Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um Íþróttakennaraskóla Íslands

1972 nr. 65 29. maí


I. kafli.
Hlutverk og réttindi.
1. gr.
     Hlutverk Íþróttakennaraskóla Íslands er þríþætt:
a.
að búa nemendur sína undir kennslu í íþróttum, slysahjálp, líkams- og heilsufræði í skólum;
b.
að búa nemendur sína undir kennslu í íþróttum og félagsstörfum hjá stofnunum, ungmenna- og íþróttafélögum;
c.
að efna árlega, ef þess er kostur, til námskeiða fyrir íþróttakennara í samráði við Íþróttakennarafélag Íslands og námskeiða fyrir væntanlega og starfandi leiðbeinendur í íþróttum í samráði við Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands.


2. gr.
     ...1)
     Einnig geta nemendur að loknu prófi, ef þeir æskja þess, bætt við sig námi í Kennaraháskóla Íslands, sbr. 1. tölul. 1. gr. laga nr. 38 16. apríl 1971,2) um Kennaraháskóla Íslands, og lokið þaðan kennaraprófi með íþróttakennslu að sérgrein, enda fullnægi þeir inntökuskilyrðum Kennaraháskólans að öðru leyti. Tilhögun viðbótarnámsins fer eftir reglugerð, sem setja skal að fengnum tillögum skólastjórnar Kennaraháskóla Íslands og skólanefndar Íþróttakennaraskólans. Setja má í reglugerð ákvæði um lágmarkseinkunn frá Íþróttakennaraskólanum sem skilyrði fyrir inngöngu í Kennaraháskólann.

1)L. 51/1978, 18. gr.2)l. 29/1988.


3. gr.
     Íþróttakennaraskóli Íslands er tveggja ára skóli. Námstími hvort skólaár skal eigi vera skemmri en 81/2 mánuður, auk íþróttakennslu í 70 kennslustundir að sumrinu. Hefur skólinn umsjón með kennslunni.

II. kafli.
Inntökuskilyrði, námsgreinar og próf.
4. gr.
     Almenn inntökuskilyrði í skólann eru þessi:
a.
að nemandi sé heilbrigður og vel hæfur til íþróttaiðkana,
b.
að nemandi sé eigi haldinn neinum kvilla, er öðrum geti að meini orðið og hamli skólavist að dómi skólaráðs,
c.
að nemandi sé eigi yngri en 18 ára á því ári, sem hann hefur nám.


5. gr.
     Inntaka nemenda er í höndum skólaráðs. Skólavist geta þeir hlotið, sem lokið hafa:
1.
a. stúdentsprófi,
b.
almennu kennaraprófi,
c.
prófi undirbúningsdeildar sérnáms Kennaraskólans,
d.
prófi með ákveðinni lágmarkseinkunn frá framhaldsdeild gagnfræðaskóla.
2.
Annað nám veitir og réttindi til inntöku, ef skólaráð telur það jafngilt og mælir með því, en skólanefnd fellst á það.

Heimilt er að úrskurða um skólavist nemenda með hliðsjón af hæfniprófi eða öðrum matsaðferðum.

3.
Rétt til náms í II. bekk eiga þeir, sem lokið hafa prófi eftir nám í I. bekk með ákveðinni lágmarkseinkunn samkvæmt reglugerð, að viðbættri íþróttakennslu í a.m.k. 70 kennslustundir.
4.
Rétt til þátttöku í námskeiði fyrir leiðbeinendur í íþróttum eiga þeir, er náð hafa 18 ára aldri og hlotið meðmæli stjórnar hlutaðeigandi ungmenna- eða íþróttafélags.


6. gr.
     Stefnt skal að því að gera námsefni skólans þríþætt: kjarna, kjörsvið og valgreinar.
     Kjarninn er það námsefni, sem sameiginlegt er öllum nemendum skólans.
     Kjörsvið er það námsefni, greinar eða greinaflokkar, sem nemendur geta valið sér.
     Valgreinar eru allt það námsefni hvers nemanda, sem eigi telst til kjarna eða kjörsviðs nemanda. Nemandi verður að geta unnið sjálfstætt að valgreinum, en skal velja sér þær í samráði við skólastjóra.
     Í reglugerð skal kveða á um námsgreinar og vægi námsþátta.
     Heimilt er stjórn skólans að fjölga eða fækka kennslugreinum að fengnu samþykki menntamálaráðuneytisins.
     Nánar skal kveðið á um námsefni í reglugerð, en skólanefnd ákveður námsefni á námskeiðum fyrir leiðbeinendur í samráði við Ungmennafélag Íslands, Íþróttasamband Íslands og sérsambönd þess, en fyrir íþróttakennara í samráði við Íþróttakennarafélag Íslands.

