Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Ljósmæðralög

1984 nr. 67 28. maí


1. gr.
     [Rétt til þess að kalla sig ljósmóður og stunda ljósmóðurstörf hér á landi hefur:
1.
sá sem fengið hefur leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 2. gr.,
2.
sá sem fengið hefur staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á ljósmæðraleyfi í landi sem aðili er að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.

     Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um þá sem stunda mega ljósmóðurstörf hér á landi skv. 2. tölul. 1. mgr.]1)

1)L. 116/1993, 5. gr.


2. gr.
     [Leyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hefur prófi frá Ljósmæðraskóla Íslands.
     Ráðherra getur veitt öðrum leyfi er lokið hafa jafngildu námi erlendis í löndum utan EES-svæðisins að fenginni umsögn ljósmæðraráðs sem ráðherra skipar. Ljósmæðraráð skal skipað þremur aðilum til fimm ára og skal einn tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, einn af Ljósmæðrafélagi Íslands og einn af Ljósmæðraskóla Íslands.
     Útlendingar, sem sækja um leyfisveitingu skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr., skulu hafa næga kunnáttu í töluðu og rituðu íslensku máli.]1)

1)L. 116/1993, 5. gr.


3. gr.
     Hverjum þeim, sem hefur rétt skv. 1. gr. og hefur fengið leyfi skv. 2. gr. til ljósmóðurstarfa, er frjálst að stunda ljósmóðurstörf hvar sem er hér á landi.
     Ljósmóðir, sem stundar fæðingarhjálp í heimahúsum á eigin vegum, skal þó tilkynna það viðkomandi héraðslækni og leggja fyrir hann skilríki sín.

4. gr.
     Ljósmæður annast eftirlit með barnshafandi konum og foreldrafræðslu um meðgöngu og fæðingu. Ljósmæður starfa að fæðingarhjálp og mæðravernd.

5. gr.
     Óheimilt er að ráða til ljósmóðurstarfa aðra en þá sem hafa starfsleyfi samkvæmt lögum þessum.

6. gr.
     Ljósmóður ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.

7. gr.
     Ljósmóður er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem hún fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara að lögum eða skv. eðli máls. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi hafi látið af störfum.

8. gr.
     Um ljósmæður gilda að öðru leyti og eftir því sem við getur átt reglur læknalaga, nr. 80/1969, með áorðnum breytingum.1) Reglur læknalaga gilda m.a. um sviptingu og endurveitingu starfsréttinda og um refsingu vegna brota ljósmæðra.

1)l. 53/1988.


9. gr.
     Með mál út af brotum gegn lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.

10. gr.
     Ráðherra getur í reglugerð1) sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

1)Rg. 103/1933, sbr. 225/1974 og 169/1986.


11. gr.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. ...