Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl.

1985 nr. 25 3. júní


I. kafli.
Umdæmaskipting þjóðkirkjunnar.
1. gr.
     Landinu er skipt í kirkjusóknir. Sóknir mynda prestaköll, prófastsdæmi og biskupsdæmi, svo og kjördæmi vegna kosninga til kirkjuþings.
     Mörk sókna og prestakalla og prófastsdæma skulu óbreytt vera, svo sem þau hafa mótast af lögum og í lagaframkvæmd, en um breytingar á þeim fer eftir því, sem greinir í lögum þessum og í öðrum lögum, er við eiga, sbr. einkum lög nr. 35/1970.
     Um mörk vígslubiskupsdæma fer eftir því sem segir í lögum nr. 38/19091) og um kjördæmi vegna kosninga til kirkjuþings svo sem greinir í lögum nr. 48/1982.
     Landið allt er eitt biskupsdæmi uns önnur skipan kann að verða á því gerð.

1)l. 62/1990, VII. kafli.


II. kafli.
Um kirkjusóknir og skipan þeirra.

a. Almenn ákvæði.
2. gr.
     Kirkjusókn er félag þess fólks innan þjóðkirkjunnar, sem býr innan sóknarmarka.
     Kirkjusókn er sjálfstæð fjárhags- og félagsleg eining, en tengist öðrum sóknum innan prófastsdæmis með sameiginlegum héraðsfundi og með annars konar samstarfi, sem héraðsfundur kann að mæla fyrir um, eða einstakar sóknarnefndir stofna til.
     Sóknarmenn eiga rétt á kirkjulegri þjónustu í sókn sinni, sbr. 8. og 9. gr., og bera sameiginlegar skyldur eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum eða með lögmætum ákvörðunum.


b. Stærð kirkjusókna, sóknarmörk og breytingar á þeim.
3. gr.
     Í kirkjusókn skulu að jafnaði eigi vera fleiri en 4000 sóknarmenn og eigi færri en 100. Nú verða sóknir mannfleiri eða mannfærri, og skal héraðsfundur þá gera tillögur um, hvernig við skuli bregðast, að fengnum tillögum sóknarnefnda og aðalsafnaðarfunda.
     Sóknarmörk skulu vera glögg. Við ákvörðun þeirra skal taka tillit til félagslegra aðstæðna, samgangna, staðhátta og hefðar.
     Við skipulagningu í þéttbýli skal taka mið af líklegri skipan sókna og staðsetningu kirkna og höfð í því efni samráð við sóknarprest, sóknarnefndir og prófast.

4. gr.
     Aðalsafnaðarfundur eða aðalsafnaðarfundir, ef mál varðar fleiri sóknir en eina, gera tillögur til héraðsfunda um skiptingu kirkjusóknar, sameiningu sókna og um sóknarmörk, svo og um niðurlagningu kirkju eða tilfærslu. Héraðsfundur (safnaðarráð) getur einnig átt frumkvæði að tillögum í þessu efni, einkum er 1. mgr. 3. gr. á við, en mál skal þá leggja fyrir aðalsafnaðarfund (aðalsafnaðarfundi) til samþykktar.
     Ákvarðanir samkvæmt 1. mgr. taka gildi, ef aðalsafnaðarfundur samþykkir þær eða meiri hluti aðalsafnaðarfunda, ef því er að skipta, svo og héraðsfundur. Nú ná tillögur um þessi efni eigi samþykki allra þeirra aðilja, sem greindir voru, og sker kirkjumálaráðherra þá úr, að fengnum tillögum biskups.
     Þegar ný sókn er löglega stofnuð, er presti þess prestakalls, sem hin nýja sókn tekur yfir, skylt að annast þar kirkjulega þjónustu.
     Nú er hin nýja sókn hluti af tveimur prestaköllum, og ákveður þá kirkjumálaráðherra, að fengnum tillögum biskups, hvor hinna tveggja presta á að þjóna sókninni. Sama er, ef sókn er hluti úr fleiri en tveimur prestaköllum.

