Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um atvinnuleysistryggingar

1993 nr. 93 30. júní


I. kafli.
Almenn ákvæði.
1. gr.
     Launamenn, sem verða atvinnulausir, eiga rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum.
     Sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem hættir eru eigin atvinnurekstri og eru atvinnulausir og í atvinnuleit, skulu eiga sama rétt til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði og launamenn, enda fullnægi þeir skilyrðum reglna1) sem ráðherra setur að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs.
     Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs veitir stéttarfélögum aðild að sjóðnum eftir umsókn þar um. Lögin taka ekki til þeirra sem tryggður er réttur til atvinnuleysisbóta með öðrum lögum.

1)Rg. 304/1994, sbr. viðmiðunarreglur 628/1994.

2. gr.
     ...

3. gr.
     ...

4. gr.
     ...

II. kafli.
Um stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs o.fl.
5. gr.
     Atvinnuleysistryggingasjóður skal inna af hendi þær bætur sem um ræðir í 1. gr. Árlegar tekjur sjóðsins eru þessar:
a.
Tekjur af tryggingagjaldi samkvæmt lögum um tryggingagjald.
b.
...1)
c.
Vextir af innistæðufé sjóðsins og verðbréfum.

1)L. 144/1995, 23. gr.


6. gr.
     [Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skipa ellefu menn. Tveir þeirra skulu tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands, einn af Bandalagi háskólamanna-BHMR, einn af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einn af Vinnuveitendasambandi Íslands, einn af fjármálaráðuneytinu og einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Fjórir stjórnarmenn skulu kosnir á Alþingi með hlutfallskosningu. Stjórnin setur sér reglur um störf sín, þar á meðal um það hvort stjórnin skipti með sér verkum þannig að hún geti starfað í tveimur hlutum sem hvor fyrir sig geti verið ályktunarhæfur. Allir aðalmenn í stjórninni skulu þó taka þátt í gerð umsagna og tillagna um breytingar á lögum og reglum um atvinnuleysistryggingar og meiri háttar ákvörðunum sem snerta fjárhag sjóðsins. Formaður skal sitja fundi í báðum hlutum stjórnarinnar sem oddamaður.]1) Varamenn skulu vera jafnmargir og aðalmenn og valdir með sama hætti og þeir. Skipun stjórnar fer fram að loknum hverjum almennum alþingiskosningum.
     Ráðherra skipar formann og varaformann sjóðsstjórnar úr hópi aðalmanna. Ráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna, sem greiðist úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

1)L. 45/1995, 1. gr.


7. gr.
     [Vinnumálaskrifstofa félagsmálaráðuneytisins]1) annast sjóðsvörslu, reikningshald og daglega afgreiðslu fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð í umboði sjóðstjórnar og undir umsjá hennar. Ráðherra getur ákveðið annað fyrirkomulag að fenginni umsögn sjóðstjórnar.
     [Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans.]1)
     ...1)

1)L. 45/1995, 2. gr.


8. gr.
     Reikningar Atvinnuleysistryggingasjóðs skulu endurskoðaðir af ríkisendurskoðun. Þeir skulu birtir ár hvert í Lögbirtingablaði.

III. kafli.
Um tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs.
9. gr.
     ...

10. gr.
     [Til Atvinnuleysistryggingasjóðs renna tekjur af atvinnutryggingagjaldi í samræmi við ákvæði laga um tryggingagjald.]1)

1)L. 144/1995, 24. gr.


11. gr.
     ...

12. gr.
     ...

13. gr.
     ...

14. gr.
     ...

15. gr.
     ...1)

1)L. 144/1995, 25. gr.


IV. kafli.
Um bótarétt.
16. gr.
     Rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum þessum hafa þeir sem eru atvinnulausir og í atvinnuleit og fullnægja eftirtöldum skilyrðum, sbr. þó 24. gr.:
1.
Eru orðnir 16 ára að aldri en yngri en 70 ára.
2.
[Dvelja hér á landi eða eru í atvinnuleit í EES-landi.]1)
3.
Hafa á síðustu 12 mánuðum unnið samtals a.m.k. 425 dagvinnustundir í tryggingaskyldri vinnu. Til að finna dagvinnustundir sjálfstætt starfandi skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu 12 mánuði áður en sjálfstæðri starfsemi var hætt. Til að finna dagvinnustundir sjómanna skal margfalda fjölda skráningardaga með 8. Hafi maður stundað samfellt vinnu fyrir og eftir að hann náði 16 ára aldri öðlast hann rétt til bóta ef hann hefur unnið í tryggingaskyldri vinnu a.m.k. þriðjung tilskilins dagvinnutíma eftir að hann varð 16 ára.
4.
Sanna með vottorði vinnumiðlunarskrifstofu samkvæmt lögum um vinnumiðlun að hann hafi í upphafi bótatímabils verið atvinnulaus þrjá eða fleiri heila vinnudaga, að jafnaði samfellt.