7. gr.
     1. Próf skulu fara fram í lok hvors skólaárs. Skólaráði er þó heimilt að ákveða próf í einstökum greinum á öðrum tíma. Ljúka má námi í einstökum greinum á fyrra skólaári. Skulu einkunnir í þeim greinum skráðar á íþróttakennaraprófsskírteini. Í reglugerð skal kveðið á um námsefni til prófs. Skal þar miðað við, að vægi einkunna sé í réttu hlutfalli við vinnu nemenda og kennslustundafjölda í hverri grein.

Við lokapróf skulu prófdómarar skipaðir af menntamálaráðuneytinu að fengnum tillögum skólaráðs.

2.
Próf skulu fara fram í lok hvers námskeiðs fyrir leiðbeinendur. Viðkomandi sérsamband skipar þar prófdómara með samþykki skólastjóra.

     Nánar skal kveðið á um próf í reglugerð.

III. kafli.
Stjórn og starfsmenn skólans.
8. gr.
     Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn skólans. Skólaráð skal þannig skipað: Skólastjóri, sem er formaður, fastir kennarar, einn fulltrúi lausráðinna kennara og tveir fulltrúar nemenda. Hlutverk skólaráðs er að vera skólastjóra til aðstoðar um stjórn skólans og rekstur auk annarra starfa samkvæmt lögum þessum. Skólastjóri stjórnar fundum, kveður skólaráð til funda reglulega og auk þess þegar þriðjungur skólaráðsmanna óskar. Kjörtímabil skólaráðs er eitt ár.
     Skólanefnd skal þannig skipuð: Íþróttafulltrúi ríkisins, sem er formaður, einn tilnefndur af Íþróttasambandi Íslands, einn af Ungmennafélagi Íslands, einn af Íþróttakennarafélagi Íslands og einn af nemendum. Hlutverk skólanefndar er að vera skólastjóra til ráðuneytis og aðstoðar um málefni skólans auk annarra starfa samkvæmt lögum þessum. Skólastjóri á sæti á fundum skólanefndar með málfrelsi og tillögurétti. Kjörtímabil skólanefndar er þrjú ár, nema nemenda eitt ár.
     Ákveða skal nánar í reglugerð starfssvið skólaráðs og skólanefndar.

9. gr.
     Fastir starfsmenn skólans eru embættismenn ríkisins. Skólastjóri skal skipaður af forseta Íslands. Fastir kennarar og aðrir fastir starfsmenn skólans skulu skipaðir af ráðherra, og skal áður leitað umsagnar skólaráðs og skólanefndar.
     Til að verða skipaður kennari við Íþróttakennaraskóla Íslands skal umsækjandi hafa lokið prófi frá viðurkenndum íþróttakennaraskóla, að viðbættu framhaldsnámi í sérgrein, sem yfirstjórn skólans metur gilt.

10. gr.
     Skólinn skal vera svo vel búinn starfsliði, að hann geti rækt þær skyldur, er lög mæla fyrir um, og annast íþróttakennslu í öðrum opinberum skólum að Laugarvatni.
     Skólastjóri ræður stundakennara og annað starfsfólk í samráði við menntamálaráðuneytið.

11. gr.
     Launakjör skólastjóra, kennara og annarra fastra starfsmanna skulu ákveðin samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
     Yfirstjórn skólans ákveður kennsluskyldu skólastjóra. Námskeiðskennarar taka laun samkvæmt sömu reglum og gilda um stundakennslu. Þeir fá greiddan ferða- og dvalarkostnað samkvæmt gildandi reglum um greiðslu kostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins.

12. gr.
     Heimilt er skólastjóra að kveðja kennara sér til aðstoðar við eftirlit og umsjón í skólanum. Enn fremur skulu kennarar starfa með nemendum utan kennslustunda í samráði við skólastjóra og vinna önnur störf í þágu skólans, eftir því sem aðstæður leyfa og ákveðið er í reglugerð. Má þá fækka kennslustundum kennara með hliðsjón af slíkum aukastörfum.

13. gr.
     Óski kennari, sem starfað hefur við skólann í 10 ár, eftir orlofi í allt að eitt ár til að efla þekkingu sína og kennarahæfni, skal hann senda yfirstjórn skólans beiðni um orlof ásamt greinargerð um, hvernig hann hyggst verja orlofsárinu. Beiðni um orlof skal leggja fram með árs fyrirvara. Skal þess gætt, að orlof kennara torveldi ekki störf skólans.
     Yfirstjórn skólans getur veitt kennurum allt að ársorlof með fullum launum.

IV. kafli.
Ýmis ákvæði.
14. gr.
     Skólinn hefur aðsetur að Laugarvatni, en ýmsir þættir í starfi hans mega fara fram á öðrum stöðum, eftir því sem þörf krefur og fjárhagur skólans leyfir.

15. gr.
     Stofn- og rekstrarkostnaður skólans greiðist úr ríkissjóði.

16. gr.
     Menntamálaráðuneytið setur nánari ákvæði í reglugerð1) um framkvæmd laga þessara.

1)Rg. 311/1981, sbr. 139/1984. Rg. 393/1996.


17. gr.
     ...

18. gr.
     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við upphaf skólaárs 1972.