leggur fram tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar og tjóns, sem viðskiptamenn viðkomandi kunna að verða fyrir af hans völdum, sem dómsmálaráðuneytið ákveður.3)
Upplýsingar um söluverð eignar ef það er ákveðið og hverjir eru söluskilmálar, þar á meðal um þann hluta söluverðs sem staðgreiða á og hversu haga eigi öðrum greiðslum og hversu þær eigi að vera tryggðar.
Glöggar upplýsingar og gögn um stærð húss og lóðar, fyrirkomulag innan húss, byggingarlag og byggingarefni húss, aldur þess og endurbyggingar eða viðbyggingar, ef því er að skipta, ástand húss, þar á meðal um galla, sem kunnir eru á því, hversu upphitun sé háttað og hversu hús sé glerjað, staðsetningu og atriði sem máli skipta vegna byggingar- og skipulagslaga. Einnig skal greina ástand lóðar. Teikning af húsi skal vera fyrir hendi ef kostur er og að jafnaði ljósmyndir af því ef eigi er unnt að skoða það eða vitað er að skoðun muni ekki fara fram. Ef um sameign er að ræða skal greina glögglega eignarhlutdeild í húsi og lóð, svo og um óskipta sameign.
Nú er seld fasteign eða skip í smíðum og skal þá gera nákvæma grein fyrir því á hvaða stigi smíðin er þegar kaupandi á að taka við eigninni og hversu staða aðilanna verði tryggð.
Grein skal gerð fyrir veðskuldum og öðrum eignarhöftum sem kunna að hvíla á eigninni, stutt vottorði úr þinglýsingarbókum. Greina ber hvers eðlis eignarhöftin eru, þar á meðal kvaðir sem á eign kunna að hvíla. Greina skal glögglega um eftirstöðvar veðskulda sem hvíla eiga á eign og kaupandi tekur að sér að greiða, afborganir af þeim og vexti, hvort skuld sé verðtryggð, hvenær henni eigi að vera lokið og hverjar eftirstöðvar hennar eru að viðbættri verðtryggingu. Þá skal greina kostnað við samningsgerð, þinglýsingu og stimplun skjala og í hvors hlut komi.
Upplýsingar eftir föngum um tekjumöguleika af eigninni, einkum þegar um atvinnuhúsnæði (jörð) er að ræða eða skip er gera skal út, svo og um heildarútgjöld sem ætla má að stafi af eign.