     Í þessu sambandi teljast ekki með þeir dagar er maður hefur verið í verkfalli eða verkbann tekur til.

1)L. 116/1993, 30. gr.


17. gr.
     [Sá sem fullnægir skilyrðum bótaréttar skv. 16. gr., en tekur að stunda nám eða verður að hverfa frá vinnu af heimilisástæðum, heldur í allt að 24 mánuði þeim bótarétti sem hann hafði áunnið sér.]1)
     Ef sá, sem hefur áunnið sér rétt til bóta, verður að hverfa frá vinnu vegna veikinda, heldur hann þeim bótarétti, þegar hann verður vinnufær á ný, enda sanni hann veikindin með læknisvottorði, svo og vinnuhæfni sína, ef hann sækir um atvinnuleysisbætur að loknum veikindum.
     Bótarétt getur enginn öðlast vegna atvinnuleysis, sem stafar af veikindum hans.
     Ákvæði 1. mgr. þessarar greinar gilda eftir því sem við á um þá, sem taldir eru í 3. tölul. 21. gr.

1)L. 45/1995, 3. gr.


18. gr.
     Sá sem gengur undir starfsþjálfun eða sækir námskeið til þess að öðlast hæfni í starfi sínu eða til að stunda ný störf nýtur á meðan atvinnuleysisbóta í allt að 8 vikur ef atvinnuleysi hefði skapað honum rétt til slíkra bóta þegar starfsþjálfun eða dvölin á námskeiðinu hófst, enda njóti hann ekki launa. Sama gildir þegar bótaþegi sækir námskeið verkalýðssamtaka eða almenn námskeið, sem miða að aukinni starfshæfni hans, allt að 8 vikum. Úthlutunarnefnd skal tilkynna hlutaðeigandi vinnumiðlunarskrifstofu ákvarðanir sínar samkvæmt þessari málsgrein. Úthlutunarnefnd krefur bótaþega um sannanir um þátttöku hans samkvæmt framansögðu að viðlagðri sviptingu bóta. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda ekki um þá sem taka að stunda námskeið eða annað nám sem varir lengur en 8 vikur.
     Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að veita styrki til rekstrar starfsþjálfunarnámskeiða á vinnustað eða utan hans. Styrkur þessi má nema allt að þeim atvinnuleysisbótum sem hver einstakur þátttakandi hefur áunnið sér rétt til, auk óhjákvæmilegs ferðakostnaðar sem miðast við fargjöld með almenningsfarartækjum.
     Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um veitingu styrkja samkvæmt þessari grein.

19. gr.
     Maður, sem fengið hefur rétt til bóta, en bótatíma hans er lokið skv. 22. gr., heldur bótarétti sínum ef hann er áfram atvinnulaus og fullnægir ákvæðum um skráningu hjá vinnumiðlun samkvæmt lögum þessum.
     Elli- og örorkulífeyrisþegar öðlast því aðeins bótarétt að loknu fyrsta bótatímabili, að þeir sanni vinnuhæfni sína með læknisvottorði.

20. gr.
     Til þess að öðlast bótarétt verður umsækjandi að láta skrá sig vikulega hjá vinnumiðlun, að viðlögðum missi bótaréttar. Geti umsækjandi ekki látið skrá sig vegna veikinda, skal hann láta skrá sig næsta dag, sem honum er unnt, að viðlögðum missi bóta samkvæmt framansögðu.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er úthlutunarnefnd eða stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt að ákveða að á afmörkuðum svæðum og í tiltekinn tíma skuli skráning fara fram oftar en vikulega, enda verði slíkt talið eðlilegt með hliðsjón af atvinnuástandi.
     [Bótaþegi, sem er í atvinnuleit í EES-landi, skal sæta reglum þess lands um eftirlit og skráningu hjá vinnumiðlun.]1)

1)L. 45/1995, 4. gr.


