Kennaraháskólanum er heimilt að annast uppeldis- og kennslufræðilega menntun framhaldsskólakennara sem hafa hlotið tilskilda menntun í kennslugrein annars staðar.
Kennaraháskólinn annast endurmenntun með skipulegri fræðslu, kynningu á markverðum nýjungum í skóla- og uppeldismálum og stuðningi við nýbreytni- og þróunarstörf.
Kennaraháskólinn skal stuðla að því að kennaraefni temji sér fræðileg viðhorf og þann heildarskilning á nemendum og umhverfi þeirra er geri þá hæfa til að taka ábyrga afstöðu í starfi sínu og koma til móts við einstaklingsþarfir nemenda.
Kennaraháskólinn skal leggja áherslu á rannsóknir á sviði skólastarfs við íslenskar aðstæður og stuðla með þeim hætti að þróun og umbótum í skólakerfinu.
Almennt kennaranám: Stúdentspróf eða önnur próf við lok framhaldsskólastigs svo og náms- og starfsreynsla sem að mati skólaráðs tryggir jafngildan undirbúning. Í reglugerð skal kveða á um lágmarkskunnáttu í íslensku og heimilt er að setja sambærileg ákvæði um aðrar námsgreinar.
Um inntökuskilyrði til náms í uppeldis- og kennslufræðum fyrir þá sem hljóta annars staðar tilskilda menntun í kennslugreinum fer eftir ákvæðum í reglugerð sem sett skulu að fengnum tillögum skólaráðs.