Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands

1980 nr. 35 23. maí


1. gr.
     Ríkið starfrækir stofnun, sem nefnist Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Stofnunin skal skipuð yfirlækni, sérmenntuðum í heyrnarfræði, í fullu starfi og skal hann annast faglega stjórn stofnunarinnar. Honum til aðstoðar skal vera yfirheyrnar- og taluppeldisfræðingur. Aðrir starfsmenn stofnunarinnar skulu vera heyrnar- og taluppeldisfræðingar, heyrnarritarar, tæknimenn, hlustarstykkjasmiðir ásamt aðstoðarfólki.

2. gr.
     Ráðherra skipar yfirlækni að fengnum tillögum stöðunefndar samkvæmt lögum nr. 57/19781) um heilbrigðisþjónustu. Ennfremur skipar ráðherra yfirheyrnar- og taluppeldisfræðing að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar. Aðrir starfsmenn skulu ráðnir af stjórn stöðvarinnar.

1)l. 97/1990.


3. gr.
     Stofnunin heyrir undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sem skipar henni sérstaka stjórn. Skal stjórnin skipuð 7 mönnum til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann vera formaður. Menntamálaráðuneytið tilnefnir einn, Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra einn, Félagið Heyrnarhjálp einn, Talkennarafélag Íslands einn, Félag háls-, nef- og eyrnalækna einn og Heyrnleysingjaskóli Íslands einn.

4. gr.
     Stofnunin skal annast hvers konar þjónustu við heyrnarskerta, t.d. prófun heyrnar og úthlutun heyrnartækja. Stofnunin skal annast sjúkdómsgreiningu málhaltra, bæði barna og fullorðinna. Stofnunin skal halda skrá yfir alla þá landsmenn, sem eru heyrnarskertir og/eða málhaltir. Stofnunin skal annast heyrnarmælingar á fólki í fyrirbyggjandi tilgangi, t.d. vegna hávaða við vinnu eða notkunar lyfja. Skal stofnunin hafa fullt samráð við þá aðila opinbera, sem annast málefni á þessum vettvangi. Stofnunin skal hafa yfirumsjón með þjálfun og endurhæfingu heyrnarskertra og málhaltra, heyrnartækjameðferð og heyrnarrannsóknum, í samráði við aðra aðila, sem starfa á þessum vettvangi.

5. gr.
     Stofnunin skal annast útvegun á hvers konar hjálpartækjum fyrir heyrnarskerta og málhalta, sem yfirlæknir hennar úrskurðar nauðsynleg.
     Ráðherra setur að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar reglur1) um þátttöku ríkisins í kostnaði vegna slíkra tækja í samræmi við hliðstæðar greiðslur almannatryggingalaganna.

1)Rg. 160/1986, sbr. 452/1988 og 303/1991.


6. gr.
     Að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar er ráðherra heimilt að setja með reglugerð gjaldskrá fyrir veitta þjónustu stöðvarinnar og skal sú gjaldskrá vera í samræmi við gjöld fyrir aðra veitta sérfræðiþjónustu.

7. gr.
     Stofnunin skipuleggur ferðir starfsmanna sinna og annarra sérfræðinga til aðstoðar heyrnardaufum og málhöltum úti á landi. Skulu slíkar ferðir farnar a.m.k. árlega. Stofnunin skal hafa náið samstarf við Háls-, nef- og eyrnadeild Borgarspítalans í Reykjavík, enda sé henni ætluð framtíðarstaðsetning í þegar hönnuðum húsakynnum göngudeildar H.N.E. í Borgarspítalanum.

8. gr.
     Stofnunin hefur í samráði við skólastjóra og kennara Heyrnleysingjaskólans sérfræðilega umsjón með heyrnaruppeldis- og læknisfræðilegri meðferð og rannsókn nemenda skólans.
     Sama gildir um sérdeildir heyrnardaufra í almennum skólum og um stofnanir og sérdeildir fyrir þroskaheft fólk og um samráð við skólastjóra og kennara þeirra.

9. gr.
     Heilsugæslustöðvar skulu hafa samráð við stofnunina um alla þjónustu við heyrnardaufa og málhalta, sem veitt er á heilsugæslustöðvum.

10. gr.
     Ráðherra setur stofnuninni og stjórn hennar starfsreglur.