21. gr.
     Þrátt fyrir ákvæði 16.–20. gr. eiga eftirtaldir menn ekki rétt á atvinnuleysisbótum:
1.
Þeir sem taka þátt í verkfalli eða verkbann tekur til.
2.
Þeir sem njóta slysa- eða sjúkrapeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar.
3.
Þeir sem sviptir eru frelsi sínu með dómi.
4.
Þeir sem hafa sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á. Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 40 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem þessu nemur. Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótaréttindi að nýju nema sannað sé með vottorði vinnumiðlunarskrifstofu að hann hafi stundað vinnu í samfellt 6 vikur eftir að hann missti bótaréttinn.
5.
Þeir sem ófærir eru til vinnu af heilsufarsástæðum.
6.
Þeir sem neita starfi sem þeim býðst fyrir milligöngu vinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við gildandi kjarasamninga. Bótaréttur fellur ekki niður þótt sá sem hefur notið bóta í skemmri tíma en fjórar vikur hafni vinnu í starfsgrein sem hann hefur ekki áður stundað, enda fylgi starfinu að mati úthlutunarnefndar mun meiri áreynsla og vosbúð en þeim störfum sem hann hefur áður stundað. Þegar hafnað er vinnu fjarri heimili eða af öðrum ástæðum metur úthlutunarnefnd hvort það skuli varða missi bótaréttar og skal þá gætt m.a. heimilisástæðna umsækjanda. Um missi bótaréttar samkvæmt þessum tölulið gilda ákvæði 4. tölul.
7.
Þeir sem stunda vinnu í eigin þágu sem gefur þeim tekjur eða tekjuígildi er a.m.k. samsvarar hámarksbótum atvinnuleysistrygginga á hverjum tíma. [Nú samsvara tekjurnar eða tekjuígildið ekki hámarksbótum atvinnuleysistrygginga og má þá greiða mismun atvinnuleysisbóta og teknanna eða tekjuígildisins.]1)
8.
Þeir sem firrt hafa sig bótarétti skv. 41. gr.

1)L. 127/1993, 10. gr.


22. gr.
     Maður, sem öðlast bótarétt samkvæmt ákvæðum þessa kafla, á rétt á bótum fyrir þá daga sem hann er atvinnulaus frá og með 1. skráningardegi, sbr. þó 5. mgr. 24. gr., enda hafi tekjur hans síðustu 6 mánuði fyrir skráningu eigi verið hærri að meðaltali en sem nemur tvöföldum atvinnuleysisbótum á mánuði.
     Nú voru tekjur viðkomandi síðustu 6 mánuði fyrir skráningu hærri að meðaltali en sem nemur tvöföldum atvinnuleysisbótum á mánuði og frestast þá réttur til atvinnuleysisbóta þar til meðaltekjur fyrir liðinn mánuð verða jafnháar tvöföldum atvinnuleysisbótum. Nánari reglur um útreikning biðtíma skal ráðherra setja með reglugerð að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs.
     [Atvinnuleysisbætur skulu greiðast fyrir alla daga nema laugardaga og sunnudaga á hverju bótatímabili sem skal vera 260 dagar eða samtals 52 vikur.]1)
     Nú fær bótaþegi tilfallandi vinnu dag og dag og skulu atvinnuleysisbætur hans þá skerðast vegna þessarar vinnu til samræmis við unninn stundafjölda, þó aldrei meira en miðað við 8 klst. fyrir hvern sólarhring. Þessi vinna skal ekki hafa áhrif á áunninn rétt bótaþegans til atvinnuleysisbóta.
     Gefa skal atvinnulausum kost á að sækja endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeið eða taka þátt í átaksverkefnum í a.m.k. 8 vikur á hverju bótatímabili. Sinni hinn atvinnulausi ekki slíkum tilboðum fellur hann af bótum að loknu hverju bótatímabili í 16 vikur. Þátttaka í námskeiðum eða átaksverkefnum í skemmri tíma en 8 vikur skerðir biðtímann að loknu hverju bótatímabili hlutfallslega.

1)L. 127/1993, 11. gr.


