Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um verslunaratvinnu

1968 nr. 41 2. maí


1. gr.
     Tilgangur þessara laga er að tryggja, eftir því sem tök eru á:
1.
Að borgararnir eigi völ á sem bestri verslunarþjónustu á hverjum stað og tíma.
2.
Að þeir aðilar, sem fást við verslun, séu búnir þeim hæfileikum, að þeir geti uppfyllt skyldur, sem slíkur rekstur leggur þeim á herðar gagnvart viðskiptavinum sínum og samfélaginu.
3.
Að verslun geti þrifist í landinu sem atvinnugrein.


2. gr.
     Með orðinu verslun í lögum þessum er átt við heildverslun, umboðsverslun, þar með talin tilboðasöfnun um vörusölu og vörukaup, og smásöluverslun.
     [Lög þessi taka einnig til leigu myndbanda.]1)
     Lög þessi taka þó ekki til:
1.
Lyfjaverslunar, að því leyti sem lyfsalar hafa einkasölu á lyfjum.
2.
Sölu á búsafurðum eða fiskfangi, sem maður hefur aflað sjálfur eða skyldulið hans.
3.
Sölu framleiðsluvara, hvers konar iðju eða iðnaðar, sem seljandi hefur sjálfur gert.

     Verði ágreiningur um, hvort leyfi þurfi samkvæmt lögum þessum til tiltekinnar tegundar verslunar, sker ráðherra úr, en þann úrskurð má bera undir dómstóla til úrlausnar með málssókn á hendur lögreglustjóra, sem í hlut á.

1)L. 50/1985, 1. gr.


3. gr.
     Verslun samkvæmt 2. gr. er óheimilt að reka á Íslandi eða í íslenskri landhelgi, nema til komi leyfi samkvæmt lögum þessum.

4. gr.
     Hver einstaklingur, sem fullnægir eftirgreindum skilyrðum, á rétt á leyfi eða endurnýjun leyfis til verslunar, enda hafi réttur til verslunarrekstrar ekki verið af honum dæmdur:1)
1.
Hefur íslenskt ríkisfang og er heimilisfastur á Íslandi. [Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang.]2)
2.
Er fjárráða.
3.
Hefur lokið prófi úr verslunarskóla, sem viðurkenndur er af ráðherra, eða hefur aðra menntun, sem ráðherra metur jafngilda. Enn fremur má veita þeim verslunarleyfi, sem um þriggja ára skeið hefur starfað við verslun og að þeim starfstíma loknum sótt sérstakt námskeið í verslunarfræðum, sem ráðherra viðurkennir, og lokið þaðan prófi. Meðan ekki er völ á slíkum verslunarnámskeiðum sem gert er ráð fyrir í þessum tölulið, má veita þeim verslunarleyfi, sem starfað hefur þrjú ár við verslun og sannar með vottorðum vinnuveitenda, að hann hafi vegna starfsreynslu sinnar þá þekkingu á bókhaldi, vörum og lagafyrirmælum, sem varða verslunarrekstur, sem telja má nauðsynlega til að reka verslun.

[Ráðherra getur veitt undanþágu frá skilyrðum þessa töluliðs, þegar sérstaklega stendur á að hans mati.]3)

4.
Fullnægir að öðru leyti þeim skilyrðum, sem sett eru eða sett kunna að verða í lögum og reglugerðum til að mega reka verslun. ...4)

1)Augl. 43/1926 um skilyrði fyrir leyfi til verslunarrekstrar.2)L. 23/1991, 9. gr.3)L. 27/1972, 1. gr.4)L. 7/1970, 1. gr.


5. gr.
     [Félag eða annar lögaðili á rétt á verslunarleyfi eða endurnýjun verslunarleyfis, enda uppfylli framkvæmdastjórar og stjórnarmenn lögaðila og, sé um að ræða félag þar sem allir eða sumir félagsmanna bera fulla ábyrgð á skuldbindingum félagsins, þeir félagsmanna, sem fulla ábyrgð bera á skuldbindingum félagsins, skilyrði 2. og 4. tölul. 4. gr. Þá skal einn stjórnarmanna og framkvæmdastjóri jafnframt fullnægja skilyrðum 3. tölul. 4. gr. Sé um að ræða erlendan aðila eða íslenskan lögaðila sem erlendur aðili á hlut í skal enn fremur fullnægt skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.]1)

1)L. 23/1991, 9. gr.


6. gr.
     Verslunarleyfi má ekki veita starfsmönnum ríkisins eða ríkisstofnana, starfsmönnum sveitarfélaga eða stofnana þeirra og heldur ekki opinberum sýslunarmönnum né mökum þeirra, ef hjón búa saman, nema ráðherra hafi úrskurðað, að verslunarreksturinn megi samrýmast stöðu þeirra.

7. gr.
     Verslunarleyfi er bundið við nafn, persónu eða firma. Eftirlifandi maka er þó heimilt að halda áfram verslun látins maka síns án nýs leyfis, enda þótt hann fullnægi ekki skilyrðum 4. gr., enda ráði eftirlifandi maki forstöðumann að versluninni, er fullnægi öllum skilyrðum 4. gr.
     Sömu reglur gilda, eftir því sem við á, um bú aðila, svo og í því tilfelli, að verslunarleyfishafi missi um stundarsakir hæfi samkvæmt 4. gr.

