Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um skráningu lífeyrisréttinda

1980 nr. 91 23. desember


1. gr.
     Skrá skal í eina heildarskrá lífeyrisréttindi allra landsmanna eins og nánar er mælt fyrir í lögum þessum. Skal skráningin framkvæmd af fjármálaráðuneytinu.

2. gr.
     Skrásetja skal, að því er hvern mann varðar, iðgjaldagreiðslur hans, þann lífeyrissjóð eða þá sjóði sem greitt hefur verið til og þau réttindi sem hver maður á samkvæmt reglum þess sjóðs er hann á aðild að.

3. gr.
     Skráningin skal byggð á upplýsingum lífeyrissjóða. Skulu allir lífeyrissjóðir, sem starfa samkvæmt lögum eða viðurkenndir eru af fjármálaráðuneytinu, afhenda lífeyrisskránni skýrslur með öllum nauðsynlegum upplýsingum til skráningar lífeyrisréttinda og iðgjaldagreiðslna. Skulu skýrslur þessar afhentar ókeypis og í því formi og á þeim tíma sem skráin ákveður.

4. gr.
     Atvinnurekendum, sem hafa í þjónustu sinni iðgjaldsskylda menn, er skylt að láta lífeyrisskránni í té upplýsingar sem varðað geta lífeyrisréttindi eða iðgjaldagreiðslur starfsmanna, í því formi sem óskað er. Á sama hátt er öllum einstaklingum, sem skyldir eru til greiðslu iðgjalda, skylt að veita skránni umbeðnar upplýsingar. Þá er skattyfirvöldum skylt að veita skránni upplýsingar úr skattframtölum eða öðrum skattgögnum er varðað geta skráningu lífeyrisréttinda og ákvörðun eða greiðslu iðgjalda.

5. gr.
     Lífeyrisskráin skal veita einstaklingum og atvinnurekendum upplýsingar um til hvaða lífeyrissjóðs iðgjöld skuli greiða fyrir hvern mann eða um hvaða sjóði er að velja eigi það við. Úrskurður um ágreiningsmál um sjóðsaðild fer skv. 2. gr. laga um starfskjör launþega og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

6. gr.
     Lífeyrisskráin skal veita upplýsingar um greiðslur iðgjalda og lífeyrisréttindi. Þá skal skráin gefa út árlega yfirlit um lífeyrisréttindi og iðgjaldagreiðslur landsmanna.

7. gr.
     Lífeyrisskráin skal eftir því sem kostur er fylgjast með því að ákvæðum laga um starfskjör launþega og skyldutryggingu lífeyrisréttinda sé framfylgt að því er varðar greiðslu iðgjalda.