5. gr.
     Nú er kirkjusókn skipt og tekin upp ný sókn eða sóknarmörk færð til, og skal þá miða fjárskipti sóknanna við hlutfallslegan fjölda þeirra sóknarmanna sem breytingin tekur til. Ef aðilja greinir á um fjárskiptin, geta viðkomandi sóknarnefndir krafist þess, að kirkjumálaráðherra skipi tvo menn í nefnd með prófasti, er útkjái ágreiningsefnið til fullnaðar. Prófastur er formaður nefndarinnar. Sé prófastur sóknarprestur í kirkjusókn sem skipta á er honum rétt að víkja sæti og skal biskup skipa annan í hans stað. Nefndin veitir aðiljum færi á að skýra mál sitt, og kannar hún málsefni eftir föngum. Hún kveður að svo búnu á um fjárskiptin, þ. á m. um greiðslukjör.

6. gr.
     Nú er sókn aflögð með því að hún sameinast annarri sókn eða sóknum, og skulu eignir hennar þá renna til þeirrar sóknar eða þeirra sókna, sem sóknarmenn hinnar aflögðu sóknar hverfa til, og skiptast á milli þeirra í réttu hlutfalli við fjölda sóknarmanna, er hverri sókn bætist.
     Þegar sókn er aflögð vegna þess að hún eyðist af fólki, skal prófastur varðveita eignir hennar, en lausafé skal þá ávaxtað í Hinum almenna kirkjusjóði með bestu fáanlegu kjörum. Nú er aflögð sókn endurreist og veitt sóknarréttindi á ný með samþykki héraðsfundar, og á sú sókn þá rétt til framangreindra eigna.
     Sé um bændakirkju að ræða er leggja skal niður og söfnuður hennar sameinast annarri sókn, en bændur eða bóndi á bæði kirkjuhúsið og alla muni kirkjunnar, skal hann þá hafa ráðstöfunarrétt á eign þeirri. Þó skal honum skylt að hafa samráð við prófast um slík mál og getur prófastur, ef ekki næst samkomulag milli hans og kirkjubónda, vísað ágreiningsmálum til biskups sem tekur lokaákvörðun í hverju slíkra mála nema ákvæði annarra laga grípi þar inn í.
     Þegar sókn er aflögð samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr., getur biskup, að fengnum tillögum aðalsafnaðarfundar og héraðsfundar, þá mælt svo fyrir, að sóknarkirkjan verði greftrunarkirkja.

III. kafli.
Um sóknarmenn og rétt þeirra til kirkjulegrar þjónustu.

a. Sóknarmenn.
7. gr.
     Sóknarmenn eru allir þeir, sem lögheimili eiga í sókn, miðað við 1. desember næst liðinn, hafa hlotið skírn og eru skráðir í þjóðkirkjunni. Um skráningu óskírðra í þjóðkirkjunni fer að öðru leyti eftir ákvörðun laga um trúfélög, nr. 18/1975.


b. Réttur sóknarmanna á kirkjulegri þjónustu o.fl.
8. gr.
     Sóknarmenn eiga rétt á kirkjulegri þjónustu í sókn sinni og þátttöku í almennu safnaðarstarfi. Þeir sóknarmenn, sem ekki geta notið kirkjulegrar þjónustu í sókn sinni, svo sem vegna vistunar á stofnunum utan sóknar eða vegna dvalar utan sóknar ella, t.d. vegna sjúkleika eða af atvinnuástæðum, eiga rétt á slíkri þjónustu í þeirri sókn, sem þeir búa í eða dveljast.

