Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um Iðnlánasjóð

1987 nr. 76 19. ágúst


1. gr.
     Tilgangur Iðnlánasjóðs er að efla framleiðslu og framleiðni í iðnaði með því að veita stofnlán og styðja við almennt umbótastarf í iðnaði.

2. gr.
     Iðnlánasjóður er sjálfstæð stofnun. Yfirumsjón hans er í höndum ráðherra þess, er fer með iðnaðarmál.

3. gr.
     Iðnaðarráðherra skipar sjóðnum þriggja manna stjórn, til fjögurra ára í senn. Einn stjórnarmanna skipar ráðherra án tilnefningar, en hina eftir tilnefningu stjórnar Landssambands iðnaðarmanna og stjórnar Félags ísl. iðnrekenda. Ráðherra skipar einn hinna þriggja stjórnarmanna formann sjóðsstjórnar.
     Reikningar Iðnlánasjóðs skulu endurskoðaðir af tveimur mönnum, er ráðherra skipar til fjögurra ára í senn.
     Eftir hver áramót gefur stjórn sjóðsins ráðherra ítarlega skýrslu um hag og starfsemi sjóðsins á liðnu ári, og skal fylgja henni endurskoðaður ársreikningur. Ársreikning skal birta í B-deild Stjórnartíðinda.

4. gr.
     Iðnaðarbanki Íslands hf. hefur á hendi, samkvæmt sérstökum samningi, daglegan rekstur Iðnlánasjóðs.
     Allur kostnaður við stjórn og rekstur sjóðsins greiðist af tekjum hans.

5. gr.
     [Leggja skal 0,14% gjald, iðnlánasjóðsgjald, á allan iðnað í landinu eins og hann er skilgreindur í lögum um iðnaðarmálagjald. Skal gjaldstofn þess vera velta skv. 11. gr. laga um virðisaukaskatt að meðtalinni veltu sem undanþegin er virðisaukaskatti skv. 12. gr. þeirra laga.
     Óheimilt er að leggja gjaldið við verð á vöru eða þjónustu iðnfyrirtækja.
     Um álagningu og innheimtu iðnlánasjóðsgjaldsins fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga um tekjuskatt og eignarskatt eftir því sem við á.
     Í ríkissjóð skal renna 0,5% af innheimtu iðnlánasjóðsgjalds skv. 1. mgr. vegna kostnaðar ríkissjóðs við innheimtu þess.
     Iðnlánasjóðsgjald má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn til þess myndaðist.
     Verja skal 10% af árlegu iðnlánasjóðsgjaldi til að greiða fyrir hagrannsóknum í þágu iðnaðarins og aðgerðum sem stuðla að þjóðhagslega hagkvæmri iðnþróun í landinu. Stjórn sjóðsins ráðstafar þessu fé í samráði við Samtök iðnaðarins.]1)

1)L. 139/1993, 1. gr.