V. kafli.
Atvinnuleysisbætur.
23. gr.
     [Hámarksbætur atvinnuleysistrygginga skulu nema [2.482 kr.]1) á dag. Lágmarksbætur eru 1/4 hluti sömu fjárhæðar. Fjárhæð hámarksbóta kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er félagsmálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta bótafjárhæð um allt að 3% frá forsendum fjárlaga ef verulegar breytingar verða á þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga.]2)
     Að auki skal greiða bótaþegum, sem hafa börn sín yngri en 18 ára á framfæri á heimili sínu eða greiða sannanlega með þeim meðlag utan heimilis, 4% af framangreindum launum með hverju barni.
     Af atvinnuleysisbótum greiðir bótaþegi 4% í lífeyrissjóð og Atvinnuleysistryggingasjóður 6%.
     Elli- og örorkulífeyrir, svo og örorkustyrkur frá Tryggingastofnun ríkisins, skal koma til frádráttar atvinnuleysisbótum. [Nú fær bótaþegi ekki fullar atvinnuleysisbætur og skal þá eingöngu skerða bæturnar hlutfallslega.]3)

1)L. 140/1996, 11. gr.2)L. 144/1995, 26. gr.3)L. 127/1993, 12. gr.


24. gr.
     Fjárhæð bóta miðast við unnar dagvinnustundir í tryggingarskyldri vinnu á síðustu 12 mánuðum fyrir fyrsta skráðan atvinnuleysisdag. Hámarksbætur greiðast þeim, sem unnið hafa í 1700 dagvinnustundir eða fleiri. Lágmarksbætur greiðast, þegar dagvinnustundir eru 425. Annars greiðast bætur í hlutfalli við dagvinnustundafjölda.
     ...1)
     Bætur vegna barna skv. 23. gr. skerðast ekki.
     Vinna í reglubundinni vaktavinnu svo og vinna, sem eðli sínu samkvæmt er jafnan unnin utan venjulegs dagvinnutíma, telst dagvinna í þessu sambandi, þó aldrei yfir 40 klukkustundir á viku.
     [Nú ber nauðsyn til að skerða dagvinnutíma starfsmanna vegna samdráttar í starfsemi fyrirtækis og skal þá greiða starfsmönnum þann hluta þeirra atvinnuleysisbóta, sem þeir eiga rétt á, sem svarar til skerðingar dagvinnutímans, enda taki ráðstafanir þessar almennt til starfsmanna fyrirtækisins eða starfsmanna í einstökum greinum starfsemi þess ef um fleiri en eina er að ræða. Fyrirsjáanlega skerðingu vinnutíma skal atvinnurekandi tilkynna fyrir fram til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og gera ítarlega grein fyrir ástæðum til samdráttar. Tilkynningu skal fylgja skrá um það starfsfólk sem ráðgert er að skerðingin taki til ásamt upplýsingum um dagvinnustundafjölda einstakra starfsmanna hjá fyrirtækinu á síðustu 12 mánuðum áður en til skerðingar kemur, svo og upplýsingum um stéttarfélög viðkomandi. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs staðreynir skrána, svo og síðari upplýsingar um það fólk sem skerðingin tekur til, og sendir til úthlutunarnefnda atvinnuleysisbóta fyrir þau félög, sem starfsmenn eru félagar í, sem síðan úrskurða um bótarétt. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að synja um greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt þessari málsgrein ef hún telur að fyrirtæki hafi ekki tilgreint nægilegar ástæður til samdráttar. Ekki verða greiddar bætur samkvæmt þessari grein lengur en 30 bótadaga fyrir hvern starfsmann á almanaksári. Komi til uppsagna starfsmanna falla greiðslur niður og eiga þeir ekki bótarétt að nýju fyrr en að loknum uppsagnarfresti.]2)
     Nú hefur umsækjandi, sem hefur áunnið sér bótarétt, auk þess stundað skólanám á síðustu 12 mánuðum í ekki skemmri tíma en 6 mánuði og lokið námi eða einsýnt þykir, að hann hafi hætt námi og skal þá reikna honum 520 dagvinnustundir vegna námsins til viðbótar vinnustundum hans að námi loknu.
     Nú á umsækjandi geymdan bótarétt, sbr. 17. gr., og fær hann þá bætur í samræmi við það, nema starfstími hans eftir að hann hóf að nýju tryggingarskyld störf, gefi tilefni til annars.
     Hafi umsækjandi notið atvinnuleysisbóta á síðustu 12 mánuðum, skal reikna honum bótadaga á því tímabili til starfstíma. Hafi hann notið fullra bóta, reiknast tímabilið með fullum dagvinnutíma, ella skerðist það í sama hlutfalli og bætur sem hann naut.
     Atvinnuleysistryggingasjóður leggur úthlutunarnefndum til skrá um ákvörðun dagpeninga. Skráin skal tilgreina 76 þrep, frá 25% til 100% bóta, þannig að bætur hækki um 1% hámarksbóta við hvert þrep eftir starfstíma.