9. gr.
     Sóknarmenn eiga rétt á guðsþjónustum í sóknum sínum, er skal að jafnaði miða við eftirfarandi tilhögun:
A.
Ef sóknarmenn eru 600 hið fæsta skal almenn guðsþjónusta haldin hvern helgan dag. Ef tveir prestar þjóna sömu sókn, skulu a.m.k. vera tvær guðsþjónustur hvern helgan dag.
B.
Í sókn með 300 til 600 sóknarmönnum skal vera almenn guðsþjónusta annan hvern helgan dag.
C.
Í sókn með 100 til 300 sóknarmönnum skal vera almenn guðsþjónusta fjórða hvern helgan dag.
D.
Í sókn með færri en 100 sóknarmönnum skal vera almenn guðsþjónusta áttunda hvern helgan dag.

     Prófastur endurskoðar þjónusturétt vegna fjölgunar eða fækkunar sóknarmanna eigi sjaldnar en fimmta hvert ár og kveður á um hann, að fengnum tillögum sóknarnefnda.

10. gr.
     Sóknarmenn njóta kosningarréttar og kjörgengis á safnaðarfundum og í öðrum opinberum kosningum innan þjóðkirkju, þegar þeir eru fullra 16 ára.
     Sóknarmönnum er skylt að hlíta þeim skyldum, sem á þá eru lagðar með lögum og lögmætum samþykktum safnaðarfunda og ákvörðunum kirkjustjórnar, sem stoð eiga í lögum.

IV. kafli.
Um safnaðarfundi.
11. gr.
     Aðalsafnaðarfund skal halda ár hvert. Þar skulu rædd málefni sóknarinnar, þar á meðal þau mál, sem lögmælt er, að undir hann beri, svo og þau mál, sem héraðsfundur, sóknarprestur, prófastur, biskup eða kirkjumálaráðherra skýtur þangað. Aðalsafnaðarfundur er vettvangur starfsskila og reikningsskila af hendi sóknarnefndar og einstakra nefnda innan sóknarinnar.
     Aðalsafnaðarfundur fer með æðsta ákvörðunarvald innan sóknarinnar í málum þeim, sem undir fundinn heyra samkvæmt lögum eða lögmætum ákvörðunum.
     Aðra safnaðarfundi skal halda, ef meiri hluti sóknarnefndar óskar þess eða einn fjórði hluti sóknarmanna, sem atkvæðisrétt eiga á safnaðarfundum, sbr. 1. mgr. 10. gr.

12. gr.
     Sóknarnefnd boðar safnaðarfundi með þriggja daga fyrirvara hið skemmsta á sama hátt og tíðkanlegt er um messuboð í sókninni.
     Fundarefni skal kynnt í fundarboði.
     Fundur er ályktunarfær, ef rétt er til hans boðað. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á safnaðarfundum.

V. kafli.
Um sóknarnefndir, skipun, störf og starfshætti.

a. Sóknarnefndir, skipun og verkaskipting. Endurskoðendur.
13. gr.
     Í hverri kirkjusókn er sóknarnefnd, sem annast framkvæmdir á vegum sóknarmanna og styður kirkjulegt starf í sókninni ásamt sóknarpresti eða sóknarprestum og starfsmönnum sóknarinnar.

14. gr.
     Sóknarnefndarmenn eru þrír í sóknum, þar sem sóknarmenn eru færri en 300, en ella fimm, þó svo að þegar sóknarmenn eru 1000 hið fæsta mega sóknarnefndarmenn vera sjö, og níu, ef sóknarmenn eru 4000 eða fleiri, allt miðað við 1. desember næst liðinn. Fjölga skal sóknarnefndarmönnum, ef því er að skipta, á næsta aðalsafnaðarfundi, þegar kjör sóknarnefndarmanna á fram að fara, eftir að þeir verða 1000 eða 4000 hið fæsta. Nú fækkar sóknarmönnum niður fyrir greind mörk, og ákveður aðalsafnaðarfundur þá, hvort fækka skuli sóknarnefndarmönnum.
     Kjósa skal a.m.k. jafnmarga varamenn og aðalmenn eru, og taka þeir sæti í forföllum aðalmanna eftir þeirri röð, sem þeir voru kosnir í.
     Heimilt skal sóknarnefnd að kveðja varamenn sér til liðsinnis, þegar hún telur ástæðu til.

