Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um ríkisábyrgðir

1961 nr. 37 29. mars


1. gr.
     Ríkissjóður má aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar, nema heimild sé veitt til þess í lögum.

2. gr.
     Ríkissjóður má ekki ganga í sjálfskuldarábyrgð, nema slíkt sé sérstaklega ákveðið í lögum þeim, sem ábyrgð heimila.

3. gr.
     Ekki má ríkissjóður takast á hendur ábyrgð fyrir aðila, sem er í vanskilum með ríkisábyrgðarlán eða skuldar ábyrgðargreiðslur, er ríkissjóður hefur innt af hendi, nema um slíkar greiðslur hafi verið samið.
     Ríkissjóður má ekki ganga í ábyrgð, nema sett sé trygging, sem fjármálaráðherra metur gilda.

4. gr.
     [Hver sá, sem ríkissjóður gengur í einfalda ábyrgð fyrir, skal greiða honum áhættugjald um leið og ábyrgð er tekin sem nema skal 1,5% af ábyrgðarupphæð.
     Taki ríkissjóður á sig sjálfskuldarábyrgð, sbr. 2. gr., skal greiða áhættugjald er nemi 2,0% af ábyrgðarupphæð um leið og ábyrgð er veitt.]1)

1)L. 65/1988, 1. gr.


5. gr.
     Nú fellur ábyrgðargreiðsla á ríkissjóð, og er þá fjármálaráðuneytinu heimilt að halda eftir greiðslum, er aðili kann að eiga að fá frá ríkissjóði, eftir því sem með þarf, til greiðslu skuldarinnar, þótt almennar reglur um skuldajöfnuð séu eigi fyrir hendi.

6. gr.
     Ekki má undan fella að ganga að tryggingu fyrir ábyrgðarláni, ef greiðsla fellur á ríkissjóð nema sérstök heimild fjárveitinganefndar Alþingis komi til.

7. gr.
     Fjármálaráðherra er heimilt að fela einhverjum ríkisbankanna að vera fjármálaráðuneytinu til aðstoðar við afgreiðslu ríkisábyrgða, eftir því sem fjármálaráðherra kveður nánar á um. Skal sá banki kynna sér rækilega fjárhag þeirra, er leita eftir ábyrgð, og að því búnu gera tillögur til ráðuneytisins um, hversu snúast beri við beiðni umsækjanda. Þá skal og bankinn fylgjast með rekstri þeirra aðila, er ríkissjóður hefur gengið í ábyrgð fyrir, og eru þeir skyldir að láta bankanum í té ársreikninga og hverjar þær skýrslur og gögn, er bankinn telur nauðsynleg, til þess að hann geti rækt þetta eftirlit. Ef einhver tregðast við að láta umbeðnar upplýsingar í té, má fjármálaráðherra beita dagsektum, allt að 500 kr. fyrir hvern dag, uns gögnin eru í té látin. Dagsektir þessar skal ákveða með ábyrgðarbréfi, og má innheimta þær með aðför.

8. gr.
     [Bankar, lánasjóðir, lánastofnanir, fyrirtæki og aðrir þeir aðilar, sem lögum samkvæmt njóta ábyrgðar ríkissjóðs, hvort sem hún byggist á eignaraðild ríkissjóðs eða öðru, skulu greiða ábyrgðargjald til ríkissjóðs af skuldbindingum sínum gagnvart erlendum aðilum, þar með talið af ábyrgðum, sbr. þó 9. gr.
     Ábyrgðargjald skv. 1. mgr. skal greiða ársfjórðungslega og nemur það 0,0625% af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga eins og hann er að meðaltali á hverju gjaldtímabili, sbr. 10. gr.]1)

1)L. 65/1988, 2. gr.