1)L. 45/1995, 5. gr.2)L. 127/1993, 13. gr.


[24. gr. a.
     Við ákvörðun bóta til manns, sem starfaði sem launamaður áður en hann varð atvinnulaus, er heimilt að taka tillit til starfstímabila sem hann á að baki í EES-landi, enda hafi hann fallið undir löggjöf um bætur vegna atvinnuleysis í því landi og leggi fram tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil þar.
     Ráðherra setur með reglugerð nánari reglur um hvaða skilyrðum þarf að vera fullnægt til að njóta réttar skv. 1. mgr.]1)

1)L. 45/1995, 6. gr.


VI. kafli.
Úthlutunarnefndir og greiðsla bóta.
25. gr.
     Úthlutunarnefnd hefur á hendi úthlutun bótafjár fyrir hvert félag eða félagasamband. Úthlutunarnefnd skal skipuð fimm mönnum, þremur frá því stéttarfélagi eða félagasambandi, sem hlut á að málum, einum frá Vinnuveitendasambandi Íslands og einum frá Vinnumálasambandi samvinnufélaga. [Úthlutunarnefnd fyrir opinbera starfsmenn skal, eftir því hver á hlut að máli, skipuð þremur mönnum frá viðkomandi bandalagi opinberra starfsmanna, eða stéttarfélagi sem er utan bandalaga, einum fulltrúa frá fjármálaráðuneyti og einum fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Varamenn skulu vera jafnmargir og aðalmenn og valdir með sama hætti og þeir.]1) Nefndin kýs sér sjálf formann og ritara. [Ráðherra getur með reglugerð2) ákveðið að sameina úthlutunarnefndir tveggja eða fleiri félaga eða félagasambanda.]3)
     [Ráðherra]3) ákveður þóknun nefndarmanna og úrskurðar um kostnað vegna nefndarstarfanna. Allur kostnaður vegna nefndarstarfa greiðist úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
     Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs ákveður með hvaða hætti skuli úthlutað til bótaþega sem ekki eru í stéttarfélagi og sjálfstætt starfandi.

1)L. 45/1995, 7. gr.2)Rg. 150/1995, sbr. 243/1995.3)L. 127/1993, 14. gr.


26. gr.
     Umsóknir um bætur skulu ritaðar á eyðublöð sem ráðuneytið lætur gera. Skulu eyðublöð þessi þannig úr garði gerð, að þau séu hvort tveggja í senn, umsóknir um atvinnu, til afnota fyrir vinnumiðlun og umsóknareyðublað um bætur, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 18/1985, um vinnumiðlun.
     Umsókn ásamt nauðsynlegum gögnum sendist úthlutunarnefnd eða stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs eftir því sem við á.

27. gr.
     Úthlutunarnefnd skal halda fundi svo oft sem þurfa þykir. Nefnd er því aðeins ályktunarfær, að meirihluti nefndarmanna sitji fund.
     Úthlutunarnefnd úrskurðar um umsóknir til samþykktar eða synjunar. Hún úrskurðar hvaða hundraðshluta hámarksbóta skal greiða umsækjanda. Allar ákvarðanir varðandi bótarétt skal færa í gerðabók, svo og úrskurði um ágreiningsatriði. Nefndarmenn skulu undirrita gerðabók.
     Þegar úthlutunarnefnd hefur ákveðið hvaða bætur skal greiða umsækjanda, getur hún falið einstökum nefndarmönnum eða starfsmönnum sínum frekari afgreiðslu, útreikning framhaldsbóta samkvæmt dagpeningavottorðum vinnumiðlunar og útborgun bóta.
     Bótafjárhæðir samkvæmt úrskurðum nefndarinnar skal færa á bótaskrá. Í bótagögnum skal sérstaklega geta þess, ef ágreiningur hefur verið um úrskurð, svo og rita á þau þær athugasemdir eða skýringar, sem nefndin telur ástæðu til.
     Að þessu loknu skal senda bótaskrá ásamt umsóknum og fylgiskjölum til [vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins]1) eða umboðsmanna hennar.

