Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.
Sóttvarnarlög1)
1954 nr. 34 12. apríl
1)Rg. 229/1971, sbr. 116/1972, 290/1974 og 375/1984 (um sóttvarnir).
I. kafli.Svið laganna.
1. gr. Ráðherra ákveður, gegn hverjum sóttum beita skuli sóttvarnarráðstöfunum þeim, sem um er fjallað í lögum þessum, í því skyni að hindra, að þær sóttir berist inn í landið eða héðan til annarra landa.
II. kafli.Skýrgreiningar.
2. gr. Í lögum þessum merkir:
Einangrun: stíun hlutaðeigandi manns eða flokks manna frá öðrum mönnum — að undanteknu því starfsfólki, sem annast einangrunina — í því skyni að hindra, að sóttnæmi breiðist út.
Farangur: einkamunir og föggur farþega og einstakra manna áhafnar skips eða flugfars.
Flugfar: millilandaflugfar (-loftfar).
Flughöfn: flughöfn, sem leitað er af millilandaflugförum.
Grunaður: um mann sem ætla má, að hafi haft tækifæri til að smitast af næmri sótt.
Hafnarstaður: kaupstaður eða hreppur, þar sem er höfn eða flughöfn.
Höfn: höfn (sjávarhöfn), sem leitað er af millilandaskipum.
Læknisrannsókn: eftirlitsferð sóttvarnarlæknis í skip eða flugfar og bráðabirgðarannsókn hans á farþegum og áhöfn, en ekki reglubundin rannsókn á skipi í því skyni að leiða í ljós og ákveða, hvort rottueyðingar sé þörf.
Næm sótt: sjúkdómur, sem sóttvarnarráðstöfunum skal beitt gegn samkvæmt ákvæðum 1. gr.
Skip: millilandaskip.
Sóttvarnareftirlit (eftirlit): eftirlit heilbrigðisyfirvalda með heilsufari grunaðs manns.
Sóttvarnarsvæði: hið minnsta svæði innan landamæra lands — t.d. höfn eða flughöfn — sem hefur ákveðin takmörk og þar sem heilbrigðismálum er svo skipað, að unnt er að koma þar við fullkomnum sóttvarnarráðstöfunum samkvæmt ákvæðum hins alþjóðlega sóttvarnarsamnings.
Sýktur: um mann, sem er haldinn næmri sótt eða telst smitaður af slíkri sótt.
Þegar í lögum þessum er rætt um millilandaferð skips eða flugfars, tekur það einnig til ferðar á milli hafna og flughafna hér á landi, ef hlutaðeigandi skip eða flugfar hefur á leið sinni samband við stað í öðru landi eða skip eða flugfar frá öðru landi, ef skipið eða flugfarið hefur ekki hlotið leyfi til frjálsra samskipta hér við land.
III. kafli.Sóttvarnaryfirvöld.
3. gr. Sóttvarnarnefndir hafa með höndum, hver á sínum stað, framkvæmd ráðstafana gegn því, að næmar sóttir berist inn í landið og héðan til annarra landa.
Sóttvarnarnefnd í Reykjavík er skipuð tollstjóra, borgarlækni og lögreglustjóra, í kaupstöðum [og bæjum öðrum en Reykjavík tollstjóra],1) héraðslækni og bæjarstjóra, en á öðrum hafnarstöðum [tollstjóra],1) héraðslækni og hreppsnefndaroddvita.
[Tollstjórar eru hver í sínu umdæmi formenn sóttvarnarnefnda].1)
Almennar framkvæmdir sóttvarnarnefndar annast formaður með ráði og aðstoð héraðslæknis (í Reykjavík borgarlæknis). Einstök sóttvarnarlæknisstörf, aðgerðir og rannsóknir samkvæmt ákvörðun laga þessara má sóttvarnarnefnd með ráði héraðslæknis (í Reykjavík borgarlæknis) fela öðrum löggiltum læknum og lækninga- eða rannsóknarstofnunum.