15. gr.
     Sóknarnefnd skal kosin til fjögurra ára í senn, sbr. þó 3. mgr.
     Á fyrsta aðalsafnaðarfundi, sem haldinn er eftir gildistöku laga þessara, skal kjósa sóknarnefndir samkvæmt þeim í öllum kirkjusóknum landsins, og fellur umboð sóknarnefndar niður, þegar ný sóknarnefnd hefur verið kosin samkvæmt þessu.
     Að tveimur árum liðnum frá kosningunni skal nokkur hluti kjörinna aðalmanna og varamanna ganga úr nefndinni, þ.e. einn af þremur, tveir af fimm, þrír af sjö og fjórir af níu, og ræður hlutkesti, nema samkomulag sé um þetta innan nefndarinnar. Kjörtímabili hins hluta nefndarinnar lýkur eftir fjögur ár frá frumkosningu. Skal þessi kjörtilhögun síðan gilda til frambúðar að breyttu breytanda.
     Nú andast sóknarnefndarmaður, flytur úr sókninni eða hverfur úr sóknarnefnd af öðrum ástæðum. Skal þá kjósa aðalmann í hans stað á næsta aðalsafnaðarfundi fyrir þann hluta kjörtímabilsins, sem þá er eftir, að því er þann mann varðar. Varamaður hans gegnir starfi uns sú kosning fer fram.

16. gr.
     Sóknarmönnum er skylt að taka við kjöri í sóknarnefnd. Sóknarmenn, sem hafa náð sextugsaldri, geta þó skorast undan kosningu. Sá sem átt hefur sæti í sóknarnefnd, getur vikist undan endurkosningu um jafnlangan tíma og hann gegndi þar störfum.
     Aðalsafnaðarfundi er heimilt að kveða svo á, að hver sóknarnefndarmaður hafi ákveðið verksvið í safnaðarstarfinu. Skal það þá kynnt á aðalsafnaðarfundi, áður en kosning fer fram.
     Sóknarnefnd skiptir að öðru leyti með sér verkum formanns, gjaldkera og ritara þegar eftir að kjör í sóknarnefnd hefur farið fram. Skipa þeir framkvæmdanefnd, þegar sóknarnefndarmenn eru fleiri en fimm.
     Sóknarnefnd getur skipað nefndir úr sínum hópi eða utan hans til að fjalla um einstök málefni, þ. á m. um byggingarframkvæmdir.
     Aðalsafnaðarfundur kýs tvo menn og aðra tvo til vara til fjögurra ára í senn til að endurskoða reikninga sóknarinnar og kirkjubyggingareikninga, ef því er að skipta.

b. Starfshættir og verkefni sóknarnefnda.
17. gr.
     Formaður boðar fundi í sóknarnefnd og stýrir þeim. Fundur er ályktunarfær, ef meiri hluti nefndarmanna sækir fundinn. Sóknarprestur skal að jafnaði sitja sóknarnefndarfundi. Enn fremur organisti, meðhjálpari, hringjari, kirkjuvörður og formenn kirkjulegra félaga, sem tengjast sókninni, ef málefni þessara aðilja eru sérstaklega til umræðu þar.

18. gr.
     Sóknarnefnd vinnur að þeim verkefnum, sem henni eru ætluð í lögum og stjórnvaldsreglum eða fengin henni með samþykktum safnaðarfunda, svo og að málum, sem héraðsfundur, sóknarprestur, prófastur eða biskup vísar til hennar.

19. gr.
     Sóknarnefnd er í fyrirsvari fyrir sóknina gagnvart stjórnvöldum og einstökum mönnum og stofnunum. Hún hefur umsjón með kirkju safnaðarins, svo og safnaðarheimili, og ræður því, ásamt sóknarpresti, hvernig afnotum af þeim skuli háttað.
     Sóknarnefnd skal gæta að réttindum kirkju og gera prófasti viðvart, ef út af bregður.

