Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um skipan opinberra framkvæmda

1970 nr. 63 12. maí


I. kafli.
Almenn ákvæði.
1. gr.
     Opinber framkvæmd merkir í lögum þessum gerð eða breytingu mannvirkis, sem kostuð er af ríkissjóði að nokkru eða öllu leyti, enda nemi áætlaður kostnaður ríkissjóðs a.m.k. 1 millj. kr., sbr. þó 2. mgr. 23. gr. Ákvæði laganna taka einnig til kaupa á eignum, eftir því sem við getur átt.
     Heimilt er fjármálaráðuneytinu að breyta áðurnefndri fjárhæð til samræmis við verðbreytingar.
     Ríkisstjórnin getur ákveðið, að lög þessi taki, eftir því sem við á, til framkvæmda á vegum ríkisstofnana, er hafa sjálfstæðan fjárhag og því ekki háðar fjárveitingarákvörðunum Alþingis.
     [Ákvæði VI. kafla laga þessara taka einnig til framkvæmda á vegum sveitarstjórna, samtaka þeirra og stofnana. Sama gildir um framkvæmdir annarra aðila sem reknir eru að mestu leyti á kostnað ríkis eða sveitarstjórna eða annarra opinberra aðila eða lúta yfirstjórn þessara aðila eða ef rekstur þeirra er undir yfirstjórn eða eftirliti stjórnar þar sem meiri hluti stjórnarmanna er skipaður af ríki eða sveitarstjórn eða öðrum opinberum aðilum.
     Ef þeir opinberu aðilar, sem getið er um í 1., 2. og 4. mgr., starfa á sviði viðskipta eða iðnaðar skulu þeir ekki háðir ákvæðum VI. kafla, enda sinni þeir ekki vatnsveitu, orkuveitu, flutningum eða fjarskiptum.]1)

1)L. 55/1993, 1. gr.


2. gr.
     Meðferð máls varðandi opinberar framkvæmdir frá upphafi, uns henni er lokið, fer eftir ákveðinni boðleið, er skiptist í fjóra áfanga, svo sem hér segir: Frumathugun, sbr. 3.–5. gr., áætlunargerð, sbr. 6.–10. gr., verklega framkvæmd, sbr. 11.–19. gr., og skilamat, sbr. 20. gr.

II. kafli.
Frumathugun.
3. gr.
     Frumathugun er könnun og samanburður þeirra kosta, er til greina koma við lausn þeirra þarfa, sem framkvæmdinni er ætlað að fullnægja.
     Í greinargerð um frumathugun skulu vera áætlanir um kosti. Þessar áætlanir skulu vera tvíþættar. Annars vegar áætlun um stofnkostnað, þ.m.t. kostnað við áætlunargerð, og hins vegar áætlun um árlegan rekstrarkostnað, þ.m.t. lánsfjárkostnað og tekjur, ef við á. Í greinargerðinni skal skýrt frá þeim rökum, er liggja að vali kosts þess, sem tekinn er, þ. á m. hagkvæmnireikningum, sem notaðir eru í samanburði. Greinargerð um frumathugun skulu auk þess fylgja tillögur um staðsetningu og stærð, svo og frumuppdrættir að fyrirhugaðri framkvæmd, eftir því sem við á.

4. gr.
     Frumathugun fer fram á vegum hlutaðeigandi ráðuneytis, ríkisstofnunar, sveitarfélags eða annarra væntanlegra eignaraðila. Hafi annar aðili en ráðuneyti látið gera frumathugun, skal greinargerð skv. 3. gr. send viðkomandi ráðuneyti.
     Viðkomandi ráðuneyti gerir tillögur til fjármálaráðuneytis, fjárlaga- og hagsýslustofnunar, um fjárveitingar til einstakra framkvæmda á grundvelli frumathugana og jafnframt um röð framkvæmda til ákvörðunar við gerð fjárlagafrumvarps. Tillögur um röð innan sama framkvæmdaflokks, svo sem skólamannvirkja, skulu lagðar fyrir fjárveitinganefnd Alþingis, áður en hún ákvarðar tillögur sínar um skiptingu framkvæmdafjár við afgreiðslu fjárlagafrumvarps.
     Ef ráðuneyti telur ekki fært að gera tillögu til fjárlaga- og hagsýslustofnunar um fjárveitingu til framkvæmdar samkvæmt frumathugun, sem því hefur borist, skal sú ákvörðun tilkynnt aðilum svo fljótt sem verða má og gerð grein fyrir ástæðum.

