Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um Landmælingar Íslands

1985 nr. 31 7. júní


I. kafli.
Skipulag Landmælinga Íslands.
1. gr.
     Landmælingar Íslands eru sjálfstæð stofnun sem heyrir undir [umhverfisráðuneytið].1)

1)L. 47/1990, 17. gr.


2. gr.
     Stjórn Landmælinga Íslands skal vera í höndum forstjóra sem ráðherra skipar til 5 ára í senn.

3. gr.
     Ráðherra ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar að fengnum tillögum forstjóra.

4. gr.
     Um skipulag og starfsháttu Landmælinga Íslands skal nánar ákveðið í reglugerð, þ. á m. skulu vera ákvæði um að þeir aðilar, sem stunda landmælingar og kortagerð, hafi samráð sín á milli um samræmi í vinnubrögðum og skipulagi mælinga og kortagerðar.

II. kafli.
Verkefni.
5. gr.
     Verkefni Landmælinga Íslands eru:
1.
Setning staðla fyrir landmælingar og kortagerð og gerð landfræðilegra og staðfræðilegra grundvallarmælinga til kortalagningar á Íslandi og umsjón með þeim. Mælingar skulu gerðar eftir skipulögðu mælingakerfi.
2.
Taka loftmynda vegna landmælinga, kortagerðar eða annarra tækni- og vísindalegra nota.
3.
Útgáfa almennra korta af Íslandi. Með almennu korti er átt við kort sem eru til sölu og dreifingar á almennum markaði.
4.
Endurskoðun útgefinna korta Landmælinga Íslands í þeim tilgangi að kortin sýni sem réttasta mynd af landinu.
5.
Söfnun, varðveisla og skráning fjarkönnunargagna sem tengjast landmælingum, kortagerð og skyldum vísindagreinum.
6.
Söfnun upplýsinga um örnefni og staðsetningu þeirra í samráði við Örnefnastofnun.
7.
Annað það er ráðherra kann að ákveða.


6. gr.
     Ríkisstofnanir og stofnanir, sem vinna fyrir almannafé, skulu tilkynna Landmælingum Íslands um fyrirhuguð meiri háttar mælinga- og kortagerðarverkefni og skila um þau áætlun.

7. gr.
     Hverjum þeim aðila, er lætur mæla land, mynda eða gera uppdrætti þannig að gögn fáist sem hafa gildi fyrir landmælingar eða vísindagreinar tengdar landmælingum, er skylt að skila til skráningar og geymslu frumgögnum eða fullkomnum afritum ásamt kortum og uppdráttum til Landmælinga Íslands í því formi sem ákveðið er með reglugerð.

8. gr.
     Landmælingar Íslands veita þeim aðilum, sem þess þurfa, upplýsingar og aðgang að gögnum í vörslu stofnunarinnar eftir reglum sem um það verða settar.

III. kafli.
Verkefnaáætlun.
9. gr.
     Landmælingar Íslands láta gera til fjögurra ára í senn áætlun um verkefni stofnunarinnar. Skal áætlunin byggjast á raunhæfum fjárhagsforsendum og skal framkvæmdum raðað eftir forgangsröð.
     Áætlun þessa skal endurskoða árlega þannig að ávallt liggi fyrir áætlun til fjögurra ára.
     Landmælingar Íslands skulu senda [umhverfisráðuneytinu]1) verkefnaáætlunina eigi síðar en 31. maí á undan fyrsta ári áætlunartímabilsins. [Umhverfisráðherra]1) leggur verkefnaáætlunina fyrir Alþingi og skal hún höfð til hliðsjónar við afgreiðslu fjárlaga.

1)L. 47/1990, 17. gr.


IV. kafli.
Höfunda- og útgáfuréttur.
10. gr.
     Höfundaréttur og útgáfuréttur Landmælinga Íslands á öllu því efni, sem stofnunin hefur eignast, unnið eða gefið út í sambandi við kort eða ljósmyndir af Íslandi, er ótímabundinn.
     Enginn má án leyfis Landmælinga Íslands fjölfalda eða gefa út kort eða ljósmyndir sem byggjast að hluta til eða öllu leyti á efni sem Landmælingar Íslands eiga útgáfurétt á.

11. gr.
     Landmælingar Íslands geta leyft afnot af gögnum stofnunarinnar til korta- eða ljósmyndaútgáfu gegn greiðslu.

V. kafli.
Fjármögnun.
12. gr.
     Landmælingar Íslands afla sér tekna á eftirfarandi hátt:
Með sölu korta og þjónustu.
Með innheimtu sérstaks stimpilgjalds af hverju korti sem gefið er út af landinu öllu eða einstökum hlutum þess og boðið er til sölu eða dreift án endurgjalds.

     Undanþegin greiðslu stimpilgjalds eru:
1.
kort sem gefin eru út eða unnin af ríkisstofnunum eða sveitarfélögum eða fyrir þau,
2.
uppdrættir í dagblöðum, tímaritum eða bókum sem framar öllu er ætlað að vera til skýringar á rituðum texta,
3.
kort til notkunar í vísindalegum tilgangi eða til kennslu.

     Gjöld samkvæmt 2. mgr.1) skulu innheimt til ríkissjóðs.
     Tekjum samkvæmt þessari grein skal einungis varið til landmælinga og kortagerðar á vegum Landmælinga Íslands.
     Kostnaður við starfrækslu Landmælinga Íslands umfram ofangreindar tekjur skal greiddur úr ríkissjóði.

1)Á væntanlega að vera 3. málsl. 1. mgr.


13. gr.
     Ráðherra ákveður með gjaldskrá stimpilgjald samkvæmt 12. gr.
     Enn fremur skal söluverð korta og gjald fyrir þjónustu háð samþykki ráðherra.

VI. kafli.
Ýmis ákvæði.
14. gr.
     Eigendum jarða og annarra landareigna og ábúendum jarða, svo og sveitarstjórnum sem afréttarlönd heyra undir, er skylt að heimila þá för um landareignina og uppsetningu mælingamerkja/punkta sem nauðsynleg getur talist vegna landmælinga.

15. gr.
     Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

16. gr.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     ...
     Lög þessi skal endurskoða eigi síðar en að þremur árum liðnum.