6. gr.
     Heimilt er Iðnlánasjóði, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að taka lán í innlendri eða erlendri mynt, ef árlegt ráðstöfunarfé sjóðsins nægir ekki til þess að hann geti á viðunandi hátt gegnt hlutverki sínu.
     Iðnlánasjóði er jafnframt heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að taka allt að 100 milljón króna lán til þess að mynda nýjan lánaflokk í því skyni að veita sérstök hagræðingarlán til viðbótar almennum lánum, er að mati sjóðsstjórnarinnar teldust stuðla verulega að því að auka framleiðni og bæta aðstöðu iðnfyrirtækis til þess að aðlaga sig nýjum viðhorfum vegna breyttra viðskiptahátta, svo sem tollabreytinga og fríverslunar. Mega lán þessi vera með betri kjörum en lán sjóðsins almennt, svo sem lægri vöxtum, lengri lánstíma eða afborgunarlaus fyrst í stað, allt eftir því, sem nánar yrði ákveðið í reglugerð.1)
     Ef Iðnlánasjóður býður út almennt skuldabréfalán samkvæmt þessari grein, mega skuldabréfin, svo og vextir af þeim, vera undanþegin framtalsskyldu og skattlagningu á sama hátt og sparifé, sbr. 21. gr. laga nr. 90 7. október 1965, um tekjuskatt og eignarskatt.2)
     Eigi er Iðnlánasjóði heimilt að endurlána erlent lánsfé, nema með gengisákvæði.
     Þegar um lántökur til almennrar starfsemi sjóðsins er að ræða, skal þó heimilt að skipta gengisáhættu hlutfallslega á ákveðna flokka útlána, enda sé lánsféð þá endurlánað með almennum útlánsvöxtum Iðnlánasjóðs.
     Þegar Iðnlánasjóður tekur erlend lán, sem bundin eru við endurlán til tiltekinna framkvæmda, skal féð endurlánað með gengisákvæði og hæfilegum vaxtamismun og kostnaði til Iðnlánasjóðs. Þó er sjóðnum heimilt að endurlána lánsfé frá Iðnþróunarsjóði án gengisákvæða, enda tryggi stjórn Iðnlánasjóðs hag hans með öðrum hætti.

1)Rg. 160/1966.2)l. 75/1981.


7. gr.
     Stofna skal í Iðnlánasjóði vöruþróunar- og markaðsdeild, er hafi eftirfarandi tilgang:
— að stuðla að vöruþróun og aukinni samkeppnishæfni iðnaðarins,
— að örva nýsköpun,
— að auka útflutning iðnaðarvara.


8. gr.
     Hlutverk sitt skal vöruþróunar- og markaðsdeild rækja m.a. með eftirfarandi aðgerðum:
1.
Lánum til vöruþróunar, hönnunar og annarrar nýsköpunar.
2.
Lánum til útflutnings- og markaðsstarfsemi.
3.
Framlagi til Útflutningsráðs Íslands skv. 4. tölul. 9. gr. laga þessara.
4.
Framlögum til nýrra útflutningsverkefna, þróunarverkefna og til rannsókna í iðnaði. Árleg framlög og/eða styrkir mega aldrei leiða til skerðingar á höfuðstól deildarinnar.
5.
Kaupum og sölu á hlutabréfum í starfandi fyrirtækjum og þátttöku í stofnun nýrra fyrirtækja.

     Lán skv. 1. og 2. tölul. er heimilt að hafa afborgunarlaus í allt að þrjú ár, og jafnframt er heimilt að afskrifa lánin heppnist verkefnið ekki. Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um starfsemi vöruþróunar- og markaðsdeildar.

9. gr.
     Ráðstöfunarfé vöruþróunar- og markaðsdeildar er:
1.
Eigið fé Iðnrekstrarsjóðs 1. júlí 1984.
2.
4/7 hlutar af því gjaldi, sem innheimt er af iðnaðinum í landinu, sbr. 1. tölul. 5. gr. laganna.
3.
...1)
4.
...2)
5.
Afborganir, verðbætur og vextir af lánum vöruþróunar- og markaðsdeildar.
6.
Aðrar tekjur.

1)L. 1/1992, 28. gr.2)L. 117/1990, 2. gr.


10. gr.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að veita ábyrgð á lánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum eftir nánari reglum, er stjórn sjóðsins setur. Ábyrgðir, sem kynnu að falla á Iðnlánasjóð, skulu dregnar frá ráðstöfunarfé vöruþróunar- og markaðsdeildar.