5. gr.
     Nú hefur fjárveiting til opinberra framkvæmda verið tekin í fjárlög, án þess að frumathugun hafi verið gerð, og skal þá frumathugun eigi að síður fara fram samkvæmt ákvæðum 3. og 4. gr. laga þessara.

III. kafli.
Áætlunargerð.
6. gr.
     Áætlunargerð um opinbera framkvæmd fer fram á vegum hlutaðeigandi ráðuneytis, ríkisstofnunar, sveitarfélags eða annarra væntanlegra eignaraðila í samráði við fjárlaga- og hagsýslustofnun.
     Þegar opinberri framkvæmd, sem ríkið og annar aðili standa að, er ráðstafað til áætlunargerðar, skal gera samning milli væntanlegra eignaraðila og þeirra aðila, er taka að sér áætlunargerð. Þátttaka ríkissjóðs í kostnaði vegna áætlunargerðar er háð skriflegu samþykki fjármálaráðuneytisins á þeim samningi.

7. gr.
     Áætlunargerð um opinberar framkvæmdir skal vera í tvennu lagi:
1.
Fullnaðaruppdrættir og tæknileg verklýsing á þeirri framkvæmd, sem fyrirhuguð er, skrá um efnisþörf, nákvæm kostnaðaráætlun um verkið, tímaáætlun um framkvæmd þess og greiðslu- og fjáröflunaráætlun fyrir framkvæmdartímabilið.
2.
Rekstraráætlun, sem nær til minnst 5 ára, eftir að framkvæmd er lokið.


8. gr.
     Að lokinni áætlunargerð skv. 7. gr. skal hlutaðeigandi ráðuneyti senda fjárlaga- og hagsýslustofnun áætlunina til athugunar.
     Áætluninni skulu fylgja skilríki um það, að fullnægjandi lóðarréttindi og önnur réttindi, sem nauðsynleg eru vegna væntanlegrar framkvæmdar, verði fyrir hendi, þegar á þarf að halda.

9. gr.
     Nú er áætlun um opinbera framkvæmd í fullu samræmi við ákvæði 7. og 8. gr. og byggð á raunhæfum forsendum að áliti fjármálaráðuneytis, og skal þá áætlunin í heild eða skýrt afmarkaður hluti hennar, er nær nýtanlegum áfanga koma til athugunar við gerð fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár.
     Ef fjármálaráðuneytið tekur ekki slíka áætlun í fjárlagafrumvarp, skal það tilkynnt hlutaðeigandi ráðuneyti svo fljótt sem verða má og jafnframt gerð grein fyrir ástæðum.

10. gr.
     Í frumvarpi til fjárlaga skal tilfæra þá fjárhæð, sem ætluð er á fjárlagaárinu til viðkomandi framkvæmdar, og í greinargerð skal tilfæra þær fjárskuldbindingar, sem falla á seinni fjárlagaár í samræmi við áætlunina. Þegar um er að ræða fjárveitingar til einstakra framkvæmdaflokka, svo sem skólamannvirkja, skulu atriði þau, sem um getur í 1. málsl., koma fram í tillögum og sérstakri greinargerð fjárveitinganefndar Alþingis. Í fjárlagafrumvörpum næstu ára skal á sama hátt tilgreina fjárhæðir, sem samkvæmt endurskoðaðri áætlun nægja til þess að ljúka framkvæmd á tilsettum tíma.

IV. kafli.
Verkleg framkvæmd.
11. gr.
     Verkleg framkvæmd merkir í lögum þessum gerð verksamninga, verkið sjálft, eftirlit með því, sbr. 17. gr., og þar með úttekt. Verk merkir bæði vinnu og efni.

12. gr.
     Verklega framkvæmd, sem greiða skal eingöngu af ríkisfé, er óheimilt að hefja fyrr en fyrir liggur:
1.
Heimild í fjárlögum.
2.
Ákvörðun hlutaðeigandi ráðuneytis um að nota þá heimild.
3.
Staðfesting fjármálaráðuneytisins á því, að fjármagn verði handbært í samræmi við greiðsluáætlun skv. 7. gr.

