Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum

1913 nr. 42 10. nóvember


1. gr.
     Í þessum lögum hafa þau orð, sem hér fara á eftir, þá merkingu, sem tilfærð er við hvert þeirra.
„Mannskaði“ er það, ef maður deyr voveiflega.
„Voveiflegur dauðdagi“ er bráður bani, er hlýst af einhverri annarri orsök en undanförnum sjúkdómi, hvort heldur um slys er að ræða, eða sjálfsmorð, eða manndráp.
„Á landi“ er talið að þeir farist, sem bíða bana á þurru landi, eða í ám, eða vötnum, eða sjó, ef þeir fara af sjávarbakka í sjóinn.
„Á sjó“ er talið að þeir farist, sem deyja voveiflega á skipi eða drukkna af skipi á sjó.
„Skip“ merkir hvern þann farkost, er flýtur á sjó.
„Skipstjóri“ er sá, er ræður fyrir skipi á sjó.
„Löggæslumaður“ er sá maður í hverri sveit, er samkvæmt þessum lögum á að rannsaka fundin lík, og dauðdaga þeirra, er deyja voveiflega.
„Sveit“ merkir kaupstað eða hrepp.


2. gr.
     ...1)

1)L. 92/1991, 4. gr.



3. gr.
     Ef maður deyr voveiflega á landi í annarra manna viðurvist, þá skulu þeir tafarlaust tilkynna látið löggæslumanni í þeirri sveit, þar sem maðurinn lést, eða í þeirri fyrstu sveit, er þeir koma í, ef mannskaðinn varð í óbyggðum. Bera þeir hver um sig ábyrgð á, að tilkynningin sé tafarlaust gerð.
     Ef lík finnst, þá skal sá, er finnur, tilkynna næsta löggæslumanni líkfundinn.
     Ef maður hverfur og er talinn af, en líkið finnst ekki, þá skal húsráðandi á því heimili, er maðurinn hafði síðast næturvist, tilkynna löggæslumanni hvarfið jafnskjótt sem líkur eru til, að maðurinn hafi farist.

4. gr.
     Ef mannskaði verður á sjó, þá skal skipstjóri, ef hann er á lífi, en ella sá, er í hans stað gengur, tilkynna mannskaðann löggæslumanni í þeirri sveit, þar sem þeir komu fyrst að landi.
     Ef skip ferst og kemst enginn af, þá skal sá löggæslumaður, sem skráð hafði skipverja til vátryggingar, taka mannskaðann til rannsóknar. Nú voru skipverjar ekki vátryggðir, og heyrir þá rannsóknin undir löggæslumann í þeirri sveit, þar sem skipið átti heima.
     Þessi ákvæði koma ekki til greina, ef [sjópróf fer fram].1)

1)L. 92/1991, 4. gr.


5. gr.
     Hver og einn, er fær vitneskju um, að maður hafi dáið voveiflega eða lík fundist, og honum er kunnugt um að löggæslumanni hafi ekki verið tilkynnt, skal skyldur að gera næsta löggæslumanni aðvart.
     Ef læknir er beðinn um dánarvottorð, og finnur hann sönnur eða líkur fyrir því, að dauðdaginn hafi verið voveiflegur, eða líkið fundist, en löggæslumanni ekki skýrt frá því, þá skal hann synja dánarvottorðs að svo stöddu, og gera löggæslumanni aðvart.
     Ef prestur er beðinn að jarða lík, og veit hann eða grunar, að maðurinn muni hafa dáið voveiflega, eða líkið hefur fundist, en löggæslumanni ekki verið tilkynnt, þá skal hann neita að jarðsyngja að svo stöddu, og gera löggæslumanni aðvart; má prestur aldrei jarðsyngja fundið lík, eða lík manns, er dáið hefur voveiflega, fyrr en honum er afhentur úrskurður löggæslumanns, er heimilar greftrun, og dánarvottorð frá löggiltum lækni.

6. gr.
     Lík, sem löggæslumanni ber að skoða, má ekki flytja úr þeirri sveit, þar sem líkið fannst eða var fyrst til bæja flutt, fyrr en löggæslumaður veitir skriflegt leyfi til þess.

7. gr.
     Ef löggæslumanni er tilkynnt, eða honum færðar líkur fyrir því, að einhver hafi dáið voveiflega, eða lík hefur fundist, sbr. 3. gr., þá skal hann rannsaka, svo fljótt, sem verða má, hvernig dauðann hefur borið að höndum. Hann skal grennslast eftir því, hverjir hafi síðast séð hinn látna á lífi, eða verið viðstaddir, þegar hann lét lífið, eða fundið líkið; skal hann þegar spyrja þá af þessum mönnum, sem til næst í svipinn, hvað þeir viti um hinn látna mann og dauðdaga hans.
     Löggæslumaður skal ráða því, hvar líkið er geymt, og hvernig um það búið. Hann skal kveðja lækni með sér, og skulu þeir báðir í senn skoða líkið, og læknir því næst kryfja það, ef þörf gerist. Löggæslumaður ræður því, hvort líkið er krufið, en það skal hann jafnan fyrirskipa, ef nokkur minnsti vafi getur leikið á því, hvað manninum hafi orðið að bana.
     Héraðslæknar skulu hafa á hendi réttarlæknisskoðanir á líkum, og að jafnaði sá, sem skemmst er til. Ef ekki næst til neins þeirra með hægu móti, má löggæslumaður heimta til þess starfa hvern þann löggiltan lækni, sem völ er á.
     Þegar líkrannsókn er lokið, skal læknir gefa út dánarvottorð, en löggæslumaður leyfi til að jarða líkið.

8. gr.
     Hver löggæslumaður skal skrá alla mannskaða og líkfundi, sem hann fær vitneskju um og rannsakar, í sérstaka bók, og skal hún heita mannskaðabók.

9. gr.
     Í janúarmánuði ár hvert skal hver löggæslumaður semja mannskaðaskýrslu fyrir liðna árið og senda hagstofunni.

10. gr.
     Stjórnarráðið setur nánari reglur um rannsókn á mannsköðum og fundnum líkum, um mannskaðabækur og skýrslur.1)
     ...2)

1)Rg. 24/1936.2)L. 92/1991, 4. gr.


11. gr.
     Landlæknir semur reglur og leiðbeiningar um réttarlæknisskoðanir á líkum, um líkskurði og sérstök dánarvottorð fyrir þá, er deyja voveiflega.

12. gr.
     Brot gegn þessum lögum, eða reglum, sem settar eru eftir þeim, varða sektum, ...1) nema hærri hegning sé við lögð í almennum lögum. Sektirnar renna í landssjóð.

1)L. 10/1983, 30. gr.


13. gr.
     ...1)

1)L. 92/1991, 4. gr.