1)L. 45/1995, 8. gr.


28. gr.
     Þegar skrá um bætur hefur borist frá úthlutunarnefnd, sbr. 27. gr., skal [vinnumálaskrifstofa félagsmálaráðuneytisins]1) eða umboðsmenn hennar þegar í stað kanna skrána og fylgiskjöl hennar. Telji þessir aðilar, að einhverjum hafi verið úrskurðaðar bætur, sem ekki eiga rétt á þeim, eða að bætur séu rangt ákveðnar, skulu þeir leiðrétta skrána í samráði við úthlutunarnefnd. Verði ekki samkomulag um leiðréttingu, frestast að svo stöddu greiðsla bóta að þeim hluta, sem ágreiningur er um, og fer um ágreininginn samkvæmt 29. gr.
     Að lokinni könnun og leiðréttingu bótaskrár, skal [vinnumálaskrifstofa félagsmálaráðuneytisins]1) eða umboðsmenn hennar afhenda úthlutunarnefnd eintak af henni ásamt nægilegu fé til greiðslu bóta. Að lokinni greiðslu skal úthlutunarnefnd skila eintaki af skránni með áritaðri kvittun bótaþega.

1)L. 45/1995, 9. gr.


29. gr.
     Verði ágreiningur með nefndarmönnum í úthlutunarnefnd, sbr. 2. mgr. 27. gr., getur sá nefndarmaður, sem eigi vill una úrskurði meirihluta, skotið ágreiningi til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Á sama hátt getur úthlutunarnefnd og [vinnumálaskrifstofa félagsmálaráðuneytisins]1) eða umboðsmenn hennar skotið til sjóðsstjórnar ágreiningi skv. 1. mgr. 28. gr., sem eigi hefur náðst samkomulag um. Þá getur umsækjandi um bætur, sem eigi vill una ákvörðun úthlutunarnefndar eða [vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins],1) skotið máli sínu til sjóðsstjórnar.
     Sá, sem áfrýja vill máli til sjóðsstjórnar, skal senda henni greinargerð ásamt öllum sömu gögnum, sem lögð höfðu verið fyrir úthlutunarnefnd eða eftir atvikum [vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins],1) er þessir aðilar kváðu upp úrskurð sinn. Berist ný gögn, skal málið tekið upp að nýju og úrskurðað, áður en stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs tekur það til afgreiðslu.
     Úrskurðir stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs um bætur eru endanlegir.

1)L. 45/1995, 10. gr.


30. gr.
     [Úthlutunarnefndir annast greiðslu bóta til einstakra bótaþega nema ráðherra ákveði annað.]1)
     [Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að fela öðrum aðila en úthlutunarnefnd skv. 1. mgr. 25. gr. að annast úthlutun atvinnuleysisbóta ef eftir því er leitað og samkomulag verður um fyrirkomulag.]2)
     [Umboðsmenn vinnumálaskrifstofunnar skulu mánaðarlega senda skrifstofunni bótaskrár, sem þeir hafa afgreitt í liðnum mánuði, ásamt fylgiskjölum.]2)

1)L. 127/1993, 15. gr.2)L. 45/1995, 11. gr.


31. gr.
     Stjórn sjóðsins skal fylgjast með störfum úthlutunarnefnda og [vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins]1) og umboðsmanna hennar um allt, er atvinnuleysisbætur varðar.

1)L. 45/1995, 12. gr.


VII. kafli.
Um fjárreiður Atvinnuleysistryggingasjóðs.
32. gr.
     Stjórn sjóðsins tekur ákvarðanir um ávöxtun fjár sjóðsins. Skal þess gætt, að sjóðurinn hafi nægilegt laust fé til að standa við skuldbindingar sínar. Við ávöxtun fjár sjóðsins skal þess jafnan gætt að örva atvinnu á þeim stöðum, þar sem slíks er þörf.