8. gr.
     Í verslunarleyfi skal skráð, hvers konar verslun samkvæmt 2. gr. leyfð er, og takmarkast heimildin við þá tegund verslunar. Þó má sá, sem fengið hefur leyfi til heildverslunar, einnig reka umboðsverslun eftir sama leyfisbréfi.

9. gr.
     Verslunarleyfi skal annað tveggja gefið út fyrir staðbundna verslun í ákveðnu lögsagnarumdæmi, sem tiltekið er í leyfisbréfi, eða fyrir landið allt. Verslun, sem rekin er í hreyfanlegri starfsstöð, skal í þessu tilliti talin með staðbundnum verslunum.
     [Leyfi til verslunar fyrir landið allt veitir leyfishafa rétt til smásöluverslunar utan lögsagnarumdæmis þar sem leyfi er gefið út. [Sýslumanni]1) á þeim stað er verslun á að reka hverju sinni er heimilt að takmarka leyfið við verslun með vörutegundir sem ekki er verslað með í því lögsagnarumdæmi.]2)
     Leyfi til heildverslunar og umboðsverslunar veitir rétt til að safna tilboðum í vörur hvar á landi sem er og í íslenskri landhelgi.

1)L. 92/1991, 50. gr.2)L. 20/1988, 2. gr.


10. gr.
     [[Sýslumaður]1) í umdæmi, þar sem aðili ætlar að versla, lætur leyfisbréf af hendi. Leyfisbréf til verslunar, sem gildir fyrir landið allt, gefur [sýslumaður]1) út á þeim stað, þar sem umsækjandi á heimilisfesti eða firma er skráð.
     ...1)
     [Lögreglustjóri skal vísa umsókn til ákvörðunar ráðherra ef hann telur að starfsemi umsækjanda sé svo háttað að varhugavert sé að leyfa hana.]2) Getur ráðherra synjað um veitingu leyfis eða sett leyfinu sérstök skilyrði, ef ástæða er til að hans dómi. Skal réttur til verslunarleyfis samkvæmt 4. og 5. gr. vera háður þeim takmörkunum, sem hér voru greindar.
     Verslunarleyfi gildir í 5 ár, en skal endurnýjað að þeim tíma liðnum, ef leyfishafi fullnægir þá skilyrðum þessara laga.
     [Heimilt er ráðherra að veita undanþágu frá ríkisfangsskilyrði 1. tölul. 4. gr.]3)
     Engin ákvæði mega vera í samþykktum félags, sem brjóta í bága við íslensk lög.]4)

1)L. 92/1991, 50. gr.2)L. 15/1995, 1. gr.3)L. 23/1991, 9. gr.4)L. 7/1970, 2. gr.


11. gr.
     Hagstofa Íslands heldur skrá um þá aðila, sem á hverjum tíma hafa leyfi til verslunarrekstrar.

12. gr.
     Hverjum þeim, sem hefur leyfi til að stunda verslunaratvinnu, ber að hafa fasta starfsstöð eða starfsstöðvar og ber að tilkynna heimilisfang slíkrar starfsstöðvar og breytingu á því heimilisfangi til Hagstofu Íslands. [Ráðherra getur, ef sérstaklega stendur á, veitt heildverslun eða umboðsverslun leyfi til tilboðasöfnunar, sbr. 4. mgr. 9. gr., þó að framangreindum skilyrðum sé ekki fullnægt.]1)

1)L. 7/1970, 3. gr.


13. gr.
     Verslunarleyfishafi samkvæmt lögum þessum fyrirgerir leyfi sínu, ef hann fullnægir ekki lengur einhverjum þeirra skilyrða, sem lögin setja fyrir verslunarleyfi, sbr. þó 2. mgr. 7. gr., eða ef réttur til verslunar er af honum dæmdur. Sé hæfismissir einstaklings, sem í hlut á, þannig vaxinn, að úr honum verði bætt eða stjórnandi eða framkvæmdastjóri félags eða stofnunar eigi í hlut, eða slíkt félag eða stofnun fullnægir ekki lengur skilyrðum 4. gr., skal aðili hafa komið þessum atriðum í löglegt horf innan þriggja mánaða frá því breytingin varð, en fyrirgeri ella leyfi sínu. Ráðherra getur lengt þennan frest, ef sérstaklega stendur á.

14. gr.
     ...1)

1)L. 79/1975, 25. gr.


15. gr.
     Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

16. gr.
     Með brot gegn lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála og varða brot sektum.

17. gr.
     ...

[18. gr.
     Frá gildistöku laga um Evrópska efnahagssvæðið skulu ríkisborgarar annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins vera undanþegnir skilyrði um íslenskt ríkisfang samkvæmt nánari ákvæðum sem ráðherra setur með reglugerð.
     Sama undanþága gildir varðandi skilyrði um heimilisfesti á Íslandi, sbr. 1. tölul. 4. gr. laga þessara.
     Ríkisborgarar annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins skulu eigi njóta lakari aðstöðu með tilliti til undanþágu frá menntunar- eða starfsreynsluskilyrði en íslenskir ríkisborgarar, sbr. 3. tölul. 4. gr. laga þessara.]1)

1)L. 70/1993, 1. gr.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     ...
[II.
     ...]1)

1)L. 50/1985, brbákv.