Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um hundahald og varnir gegn sullaveiki1)

1953 nr. 7 3. febrúar


1)Ákvæði í þessum lögum, sem ekki samrýmast l. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit (endurútg. sem l. 81/1988), felld brott með 36. gr. l. 50/1981.

1. gr.
     [Sveitarstjórn er heimilt að ákveða með samþykkt, er heilbrigðismálaráðuneytið staðfestir, að takmarka eða banna hundahald í sveitarfélaginu.]1)

1)L. 108/1988, 9. gr.


2. gr.
     Sérhver skattgreiðandi skal á skattaframtali gera grein fyrir þeim hundum, sem hann eða aðrir, er hann hefur á framfæri sínu, eiga um áramót.
     [Sveitarstjórnir skulu á þeim grunni láta gera skrá yfir þá hunda sem eru í sveitarfélaginu.]1)

1)L. 92/1991, 28. gr.


3. gr.
     [Af hundum búfjáreigenda skal greiða 30 króna skatt árlega. Einnig af minkahundum, dýrhundum og sporhundum, enda hafi verið veitt sérstakt leyfi til slíks hundahalds og þeir hundar hafðir í öruggri gæslu. Af öðrum hundum greiðist 300 króna skattur árlega.
     [Skatturinn rennur í sveitarsjóð.]1) ]2)

1)L. 108/1988, 10. gr.2)L. 41/1965, 1. gr.


4. gr.
     Skyldur er hver sá, sem lætur slátra skepnum, er sullur finnst í, að grafa þegar í stað það slátur, sem sollið er, svo og hausa af höfuðsóttarkindum, það djúpt í jörð niður, að hundar geti eigi náð því, eða brenna það. ...1)

1)L. 75/1982, 10. gr. A.


5. gr.
     [Sveitarstjórnir skulu sjá um hreinsun hunda til útrýmingar bandormum, hver í sínu umdæmi. Kostnaður greiðist úr sveitarsjóði.]1)

1)L. 108/1988, 11. gr.


6. gr.
     Heilbrigðismálaráðuneytið setur, í samráði við landlækni og yfirdýralækni, reglugerð um hreinsun hunda vegna bandorma, meðferð sulla úr sláturfé, svo og annað, er þurfa þykir, til útrýmingar sullaveiki.1)

1)Rg. 201/1957, sbr. 429/1977 (varnir gegn sullaveiki).


7. gr.
     [Brot gegn lögum þessum og reglugerðum eða samþykktum, sem settar kunna að verða samkvæmt þeim, varða sektum.]1)

1)L. 75/1982, 10. gr. B.


8. gr.
     Með mál gegn brotum á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.