega vera til allt að 25 ára, svo og til þeirra framkvæmda sem varanlegar teljast, en til vélakaupa, girðinga, bústofnskaupa og annars þess, sem ekki á að tryggja langa endingu, eigi nema 5–12 ár. Skal nánar kveðið á í reglugerð, hve langur lánstími má vera til hverrar tegundar lána.
     Heimilt er, að lán til húsbygginga séu höfð afborgunarlaus fyrstu 2 árin, þegar sérstaklega stendur á.
     Lánin skulu endurgreidd með jöfnum ársgreiðslum, nema lántaki vilji greiða þau hraðar.]1)

1)L. 60/1978, 4. gr.


9. gr.
     [Ríkisstjórnin ákveður, að fengnu áliti stjórnar Seðlabanka Íslands og stjórnar Stofnlánadeildarinnar, vexti af lánum deildarinnar, sbr. lög nr. 4/1960, um efnahagsmál.1) Vextir af lánum til byggingar íbúðarhúsa skulu þó að minnsta kosti vera 1/2 % lægri en af almennum lánum deildarinnar.
     Heimilt er að hafa mismunandi háa vexti af lánum til sömu framkvæmdar, sbr. ákvæði 6. gr. Þá er heimilt að ákveða vexti af lánum til vinnslustöðva, verkstæða og annarra slíkra framkvæmda hærri en af almennum lánum.]2)

1)Lög þessi eru fallin úr gildi.2)L. 68/1973, 1. gr.


10. gr.
     [Heimilt er Búnaðarbanka Íslands vegna Stofnlánadeildar landbúnaðarins, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að taka lán í samræmi við ákvörðun Alþingis í framkvæmdaáætlun hverju sinni.
     Eigi er Stofnlánadeild landbúnaðarins heimilt að endurlána erlent lánsfé nema með gengisákvæði. Sama máli gegnir um verðtryggt innlent lánsfé, enda gangi slík lán til vinnslustöðva, vélakaupa og bygginga, sem reistar eru til sameiginlegra þarfa bændasamtakanna.]1)

1)L. 68/1973, 1. gr.


11. gr.
     [Ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar Stofnlánadeildar landbúnaðarins og greiðir þær, ef eignir og tekjur hennar hrökkva ekki til.]1)

1)L. 68/1973, 1. gr.


12. gr.
     [Stofnlánadeild landbúnaðarins er heimilt að yfirtaka allar eignir og skuldir og öll réttindi og skyldur veðdeildar Búnaðarbanka Íslands vegna breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán árin 1962 til 1985. Stofnlánadeildin skal þó ekki yfirtaka hærri skuldir frá veðdeild Búnaðarbanka Íslands en sem svarar verðmæti og greiðslukjörum (vextir, verðtrygging, gjaldmiðlar) þeirra bankavaxtabréfa sem Stofnlánadeildin eignast.
     Stofnlánadeild landbúnaðarins er heimilt að gefa út bankavaxtabréf sem skulu notuð til að skuldbreyta eldri lánum veðdeildar Búnaðarbankans vegna lausaskulda bænda sem veitt voru samkvæmt lögum nr. 15/1962, 31/1969, 33/1979 og 12/1984 og enn fremur til að veita ný slík lán framvegis ef til kemur.
     Ákvæði laga nr. 34/1979, um veðdeild Búnaðarbanka Íslands,1) skulu gilda eftir því sem við getur átt um útgáfu bankavaxtabréfa Stofnlánadeildar landbúnaðarins samkvæmt þessari grein auk ákvæða laga nr. 15/1962, 31/1969, 33/1979 og 12/1984, um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, að því breyttu að Stofnlánadeildin komi þar í stað veðdeildar Búnaðarbankans.
     Ákvæði laga nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, gilda um allar lánveitingar og lánskjör á lánum vegna lausaskulda bænda.]2)

1)Lög þessi eru fallin úr gildi.2)L. 37/1986, 2. gr.


