Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um Stofnfjársjóð fiskiskipa

1986 nr. 93 31. desember


1. gr.
     Við Fiskveiðasjóð Íslands skal starfa sérstök deild sem nefnist Stofnfjársjóður fiskiskipa.

2. gr.
     Hlutverk Stofnfjársjóðs er að tryggja að eigendur fiskiskipa greiði af stofnlánum sem á skipunum hvíla og þá fyrst og fremst með því að greiða afborganir og vexti af lánum þeim sem veitt hafa verið af Fiskveiðasjóði og tryggð með veði í skipunum.

3. gr.
     Hvert fiskiskip skal hafa sérreikning hjá Stofnfjársjóði. Inn á reikning þennan skulu renna greiðslur sem nema 7% af samanlögðu hráefnisverði skipsins, sbr. 1. tölul. 7. gr. laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.
     Semji Fiskveiðasjóður Íslands og útgerðarmaður um hærri greiðslur inn á stofnfjársjóðsreikning skips skal greiðslan við það miðuð enda sé haldið eftir meira fé en 15%, sbr. 5. gr. laga nr. 24/1986.

4. gr.
     Ef innstæða er á reikningi skips hjá Stofnfjársjóði og eigandi þess skuldar jafnframt Fiskveiðasjóði gjaldfallnar afborganir, verðbætur, vexti, dráttarvexti eða kostnað af lánum, sem tryggð eru með veði í skipinu, skal Fiskveiðasjóður taka fé af reikningi þessum til greiðslu hinna gjaldföllnu greiðslna að svo miklu leyti sem það hrekkur til þess.

5. gr.
     Skuldi skipseigandi eigi gjaldfallnar greiðslur til Fiskveiðasjóðs, sbr. 4. gr., er sjóðnum heimilt að nota innstæðu skips á reikningi hjá Stofnfjársjóði til greiðslu gjaldfallinna afborgana og vaxta af stofnlánum vegna skipsins hjá Ríkisábyrgðasjóði og Byggðastofnun.

6. gr.
     Skuldi skipseigandi eigi gjaldfallnar greiðslur til Fiskveiðasjóðs, Ríkisábyrgðasjóðs eða Byggðastofnunar skv. 4. og 5. gr. skal Fiskveiðasjóður greiða skipseiganda innstæðu skipsins hjá Stofnfjársjóði óski eigandinn þess. Þó er Fiskveiðasjóði heimilt að halda eftir fjárhæð sem á hverjum tíma má ekki nema hærra hlutfalli af næstu greiðslu afborgana og vaxta sem á skipinu hvílir hjá sjóðnum en svarar þeim tíma sem liðinn er frá síðasta gjalddaga í hlutfalli við allt tímabilið milli gjalddaganna.
     Nú hvílir ekki skuld á skipi hjá Fiskveiðasjóði og skal Stofnfjársjóður þá greiða skipseiganda, án sérstakrar greiðslubeiðni, það fé sem inn á reikning þess kemur.

7. gr.
     Sé innstæða í Stofnfjársjóði á reikningi skips þegar greiðslur skv. 4. gr., 5. gr. og 1. málsl. 6. gr. hafa verið inntar af hendi skal Fiskveiðasjóður færa til tekna á reikninginn vexti sem hverju sinni eru ákveðnir með hliðsjón af fjármagnskostnaði skulda er á skipum hvíla hjá Fiskveiðasjóði.

8. gr.
     Innstæða hjá Stofnfjársjóði er undanþegin löghaldi, fjárnámi og lögtaki enda þótt færð hafi verið til tekna á reikning skips.
     Skipseiganda er óheimilt að veðsetja slíka innstæðu eða vísa á hana til greiðslu. Framsal innstæðu er aðeins heimilt sem þáttur í sölu skips.

9. gr.
     Innstæða hjá Stofnfjársjóði og réttur til fjár úr honum fylgir skipi við frjálsa sölu og [nauðungarsölu].1)
     Ef skip ferst eða verður dæmt ónýtt skal innstæða hjá Stofnfjársjóði falla til skipseiganda.

1)L. 90/1991, 91. gr.


10. gr.
     Sjávarútvegsráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

11. gr.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1987. ...