1)L. 92/1991, 30. gr.
4. gr. Héraðslæknar (í Reykjavík borgarlæknir) eru sóttvarnarlæknar, hver í sínu héraði.
Í forföllum reglulegs sóttvarnarlæknis er sóttvarnarnefnd heimilt að fela öðrum löggiltum lækni að annast aðkallandi sóttvarnarlæknisstörf.
Þegar sérstaklega stendur á, er ráðherra heimilt að skipa sérstaka sóttvarnarlækna.
5. gr. Embættis- og starfsmönnum tollgæslu, lögreglu, hafnargæslu, flugsamgangna og hafnsögumönnum er jafnan skylt að aðstoða sóttvarnarnefndir við framkvæmd sóttvarnarráðstafana samkvæmt ákvæðum laga þessara.
IV. kafli.Skipun sóttvarna að öðru leyti.
6. gr. Bæjar- og sveitarstjórnum er skylt að gera ráðstafanir til þess, í samráði við sóttvarnarnefndir, að við verði komið — allra helst á sjúkrahúsi — tryggilegri einangrun og nauðsynlegri aðhlynningu aðkomufólks til landsins, sem einangra þarf samkvæmt ákvæðum laga þessara.
Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd ráðstafana þessara.
7. gr. Sóttvarnarnefndir skulu gera sér far um, með því að leita samkomulags við hlutaðeigandi yfirvöld og á annan hátt, að stuðla að því, að rottugangi á hafnar- og flughafnarsvæðum verði haldið í skefjum, svo sem unnt er, m.a. með því, að hús og önnur mannvirki á slíkum svæðum verði gerð svo rottuheld sem tök eru á.
Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um varnir gegn því, að rotta berist í land úr skipum, og um útrýmingu rottu á hafnar- og flughafnarsvæðum.
8. gr. Ráðherra er heimilt að skipa svo fyrir, að rottueyðing fari fram í skipum með ákveðnu, reglulegu millibili, eða þess sé gætt, að rottugangi í skipum sé sífelldlega haldið í skefjum, svo sem unnt er. Ráðherra ákveður, á hverjum hafnarstöðum rottueyðing í skipum fari fram. Rannsókn á rottugangi og rottueyðing í skipum fer fram á vegum sóttvarnarnefndar eftir þeim reglum, er ráðherra setur. Sóttvarnarnefnd lætur ókeypis í té vottorð um, að skip hafi verið rannsakað með tilliti til rottugangs og rottueyðingar hafi ekki talist þörf (rottuvottorð), eða rottueyðing hafi farið fram (rottueyðingarvottorð). Ráðherra segir fyrir um gerð rottu- og rottueyðingarvottorða og hversu lengi þau skuli gilda.
Ráðherra er heimilt að skipa svo fyrir, að svo miklu leyti sem nauðsynlegt þykir, að rottu sé eytt í flugförum, enda setur þá nánari reglur þar að lútandi.
9. gr. Ráðherra er heimilt að ákveða, að fyrirmæli 7. og 8. gr. um rottu megi, þegar svo stendur á, láta gilda um önnur nagdýr og dýr yfirleitt, sem kunn eru að því að vera eða geta verið smitberar næmra sótta.
10. gr. Ráðherra er heimilt að löggilda flughöfn, er mikið kveður að millilandaferðum um, sem sóttvarnarflughöfn. Á sóttvarnarflughöfn skal vera kostur læknisþjónustu í sérstökum lækninga- og rannsóknarstofum, búnum nauðsynlegum tækjum.
Jafnframt því sem ráðherra löggildir sóttvarnarflughöfn, setur hann nánari reglur um sóttvarnarbúnað hennar.