13. gr.
     [Heimilt er að telja lán eða eftirstöðvar láns úr Stofnlánadeild landbúnaðarins fallnar í gjalddaga án uppsagnar:
1.
Þegar áskilið árgjald er ekki greitt á réttum gjalddaga.
2.
Við eigendaskipti að veði fyrir láni, ef deildinni hefur ekki verið tilkynnt um eigendaskiptin.
3.
Ef veðið gengur svo úr sér eða rýrnar að gildi, að lánið er ekki lengur tryggt að dómi deildarinnar.
4.
Ef lögð er niður landbúnaðarframleiðsla eða störf fyrir landbúnaðinn á eignum þeim, sem veðsettar eru deildinni.]1)

1)L. 68/1973, 1. gr.


14.–15. gr.
     ...1)

1)L. 90/1991, 90. gr.


16. gr.
     ...1)

1)L. 48/1992, 4. gr.


17. gr.
     [Stofnlánadeild landbúnaðarins greiðir Lífeyrissjóði bænda til ársloka 19851) fé til lífeyrisgreiðslna skv. 17. gr. og 18. gr. laga um Lífeyrissjóð bænda, er nemur 37,5% árlegra lífeyrisgreiðslna.
     Einnig greiðir deildin Lífeyrissjóði bænda framlag samkvæmt 6. gr. þeirra laga í eitt ár í senn, ef árlegar tekjur sjóðsins hrökkva ekki fyrir árlegum útgjöldum hans, enda á Stofnlánadeildin rétt á lánum, er nemi 25% af árlegum iðgjöldum og framlögum í sjóðinn fyrstu 15 starfsár hans.]2)

1)Breytt í 1989 með l. 50/1984, 19. gr., sbr. l. 20/1985, 2. gr.2)L. 68/1973, 1. gr.


18. gr.
     [Setja má með reglugerð1) nánari ákvæði um starfsemi Stofnlánadeildarinnar, m.a. um tilhögun á innheimtu álags á landbúnaðarvörur samkvæmt 4. gr., enda brjóti sú reglugerð ekki í bága við nein ákvæði í lögum.]2)

1)Rg. 536/1990, sbr. 125/1995 (um innheimtu gjalda til Framleiðsluráðs landbúnaðarins og Stofnlánadeildar landbúnaðarins).2)L. 68/1973, 1. gr.


[II. kafli.
Um Tryggingasjóð fiskeldislána.]
1)

1)L. 3/1989, 1. gr.

[19.–23. gr.]1)
     ...2)

1)L. 3/1989, 1. gr.2)L. 17/1990, 8. gr.


III. kafli.
...1)

1)L. 73/1996, 33. gr.

[IV. kafli.]1)
Um Byggingastofnun landbúnaðarins.

...2)

1)L. 90/1984, 14. gr., sbr. l. 3/1989, 1. gr.2)L. 41/1990, 8. gr.

[V. kafli.]1)
Um viðhaldsskyldu o.fl.

1)L. 90/1984, 14. gr., sbr. l. 3/1989, 1. gr.

[38. gr.]1)
     Skylt er hverjum þeim, sem fengið hefur lán úr Stofnlánadeild, að halda vel við byggingum þeim, sem hann hefur fengið lán til. Byggingafulltrúar skulu fylgjast með viðhaldi bygginga, eftir því sem við verður komið, og tilkynna stjórn deildarinnar, ef því er að einhverju leyti ábótavant. Getur þá stjórnin gert viðeigandi ráðstafanir.

1)L. 90/1984, 14. gr., sbr. l. 3/1989, 1. gr.


[VI. kafli.]1)
Ýmis ákvæði.

1)L. 90/1984, 14. gr., sbr. l. 3/1989, 1. gr.

[39. gr.]1)
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði, er nauðsynleg þykja um framkvæmd þessara laga.2)

1)L. 90/1984, 14. gr., sbr. l. 3/1989, 1. gr.2)Rg. 25/1950 (um framkvæmd laga um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum).


[40. gr.]1)
     Um endurskoðun Stofnlánadeildar landbúnaðarins, starfsskýrslur o.fl. fer eins og mælt er fyrir um í lögum nr. 115 9. október 1941, um Búnaðarbanka Íslands.2)

1)L. 90/1984, 14. gr., sbr. l. 3/1989, 1. gr.2)Sjá nú l. 43/1993.


[41. gr.]1)
     ...

1)L. 90/1984, 14. gr., sbr. l. 3/1989, 1. gr.


[Ákvæði til bráðabirgða.
     ...]1)

1)L. 41/1982.