11. gr.
     Stofna skal í Iðnlánasjóði lánadeild iðngarða,1) er hafi þann tilgang að lána stofnlán til sveitarfélaga, félagssamtaka og einstaklinga, sem reisa iðnaðarmannvirki í því skyni að efla íslenskan iðnað eða skapa með öðrum hætti starfsaðstöðu til handa iðnfyrirtækjum, sem greiða iðnlánasjóðsgjald skv. 5. gr., enda öðlist þau á fullnægjandi hátt að mati stjórnar Iðnlánasjóðs leigu- og/eða kauprétt að þeirri aðstöðu eða mannvirki, sem lánað er til. Umsækjendur um lán til iðngarða geri stjórn Iðnlánasjóðs fullnægjandi grein fyrir áformum sínum samhliða lánsumsókn.

1)Rg. 105/1967 (um lánadeild veiðarfæraiðnaðar).


12. gr.
     Tekjur lánadeildar iðngarða eru:
1.
Framlög, er veitt kunna að verða úr ríkissjóði eða á annan hátt.
2.
Á fyrstu fjórum starfsárum lánadeildarinnar, frá og með 1980 til og með ársins 1983, renni allt að 250 milljónum króna (2,5 millj. nýkr.) á ári af umráðafé Iðnlánasjóðs til deildarinnar.
3.
Andvirði sérstakra lána, sem stjórn Iðnlánasjóðs, að fengnu samþykki iðnaðarráðherra, aflar til deildarinnar, sbr. 6. gr.
4.
Vextir og vísitöluálag.


13. gr.
     Almenn lánakjör Iðnlánasjóðs skulu gilda um lán úr lánadeild iðngarða, en að öðru leyti setur iðnaðarráðherra, í samráði við stjórn Iðnlánasjóðs, með reglugerð1) nánari ákvæði um starfsemi deildarinnar. Í reglugerðinni skal þess gætt að með aðstöðu innan iðngarðs sé fyrirtækjum, sem eiga í samkeppni í sömu grein, ekki mismunað eða stuðlað að neikvæðri samkeppni innan byggðarlaga eða á landsvísu.

1)Rg. 584/1980.


14. gr.
     Við Iðnlánasjóð skal starfrækt deild er nefnist tryggingardeild útflutningslána.
     Hlutverk tryggingardeildar útflutningslána skal vera:
1.
Að taka að sér að tryggja lán er bankar eða aðrar lánastofnanir veita innlendum framleiðendum vöru eða þjónustu til fjármögnunar á útflutningslánum sem veitt eru eða útveguð erlendum kaupendum.
2.
Að tryggja kröfur íslenskra útflytjenda á hendur erlendum kaupendum, enda hafi þær orðið til vegna útflutnings á íslenskum vörum eða þjónustu.
3.
Að tryggja, þegar sérstaklega stendur á, samkeppnislán til innlendra aðila er kaupa vélar, tæki og aðrar fjárfestingarvörur sem framleiddar eru innanlands.
4.
[Að selja ábyrgðartryggingar fyrir þjónustu sem íslenskir aðilar veita erlendis. Einnig að tryggja verkábyrgðir innlendra aðila vegna framkvæmda sem fara að umfangi yfir þau viðmiðunarmörk sem gera opinberar framkvæmdir útboðsskyldar á Evrópska efnahagssvæðinu.]1)

1)L. 135/1995, 1. gr.


15. gr.
     Stjórn Iðnlánasjóðs ákveður iðgjöld og tryggingarhlutföll tryggingardeildar útflutningslána en þau skulu háð samþykki iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra. Við ákvörðun þeirra skal miða við að þau standi undir rekstri deildarinnar, greiðslu tjónabóta og myndunar varasjóðs er nemi a.m.k. 10% af ábyrgðum deildarinnar á hverjum tíma. Starfsemi deildarinnar skal haldið aðgreindri í bókhaldi og reikningum sjóðsins.
     Tekjuafgangur leggst í sérstakan varasjóð og skal honum varið til greiðslu tjónabóta. Nægi fé deildarinnar, þar með talinn varasjóður, ekki til greiðslu tjónabóta skal greiða það sem á vantar úr Ríkisábyrgðasjóði. Nú fellur greiðsla á Ríkisábyrgðasjóð vegna þess og skal þá miðað við að iðgjöld tryggingardeildar útflutningslána breytist þannig að deildin geti endurgreitt Ríkisábyrgðasjóði það sem sjóðurinn hefur innt af hendi á næstu tveimur árum. Iðnlánasjóður getur veitt deildinni lán til að gera henni kleift að standa við skuldbindingar sínar.