20. gr.
     Sóknarnefnd sér um, að viðunandi húsnæði og búnaður sé til guðsþjónustuhalds og annars safnaðarstarfs í sókninni. Skal hún ásamt sóknarpresti hafa forustu um kirkjubyggingu, endurbyggingu kirkju eða stækkun kirkju og byggingu safnaðarheimilis, eftir því sem aðalsafnaðarfundur mælir fyrir um.
     Sóknarnefnd sér um, að kirkju sé vel við haldið og búnaði hennar, og skal leitast við að fegra og prýða kirkju og umhverfi hennar eftir því sem kostur er. Á þetta einnig við um safnaðarheimili.
     Sóknarnefnd annast vörslu og ávöxtun á lausafé kirkjunnar (safnaðarheimilis) og ber ábyrgð á fjárreiðum sóknarinnar og skal reikningsfærsla öll vera skipuleg og glögg. Sóknarnefnd leggur fram á aðalsafnaðarfundi endurskoðaða reikninga sóknarinnar fyrir umliðið ár. Að fenginni samþykkt þeirra skulu reikningarnir sendir áritaðir af sóknarnefnd til prófasts eigi síðar en 1. júní ár hvert, nema prófastur veiti rýmri frest. Nú gerir prófastur athugasemdir við reikning, sem sóknarnefnd getur eigi fallist á, og er henni þá kostur að láta fylgja skýringar sínar og andsvör til héraðsfundar, er úrskurðar reikninginn, sbr. 32. gr.

21. gr.
     Sóknarnefnd er sóknarpresti og starfsfólki sóknarinnar til stuðnings í hvívetna og stuðlar að eflingu kristinnar trúar og siðgæðis meðal sóknarmanna.
     Um afskipti sóknarnefndar af álagningu kirkjugjalda og innheimtu þeirra er mælt í lögum.
     Um ráðningu starfsmanna sókna eru ákvæði í 25. gr.
     Um störf sóknarnefndar í sambandi við veitingu prestsembætta fer svo sem fyrir er mælt í lögum.

c. Safnaðarfulltrúar.
22. gr.
     Aðalsafnaðarfundur kýs safnaðarfulltrúa og annan til vara til setu á héraðsfundi. Þá skal kjósa til fjögurra ára í senn. Umboð núverandi safnaðarfulltrúa fellur niður er nýr safnaðarfulltrúi hefur verið kosinn samkvæmt lögum þessum.
     Sóknarnefnd sendir prófasti starfsskýrslu sóknarinnar eigi síðar en þremur vikum áður en héraðsfundur er haldinn. Safnaðarfulltrúi gerir grein fyrir störfum og samþykktum héraðsfundar á næsta safnaðarfundi eftir að héraðsfundur var haldinn.

d. Bókhald og erindisbréf.
23. gr.
     Sóknarnefnd heldur þessar bækur:
1.
Gerðabók, og skulu þar bókaðar fundargerðir sóknarnefnda og safnaðarfunda. Ef byggingarnefnd kirkju er skipuð, skal hún halda sérstaka gerðabók.
2.
Bréfabók, þar sem varðveitt skulu bréf til sóknarnefndar og afrit af bréfum, er hún ritar.
3.
Sjóðsbók, þar sem bókfærð eru öll útgjöld sóknarinnar og tekjur, gjafir, áheit og annað, er fjármál varðar, og vísað til fylgiskjala.
4.
Kirkjubók, og skal í hana rita allar kirkjuathafnir og greina í megindráttum frá öðrum safnaðarstörfum.
5.
Kirkjuskrá um sóknarkirkju, byggingarsögu hennar, viðhald kirkju og réttindi hennar o.fl.

     Bækur samkvæmt 1.–3. tölul. löggildir prófastur, en sóknin kostar andvirði þeirra. Bækur samkvæmt 4. og 5. tölul. löggildir biskup og leggur sókninni til.