     Þegar um er að ræða sameiginlega framkvæmd ríkis og annars aðila, er eigi heimilt að hefja opinbera framkvæmd fyrr en fé hefur verið veitt til hennar á fjárlögum og undirritaður hefur verið samningur viðkomandi ráðuneytis og aðilans með áritun fjármálaráðuneytisins, er tryggi, að fjármagn verði handbært á framkvæmdartímanum í samræmi við greiðsluáætlun skv. 7. gr.
     Eigi sveitarfélag hlut að máli og sé í greiðsluáætlun gert ráð fyrir framlögum úr sveitarsjóði, nægir um það atriði skrifleg yfirlýsing sveitarstjórnar, að á framkvæmdartímanum verði fjárhæðir teknar á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins í samræmi við greiðsluáætlun skv. 7. gr.

13. gr.
     Verk skal að jafnaði unnið samkvæmt tilboði á grundvelli útboðs. Ef verk er þess eðlis eða aðstæður slíkar að öðru leyti, að útboð telst ekki munu gefa góða raun, er heimilt, að fenginni umsögn samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir, sbr. 22. gr., að víkja frá útboði, sbr. þó 2. mgr.
     Ef tilboð eru óhæfilega há eða að öðru leyti ekki aðgengileg, skal verkinu ráðstafað á grundvelli fasts samningsverðs eða eftir reikningi.
     Útboðslýsingar, verklýsingar og verksamningar skulu vera í samræmi við áætlun skv. 9. gr.

14. gr.
     Innkaupastofnun ríkisins annast útboð verka svo og reikningshald og greiðslur vegna verka. Framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins, sbr. 23. gr., undirbýr samningsgerð við verktaka.
     Þegar um er að ræða sameiginlega framkvæmd ríkis og sveitarfélags, annast sveitarfélag útboð, undirbúning samningsgerðar við verktaka og reikningshald og greiðslur vegna verksins, nema öðruvísi um semjist eða fjármálaráðherra ákveði annað.
     Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir getur áskilið, að sveitarfélag, er sér um útboð vegna framkvæmdar, skuli fá samþykki Innkaupastofnunar ríkisins á útboðslýsingu, áður en útboð fer fram.
     Þegar framlög til sameiginlegra framkvæmda ríkis og sveitarfélags eru miðuð við ákveðið einingarverð, sbr. II. kafla laga nr. 49/1967, um skólakostnað, annast sveitarfélag útboð og verklega framkvæmd, nema öðruvísi um semjist.

15. gr.
     Framkvæmdadeild gerir tillögur til aðila um það, hverju þeirra tilboða, sem borist hafa, skuli tekið eða hvort öllum skuli hafnað, en þá koma til ákvæði 2. mgr. 13. gr.

16. gr.
     Samningur við verktaka skal undirritaður af hlutaðeigandi ráðuneyti. Þegar um er að ræða sameiginlega framkvæmd ríkis og sveitarfélags eða annars eignaraðila, skal samningur undirritaður af báðum eða öllum aðilum, nema öðruvísi um semjist, sbr. þó 4. mgr. 14. gr.

17. gr.
     Við hvert verk skal framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins ráða einn eða fleiri sérfróða eftirlitsmenn eftir þörfum, er hafi eftirlit með framkvæmd verksamnings. Eftirlitsmenn skulu samþykktir af eignaraðila eða eignaraðilum sameiginlega, ef um fleiri er að ræða. Í sérstöku erindisbréfi skal kveða á um störf og valdsvið eftirlitsmanna. Skýrslur eftirlitsmanna ber að senda öllum aðilum að framkvæmdum og ríkisendurskoðun. Framkvæmdadeildin ber ábyrgð á störfum eftirlitsmanna gagnvart eignaraðilum.

18. gr.
     Allur kostnaður vegna starfa eftirlitsmanns telst til stofnkostnaðar opinberra framkvæmda.

19. gr.
     Nú raskast kostnaðar- eða tímaáætlun verks vegna verðlagsbreytinga eða af tæknilegum orsökum, og skal þá hlutaðeigandi ráðuneyti svo fljótt sem auðið er gera tillögur til fjármálaráðuneytisins um breytta greiðsluáætlun. Samþykki fjármálaráðuneytið hina breyttu greiðsluáætlun, skal miða við hana í frumvarpi til fjárlaga næsta árs. Sé um að ræða sameiginlega framkvæmd ríkis og annars aðila, komi einnig til samþykki þess aðila á breyttri greiðsluáætlun.

V. kafli.
Skilamat.
20. gr.
     Að lokinni verklegri framkvæmd og úttekt skal fara fram skilamat. Í matinu skal gerð grein fyrir því, hvernig framkvæmd hefur tekist miðað við áætlun. Enn fremur skal þar gerður samanburður við hliðstæðar framkvæmdir, sem þegar hafa verið metnar.
     Ríkisendurskoðun setur nánari reglur um fyrirkomulag skilamats og sér um það, að greinargerðir um skilamat séu lagðar fyrir fjárveitinganefnd Alþingis, samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og eignaraðila.

[VI. kafli.
Opinberar framkvæmdir á Evrópska efnahagssvæðinu.]
1)

1)L. 55/1993, 2. gr.

[21. gr.
     Ákvæði þessa kafla taka til verksamninga þar sem útboðsverðmæti er jafnt eða hærra en þau mörk sem getið er um í 22. gr. og gerðir eru af þeim aðilum sem getið er um í 1. gr. Ákvæði kaflans gilda einnig þegar aðilar skv. 1. gr. greiða meira en helming kostnaðar við verk sem annar aðili býður út og semur um. Jafnframt gilda ákvæði kaflans um verksamninga fyrirtækja sem sinna vatnsveitu, orkuveitu, fjarskiptum eða flutningum með almenningsvögnum á grundvelli sérleyfa eða annars konar einkaréttar sem veitt eru af opinberum aðilum.
     Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að einstakar tegundir verksamninga séu ekki háðar ákvæðum þessa kafla.]1)

1)L. 55/1993, 2. gr.


[22. gr.
     Skylt er að bjóða út á hinu Evrópska efnahagssvæði verk sem áætlað er að nemi 5 milljónum evrópskra mynteininga (ECU) eða meira án virðisaukaskatts.
     Við mat á verðmæti verksins skal miða við það gengi sem í gildi er þann dag er auglýsing skv. 24. gr. er send til birtingar.
     Við útreikning fjárhæðar verks skal ekki eingöngu byggja á heildarfjárhæð þess heldur skal einnig taka með í þann útreikning verðmæti aðfanga sem nauðsynleg eru við framkvæmdir og verkkaupi lætur verktaka í té.]1)

1)L. 55/1993, 2. gr.


[23. gr.
     Nú er verki skipt í áfanga þar sem hver áfangi er viðfangsefni sérstaks verksamnings og skal þá við mat á verðmæti verksins miða við samanlagða fjárhæð einstakra áfanga. Ekki þarf að taka með í þann útreikning áfanga sem að verðmæti nema allt að 1 milljón ECU án virðisaukaskatts, enda nái verðmæti þessa hluta ekki 20% af áætlaðri heildarfjárhæð allra verkáfanganna.
     Óheimilt er að skipta verki í áfanga í því skyni að koma í veg fyrir skyldu til að bjóða út verk skv. 22. gr.
     Í reglugerð er heimilt að kveða nánar á um mat á útboðsverðmæti.]1)

1)L. 55/1993, 2. gr.


[24. gr.
     Verkkaupi skal í sérstakri kynningarauglýsingu lýsa megineinkennum þeirra verka sem hann hyggst bjóða út. Jafnframt er verkkaupa skylt að auglýsa þau verk sem hann hefur ákveðið að bjóða út. Þá er verkkaupa, sem gert hefur verksamning, skylt að auglýsa það.
     Auglýsingar þær, sem getið er um í 1. mgr., skulu sendar útgáfustjórn Evrópubandalagsins til birtingar eins fljótt og unnt er eftir að ákvörðun um útboð eða gerð verksamnings hefur verið tekin.
     Hvers konar birting hér á landi á auglýsingu skv. 1. mgr. er óheimil þar til hún hefur verið send útgáfustjórn Evrópubandalagsins til birtingar. Sendingardagur skal koma fram í auglýsingunni. Jafnframt er óheimilt að birta í þess konar auglýsingum aðrar upplýsingar um útboðið en þær sem koma fram í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.]1)

1)L. 55/1993, 2. gr.


[25. gr.
     Nú telur verktaki að stjórnvald eða annar verkkaupi, sem lög þessi taka til, hafi tekið ákvörðun í tengslum við framkvæmd útboðs eða gerð verksamnings sem felur í sér brot á ákvæðum VI. kafla laga þessara og getur hann þá kært þá ákvörðun til fjármálaráðuneytis.
     Kæra skal vera skrifleg og rökstudd og skulu fylgja henni nauðsynleg gögn. Fjármálaráðuneytinu er heimilt að krefja kæranda um frekari upplýsingar ef það telur ástæðu til.]1)

1)L. 55/1993, 2. gr.


[26. gr.
     Fjármálaráðuneytið getur, eftir að hafa fengið kæru til meðferðar, gripið til eftirfarandi aðgerða fram að þeim tíma er tilboð frá bjóðanda hefur verið samþykkt:
1.
Stöðvað um stundarsakir útboð og gerð verksamnings.
2.
Breytt ákvörðun verkkaupa, m.a. með því að auglýsa útboð á nýjan leik, breyta útboðsauglýsingum, útboðsgögnum og útboðsskilmálum.

     Nú vill kærandi ekki una úrlausn fjármálaráðuneytis skv. 1. mgr. og getur hann þá borið ákvörðun verkkaupa í sambandi við framkvæmd útboðs eða gerð verksamnings undir dómstóla, sbr. þó 29. gr.]1)

1)L. 55/1993, 2. gr.


[27. gr.
     Verkkaupi er bótaskyldur vegna þess tjóns sem brot á ákvæðum VI. kafla laga þessara hefur í för með sér fyrir verktaka. Bótafjárhæð skal miðast við kostnað við að undirbúa tilboð og að taka þátt í útboði.]1)

1)L. 55/1993, 2. gr.


[28. gr.
     Telji eftirlitsstofnun EFTA áður en tilboð frá bjóðanda hefur verið samþykkt að við gerð verksamnings hafi verið brotið gegn ákvæðum EES-samningsins á sviði opinberra innkaupa getur hún hafið rannsókn á meintu broti.
     Eftir að verkkaupa hefur borist tilkynning frá eftirlitsstofnun EFTA eða fjármálaráðuneyti um að stofnunin telji að um brot hafi verið að ræða skal verkkaupi innan viku frá því að fyrri tilkynningin berst senda fjármálaráðuneyti:
a.
staðfestingu á að bætt hafi verið úr brotinu eða
b.
rökstudda greinargerð um ástæður fyrir því að úrbót hafi ekki verið gerð.

     Fjármálaráðherra getur beitt heimildum þeim sem getið er um í 26. gr. ef eftirlitsstofnun EFTA hefur tilkynnt að hún telji að um brot hafi verið að ræða.]1)

1)L. 55/1993, 2. gr.


[29. gr.
     Ákvörðun verkkaupa í sambandi við framkvæmd útboðs eða gerð verksamnings verður ekki breytt eftir að tilboð frá bjóðanda hefur verið samþykkt.
     Ákvörðun verður ekki kærð til fjármálaráðuneytis eftir að tilboð frá bjóðanda hefur verið samþykkt.]1)

1)L. 55/1993, 2. gr.


[30. gr.
     Verkkaupa er skylt að veita fjármálaráðuneyti upplýsingar um þá verksamninga sem hann hefur gert og eru yfir þeim mörkum sem getið er um í 22. gr.]1)

1)L. 55/1993, 2. gr.


[31. gr.
     Fjármálaráðuneytið skal hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara. Innkaupastofnun ríkisins skal annast útboð á Evrópsku efnahagssvæði fyrir þau sveitarfélög sem þess óska. Einnig skal hún vera sveitarfélögum og öðrum opinberum aðilum til ráðuneytis varðandi framkvæmd útboða á Evrópska efnahagssvæðinu.]1)

1)L. 55/1993, 2. gr.


[VII. kafli.]1)
Yfirstjórn opinberra framkvæmda.

1)L. 55/1993, 2. gr.

[32. gr.]1)
     Fjármálaráðuneytið, fjárlaga- og hagsýslustofnun, fer með fjármálalega yfirstjórn opinberra framkvæmda, þ.e. frumathugunar, sbr. 3.–5. gr., og áætlunargerðar, sbr. 6.–10. gr. Framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins fer með yfirstjórn verklegrar framkvæmdar, sbr. 11.–19. gr., og ríkisendurskoðun fer með yfirstjórn skilamats, sbr. 20. gr.
     Sveitarfélög eða aðrir eignaraðilar fara með stjórn þeirra þátta, sem ræddir eru í 4., 6. og 14. gr., eftir því sem þar segir nánar.
     [Heimilt er að fela einstökum ríkisstofnunum umsjón nánar skilgreindra flokka opinberra framkvæmda, enda hafi þessar stofnanir aðstöðu til að annast þetta verkefni. Engu síður skal verk að jafnaði unnið samkvæmt tilboði á grundvelli útboðs, sbr. 13. gr. laganna.]2)
     Ríkisstjórnin úrskurðar vafaatriði, sem snerta gildissvið og efni laganna.

1)L. 55/1993, 2. gr.2)L. 32/1984, 1. gr.


[33. gr.]1)
     Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir er fjármálaráðuneytinu til ráðuneytis um fjármálalega framkvæmd laga þessara, sbr. I.–III. kafla. Í nefndinni eiga sæti 3 menn: Formaður fjárveitinganefndar Alþingis eða sérstaklega tilnefndur fulltrúi nefndarinnar, forstöðumaður framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins og hagsýslustjóri ríkisins, sem er formaður nefndarinnar. Hlutaðeigandi ráðuneyti hafa rétt til að eiga fulltrúa á fundum, þar sem fjallað er um mál, sem eru innan verksviðs þeirra. Þegar nefndin fjallar um sameiginlegar framkvæmdir ríkis og sveitarfélags, á fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga rétt á að sitja fundi hennar, nema sveitarfélag óski sjálft að tilnefna fulltrúa til fundarsetu.
     Nefndin hefur það hlutverk að leiða saman sjónarmið eignaraðila opinberrar framkvæmdar á undirbúnings- og framkvæmdastigi og rannsaka frumathugun og áætlunargerð, sem er undanfari verklegrar framkvæmdar. Nefndin fylgist að öðru leyti með framkvæmd hinnar fjármálalegu hliðar opinberrar framkvæmdar.
     Ef nefndin telur, að óþarfa dráttur sé á afgreiðslu máls, sem sameignaraðili sendir hlutaðeigandi ráðuneyti, skal hún hlutast til um, að úr sé bætt.

1)L. 55/1993, 2. gr.


[34. gr.]1)
     Þegar eftir gildistöku laga þessara skal koma á fót framkvæmdadeild við Innkaupastofnun ríkisins. Framkvæmdadeildin fer með yfirstjórn verklegrar framkvæmdar, sbr. IV. kafla, nema til komi ákvæði 2. og 3. mgr. 21. gr.,2) og hefur auk þess frumkvæði um stöðlun mannvirkja, eftir því sem við getur átt. Framkvæmdadeildin tekur við starfsemi byggingadeildar menntamálaráðuneytisins og byggingaeftirlits við embætti húsameistara ríkisins.
     Heimilt er að fela framkvæmdadeild umsjón með viðhaldi mannvirkja, enda þótt áætlaður kostnaður sé undir þeim talnalegu mörkum, sem getið er í 1. gr.

1)L. 55/1993, 2. gr.2)32. gr.


[35. gr.]1)
     Fjármálaráðherra getur sett reglugerð um framkvæmd laga þessara.2)

1)L. 55/1993, 2. gr.2)Rg. 302/1996.


[36. gr.
     Fjármálaráðherra skal í reglugerð1) kveða nánar á um framkvæmd laga þessara, svo sem um efni auglýsinga, útboðsgögn, útboðsaðferðir, tilboðsfresti, hæfi verktaka og val á tilboðum.]2)

1)Rg. 517/1996.2)L. 55/1993, 3. gr.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     ...
[II.
     Ráðherra er heimilt að gefa ríkisstofnunum, sem aðallega hafa framkvæmt verk sín sjálfar, þrátt fyrir ákvæði þessara laga, ákveðinn umþóttunartíma til að laga sig að framkvæmd þessara laga.]1)

1)L. 32/1984, brbákv.