16. gr.
     Greiðsluskilmálar lána, sem tryggingardeild útflutningslána tryggir, skulu vera í samræmi við almennar viðskiptavenjur hér á landi sem erlendis með hliðsjón af vörugerð, eðli þjónustu, markaðsaðstæðum og öðru sem máli skiptir.
     Heildarskuldbindingar tryggingardeildar útflutningslána vegna trygginga á útflutningslánum og kröfum mega aldrei nema hærri fjárhæð en jafnvirði 100 millj. sérstakra dráttarréttinda (SDR).
     Stjórn Iðnlánasjóðs skal halda sérstaka stjórnarfundi um málefni tryggingardeildar útflutningslána. Fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra tilnefna fulltrúa sem boðaðir skulu á þá stjórnarfundi sem haldnir eru um málefni deildarinnar og hafa þeir málfrelsi og tillögurétt.
     Stjórn Iðnlánasjóðs setur tryggingardeild útflutningslána nánari starfsreglur sem háðar skulu samþykki iðnaðarráðherra.

17. gr.
     Ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar Iðnlánasjóðs og greiðir þær, ef eignir og tekjur sjóðsins hrökkva ekki til.

18. gr.
     Iðnlánasjóður veitir stofnlán sem hér segir:
1.
Til véla- og tækjakaupa fyrir iðnaðinn.
2.
Til byggingar verksmiðju- og iðnaðarhúsa.
3.
Til endurskipulagningar iðnfyrirtækja.
4.
Til hagræðingar í iðnrekstri í samræmi við ákvæði 6. gr.
5.
Til framkvæmda, er auka hollustu og öryggi og bæta starfsumhverfi á vinnustöðum.
6.
Til kaupa á tölvubúnaði og tölvukerfum.

     Iðnlánasjóði er heimilt, ef sérstakar ástæður mæla með að mati sjóðsstjórnar, að lána iðnfyrirtækjum til fasteignakaupa.
     Nú lætur lánbeiðandi smíða vélar innanlands, og er sjóðsstjórninni þá heimilt að veita honum bráðabirgðalán, meðan á smíði stendur, gegn þeim tryggingum, er hún metur gildar.
     Þeir aðilar, sem gjald greiða til Iðnlánasjóðs af rekstri sínum, samkvæmt 5. gr. laga þessara, skulu að öðru jöfnu hafa forgang að lánum úr sjóðnum.

19. gr.
     Upphæð lána má nema allt að 70 af hundraði kostnaðarverðs, enda sé það, að dómi sjóðsstjórnarinnar, ekki hærra en eðlilegt má teljast, samkvæmt verðlagi á hverjum tíma.
     Byggingar og vélar skulu metnar til lántöku á kostnað lántaka, eftir því sem þörf er á, svo sem nánar kann að verða fyrir mælt í reglugerð.
     Um lánveitingar til nýrrar framleiðslu, svo og um lánveitingar, sem sjóðsstjórnin telur leika vafa á, hvort veita skuli, skal hún leita álits sérfróðra manna. Allan kostnað vegna slíkra athugana og álitsgerða skal lánbeiðandi bera, enda hafi honum verið tilkynnt um það fyrir fram.

20. gr.
     Lán má veita úr sjóðnum gegn þessum tryggingum:
1.
Gegn öruggu veði í þeim húsum, sem lánað er til, ásamt tilheyrandi lóð og lóðarréttindum.
2.
Gegn 1. veðrétti í þeim vélum og tækjum, sem lánað er til.
3.
Gegn ríkisábyrgð eða ábyrgð þriðja aðila, er sjóðsstjórn telur fullnægjandi.

