Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

1974 nr. 36 2. maí


1. gr.
     Tilgangur laga þessara er að stuðla að verndun Mývatns- og Laxársvæðisins í Suður-Þingeyjarsýslu.

2. gr.
     Ákvæði laganna taka til Skútustaðahrepps og Laxár með hólmum og kvíslum allt að ósi árinnar við Skjálfanda, ásamt 200 metra breiðum bakka meðfram Laxá báðum megin.

3. gr.
     Á landssvæði því, er um getur í 2. gr., er hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask óheimilt, nema leyfi [Náttúruverndar ríkisins]1) komi til.
     Breytingar á hæð vatnsborðs stöðuvatna og rennsli straumvatna eru einnig óheimilar nema til verndunar og ræktunar þeirra, enda komi til sérstakt leyfi [Náttúruverndar ríkisins].1)
     Heimilar skulu þó framkvæmdir, sem nauðsynlegar og eðlilegar teljast til búskapar á lögbýlum, nema spjöllum valdi á náttúruverðmætum að dómi [Náttúruverndar ríkisins].1)
     [Þá eru heimilar án sérstaks leyfis Náttúruverndar ríkisins byggingar samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi stofnunin fallist á skipulagsáætlun þá sem um er að ræða.]1)

1)L. 93/1996, 41. gr.


4. gr.
     Reisa skal og reka náttúrurannsóknastöð við Mývatn. [Umhverfisráðherra skipar stjórn stöðvarinnar samkvæmt tilnefningum Náttúrufræðistofnunar Íslands, raunvísindadeildar Háskóla Íslands, hreppsnefndar Skútustaðahrepps, Landeigendafélags Laxár og Mývatns og Náttúruverndar ríkisins og skal fulltrúi hennar vera formaður stjórnar.]1)
     Stjórn stöðvarinnar sér um framkvæmdir og rekstur. Hún er stjórnvöldum til ráðuneytis um allt það, er lýtur að framkvæmd laga þessara. Í reglugerð, er [umhverfisráðherra setur, að fengnum tillögum stjórnar náttúrurannsóknastöðvarinnar],1) skal nánar kveðið á um starfshætti stjórnarinnar og starfsemi stöðvarinnar, m.a. um samstarf við heimamenn og aðstöðu til námskeiðahalds fyrir háskólanema í náttúrufræðum.

1)L. 93/1996, 41. gr.


5. gr.
     [Umhverfisráðherra setur, að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins og Náttúruverndar ríkisins],1) reglugerð2) um varnir gegn hvers konar mengun svæðis þess, er lögin taka til, og skal þar m.a. kveðið á um sérstakar mengunarvarnir Kísiliðjunnar við Mývatn. Í reglugerðinni skal enn fremur kveðið á um verndun lífríkis á svæðinu og skynsamlega nýtingu þess, svo sem um takmörkun á aðgangi ferðamanna að tilteknum stöðum á svæðinu.

1)L. 93/1996, 41. gr.2)Rg. 136/1978.


6. gr.
     [Náttúruvernd ríkisins]1) getur, að fengnum tillögum stjórnar rannsóknastöðvarinnar ráðið starfsmann til eftirlits með framkvæmd laga þessara og reglugerða, er settar verða samkvæmt þeim.

1)L. 93/1996, 41. gr.


7. gr.
     Kostnaður við framkvæmd laga þessara greiðist úr ríkissjóði, eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.

8. gr.
     Brot gegn lögum þessum og reglugerðum, er settar eru samkvæmt þeim, varða sektum eða varðhaldi. Sektir renni í ríkissjóð.
     Beita má dagsektum, er renna í ríkissjóð, allt að [10.000 krónum],1) til að knýja menn til framkvæmda á ráðstöfunum, sem þeim er skylt að hlutast til um samkvæmt lögum þessum og reglugerðum, eða láta af atferli, sem er ólögmætt.

1)L. 116/1990, 37. gr.


9. gr.
     Að öðru leyti fer um verndun Laxár- og Mývatnssvæðisins eftir reglum í lögum um náttúruvernd.