11. gr. Fulltrúar utanríkisráðuneytisins erlendis skulu gera sér far um að fylgjast sem best með sóttarfari, hver í sínu umdæmi, og tilkynna ráðuneytinu tafarlaust, ef upp koma eða yfirvofandi má telja, að upp komi sóttir, sem sóttvarnarráðstöfunum er skylt að beita gegn samkvæmt ákvæðum laga þessara. Sama gildir um hvers konar aðrar sóttir, ef þær gerast óvenjulega útbreiddar eða illkynja, eða ráðuneytið óskar sérstaklega fregna af þeim. Utanríkisráðuneytið tilkynnir tafarlaust ráðherra þeim, sem fer með heilbrigðismál, allar sóttarfarsfréttir.
Þegar vitað er af tilkynningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar samkvæmt ákvæðum hins alþjóðlega sóttvarnarsamnings, af fréttum frá fulltrúum utanríkisráðuneytisins erlendis samkvæmt ákvæðum 1. mgr. þessarar greinar eða samkvæmt öðrum áreiðanlegum heimildum, að á sóttvarnarsvæði erlendis hafi orðið vart næmrar sóttar, er ráðherra heimilt að ákveða, að litið skuli á það svæði sem sýkt af þeirri sótt, sem um er að ræða.
Ef ekki hafa verið gerðar viðeigandi ráðstafanir til að hefta útbreiðslu sóttarinnar frá hinu sýkta sóttvarnarsvæði, er ráðherra heimilt að ákveða, að einnig skuli litið á aðliggjandi svæði sem sýkt svæði.
Ráðherra tilkynnir, hvenær aftur skuli litið á áður tilkynnt sýkt svæði sem ósýkt svæði.
V. kafli.Almenn fyrirmæli.
12. gr. Allar sóttvarnarráðstafanir samkvæmt ákvæðum laga þessara skal hefja, svo fljótt sem unnt er, og leiða til lykta án ónauðsynlegra tafa.
Áður en hafnar eru sérstakar sóttvarnarráðstafanir umfram læknisrannsókn og venjulegar rottueyðingaraðgerðir samkvæmt 8. gr., skal ætíð, þegar við verður komið, hafa samráð við landlækni, en ella tilkynna honum gerðar ráðstafanir svo fljótt sem tök eru á.
13. gr. Sótthreinsun, skordýra- og rottueyðingu og öðrum sóttvarnaraðgerðum skal haga þannig, að ekki hafi í för með sér:
- a.
- ónauðsynleg óþægindi eða heilbrigðishættu fyrir hlutaðeigendur;
- b.
- skemmdir á skipi eða flugfari;
- c.
- eldhættu.
Við framkvæmd sóttvarnaraðgerða, er koma niður á farmi, farangri og öðrum munum, skal gæta ýtrustu varúðar, svo að ekki hljótist skemmdir af að óþörfu.
Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd sóttvarnaraðgerða samkvæmt ákvæðum laga þessara, þ. á m. um sótthreinsun skipa og flugfara, skordýraeyðingu í skipum og flugförum, sótthreinsun og eftir atvikum tortímingu dýra, farms, óhreins líns og annars, sem hætta er á, að valdið geti útbreiðslu næmrar sóttar.
Ef þess er krafist af sóttvarnarnefnd, er sérhverju skipi og flugfari, sem sóttvarnarráðstöfunum er beitt gegn samkvæmt ákvæðum laga þessara, skylt að aðstoða með áhöfnum sínum, eftir því sem tök eru á, við framkvæmd sóttvarnaraðgerðanna.
14. gr. Ef þess er krafist, lætur sóttvarnarnefnd í té þeim, er farm flytur, ókeypis vottorð (sóttvarnarvottorð) um sóttvarnarráðstafanir, sem beitt hefur verið samkvæmt ákvæðum laga þessara gegn skipi eða flugfari, hver hluti skips eða flugfars hafi orðið fyrir aðgerðunum, í hverju þær hafi verið fólgnar og hver verið hafi ástæða til þeirra. Ef flugfar á í hlut og sé þess krafist, skal skrá vottorð þetta á hið almenna afgreiðsluskírteini flugfarsins.