9. gr.
     [Við ákvörðun ábyrgðargjalds skv. 8. gr. af erlendum ábyrgðum er heimilt að draga frá gjaldstofni samanlagða fjárhæð staðgreiðsluábyrgða innlánsstofnana vegna innfluttrar vöru sem í gildi eru á uppgjörsdögum, sbr. 1. mgr. 10. gr., og gilda lengst í 60 daga. Staðgreiðsluábyrgð í þessu sambandi telst skuldbinding um innlausn heimildarskjala við framvísun þeirra erlendis.
     Lántökur, sem áhættugjald skv. 4. gr. hefur verið greitt af, svo og afurðalán vegna útflutnings, útflutningslán og birgðalán, sem tekin eru erlendis, eða endurlánað erlent lánsfé til útflytjenda í því skyni að flýta uppgjöri söluandvirðis við framleiðendur útflutningsafurða, mynda ekki stofn við ákvörðun ábyrgðargjalds skv. 8. gr. Sama á við um skuldbindingar vegna inneigna á innlendum gjaldeyrisreikningum í innlánsstofnunum.
     Ábyrgðargjald vegna skuldbindinga fyrirtækja, sem eru að hluta í eigu ríkissjóðs, skal reikna af sama hlutfalli skuldbindinganna og eignaraðild hans nemur. Eignaraðild ríkissjóðs í félögum og fyrirtækjum þar sem ábyrgð eigenda takmarkast við framlag þeirra, t.d. í hlutafélögum, veldur ekki gjaldskyldu.
     Seðlabanki Íslands skal undanþeginn ábyrgðargjaldi skv. 8. gr.]1)

1)L. 65/1988, 3. gr.


10. gr.
     [Gjaldskyldir aðilar skv. 8. gr. skulu skila skýrslu í því formi sem Seðlabanki Íslands ákveður þar sem fram komi brúttófjárhæð allra gjaldskyldra skuldbindinga eins og höfuðstóll þeirra er hinn 10., 20. og síðasta dag hvers mánaðar á hverju gjaldtímabili. Gjaldstofn ábyrgðargjalds er einfalt meðaltal fyrrgreindra fjárhæða.
     Ábyrgðargjaldi skv. 8. gr. skal skila ásamt skýrslu skv. 1. mgr. til Ríkisábyrgðasjóðs ársfjórðungslega eftir á. Gjalddagi vegna hvers ársfjórðungs er 15. dagur næsta mánaðar eftir að gjaldtímabili lýkur. Sé ábyrgðargjald ekki greitt á gjalddaga skal greiða dráttarvexti af því sem ógreitt er, sbr. III. kafla laga nr. 25/1987.]1)

1)L. 65/1988, 4. gr.


11. gr.
     [Seðlabanki Íslands annast útreikning og álagningu ábyrgðargjalds skv. 8. gr. og hefur með höndum eftirlit með innheimtu þess. Gjaldskyldir aðilar skulu veita honum allar þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar í því sambandi. Ríkisábyrgðasjóður hefur með hendi innheimtu gjaldsins og skilar því í ríkissjóð.]1)

1)L. 65/1988, 5. gr.


[12. gr.
     Fjármálaráðherra getur með reglugerð1) sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, svo sem um framkvæmd gjaldtöku skv. 4. og 8. gr., upplýsingaskyldu gjaldskyldra aðila, útreikninga, álagningu og innheimtu. Jafnframt getur hann í reglugerð2) m.a. ákveðið að ábyrgð ríkissjóðs megi ekki fara fram úr tilteknum hundraðshluta miðað við matsverð framkvæmdar nema lög mæli fyrir á annan hátt.]3)

1)Rg. 43/1967, sbr. 405/1987.2)Rg. 97/1990.3)L. 65/1988, 6. gr.


Ákvæði til bráðabirgða.
     Þar til ný lagaákvæði hafa verið sett um skiptingu kostnaðar við hafnargerðir milli ríkis og sveitarfélaga, skal heimilt, þrátt fyrir ákvæði 3. gr., að veita ríkisábyrgð vegna lána til hafnargerða eftir reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.