Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um kirkjuþing og kirkjuráð íslensku þjóðkirkjunnar

1982 nr. 48 11. maí


I. kafli.
Um kirkjuþing þjóðkirkjunnar.
1. gr.
     Kirkjuþing þjóðkirkjunnar fjallar um sameiginleg málefni þjóðkirkjunnar að eigin frumkvæði og leysir úr þeim málum, sem til þingsins er vísað af hálfu biskups, kirkjuráðs, Alþingis og kirkjumálaráðherra.
     Kirkjuþing skal halda ár hvert, að jafnaði í október, og starfa allt að 10 dögum [nema kirkjuþing geri aðra skipan þar á].1)
     Kirkjuþing og kirkjuráð vinna að því að efla íslenska kristni og styðja að trúar- og menningaráhrifum þjóðkirkjunnar í þjóðlífinu.

1)L. 138/1993, 6. gr.


2. gr.
     Á kirkjuþingi á sæti 21 kjörinn þingfulltrúi. Eru 18 kjörnir í 8 kjördæmum, 1 kýs guðfræðideild Háskóla Íslands og 1 guðfræðingar, er vinna í þágu þjóðkirkjunnar að sérstökum verkefnum. Enn fremur eiga sæti á kirkjuþingi biskup og kirkjumálaráðherra eða fulltrúi hans. Vígslubiskupar og kirkjuráðsmenn eiga rétt á fundarsetu og hafa málfrelsi og tillögurétt, en atkvæðisrétt hafa þeir ekki, nema þeir séu jafnframt kjörnir þingfulltrúar.

3. gr.
     Kjördæmi til kirkjuþingskosninga eru þessi:
1.
Reykjavíkurprófastsdæmi.
2.
Kjalarnessprófastsdæmi.
3.
Borgarfjarðar-, Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi.
4.
Barðastrandar- og Ísafjarðarprófastsdæmi.
5.
Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi.
6.
Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.
7.
Múla- og Austfjarðaprófastsdæmi.
8.
Skaftafells-, Rangárvalla- og Árnesprófastsdæmi.

     Í hverju þessara kjördæma skulu kosnir tveir kirkjuþingsmenn, prestur og leikmaður, þó svo að kjósa skal fjóra kirkjuþingsmenn, tvo presta og tvo leikmenn, í 1. kjördæmi, sbr. 4. og 5. gr.

4. gr.
     1. Prófastar og prestar, sem ábyrgð hafa á prestakalli innan hvers kjördæmis, kjósa úr sínum hópi einn kirkjuþingsmann fyrir kjördæmið og tvo varamenn, nema í 1. kjördæmi, þar sem kjósa skal tvo kirkjuþingsmenn og fjóra til vara.
2.
Kennarar guðfræðideildar Háskóla Íslands, sem eru í föstum embættum eða störfum (prófessorar, dósentar, lektorar), enda séu þeir guðfræðikandídatar, kjósa einn kirkjuþingsmann úr sínum hópi og tvo til vara.
3.
Guðfræðingar og prestar, sem eru fastráðnir til sérstakra verkefna innan þjóðkirkjunnar án þess að bera ábyrgð á prestakalli, svo og biskupsritari og rektor Skálholtsskóla, enda séu þeir guðfræðingar, kjósa einn kirkjuþingsmann úr sínum hópi og tvo til vara, eftir því sem nánar segir í reglugerð.


5. gr.
     Sóknarnefndarmenn og safnaðarfulltrúar hvers kjördæmis kjósa úr sínum hópi einn kirkjuþingsmann og tvo til vara, þó svo að í 1. kjördæmi skal kjósa tvo kirkjuþingsmenn og fjóra til vara.

6. gr.
     Kjörstjórn skipa þrír menn. Kirkjumálaráðherra tilnefnir formann og varaformann, og skulu þeir vera lögfræðingar. Biskup tilnefnir annan kjörstjórnarmann og varamann hans, en hinn þriðja kýs kirkjuráð og varamann hans. Tilnefning er til fjögurra ára í senn, í fyrsta skipti til ársloka 1985, og skal fara fram þegar eftir gildistöku laga þessara.