Ef þess er krafist, lætur sóttvarnarnefnd enn fremur í té ókeypis vottorð:
- a.
- ferðamanni, þar sem greindur sé komudagur hans til landsins, brottfarardagur hans úr landi og tekið fram, hverjum sóttvarnarráðstöfunum hafi verið beitt gegn honum og farangri hans;
- b.
- sendanda, móttakanda, þeim er farm flytur, og umboðsmönnum hans um sóttvarnarráðstafanir, sem beitt hafi verið gegn farmi þeirra.
15. gr. Mann, sem er undir sóttvarnareftirliti samkvæmt ákvæðum laga þessara, er óheimilt að einangra, og skal hann vera frjáls ferða sinna að öðru leyti en því, að skylt er honum, sé þess krafist, að sýna sig heilbrigðisyfirvöldum með tilteknu, reglulegu millibili, alla þá tíð sem hann er undir eftirliti. Enn fremur er heilbrigðisyfirvöldum heimilt að láta lækni rannsaka hlutaðeiganda og krefjast annarra upplýsinga um hann, sem nauðsynlegar kunna að vera til að leiða í ljós heilbrigðisástand hans, er máli skiptir.
Nú óskar maður, sem er undir sóttvarnareftirliti, að fá að ferðast frá þeim stað, þar sem hann dvelst, til annars staðar hér á landi, og skal hann þá tilkynna það hlutaðeigandi heilbrigðisyfirvöldum, er gera heilbrigðisyfirvöldum á þeim stað, sem ferðinni er heitið til, viðvart um komu hlutaðeiganda. Jafnskjótt sem á staðinn er komið, skal hlutaðeigandi ganga fyrir heilbrigðisyfirvöld staðarins og undirgangast þar sóttvarnareftirlit samkvæmt ákvæðum 1. mgr. þessarar greinar.
Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd sóttvarnareftirlits samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
16. gr. Sóttvarnarnefnd er heimilt að gera hverjar þær ráðstafanir, sem framkvæmanlegar eru til að koma í veg fyrir, að hafnir sóttmengist af mannasaur og öðrum úrgangi frá skipum.
17. gr. Flugförum sem fljúga yfir íslenskt land, er bannað að fleygja niður nokkru því, er borið getur með sér sóttnæmi næmra sótta.
18. gr. Ráðherra setur nánari reglur um sóttvarnarráðstafanir gegn einstökum næmum sóttum, og skal þar m.a. kveðið á um, hver teljast skuli meðgöngutími hverrar slíkrar sóttar, er sóttvarnarráðstafanir samkvæmt lögum þessum ber að miða við.
Í reglum þessum má kveða á um, hvenær skip eða flugför skuli teljast sýkt af næmri sótt, grunuð um að vera sýkt og ósýkt. Enn fremur má í reglum þessum krefjast þess, eða heimila ráðherra, þegar sérstaklega stendur á, að krefjast þess, að menn, er koma til landsins frá tilteknum löndum eða landshlutum, leggi fram gild vottorð um ónæmisaðgerðir gegn tilteknum næmum sóttum, að viðlögðu sóttvarnareftirliti eða einangrun, ef ekki er fullnægt.
VI. kafli.Sóttvarnarráðstafanir við för úr landi.
19. gr. Þegar nauðsyn ber til að hindra, að næm sótt berist héðan til annarra landa, er ráðherra heimilt að skipa svo fyrir, að menn, sem ferðast úr landi, undirgangist læknisrannsókn fyrir brottför sína. Ákveða skal stað og stund slíkrar læknisrannsóknar með tilliti til tollskoðunar o.s.frv., þannig að sem minnstum töfum valdi.
Sóttvarnarnefnd skal gera allar ráðstafanir, sem með góðu móti eru framkvæmanlegar til að koma í veg fyrir:
- a.
- að maður, sem er sýktur eða grunaður, fari úr landi;
- b.
