Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.
Lög um varnir gegn kynsjúkdómum
1978 nr. 16 28. apríl
1. gr. [Eftirtaldir sjúkdómar skulu nefndir einu nafni kynsjúkdómar:
- Sárasótt (syphilis),
- lekandi (gonorrhea),
- klamydíusýkingar (sýkingar af völdum Chlamydia trachomatis),
- þvagrásarbólga af öðrum orsökum (urethritis catarrhalis),
- linsæri (ulcus molle),
- lymphogranuloma venereum,
- granuloma inguinale,
- smitun af HTLV3 veiru.
Taka lögin aðeins til sjúkdóma þessara meðan þeir eru smitandi.]1)
1)L. 7/1986, 1. gr.
2. gr. Hver sem sýkist af kynsjúkdómi, eða hefur grun um að svo sé, skal leita sér læknishjálpar þegar í stað. Honum er skylt að fara í einu og öllu eftir fyrirmælum þeim, sem læknir gefur honum um meðferð sjúkdómsins og varúð gegn smitun annarra.
3. gr. Veita skal þeim sjúklingum, sem haldnir eru kynsjúkdómum eða grunur leikur á að svo sé, ókeypis læknishjálp á heilsugæslustöð. Nær sú hjálp til allrar læknishjálpar, nauðsynlegra rannsókna og lyfja. Þar sem til staðar eru stofnanir eða sérfræðingar á sviði kynsjúkdómavarna skal sjúklingum vísað þangað sé þess nokkur kostur.
4. gr. [Skráningu kynsjúkdóma skal hagað þannig að fyllsta trúnaðar sé gætt varðandi persónu hins smitaða.
Læknar skulu skrá sérstaklega alla einstaklinga með kynsjúkdóma og senda þær upplýsingar til landlæknis á þar til gerðu eyðublaði sem skrifstofa landlæknis gefur út. Þar skal einungis skrá fæðingarár, fæðingarmánuð og kyn hins smitaða. Læknir hins smitaða skal gæta fyllsta trúnaðar varðandi auðkenni viðkomandi einstaklings og gæta þess að öll slík auðkenni séu á vitorði hans eins. Gögn, er varða auðkenni einstaklings, skulu ekki fara úr vörslu læknis til vélritunar eða annarra nota.
Ef tveir skráðir einstaklingar hafa sama fæðingarár, fæðingarmánuð og kyn skulu læknar viðkomandi einstaklinga bera saman fæðingarnúmer þeirra til að koma í veg fyrir tvískráningu.
Sýni, send til rannsóknar frá þeim sem ástæða er til að ætla að hafi kynsjúkdómasmit, skulu merkt með upphafsstöfum þess læknis, sem sýnið sendir, og raðnúmeri sem hann gefur viðkomandi einstaklingi.
Landlæknir sér um faraldursfræðilega skráningu kynsjúkdóma.]1)
1)L. 7/1986, 2. gr.
5. gr. Læknir skal útskýra fyrir sjúklingum með kynsjúkdóma, hvað að þeim gangi. Læknir skal skýra vandlega fyrir þeim hvernig sjúkdómur smiti, hverrar varúðar beri að gæta og að sé út af brugðið varði slíkt hegningu samkvæmt almennum hegningarlögum. Þá skal læknir enn fremur fá hverjum sjúklingi, sem til hans leitar vegna kynsjúkdóms, prentaðar leiðbeiningar, sem landlæknir lætur í té. Í öllum íslenskum skipum skal vera upplýsingarit um kynsjúkdóma og eitt eintak af lögum þessum skal fylgja lyfjakistli skipsins.
6. gr. Hafi læknir greint kynsjúkdóm skal hann grennslast vandlega eftir því af hverjum sjúklingur hefur smitast, svo og hverja sjúklingur kann að hafa smitað. Sjúklingur skal láta í té alla vitneskju sína um það efni. Læknirinn skal gera gangskör að því að hinir grunuðu séu rannsakaðir og teknir til meðferðar ef þörf krefur. Lögregluyfirvöld skulu aðstoða lækni telji hann þörf á aðstoð. Sé um að ræða einstaklinga í öðru læknishéraði skal tilkynna hlutaðeigandi héraðslækni það tafarlaust og ber hann upp frá því ábyrgð á framkvæmd rannsóknarinnar.
7. gr. Sérhverjum, sem starfs síns vegna kemst að nöfnum sjúklinga og heilsufari þeirra, ber að gæta þagmælsku þar um, nema lög bjóði annað eða brýn nauðsyn krefji, t.d. vegna yfirvofandi smitunar.
8. gr. Komi kynsjúkdómur upp á stað þar sem enginn læknir er, eða þar sem erfitt er að ná í fullkomna læknisþjónustu, skal landlækni heimilt að senda þangað lækni svo fljótt sem auðið er, til þess að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir og veita sjúklingum læknishjálp. Kostnaður við slíkar ráðstafanir greiðist úr ríkissjóði.
9. gr. Í grunnskólum skal veita fræðslu um kynsjúkdóma og varnir gegn þeim. Menntamálaráðuneytið kveður á um námsefni og tilhögun fræðslunnar í samráði við yfirlækni húð- og kynsjúkdómadeildar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur, landlækni og skólayfirlækni.
10. gr. Með mál, sem rísa kunna út af brotum á lögum þessum, skal farið að hætti opinberra mála.
11. gr. Fyrir brot gegn lögum þessum skal refsa með sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum.