Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um Blindrabókasafn Íslands

1982 nr. 35 7. maí


1. gr.
     Hlutverk Blindrabókasafns Íslands er að sjá blindum, sjónskertum, og öðrum þeim, sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt, fyrir alhliða bókasafnsþjónustu. Blindrabókasafn Íslands heyrir undir menntamálaráðuneytið.

2. gr.
     Blindrabókasafn Íslands annast framleiðslu, útgáfu og miðlun hljóðbóka og blindraletursbóka með efni skáldverka og fræðirita, þar á meðal námsgagna.
     Blindrabókasafn fylgist með nýjungum á sínu sviði og kynnir þær. Safnið skal hafa samstarf við aðila, sem vinna að framleiðslu og dreifingu námsefnis, svo og þá, sem standa að skipulagningu bókasafnsmála.
     Safnið vinnur í nánum tengslum við samtök blindra og sjónskertra.

3. gr.
     Menntamálaráðuneytið skipar til fjögurra ára í senn fimm manna stjórn Blindrabókasafns og jafnmarga til vara:
a.
tvo fulltrúa tilnefnda af Blindrafélaginu, samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi,
b.
einn fulltrúa tilnefndan af Félagi íslenskra sérkennara,
c.
einn fulltrúa tilnefndan af Bókavarðafélagi Íslands,
d.
einn fulltrúa menntamálaráðuneytisins.

     Stjórnin velur úr sínum hópi formann og varaformann. Ráðherra ákveður laun stjórnarinnar.

4. gr.
     Stjórn Blindrabókasafns gerir framkvæmdaáætlanir og endurskoðar þær reglulega. Hún staðfestir fjárhagsáætlanir og ber ábyrgð á heildarstarfsemi og fjárreiðum stofnunarinnar. Hún ræður starfslið stofnunarinnar að fengnum tillögum forstöðumanns Blindrabókasafns og með samþykki menntamálaráðuneytisins.

5. gr.
     Blindrabókasafn skiptist í þrjár deildir, útláns- og upplýsingadeild, námsbókadeild og tæknideild. Að öðru leyti skal starfsskipting stofnunarinnar ákveðin í reglugerð, sbr. 10. gr. Verkefni deilda eru í megindráttum þessi:
a.
Útláns- og upplýsingadeild. Þar fer fram flokkun og skráning safnkosts, upplýsingaþjónusta, útlán og kynning á þjónustu Blindrabókasafnsins í heild.
b.
Námsbókadeild. Aflar og gefur út námsefni við hæfi blindra og sjónskertra, einkum fyrir nemendur utan grunnskólastigs.
c.
Tæknideild. Sér um framleiðslu hljóðbóka og blindraletursbóka, varðveislu frumgagna og viðhald safnkosts og tækja.


6. gr.
     Starfsmannafundir, sem haldnir eru mánaðarlega að jafnaði, gera starfsáætlanir og samræma störf deilda. Á þeim eiga sæti allir starfsmenn safnsins, en einungis fastráðnir starfsmenn eiga atkvæðisrétt. Ráðherra skipar einn deildarstjóranna forstöðumann stofnunarinnar til þriggja ára í senn.

7. gr.
     Stjórn Blindrabókasafns skipar fimm manna bókvalsnefnd til tveggja ára í senn. Hlutverk hennar er að móta stefnu í bókvali og gæta jafnvægis milli fræðslu- og skemmtiefnis. Í henni skulu sitja einn bókmenntafræðingur, einn sérkennari, einn fulltrúi Blindrafélagsins og tveir starfsmenn Blindrabókasafns, valdir af starfsmannafundi.

8. gr.
     Kostnaður við starfsemi Blindrabókasafns Íslands greiðist úr ríkissjóði eftir því sem fé er veitt í fjárlögum. Ef um aðrar tekjur safnsins er að ræða, skal þeim varið í þágu þeirra verkefna, sem lög þessi mæla fyrir um.

9. gr.
     Menntamálaráðuneytið gerir samning við Rithöfundasamband Íslands um rétt til að framleiða og dreifa ritverkum hljóðrituðum og á blindraletri.

10. gr.
     Menntamálaráðuneytið setur reglugerð samkvæmt lögum þessum, þar sem nánar er ákveðið um hlutverk og starfsemi Blindrabókasafns.1) Reglugerðin skal sett að höfðu samráði við Blindrafélagið, Bókavarðafélag Íslands, Félag íslenskra sérkennara og Rithöfundasamband Íslands.

1)Rg. 201/1987.