- að sóttnæmi næmra sótta eða dýr, sem kunn eru að því að vera eða geta verið smitberar slíkra sótta, berist eða sleppi út í skip eða flugför á leið til útlanda.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. þessarar greinar, er sóttvarnarnefnd heimilt að leyfa, að maður á millilandaferð, sem við komu sína til landsins hefur sætt sóttvarnareftirliti, haldi ferð sinni áfram. Haldi hann ferðinni áfram loftleiðis, skal sóttvarnarnefnd láta þess getið á hinu almenna afgreiðsluskírteini flugfarsins, að hann hafi sætt sóttvarnareftirliti.
VII. kafli.Umleiðarferðir.
20. gr. Ekki skal beita sóttvarnarráðstöfunum gegn skipum, sem leggja leið sína um landhelgi Íslands án þess að leita hér hafnar eða hafa á annan hátt samskipti við land eða landsmenn.
21. gr. Sóttvarnarnefnd eru óheimilar sóttvarnarráðstafanir aðrar en læknisrannsókn gegn farþegum og áhöfn:
- a.
- skips, sem er ósýkt af næmri sótt, ef farþegar og áhöfn halda kyrru fyrir í skipinu, á meðan staðið er við;
- b.
- flugfars, sem er ósýkt af næmri sótt, ef farþegar og áhöfn halda kyrru fyrir í vistarveru flughafnar, sem sóttvarnarnefnd sér þeim fyrir, á meðan staðið er við.
VIII. kafli.Sóttvarnarráðstafanir við komu til landsins.
22. gr. Skip eða flugfar, sem kemur hér að landi, má ekki nema í neyðartilfelli hafa samskipti við land eða landsmenn, fyrr en sóttvarnarnefnd eða sá, sem hún hefur veitt umboð til þess, hefur veitt skipinu eða flugfarinu leyfi til frjálsra samskipta.
Áður en tilkynnt hefur verið leyfi til frjálsra samskipta, má enginn án leyfis sóttvarnarnefndar ganga á land úr skipi eða flugfari, né nokkur úr landi fara út í skipið eða stíga upp í flugfarið.
Tollgæslan annast tilkynningu frjálsra samskipta.
23. gr. Þegar skip kemur að landi, skal skipstjóri, og sé skipslæknir á skipi, þá einnig hann, skýra sóttvarnarnefnd eða þeim, sem kemur fram fyrir hennar hönd, frá heilbrigðisástandi í skipinu á leiðinni og við komu að landi. Þegar flugfar kemur að landi, skal flugfarsstjóri eða fulltrúi hans veita samsvarandi upplýsingar. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um, hverra upplýsinga hér að lútandi skuli krafist og á hvern hátt þær skuli látnar í té. Einnig er ráðherra heimilt að mæla fyrir um, á hvern hátt skip og flugför skuli gera viðvart um, að þau komi frá eða hafi haft samskipti við sýkt sóttvarnarsvæði eða í skipinu eða flugfarinu sé eða hafi verið á leiðinni sjúkdómstilfelli, sem ætla megi næma sótt.
Ef skip eða flugfar telst ósýkt af næmri sótt, skal sem skjótast leyfa því frjáls samskipti, þó ekki fyrr en ráðrúm hefur gefist til læknisrannsóknar, ef ástæða þykir til. Þegar við verður komið, skal útvarpa til skips eða flugfars, áður en að landi er komið, leyfi til frjálsra samskipta, enda telji sóttvarnarnefnd, samkvæmt fregnum, er henni hafa borist frá skipinu eða flugfarinu, að fullvíst sé, að af komunni stafi ekki sú hætta, að til landsins berist næm sótt.
Ef skip eða flugfar telst sýkt eða grunað um að vera sýkt af næmri sótt, má ekki veita skipinu eða flugfarinu leyfi til frjálsra samskipta, fyrr en það hefur verið rannsakað af sóttvarnarlækni og síðan látið sæta sóttvarnarráðstöfunum af hendi sóttvarnarnefndar samkvæmt ákvæðum þessara laga.
