Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um félagslega aðstoð

1993 nr. 118 23. desember


1. gr.
     [Bætur félagslegrar aðstoðar eru mæðra- og feðralaun, barnalífeyrir vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18–20 ára, umönnunargreiðslur, endurhæfingarlífeyrir, makabætur, dánarbætur, heimilisuppbót, sérstök heimilisuppbót, frekari uppbætur, bætur vegna bifreiðakostnaðar, bifreiðakaupastyrkir og endurgreiðsla umtalsverðs kostnaðar við læknishjálp og lyf.]1)
     Bætur félagslegrar aðstoðar greiðast eingöngu þeim sem lögheimili eiga hér á landi, sbr. 1. gr. laga um lögheimili, og að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna og reglugerða sem settar eru með stoð í þeim. Þar er heimilt að tengja greiðslu bótanna við tekjur [aðrar en húsaleigubætur, eftir því sem við á].2)
     Lífeyristryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins skal annast greiðslu félagslegrar aðstoðar samkvæmt lögum þessum, sbr. þó 12. gr.
     Kostnaður við bætur félagslegrar aðstoðar greiðist úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun fjárlaga og fjáraukalaga hverju sinni.

1)L. 144/1995, 39. gr.2)L. 148/1994, 17. gr.


2. gr.
     
Mæðra- og feðralaun.

     Heimilt er að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og eiga lögheimili hér á landi. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um greiðslu mæðra- og feðralauna. Þar er einnig heimilt að skilyrða greiðslu mæðra- og feðralauna við að meðlagsúrskurður hafi verið kveðinn upp eða fyrir liggi staðfest samkomulag um greiðslu framfærslueyris.
     [Árleg mæðra- og feðralaun skulu vera sem hér segir:
Með tveimur börnum37.728 kr.
Með þremur börnum eða fleiri98.088 kr.]1)
     Tryggingaráði er heimilt að greiða mæðra- og feðralaun til maka elli- eða örorkulífeyrisþega þegar bætur almannatrygginga falla niður vegna vistunar á stofnun. Tryggingaráði er og heimilt að greiða maka einstaklings sem sætir gæslu- eða refsivist mæðra- eða feðralaun, enda hafi vistin varað a.m.k. þrjá mánuði.
     Mæðra- og feðralaun falla niður einu ári eftir að viðtakandi launanna skráir sig í þjóðskrá í óvígða sambúð með öðrum en foreldri barnsins eða barnanna, sbr. og 44. gr. laga um almannatryggingar. Nú skráir viðtakandi launanna sig í óvígða sambúð með foreldri barnsins eða barnanna, fyrrverandi sambýlisaðila eða gengur í hjúskap og falla þá launin strax niður.

1)L. 144/1995, 40. gr.


3. gr.
     
Barnalífeyrir.

     Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins er heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18–20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar eru látnir, enn fremur ef foreldrar eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir. Samkvæmt málsgrein þessari greiðist eingöngu einfaldur barnalífeyrir. Lífeyrisdeild metur sönnun um skólavist og starfsþjálfun. Skilyrði er að námið og þjálfunin taki a.m.k. sex mánuði hvert ár. Ef um er að ræða óreglulegt nám eða námskeið skal námstími reiknaður í kennslustundafjölda á almanaksárinu og telst þá sex mánaða nám samsvara 624 kennslustundum. Brot úr mánuði telst heill mánuður. Ungmennið sjálft sækir um barnalífeyri samkvæmt þessari málsgrein. Lífeyrisdeild getur frestað afgreiðslu barnalífeyris þar til sex mánaða námstíma er náð. Nú verður úrskurði skv. 1. mgr. 13. gr. barnalaga, nr. 20/1992, eigi við komið vegna efnaleysis foreldris eða ekki tekst að hafa uppi á því og er þá tryggingaráði heimilt að úrskurða barnalífeyri með ungmenni er stundar sannanlegt nám samkvæmt þessari málsgrein. Lífeyrisdeild getur krafist framlagningar skattframtala með umsóknum um barnalífeyri. Tryggingaráði er og heimilt að úrskurða barnalífeyri með ungmenni er stundar sannanlegt nám ef ljóst er að ungmenninu er ókleift að innheimta greiðslur samkvæmt úrskurði á grundvelli 1. mgr. 13. gr. barnalaga, nr. 20/1992. Ef efnahagur er sérstaklega góður, umsækjandi hefur t.d. tekið arf, getur lífeyrisdeild hafnað umsókn en skjóta skal slíkum málum til tryggingaráðs sem úrskurðar í málinu.

4. gr.
     
Umönnunargreiðslur.