7. gr.
     Kosið skal til kirkjuþings á árinu 1982 og síðan á 4 ára fresti, sbr. 10. gr.
     Kjörstjórn semur kjörskrá í byrjun þess árs, sem kjósa skal. Á hún að liggja frammi í 4 vikur á biskupsstofu eða öðrum stað eða stöðum, sem kjörstjórn ákveður, eftir því sem nánar segir í auglýsingu kjörstjórnar. Hún úrskurðar kærur út af kjörskrá og gengur endanlega frá henni.

8. gr.
     1. Eigi síðar en 1. apríl ár það, sem kjósa skal, sendir kjörstjórn þeim, sem kosningarrétt eiga, nauðsynleg kjörgögn: auðan kjörseðil, óáritað umslag, eyðublað fyrir yfirlýsingu kjósanda um það, að hann hafi kosið, og umslag með utanáskrift kjörstjórnar. Þá skal fylgja leiðbeining um það, hvernig kosning fari fram. Greina skal glögglega, fyrir hvaða tíma kjörseðill skuli hafa borist kjörstjórn.
2.
Kjósandi utan 1. kjördæmis ritar nafn þess, sem hann vill kjósa aðalmann, svo og nöfn tveggja varamanna, á kjörseðilinn, setur hann í óáritaða umslagið, sbr. 1. mgr., og lokar því, útfyllir eyðublaðið og undirritar og leggur gögnin í áritaða umslagið og sendir kjörstjórn það í ábyrgðarpósti. Í 1. kjördæmi gildir hið sama, en þar kýs kjósandi þó tvo aðalmenn og svo fjóra varamenn.
3.
Kjörgögn til presta og leikmanna skulu vera sín með hvorum litnum. Kjörgögnum til leikmanna fylgi kjörskrá.


9. gr.
     1. Kjörstjórn telur atkvæði að loknum skilafresti, sbr. 1. mgr. 8. gr., og úrskurðar þau.
2.
Sá er kjörinn aðalmaður, sem flest fær atkvæði sem aðalmaður, og þeir tveir í 1. kjördæmi, sem flest fá atkvæði. Sá er kjörinn 1. varamaður, sem flest fær atkvæði sem varamaður að viðbættum þeim atkvæðum, sem hann hlaut sem aðalmaður, en sá 2. varamaður, sem næst flest fær atkvæði, talin með sama hætti, og gegnir hinu sama með 3. og 4. varamann í 1. kjördæmi. Hljóti tveir eða fleiri jöfn atkvæði, ræður hlutkesti, og gildir það einnig um röð varamanna, ef því er að skipta.
3.
Kjörstjórn gefur út kjörbréf til þingfulltrúa, aðalmanna og varamanna, og skal röð varamanna greind sérstaklega.


10. gr.
     Kjörtímabil hinna kjörnu þingfulltrúa er 4 ár.
     Ef kirkjuþingsmaður andast á tímabilinu eða verður vanhæfur til þingsetu eða getur ekki sótt þing, taka varamenn þess kjördæmis við eftir röð.

11. gr.
     Kærur út af kosningu til kirkjuþings skulu hafa borist kjörstjórn eigi síðar en 4 vikum eftir að fresti lauk til að skila atkvæðum, sbr. 1. mgr. 8. gr. Leggur hún þær fyrir kirkjuþing til úrskurðar ásamt athugasemdum sínum.

12. gr.
     Biskup er forseti kirkjuþings. Kirkjuþing kýs á fyrsta fundi sínum 1. og 2. varaforseta og tvo skrifara.
     Afl atkvæða ræður úrslitum mála, nema þingsköp kirkjuþings mæli annan veg. Í þingsköpum, er kirkjuþing setur sér, skal m.a. mælt fyrir um framlagningu, meðferð og afgreiðslu mála svo og um nefndarskipanir.

