Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.
Spilliefnagjald af innfluttum gjaldskyldum vörum skal innheimt ásamt aðflutningsgjöldum.
Að því leyti sem eigi er ákveðið í lögum þessum um gjaldskyldu, álagningu, innheimtu, stöðvun tollafgreiðslu, veð, sektir, viðurlög og refsingar og aðra framkvæmd varðandi spilliefnagjald af innfluttum gjaldskyldum vörum skulu gilda eftir því sem við getur átt ákvæði tollalaga, nr. 55/1987, með síðari breytingum, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.
Spilliefnagjald af innlendum framleiðsluvörum reiknast við sölu eða afhendingu gjaldskyldrar vöru frá framleiðanda og skiptir þá ekki máli hvenær eða með hvaða hætti greiðsla kaupanda fer fram. Hvert uppgjörstímabil er einn mánuður. Spilliefnagjaldi af innlendri framleiðslu ásamt framleiðsluskýrslu í því formi sem spilliefnanefnd ákveður skal skila eigi síðar en á gjalddaga. Gjalddagi er fimmtándi dagur næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna sölu eða afhendingar á því tímabili. Beri gjalddaga upp á helgidag eða annan almennan frídag færist gjalddagi á næsta virkan dag þar á eftir.
Aðilum, sem keypt hafa hráefni eða efni til gjaldskyldrar framleiðslu sinnar og greitt af því spilliefnagjald, er heimilt að draga það frá við endanleg skil gjaldsins.