Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um bókasafnsfræðinga

1984 nr. 97 28. maí


1. gr.
     Rétt til að kalla sig bókasafnsfræðing og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra.

2. gr.
     Leyfi samkvæmt 1. gr. má aðeins veita:
1.
þeim sem lokið hafa B.A.-prófi frá Háskóla Íslands með bókasafnsfræði sem aðalgrein (það er a.m.k. 60 einingar samkvæmt núgildandi reglugerð Háskóla Íslands, nr. 78/1979,1) eða 3 stig samkvæmt eldri reglugerð);
2.
þeim sem tekið hafa lokapróf frá háskóla og a.m.k. 60 einingar í bókasafnsfræði við Háskóla Íslands;
3.
þeim sem lokið hafa hliðstæðu prófi erlendis sé námið viðurkennt sem slíkt af yfirvöldum þess lands þar sem námið er stundað;
4.
þeim sem tekið hafa lokapróf frá háskóla og framhaldsgráðu í bókasafnsfræði til viðbótar.

     Áður en leyfi er veitt samkvæmt 3. og 4. lið skal leita umsagnar Félags bókasafnsfræðinga og fastra kennara í bókasafnsfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands.

1)rg. 98/1993.


3. gr.
     Bókasafnsfræðingi ber að starfa samkvæmt lögum og reglugerðum um bókasöfn sem í gildi eru á hverjum tíma.

4. gr.
     Brot á lögum þessum varða sektum. Með mál út af brotum gegn lögunum skal farið að hætti opinberra mála.

5. gr.
     Menntamálaráðherra getur sett nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laga þessara.

6. gr.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.