24. gr.
     Biskup Íslands setur sóknarnefndum almennt erindisbréf, að fenginni umsögn prófastsfundar og kirkjuráðs.

VI. kafli.
Um starfsmenn kirkjusókna.
25. gr.
     Sóknarnefnd ræður organista, meðhjálpara, hringjara og umsjónarmann kirkju (kirkjuvörð) og semur um kaup þeirra, kjör og ráðningartíma. Rétt er sóknarnefnd að ráða starfsmenn til að annast ákveðin safnaðarstörf, enda hafi safnaðarfundur heimilað það. Um kaup og kjör og ráðningartíma fer sem í 1. mgr. greinir.
     Biskup Íslands staðfestir erindisbréf sóknarnefndar fyrir þessa starfsmenn.
     Starfsmenn sókna, sem ráðnir eru í hálft starf hið minnsta, eiga rétt á setu á héraðsfundi með málfrelsi og tillögurétt, sbr. 31. gr.

26. gr.
     Stofna skal til námskeiða fyrir sóknarnefndarmenn, safnaðarfulltrúa og aðra starfsmenn sókna, eftir því sem fé er veitt til þess, og skal þar fjallað um almenn safnaðarstörf eða sérstaka þætti þeirra. Námskeiðin skulu haldin á vegum prófastsdæmis, biskupsdæmis eða kirkjulegra samtaka.

27. gr.
     Aðalsafnaðarfundur getur kveðið svo á, að mynda skuli starfsmannanefnd innan sóknar. Þar eiga sæti sóknarprestur (sóknarprestar), sóknarnefnd, formenn safnaðarfélaga og kirkjukórs og starfsmenn sóknarinnar, sem ráðnir eru í hálft starf hið minnsta. Starfsmannanefnd fjallar um störf og starfsháttu starfsmanna sóknarinnar, starfsskilyrði þeirra og það, sem til umbóta horfir og samræmingar í þeim efnum. Formaður sóknarnefndar boðar fundi starfsmannanefndar, er haldnir skulu a.m.k. einu sinni á ári, en skylt er að boða til fundar, ef þrír þeirra, sem sæti eiga í nefndinni, æskja þess. Starfsmannanefnd heldur sérstaka gerðabók. Samþykktir hennar eru ekki bindandi, nema safnaðarfundur staðfesti þær.

28. gr.
     Nú kemur upp ágreiningur varðandi störf starfsmanna innan sóknar og verður eigi leystur þar á vettvangi. Er þá rétt að vísa málinu til prófasts, sem leitar lausnar í samráði við sóknarprest. Ef eigi tekst að leysa málið skal ágreiningnum vísað til biskups til fullnaðarúrlausnar.

VII. kafli.
Um héraðsfundi og héraðsnefndir.

a. Um héraðsfundi.
29. gr.
     Héraðsfundi skal halda í prófastsdæmi eigi síðar en 31. október ár hvert, en til aukahéraðsfunda skal stofna samkvæmt því, sem segir í 33. gr.
     Héraðsfundur er vettvangur prófastsdæmis til umræðna um sameiginleg málefni þjóðkirkjunnar í prófastsdæminu. Þar skulu rædd þau málefni, sem lög leggja til héraðsfunda eða stjórnvöld kirkjumála vísa þangað til umfjöllunar, umsagnar eða úrlausnar eða safnaðarfundir, sóknarnefndir, sóknarprestar og starfsmenn sókna óska, að þar séu rædd.

30. gr.
     Prófastur boðar héraðsfund skriflega með hálfs mánaðar fyrirvara og skal fundarboð, er greini fundarefni, sent öllum þeim, sem rétt eiga til setu á héraðsfundi, sbr. 31. gr.
     Fundur er ályktunarfær, ef rétt er til hans boðað. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á héraðsfundi.
     Mál, sem eigi eru greind í fundarboði, verða eigi tekin til umræðu, nema tveir þriðju hlutar atkvæðisbærra fundarmanna samþykki.