13. gr.
     Kirkjuþing hefir ráðgjafaratkvæði og tillögurétt um öll þau mál, er kirkju, klerkastétt og söfnuði landsins varða og heyra undir svið löggjafarvaldsins eða sæta úrskurði forseta Íslands.
     Það hefir og rétt til að gera samþykktir um innri málefni kirkjunnar, guðsþjónustu, helgisiði, skírn, fermingar, veitingu sakramenta og önnur slík. Þær samþykktir eru þó eigi bindandi, fyrr en þær hafa hlotið samþykki prestastefnu og biskups.

14. gr.
     [Kirkjuþing kýs þingfararkaupsnefnd er ákvarðar dagpeninga, ferðakostnað og þóknun til kirkjuþingsmanna.]1)

1)L. 138/1993, 6. gr.


II. kafli.
Um kirkjuráð þjóðkirkjunnar.
15. gr.
     Kirkjuráð þjóðkirkjunnar er skipað fimm mönnum, biskupi, sem er forseti þess, og fjórum mönnum, tveimur guðfræðingum og tveimur leikmönnum, sem kirkjuþing kýs, og skulu varamenn kosnir með sama hætti. Kosið skal í kirkjuráð á fyrsta kirkjuþingi, að aflokinni kosningu. Eru kirkjuráðsmenn kjörnir til loka kjörtímabils kirkjuþingsmanna.
     Kirkjuráð kýs sér varaforseta, en biskupsritari, er ritari kirkjuráðs.

16. gr.
     1. Kirkjuráð fer með framkvæmd sameiginlegra málefna þjóðkirkjunnar, þ. á m. verkefna, sem lög og stjórnvaldsreglur ætla því, og erinda, sem vísað er til þess af hálfu kirkjuþings, biskups, Alþingis, kirkjumálaráðherra, héraðsfunda sóknarnefnda eða starfsmanna sókna eða þjóðkirkjunnar.
2.
Biskup undirbýr ásamt kirkjuráði fundi kirkjuþings og fylgir eftir samþykktum þess. Kirkjuráð getur átt frumkvæði að samningu lagafrumvarpa og stjórnvaldsreglna um málefni þjóðkirkjunnar. Kirkjumálaráðherra leitar umsagnar og tillagna þess um lagafrumvörp um þessi efni, er hann hyggst flytja á Alþingi, svo og um drög að stjórnvaldsreglum um kirkjumál, er hann hyggst setja.
3.
Kirkjuráð undirbýr af hálfu þjóðkirkjunnar tillögur til fjárveitinga til kirkjunnar á fjárlögum og leitar af því efni tillagna frá kirkjuþingi og aðiljum, sem fjalla um fjármál kirkjunnar.
4.
Kirkjuráð hefir á hendi umsjá og stjórn kristnisjóðs, sbr. 23. gr. laga nr. 35/1970, og ráðstafar öðru því fé, sem veitt er af opinberri hálfu til kirkjulegrar starfsemi. Kirkjuráð hefir forræði og forsjá um Skálholtsstað, svo sem greinir í lögum nr. 32/1963, og hefir þau afskipti af málefnum Skálholtsskóla, er greinir í lögum nr. 31/1977.1)

1)l. 22/1993.


17. gr.
     Biskup kveður kirkjuráð til fundar, þegar þurfa þykir, og jafnan, þegar tveir kirkjuráðsmenn óska þess. ...1)
     Kirkjumálaráðuneytið úrskurðar reikninga kirkjuráðs, sem greiddir eru úr ríkissjóði, þ. á m. framlagðan kostnað og dagpeninga.

1)L. 138/1993, 6. gr.


III. kafli.
Gildistaka, stjórnvaldsreglur og brottfallin lög.
18. gr.
     Kirkjumálaráðherra getur að fengnum tillögum biskups, kirkjuþings og kirkjuráðs, sett reglugerð um framkvæmd laga þessara.

19. gr.
     Lög þessi taka þegar gildi. ...