24. gr. Ráðherra er heimilt að veita skipum og flugförum, er annast reglubundnar ferðir, undanþágu, að nokkru eða öllu leyti, frá ákvæðum 22. og 23. gr. Sama gildir, þegar í hlut eiga hafnsögubátar, dráttarskip, fiskibátar og önnur smáför.
Ráðherra kveður og á um, hverja undanþágu frá sóttvarnarráðstöfunum unnt er að veita herskipum og herflugförum.
25. gr. Sóttvarnarnefnd er heimilt að láta fara fram læknisrannsókn á hverju skipi og flugfari, svo og hverjum manni, sem til landsins kemur frá útlöndum.
Um ákvarðanir varðandi aðrar sóttvarnarráðstafanir skal fara eftir því, hvernig á hefur staðið á leiðinni til landsins og hvernig á stendur að læknisrannsókn lokinni.
26. gr. Sóttvarnarnefnd er heimilt að ákveða, að maður, sem kemur til landsins með skipi eða flugfari og nefndin telur sýktan, skuli sæta einangrun. Ef þess er krafist af réttum hlutaðeigendum, skal flytja slíkan mann úr skipi eða flugfari.
27. gr. Sóttvarnarnefnd er heimilt að hlutast til um, að grunaður maður, sem kemur til landsins frá sýktu sóttvarnarsvæði, sé tekinn undir sóttvarnareftirlit. Hlutaðeigandi er háður slíku eftirliti, uns liðinn er meðgöngutími þeirrar næmu sóttar, sem um er að ræða.
Nema stoð eigi í sérstökum fyrirmælum samkvæmt ákvæðum þessara laga, má einangrun ekki koma í stað sóttvarnareftirlits, ef ekki stendur svo á, að sóttvarnarnefnd hafi ríka ástæðu til að ætla, að um sérstaka sótthættu sé að ræða.
28. gr. Þegar nauðsynlegt telst til að hindra, að næm sótt berist til landins og breiðist hér út, er ráðherra heimilt að mæla svo fyrir, að mönnum, sem til landsins koma, bjóðist að undirgangast viðeigandi ónæmisaðgerð, en sé því hafnað, má láta það varða sóttvarnareftirliti eða einangrun.
29. gr. Auk læknisrannsóknar er óheimilt að endurtaka sóttvarnaraðgerð, sem áður í sömu ferð hefur verið framkvæmd á annarri viðkomuhöfn eða flughöfn, nema
- a.
- eitthvert það sóttarfyrirbrigði hafi síðan gerst í hlutaðeigandi skipi eða flugfari, sem réttlæti endurtekningu aðgerðarinnar;
- b.
- sóttvarnarnefnd telji tvímælalaust, að aðgerðin hafi verið óvirk.
30. gr. Skipi eða flugfari má af sóttvarnarástæðum ekki meina að leita sambands við nokkra höfn eða flughöfn. Ef höfnin eða flughöfnin hefur ekki skilyrði til að beita þeim sóttvarnarráðstöfunum, sem sóttvarnarnefnd telur nauðsynlegar, er heimilt að leggja fyrir skipið — eða flugfarið, ef því er það fært — að halda á eigin kostnað og ábyrgð til annarrar hafnar eða flughafnar, þar sem nauðsynlegum sóttvarnarráðstöfunum verður komið við, enda sé höfnin eða flughöfnin ekki óhaganlega úrleiðis.
31. gr. Ekki skal litið svo á, að flugfar komi frá sýktu sóttvarnarsvæði, einungis fyrir það, að það hafi á leið sinni yfir sýkt svæði leitað þar sóttvarnarflughafnar, enda sé hún ósýkt.