33. gr.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að veita lán með lágum vöxtum eða vaxtalaus til eflingar atvinnulífi á þeim stöðum, þar sem atvinnuleysi er alvarlegt.
     Áður en slík lán eru veitt skal liggja fyrir rannsókn á atvinnuþáttum og atvinnumöguleikum á þeim stöðum, þar sem skal lána samkvæmt þessari grein. Er stjórn sjóðsins heimilt að láta fara fram slíka rannsókn á sinn kostnað ef þurfa þykir.
     Sjóðsstjórn skal leita umsagnar vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins áður en veitt eru lán samkvæmt þessari grein.

34. gr.
     ...1)

1)L. 127/1993, 16. gr.


35. gr.
     Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að veita styrk úr sjóðnum til einstakra sveitarfélaga með þeim forsendum:
1.
að verulegt atvinnuleysi sé eða sé fyrirsjáanlegt í hlutaðeigandi sveitarfélagi sem útlit sé fyrir að verði langvarandi,
2.
að sveitarfélagið láti hefja vinnu við tilgreindar framkvæmdir og ráði í því skyni til vinnu ákveðinn fjölda atvinnulausra manna í héraðinu til ákveðins tíma,
3.
að sveitarfélagið greiði laun fyrir þessa vinnu samkvæmt gildandi kjarasamningi eða taxta verkalýðsfélags,
4.
að hlutaðeigandi verkalýðsfélög og samtök atvinnurekenda samþykki styrkveitinguna,
5.
að réttur atvinnulausra manna til bóta að framkvæmdum loknum verði a.m.k. hinn sami og hann var þegar þeir hófu umrædda vinnu, ef þeir verða þá atvinnulausir.

     Nú verður víðtækt og mikið atvinnuleysi og er þá stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt að greiða í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir aukakostnað við að koma í veg fyrir atvinnuleysi á svæðinu, t.d. flutningskostnað á afla milli byggðarlaga og landshluta.
     Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs leggur sjálfstætt mat á það, hvort, hvernig eða hvenær henni þykir ástæða til að nota þessa heimild.

36. gr.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að veita lán með lægri vöxtum en venjulegum útlánsvöxtum til að koma á fót vinnu- og þjálfunarstöðvum fyrir fatlaða. Ekki mega slík lán þó nema meira en 40% stofnkostnaðar. Þá er stjórninni heimilt að greiða allt að þriðjungi rekstrarhalla slíkra stöðva, enda mæli stjórnarnefnd um málefni fatlaðra með því að slíkur styrkur verði veittur.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að veita styrki til eftirtalinna verkefna:
1.
endurþjálfunar starfsmannahópa sem misst hafa atvinnu sína vegna breyttra atvinnuhátta,
2.
að greiða fyrir tilfærslu starfsmanna milli starfsgreina og vegna búferlaflutninga í atvinnuskyni,
3.
þróunarverkefna til varanlegrar atvinnusköpunar.


37. gr.
     [Til lánveitinga og styrkja samkvæmt þessum kafla og til að standa straum af kostnaði skv. 5. mgr. 22. gr. er stjórn sjóðsins heimilt að verja árlega allt að 62 m.kr. í samræmi við reglur1) sem ráðherra setur.]2)
     [Auk framlaga skv. 1. mgr. skal árlega verja ákveðnum fjárhæðum úr sjóðnum til að styrkja starfsmenntun í atvinnulífinu, sbr. lög þar að lútandi, og til sérstakra þróunarverkefna til að fjölga atvinnutækifærum fyrir konur samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Fjárhæð þessara framlaga ákvarðast við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.]3)

1)Rg. 705/1995.2)L. 148/1994, 4. gr.3)L. 140/1996, 12. gr.


38. gr.
     Nú skortir sjóðinn reiðufé til að standa við skuldbindingar sínar. Skal stjórn sjóðsins þegar í stað tilkynna það ráðherra. Ríkissjóður skal leggja fram fé til að bæta úr fjárskortinum, annaðhvort sem fjárframlag eða lán.

VIII. kafli.
Ýmis ákvæði.
39. gr.
     Eigi má gera fjárnám í bótum samkvæmt lögum þessum sem eigi hafa verið greiddar bótaþega. Eigi má heldur taka bætur til greiðslu opinberra gjalda annarra en staðgreiðslu opinberra gjalda.
     [Skattstjórum og Tryggingastofnun ríkisins er skylt að láta Atvinnuleysistryggingasjóði í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laga þessara.
     Með einstaklingsbundnar upplýsingar, sem Atvinnuleysistryggingasjóði eru látnar í té samkvæmt þessari grein, skal farið sem trúnaðarmál.]1)

1)L. 148/1994, 5. gr.


