Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.
Lög um jöfnun flutningskostnaðar á sementi
1973 nr. 62 30. apríl
1. gr. Framkvæma skal jöfnun á flutningskostnaði sements, þannig að kostnaðarverð í vöruskemmu á hverri sementstegund frá hverjum innlendum framleiðanda eða innflutningsaðila verði hið sama á öllum verslunarstöðum, sem jöfnun þessi nær til. Jöfnun flutningskostnaðar samkvæmt lögum þessum nær til allra verslunarstaða á landinu, sem jafnframt eru aðaltollhafnir. Heimilt er viðskiptaráðherra að ákveða með reglugerð,1) að jöfnun þessi á flutningskostnaði skuli einnig ná til annarra tilgreindra verslunarstaða.
1)Rg. 272/1982
.
2. gr. Leggja skal flutningsjöfnunargjald á allt sement, sem framleitt er í landinu eða flutt er til landsins. Gjald þetta ákveður viðskiptaráðuneytið fyrir allt að eitt ár í senn, og skal upphæð þess við það miðuð, að tekjur af því nægi til að greiða flutningskostnað á því sementi, sem flytja þarf frá framleiðslustað eða innflutningshöfn til þeirra verslunarstaða, sem jöfnun flutningskostnaðarins nær til, þannig að fullnægt verði þaðan eftirspurn eftir sementi, hvar sem er á landinu.
Flutningsjöfnunargjaldið skal reikna á hvert selt tonn af sementi. Skulu innlendir framleiðendur (Sementsverksmiðja ríkisins) greiða gjaldið ársfjórðungslega til viðskiptaráðuneytisins, en af innfluttu sementi skal það innheimt með aðflutningsgjöldum. Annast [tollstjórar]1) innheimtuna, og skulu þeir skila gjaldinu til viðskiptaráðuneytisins.
1)L. 92/1991, 64. gr.
3. gr. Tekjur af flutningsjöfnunargjaldi samkvæmt 2. gr. skal leggja í sérstakan sjóð, flutningsjöfnunarsjóð sements. Úr sjóðnum skal greiða flutningskostnað á sementi frá framleiðslustað eða innflutningshöfn til annarra verslunarstaða, sem jöfnun flutningskostnaðar nær til í samræmi við ákvæði 1. gr.
Fé það, sem á hverjum tíma er í flutningsjöfnunarsjóði, skal ávaxta í banka á sérstökum reikningi.
4. gr. Nú verður tekjuafgangur á flutningsjöfnunarsjóði í árslok, og skal hann þá yfirfærast til næsta árs. Ef tekjur sjóðsins eitthvert ár hrökkva ekki fyrir gjöldum skv. 3. gr., skal greiða það, sem á vantar, af fyrstu tekjum sjóðsins næsta ár.
5. gr. Viðskiptaráðherra skipar til 4 ára í senn flutningsjöfnunarsjóði 3 manna stjórn, 1 eftir tilnefningu Sementsverksmiðju ríkisins, 2 án tilnefningar og skal annar þeirra jafnframt vera formaður sjóðsstjórnar. Stjórnin skal annast framkvæmd laga þessara undir yfirstjórn viðskiptaráðherra, sem jafnframt sker úr ágreiningsatriðum, er upp kunna að koma.
6. gr. Stjórn flutningsjöfnunarsjóðs úrskurðar, hvað teljast skuli flutningskostnaður, sbr. ákvæði 1. málsl. 1. gr. Er stjórninni meðal annars heimilt að ákveða, að jöfnun flutningskostnaðar milli tiltekinna verslunarstaða skuli takmörkuð við kostnað af þeim flutningsháttum, sem ódýrastir eru á hverjum tíma. Sömuleiðis skal henni heimilt að synja um greiðslu tiltekins kostnaðar úr sjóðnum að hluta eða að fullu, ef sýnist um að ræða misnotkun á jöfnunarkerfinu í tilteknum viðskiptum.
Heimilt er viðskiptaráðuneytinu að fella niður flutningsjöfnunargjald á sementi, sem flutt er til landsins eða framleitt er innanlands og notað er til byggingar orkuvera eða annarra meiriháttar framkvæmda. Flutningsjöfnunarsjóður greiðir þá ekki flutningskostnað á sementi til þeirra nota.