32. gr. Ekki skal litið svo á, að maður, sem ferðast í flugfari, er flogið hefur yfir sýkt sóttvarnarsvæði án þess að leita þar flughafnar, komi frá sýktu sóttvarnarsvæði, og ekki heldur, þó að flugfarið hafi leitað flughafnar á svæðinu, ef hlutaðeigandi hefur sætt viðeigandi sóttvarnarráðstöfunum á staðnum til tryggingar því, að hann smitist ekki.
33. gr. Skip eða flugfar, sem leitað hefur hafnar eða flughafnar og færist undan að sæta sóttvarnarráðstöfunum samkvæmt ákvæðum laga þessara, á rétt á að halda ferð sinni áfram, en þá tafarlaust og er óheimilt að hafa samskipti við nokkra aðra höfn eða flughöfn hér á landi. Slíkt skip eða flugfar á þó rétt á, ef gætt er varúðarráðstafana, sem sóttvarnarnefnd segir fyrir um, að birgja sig hér að eldsneyti, vatni og vistum.
34. gr. Ef skip strandar eða flugfar nauðlendir, er sóttvarnarnefnd heimilt að krefjast þess, að gætt sé sanngjarnlegra varúðarráðstafana, en aldrei um fram það, sem samrýmist ákvæðum laga þessara.
IX. kafli.Sóttvarnarráðstafanir gegn farmi, farangri og pósti.
35. gr. Því aðeins má láta farm skips eða flugfars sæta sóttvarnaraðgerðum, að sóttvarnarnefnd hafi gilda ástæðu til að ætla, að hann sé mengaður sóttnæmi næmrar sóttar eða líklegur til að valda útbreiðslu slíkrar sóttar.
Umleiðarfarm, annan en lifandi dýr — enda sé farminum ekki umhlaðið hér — má ekki láta sæta sóttvarnaraðgerðum, og ekki má kyrrsetja hann á neinni höfn eða flughöfn, nema ráðherra hafi mælt sérstaklega fyrir um sóttvarnarráðstafanir gegn þess háttar farmi.
36. gr. Ekki má láta farangur sæta öðrum sóttvarnaraðgerðum en sótthreinsun og skordýraeyðingu og þessum aðgerðum því aðeins að sá, er hann hefur meðferðis, sé sýktur eða grunaður, eða farmurinn mengaður sóttnæmi næmrar sóttar eða í honum séu skordýr, sem eru eða geta verið smitberar slíkrar sóttar.
37. gr. Póst, blöð, bækur og annað prentað mál má ekki láta sæta sóttvarnaraðgerðum. Þó getur ráðherra mælt fyrir um sérstakar sóttvarnaraðgerðir gegn póstbögglum, ef rík ástæða er til að ætla, að innihald þeirra sé mengað sóttnæmi næmrar sóttar eða það sé líklegt til að valda útbreiðslu slíkrar sóttar.
X. kafli.Ýmisleg ákvæði.
38. gr. Ráðherra er heimilt að semja fyrir Íslands hönd við eitt eða fleiri lönd um gagnkvæmar tilslakanir á sóttvarnarráðstöfunum, sem fjallað er um í lögum þessum.
39. gr. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um flutning líka inn í landið og úr landi, svo og um flutning slíkra líka á milli staða hér á landi.1)
1)Rg. 115/1971
.
40. gr. Hinum reglulegu sóttvarnarlæknum ber þóknun samkvæmt gjaldskrá héraðslækna fyrir sóttvarnarlæknisstörf, sem mælt er fyrir um í lögum þessum. Ef tilkallaðir eða skipaðir eru sóttvarnarlæknar aðrir en héraðslæknar (í Reykjavík borgarlæknir), ber þeim fyrir sóttvarnarlæknisstörf sín þóknun samkvæmt gjaldskrá annarra lækna en héraðslækna.
41. gr. Ríkissjóður ber kostnað af sóttvarnarráðstöfunum samkvæmt ákvæðum laga þessara með þeim undantekningum er greinir hér á eftir. Um umræddar greiðslur fer eftir reglum og gjaldskrá, er ráðherra setur.
- a.
- Erlent skip, er stundar fiskveiðar eða aðrar veiðar hér við land eða á nálægum höfum og leitar hér hafnar í sambandi við veiðarnar, greiðir allan kostnað af sóttvarnarráðstöfunum gegn því;
- b.
- skip eða flugfar greiðir kostnað af rannsókn á rottugangi og rottueyðingu, sem um er fjallað í 8. gr.;
- c.
- skip eða flugfar greiðir kostnað af sóttvarnarráðstöfunum þeim, sem um er fjallað í 33. gr.;
- d.
- skip eða flugfar, sem leitar hér hafnar eða flughafnar eingöngu til að setja á land sjúklinga eða lík, greiðir kostnað af sóttvarnarráðstöfunum gegn því, nema í hlut eigi skip, sem um ræðir undir staflið a. þessarar greinar, ber þó ríkissjóður kostnað af læknisrannsókn og frekari rannsóknum, sem nauðsynlegar eru til að leiða í ljós heilbrigðisástand farþega eða áhafnar;
- e.
- hlutaðeigandi skip eða flugfar greiði kostnað af sjúkrahúsvist, aðhlynningu og lækningu sjúklings, sem sóttvarnarráðstöfunum er beitt gegn, að svo miklu leyti sem honum er sjúkrahúsvistin, aðhlynningin og lækningin nauðsynleg vegna sjúkdóms síns og engu síður, þó að honum sé ráðstafað á sjúkrahúsið jafnframt til einangrunar; hér til telst og kostnaður af útför sjúklingsins, ef til kemur;
- f.
- kostnaður af sóttvarnarráðstöfunum gegn strönduðu skipi greiðist af andvirði strandgóss;
- g.
- kostnað, sem leiðir af því, að maður fer í banni laga þessara út í skip eða stígur upp í flugfar, greiðir hlutaðeigandi, og er greiðslan lögtakskræf;
- h.
- um kostnað af einangrun hjúkrunarliðs og annarra, sem haft hafa samskipti við sjúkling, er einangraður hefur verið samkvæmt ákvæðum laga þessara, fer, að svo miklu leyti sem kostnaðurinn hefur til fallið, eftir að sjúklingurinn er látinn eða hefur verið leystur úr einangrun, sem um kostnað af farsóttarvörnum innanlands.
42. gr. Ríkissjóður greiðir ekki skaðabætur vegna tjóns, er leiða kann af sóttvarnarráðstöfunum samkvæmt ákvæðum laga þessara.
43. gr. Brot gegn fyrirmælum laga þessara eða reglugerða og auglýsinga, sem birtar kunna að verða samkvæmt ákvæðum þeirra, varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 6 mánuðum. Mál skulu rekin að hætti opinberra mála. Þegar sýnt þykir, að brot varða ekki þyngri viðurlögum en sektum, er sóttvarnarnefnd heimilt að taka boði hins brotlega um staðgreiðslu sektar gegn því að sleppa við málshöfðun.
Varningur, sem reynt er að flytja inn í landið eða fluttur hefur verið inn í landið í banni laga þessara, skal, að svo miklu leyti sem honum er ekki tortímt, gerður upptækur ríkissjóði til tekna. Sektir, sem menn hafa verið dæmdir til að greiða eða sæst hefur verið á samkvæmt ákvæðum fyrri málsgreinar þessarar greinar, renna í ríkissjóð.
44. gr. Lög þessi skal birta á íslensku og ensku.
45. gr. ...
Jafnframt því, sem lög þessi falla úr gildi, fellur niður innheimta gjalda í sóttvarnarsjóð, sem eftirleiðis skal hafa það hlutverk að standa straum af kostnaði af rannsóknum varðandi farsóttir og sóttvarnarmál. Sjóðurinn skal vera í vörslum landlæknis undir yfirstjórn ráðherra, sem fer með heilbrigðismál, og eru allar greiðslur úr sjóðnum háðar samþykki ráðherra.
...