     Heimilt er að greiða framfærendum fatlaðra og sjúkra barna, sem dveljast í heimahúsi, eða á sjúkrahúsi um stundarsakir, styrk, allt að 9.247 kr., eða umönnunarbætur, allt að 47.912 kr. á mánuði, ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld eða sérstaka umönnun eða gæslu. Tryggingastofnun ríkisins úrskurðar og annast greiðslu styrks og umönnunarbóta að fengnum tillögum svæðisstjórna samkvæmt lögum um málefni fatlaðra ef um fatlað barn er að ræða. Greiðsla styrks skal miðuð við 10–40 klst. þjónustu á mánuði en greiðsla umönnunarbóta 40–175 klst. þjónustu á mánuði sem tryggingaráði er heimilt að hækka í allt að 200 klst. mæli sérstakar ástæður með því að mati svæðisstjórna. Dagleg þjónusta við barn utan heimilis skerðir umönnunarbætur. Um framkvæmd greinarinnar fer eftir reglugerð sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur í samráði við félagsmálaráðherra að fengnum tillögum tryggingaráðs.

5. gr.
     
Makabætur.

     Heimilt er, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega makabætur sem eru allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga.

6. gr.
     
Dánarbætur.

     Heimilt er að greiða hverjum þeim, sem á lögheimili hér á landi og verður ekkja eða ekkill innan 67 ára aldurs, bætur í sex mánuði eftir lát maka, 15.448 kr. á mánuði.
     [Ef hlutaðeigandi er með barn yngra en 18 ára á framfæri eða við aðrar sérstakar aðstæður er heimilt að greiða bætur í a.m.k. 12 mánuði til viðbótar en þó aldrei lengri tíma en 48 mánuði, 12.139 kr. á mánuði.]1)

1)L. 144/1995, 41. gr.


7. gr.
     ...1)

1)L. 144/1995, 42. gr.


8. gr.
     
Endurhæfingarlífeyrir.

     Heimilt er þegar ekki verður séð hver örorka einstaklings verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að tólf mánuði eftir að greiðslu sjúkra- eða slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar lýkur eða þar til unnt er að meta varanlega örorku, þó aldrei lengur en í 18 mánuði. Skilyrði er að viðkomandi gangist undir greiningu eða meðferð á sjúkrastofnun eða utan slíkrar stofnunar eftir reglum sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir. Endurhæfingarlífeyrir skal nema sömu fjárhæð og grunnlífeyrir örorkulífeyris ásamt tekjutryggingu. [Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum sem um elli- og örorkulífeyri.]1) Sjúkrahúsvist í greiningar- og endurhæfingarskyni skerðir ekki bótagreiðslur.

1)L. 152/1995, 1. gr.


9. gr.
     
Heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót.

     Heimilt er að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót, 7.711 kr. á mánuði. Eigi viðkomandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar skal lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum.
     Ef einhleypingur hefur eingöngu tekjur úr lífeyristryggingum almannatrygginga skal hann til viðbótar við heimilisuppbót eiga rétt á sérstakri heimilisuppbót, 5.304 kr. á mánuði. [Nú hefur einhleypingur aðrar tekjur en úr lífeyristryggingum almannatrygginga og skal sérstaka heimilisuppbótin þá skerðast krónu fyrir krónu uns hún fellur niður.]1)

1)L. 148/1994, 18. gr.


10. gr.
     
Frekari uppbætur.

     Heimilt er að greiða frekari uppbætur til elli- og örorkulífeyrisþega ef sýnt þykir að lífeyrisþegi geti ekki framfleytt sér án þess.

11. gr.
     
Bifreiðakostnaður.

     Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunarbótaþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar.
     Sama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar.

12. gr.
     
Endurgreiðsla umtalsverðs kostnaðar við læknishjálp og lyf.

     Nú verða útgjöld sjúkratryggðs vegna læknishjálpar og lyfja umtalsverð og er Tryggingastofnun ríkisins þá heimilt að endurgreiða hlutaðeigandi þennan kostnað að hluta eða að fullu að teknu tilliti til tekna og í samræmi við reglur1) sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið setur.
     Sjúkratryggingadeild annast endurgreiðslur samkvæmt þessari grein.

1)Rg. 231/1993, sbr. 70/1996, 88/1996 og 246/1996.


13. gr.
     Ákvæði laga um almannatryggingar gilda um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á, m.a. um kærurétt til tryggingaráðs og um hækkun bóta.1)
     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra getur með reglugerð2) sett frekari ákvæði um greiðslu félagslegrar aðstoðar samkvæmt lögum þessum.

1)Rg. 678/1995.2)Rg. 59/1996, sbr. 245/1996.


14. gr.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994.

[Ákvæði til bráðabirgða.
     Konur, sem fá greiddan ekkjulífeyri 31. desember 1995, skulu fá ekkjulífeyri greiddan til 67 ára aldurs enda uppfylli þær skilyrði fyrir greiðslu ekkjulífeyris sem giltu fyrir 1. janúar 1996. Greiðsla ekkjulífeyris til þessa hóps skal vera í samræmi við reglur um greiðslu ekkjulífeyris sem giltu fyrir 1. janúar 1996.]1)

1)L. 144/1995, 43. gr.