31. gr.
     Atkvæðisrétt á héraðsfundi eiga þjónandi prestar prófastsdæmis og safnaðarfulltrúar. Á héraðsfundi Reykjavíkurprófastsdæmis skulu safnaðarráðsfulltrúar hafa atkvæðisrétt.
     Sóknarnefndarmenn og aðrir þeir, sem sæti eiga í starfsmannanefnd sóknar, sbr. 27. gr., eiga rétt á fundarsetu og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

32. gr.
     Prófastur leggur fram á héraðsfundi endurskoðaða reikninga kirkna í héraðinu fyrir næst liðið reikningsár til umræðu og úrskurðar. Á héraðsfundi skal enn fremur gerð grein fyrir starfsemi og fjárreiðum héraðssjóðs á umliðnu starfsári, ef slíkum sjóði er til að dreifa, og fjárreiðum prófastsdæmis.

33. gr.
     Prófastur boðar aukahéraðsfund, ef þurfa þykir. Skylt er að boða slíkan fund, ef 1/4 hluti atkvæðisbærra fundarmanna óskar þess. Um fundarboðun fer samkvæmt 30. gr.

34. gr.
     Hver sá, sem rétt á til setu á héraðsfundi, getur óskað að bera þar upp tillögur sínar um kirkjuleg málefni, sem heyra undir starfssvið héraðsfunda. Hann skal mælast til þess við héraðsnefnd, að málefni þessi verði rædd þar og greind í fundarboði.

35. gr.
     Þeir fundarmenn á héraðsfundi, sem verða í minni hluta við einstakar samþykktir fundarins, geta óskað þess, að sérálit þeirra fylgi ályktunum fundarins til biskups, ef um er að ræða málefni, sem til úrskurðar hans eða kirkjumálaráðherra kemur.

b. Um héraðsnefnd.
36. gr.
     Héraðsnefnd prófastsdæmis skal starfa milli héraðsfunda og er hún framkvæmdanefnd héraðsfunda. Prófastur er formaður héraðsnefndar, en héraðsfundur kýs aðra nefndarmenn, einn safnaðarfulltrúa og einn prest, til fjögurra ára í senn og varamenn þeirra með sama hætti.
     Héraðsfundur kýs tvo endurskoðendur reikninga héraðssjóðs og tvo til vara til fjögurra ára í senn.
     Héraðsnefnd fylgir eftir samþykktum héraðsfunda og sendir þær biskupi og öðrum, sem eiga hlut að máli. Hún er í fyrirsvari fyrir prófastsdæmið gagnvart stjórnvöldum og einstökum mönnum og stofnunum að því er varðar sameiginleg málefni prófastsdæmisins. Héraðsnefnd fer með stjórn héraðssjóðs og gerir tillögur um kirkjulega starfsemi á vegum prófastsdæmisins. Er henni heimilt með samþykki héraðsfundar að ráða starfsmenn til að gegna einstökum verkefnum. Héraðsnefnd undirbýr héraðsfundi.
     Prófastur kveður héraðsnefnd saman til fundar svo oft sem þörf krefur. Nefndarmenn fá greidda reikninga fyrir útlagðan kostnað úr héraðssjóði.

VIII. kafli.
Stjórnvaldsreglur, gildistaka og brottfallin lög.
37. gr.
     Kirkjumálaráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um einstök atriði, er varða framkvæmd laga þessara, að fengnum tillögum biskups og kirkjuráðs.

38. gr.
     Lög þessi taka þegar gildi, og skulu kosningar safnaðarfulltrúa og kosningar í sóknarnefndir og héraðsnefndir prófastsdæma fara fram jafnskjótt og föng eru á, en umboð núverandi sóknarnefndarmanna og safnaðarfulltrúa fellur niður, þegar slík kosning hefur farið fram, sbr. 15. og 22. gr.
     ...