Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

1979 nr. 35 29. maí


1. gr.
     Í lögum þessum nefnist gjaldmiðill sá, sem löglega var gefinn út fyrir gildistöku laga þessara, 1. janúar 1981, gömul króna, til aðgreiningar frá gjaldmiðli gefnum út frá þeim degi, en hann nefnist ný króna í lögum þessum.
     Lög þessi taka bæði til peningaseðla og peninga sleginna úr málmi (myntar).

2. gr.
     Frá og með 1. janúar 1981 hundraðfaldast verðgildi krónunnar. Jafngildir þá ein ný króna eitt hundrað gömlum krónum, og á sama hátt jafngildir einn eyrir nýrrar krónu einni gamalli krónu. Breytist ákvæðisverð eldri seðla og myntar, sem þá eru í umferð, í samræmi við það.

3. gr.
     Nú eru í lögum, reglugerðum, stjórnvaldaákvörðunum, úrskurðum eða gjaldskrám, sem út voru gefnar fyrir 1. janúar 1981, greindar fjárhæðir í krónum og skulu þær fjárhæðir þá lækkaðar þannig, að hin nýja fjárhæð telst einn hundraðasti hluti af eldri fjárhæðinni.

4. gr.
     Sérhver fjárhæð í dómi, skuldabréfi, skuldaviðurkenningu, víxli, tékka, leigusamningi, hlutabréfi og öðrum skjölum, sem skylda til greiðslu í krónum eða lofa greiðslu í krónum og út hafa verið gefin fyrir 1. janúar 1981, en greiðsla hefur eigi verið innt af hendi, skal breytast þannig, að hin nýja fjárhæð skal teljast einn hundraðasti hluti af hinni eldri fjárhæð.
     Gildir þetta um allar greiðslur samkvæmt skjölum þessum, svo og hvers konar aðrar munnlegar og skriflegar greiðsluskuldbindingar, sem eigi hafa verið inntar af hendi fyrir 1. janúar 1981.

5. gr.
     Frá og með 1. janúar 1981 skal hvers konar endurgjald og laun fyrir vinnu og starf, þóknanir og endurgjald fyrir vöru og þjónustu reiknast í hinum nýju krónum.

6. gr.
     Í bókhaldi skulu öll viðskipti, sem eiga sér stað frá og með 1. janúar 1981, færð með nýjum krónum. Sömuleiðis skulu öll reikningsskil tímabils, sem lýkur á árinu 1981 og þar á eftir, færð með nýjum krónum.

7. gr.
     Þrátt fyrir ákvæði laga þessara skulu seðlar þeir, sem út hafa verið gefnir, og mynt sú, sem slegin hefur verið og gefin út fyrir 1. janúar 1981, halda gildi sínu og vera lögeyrir í allar greiðslur hér á landi í sex mánuði eftir gildistöku laganna, þó þannig, að verðmæti hvers seðils eða myntar skal reiknast einn hundraðasti hluti af ákvæðisverði.
     Frá og með 1. júlí 1981 skulu seðlar þeir og mynt, sem út var gefin fyrir 1. janúar 1981, hætta að vera lögmætur gjaldmiðill í lögskiptum manna. Seðlabanka Íslands er þó skylt að innleysa þá seðla og mynt í 18 mánuði eftir lok sex mánaða frestsins.
     Sömu reglur og greinir í 1. og 2. mgr. skulu gilda um frímerki, sparimerki, stimpilmerki og önnur hliðstæð heimildarskjöl, að öðru leyti en því, að útgefandi er innlausnarskyldur.

8. gr.
     Fjárhæð, sem við verðgildisbreytinguna 1. janúar 1981 verður minni en hálfur eyrir nýrrar krónu, fellur niður, en hálfur eyrir og hærri fjárhæð skal hækka í einn eyri nýrrar krónu.

9. gr.
     Viðskiptaráðherra setur að fengnum tillögum Seðlabanka Íslands reglugerð1) um framkvæmd laga þessara.

1)Rg. 117/1980 og 253/1980.


10. gr.
     Brot gegn lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að fjórum árum, enda liggi ekki við broti þyngri refsingar samkvæmt öðrum lögum.

11. gr.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1981.