40. gr.
     Atvinnuleysistryggingasjóður skal tryggja launafólki fyrirtækja, sem verða gjaldþrota, rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta þann tíma sem það er án atvinnu á uppsagnarfresti meðan það bíður eftir endanlegu uppgjöri á launakröfum sínum samkvæmt lögum um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota.

41. gr.
     Sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar um hagi sína missir rétt til bóta.
     Fyrsta brot varðar missi bóta í 2–6 mánuði, en ítrekað brot í 1–2 ár. Úthlutunarnefnd úrskurðar um missi bótaréttar af þessum sökum en úrskurðum hennar má skjóta til stjórnar sjóðsins sem úrskurðar endanlega um málið. Úthlutunarnefnd skal tilkynna sjóðstjórn um missi bótaréttar samkvæmt þessari grein.
     Nú hefur bótaþegi aflað sér bóta með sviksamlegu athæfi, sbr. 1. mgr., og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 2. mgr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.

[41. gr. a.
     Atvinnuleysistryggingasjóði er heimilt fyrir hönd þar til bærrar stofnunar í EES-landi að greiða ríkisborgara í EES-ríki, sem hingað kemur í atvinnuleit, atvinnuleysisbætur, enda endurgreiði sú stofnun sjóðnum þær fjárhæðir sem þannig eru inntar af hendi.]1)

1)L. 116/1993, 30. gr.


[41. gr. b.
     Heimilt er að birta sem reglugerðir reglur Evrópusambandsins um atvinnuleysisbætur, enda eigi ákvæði þeirra stoð í lögum þessum.]1)

1)L. 45/1995, 13. gr.


42. gr.
     Ráðherra skal að tillögum sjóðsstjórnar setja nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.1)

1)Rg. 221/1973 (úthlutun bóta vegna atvinnuleysis). Rg. 524/1996 (um greiðslu atvinnuleysisbóta).


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     ...
II.
     Á meðan kjararannsóknarnefnd starfar, skal kostnaður við störf nefndarinnar greiddur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Reikningar yfir slíkan kostnað skulu samþykktir af forsætisráðherra.
     Verði breyting á starfsemi kjararannsóknarnefndar, er ráðherra heimilt að samþykkja greiðslu kostnaðar af hliðstæðri starfsemi og kjararannsóknarnefnd hefur annast, þótt ákveðið verði, að hún yrði unnin af öðrum aðilum.
III.
     ...
[IV.
     Á árinu 1994 er Atvinnuleysistryggingasjóði heimilt að greiða þeim sem þegið hafa atvinnuleysisbætur í samtals fjóra mánuði eða lengur á tólf mánaða tímabili sambærilega uppbót og kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins gera ráð fyrir.]1)

1)L. 148/1994, 6. gr.

V.
     [Í samræmi við 5. mgr. 22. gr. skal stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt á árinu 1997, þrátt fyrir ákvæði 37. gr., að gera tillögu til að styrkja sérstök verkefni á vegum sveitarfélaga til eflingar atvinnulífi, enda verði dregið samsvarandi úr greiðslum atvinnuleysisbóta á viðkomandi stað. Úthlutun styrkja skal vera í samræmi við reglur sem ráðherra setur að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tillögur sjóðstjórnar um styrkveitingu skulu staðfestar af ráðherra.]1)

1)L. 140/1996, 13. gr.

[VI.
     Bandalag háskólamanna-BHMR, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, fjármálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga skulu þegar eftir gildistöku þessara laga öðlast rétt til að eiga einn fulltrúa, hver aðili fyrir sig, í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sem skulu eiga sæti í stjórninni þar til ný stjórn verður skipuð eftir næstu alþingiskosningar.]1)

1)L. 45/1995, brbákv. I.

[VII.
     Á árunum 1995 og 1996 er Atvinnuleysistryggingasjóði heimilt að greiða þeim sem þegið hafa atvinnuleysisbætur í samtals fjóra mánuði eða lengur á tólf mánaða tímabili sambærilega uppbót og kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins gera ráð fyrir. Í reglugerð sem félagsmálaráðherra setur, að fengnum tillögum stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, skal setja nánari reglur um uppbótina.]1)

1)L. 45/1995, brbákv. II.