     Sjóðsstjórninni er auk þess rétt að taka frekari tryggingar en hér eru tilgreindar, svo að lán verði fulltryggt að hennar dómi.
     Sjóðsstjórnin getur neitað að taka veð í nýjum vélum, ef vafasamt er um endursölumöguleika þeirra, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga þessara.
     Hús og vélar eru því aðeins fullgild veð fyrir lánum úr Iðnlánasjóði, að þau séu vátryggð í vátryggingarstofnun, sem sjóðurinn tekur gilda.
     Iðnlánasjóður getur hvenær sem er heimtað skilríki fyrir því, að veðsettum eignum sé vel við haldið og veðið hafi ekki rýrnað.

21. gr.
     Óheimilt er stjórn Iðnlánasjóðs og trúnaðarmönnum hennar að láta óviðkomandi aðilum í té nokkuð af þeim upplýsingum, sem gefnar eru í sambandi við lántökubeiðnir eða lántökur úr sjóðnum.

22. gr.
     Lánstími má eigi vera lengri en 25 ár. Lán til vélakaupa skulu þó ekki vera lengri en til 10 ára, nema sérstakar ástæður mæli með og örugg trygging fyrir hendi, að mati sjóðsstjórnar. Stjórn Iðnlánasjóðs ákveður að öðru leyti lánskjör með þeirri undantekningu þó er greinir í 22. gr.1)

1)Svo í Stjtíð., en á væntanlega að vera 23. gr.


23. gr.
     Sjóðsstjórnin ákveður, að fengnu áliti bankastjórnar Seðlabanka Íslands og með samþykki iðnaðarráðherra, vexti af lánum Iðnlánasjóðs.

24. gr.
     Umsóknir um lán úr Iðnlánasjóði skulu vera skriflegar og fylgi þeim:
1.
Ítarleg lýsing á því, hvernig verja eigi lánsfénu.
2.
Upplýsingar um tryggingar, sem lánsbeiðandi getur veitt fyrir láni.
3.
Rekstrar- og efnahagsreikningur lánsbeiðanda, ef um starfandi fyrirtæki er að ræða.
4.
Aðrar upplýsingar, sem lánsbeiðandi telur máli skipta.

     Rétt er, að sjóðsstjórnin óski eftir þeim upplýsingum, sem hún telur sig þurfa til þess að geta ákveðið, hvort óhætt sé og réttmætt að veita umbeðið lán.

25. gr.
     Verði eigendaskipti að eign, sem veðsett er Iðnlánasjóði, er stjórn sjóðsins heimilt að heimta lánið endurgreitt að fullu eða nokkru leyti, ef henni þykir ástæða til, enda skal bæði seljanda og kaupanda skylt að tilkynna sjóðsstjórninni eigendaskiptin þegar í stað.

26. gr.
     Nú er lán úr Iðnlánasjóði eigi greitt á réttum gjalddaga eða veðið gengur svo úr sér eða rýrnar að verðgildi, að það er eigi svo tryggt sem vera skal, eða nýr eigandi vanrækir að taka lánið að sér, og er þá stjórn sjóðsins heimilt að telja eftirstöðvar lánsins fallnar í gjalddaga þegar, án uppsagnar.

27.–28. gr.
     ...1)

1)L. 90/1991, 90. gr.


29. gr.
     ...1)

1)L. 48/1992, 4. gr.


30. gr.
     Setja má með reglugerð nánari ákvæði um starfsemi Iðnlánasjóðs, enda brjóti þau ekki í bága við nein ákvæði í lögum þessum.

31. gr.
     Ákvæði 1. tölul. 5. gr., 3. tölul. 8. gr., 2. tölul., 3. tölul. og 4. tölul. 9. gr. skulu tekin til endurskoðunar fyrir árslok 1988.