Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.
Farsóttalög
1958 nr. 10 19. mars
1. gr. Það er almenn skylda að gjalda sem mesta varúð við farsóttum og hvers konar næmum sjúkdómum og gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra, að svo miklu leyti sem framkvæmanlegt er og þýðingu hefur.
Læknum og þeim, sem með lækningar fara, svo og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum, er sérstaklega skylt, hverjum í sínum verkahring, að vekja athygli á sýkingarhættum og gefa ráð og leiðbeiningar hér að lútandi.
Skylt er hlutaðeigendum jafnan að hlýða fyrirmælum læknis um nauðsynlegar viðurkenndar og venjulegar ráðstafanir til varnar gegn sóttnæmisútbreiðslu frá sjúklingi, er hann hefur til meðferðar.
2. gr. Héraðslæknar (í Reykjavík borgarlæknir, eins og annars staðar, þar sem vikið er að héraðslæknum í lögum þessum) skulu, hver í sínu héraði, undir umsjá landlæknis og yfirstjórn ráðherra, hafa með höndum opinberar farsóttavarnir samkvæmt ákvæðum laga þessara.
Ráðherra birtir í farsóttareglugerð almenn fyrirmæli um tilhögun og framkvæmd opinberra farsóttavarna.1)
Þegar svo ber við í einstökum tilfellum, að hlutaðeigandi héraðslækni verður um megn að inna af hendi þær skyldur, sem honum eru lagðar á herðar samkvæmt ákvæðum laga þessara, skipar ráðherra einn eða fleiri lækna héraðslækninum til aðstoðar.
Skylt er [lögreglustjórum],2) hreppstjórum, svo og sveitarstjórnum og heilbrigðisnefndum, ef til eru, að aðstoða héraðslækna við framkvæmd opinberra farsóttavarna samkvæmt ákvæðum laga þessara.
1)Rg. 132/1934
.2)L. 92/1991, 37. gr.
3. gr. Ætíð skal beita opinberum vörnum samkvæmt ákvæðum farsóttareglugerðar gegn útbreiðslu sóttvarnarsótta, sem eru (sbr. 1. gr. sóttvarnarlaga, nr. 34 12. apríl 1954, og 1. gr. sóttvarnarreglugerðar nr. 112 27. ágúst 1954):
- 1.
- bólusótt (variola);
- 2.
- dílasótt (typhus exanthematicus);
- 3.
- kólera (cholera asiatica);
- 4.
- rykkjasótt (febris recurrens);
- 5.
- svarti dauði (pestis).
Verði breyting gerð á ákvæðum sóttvarnarreglugerðar um það, hverjar sóttir skuli teljast sóttvarnarsóttir, tekur sú breyting til ákvæða laga þessara þar að lútandi.
Ráðherra getur fyrirskipað, að opinberum vörnum samkvæmt ákvæðum farsóttareglugerðar skuli og beita að meira eða minna leyti gegn öðrum sóttum en sóttvarnarsóttum, svo sem barnaveiki, blóðsótt, taugaveiki, heilasótt, mislingum, hettusótt, mænusótt, skarlatssótt og kíghósta, þegar þessar eða þvílíkar sóttir eru skæðar, þegar líklegt þykir, að hefta megi hættulega útbreiðslu þeirra með opinberum vörnum, en ekki án slíkra varna, eða þegar öðrum sérstaklega knýjandi ástæðum er til að dreifa.
4. gr. Í hvert sinn er sóttvarnarsótt (sbr. 1. mgr. 3. gr.) kemur upp, skal hlutaðeigandi héraðslæknir þegar í stað taka upp opinberar varnir gegn sóttinni samkvæmt ákvæðum farsóttareglugerðar, en gera landlækni það jafnskjótt kunnugt.
Telji héraðslæknir nauðsyn til bera að beita opinberum vörnum samkvæmt ákvæðum farsóttareglugerðar að meira eða minna leyti gegn öðrum sóttum (sbr. 3. mgr. 3. gr.), ber hann málið undir landlækni og bíður fyrirmæla ráðherra. Ef héraðslæknir telur svo aðkallandi að beita slíkum vörnum að meira eða minna leyti, að hvers konar töf sé hættuleg, er honum heimilt að gera það til bráðabirgða, án þess að leita heimildar fyrirfram, en gera skal hann landlækni jafnskjótt kunnar ráðstafanir sínar.
Um sóttvarnir gegn útlöndum, um varnir gegn berklaveiki, holdsveiki, kynsjúkdómum, fýlasótt, miltisbrandi, sullaveiki og öðrum alidýrasjúkdómum og um ónæmisaðgerðir fer jafnframt eftir sérstökum lögum.
5. gr. Nú hafa verið teknar upp opinberar varnir samkvæmt ákvæðum farsóttareglugerðar gegn einhverri sótt, og kveður þá ráðherra nánar á um, hverjar ráðstafanir skuli gerðar til að hefta útbreiðslu sóttarinnar. Þegar þau fyrirmæli hafa verið lögð fyrir hlutaðeigandi héraðslækni, hagar hann vörnunum samkvæmt þeim, þangað til öðruvísi verður fyrir mælt af ráðherra. Ef héraðslæknir telur nauðsynlegar breytingar á tilhögun eða framkvæmd varnanna, leggur hann tillögur sínar þar að lútandi fyrir landlækni og bíður úrskurðar ráðherra. Ef héraðslæknir telur breytingarnar svo aðkallandi, að hvers konar töf sé hættuleg, er honum heimilt að framkvæma þær til bráðabirgða, enda séu varnirnar eftir sem áður í samræmi við ákvæði farsóttareglugerðar, en gera skal hann landlækni jafnskjótt kunnar ráðstafanir sínar.
6. gr. Þegar ástæða er til að ætla, að maður hafi dáið úr einhverri þeirri sótt, sem annaðhvort er skylt eða nauðsynlegt að beita opinberum vörnum gegn samkvæmt ákvæðum laga þessara, eða hinn dáni er grunaður um að vera smitberi einhverrar þeirrar sóttar, getur hlutaðeigandi lögreglustjóri lagt fyrir, að rannsaka skuli hluta af líkinu eða jafnvel kryfja það, ef þörf er á til þess, að ákveðið verði, hvort opinberum farsóttavörnum skuli beitt.
Ráðherra birtir reglur um meðferð og umbúnað líka, sem flutt eru á milli staða hér á landi eða út úr landinu.1)
1)Rg. 115/1971
.
7. gr. Eigi má nota farþegaskip, farþegabifreiðar, farþegaloftför eða önnur samsvarandi fólksflutningatæki til að flytja sjúkling, sem haldinn er sótt þeirri eða er smitberi þeirrar sóttar, sem skylt er að beita opinberum vörnum gegn eða opinberum vörnum er beitt gegn, nema fylgt sé öllum fyrirmælum hlutaðeigandi héraðslæknis um flutning slíks sjúklings eða smitbera.
Ákvæði þessarar greinar taka jafnan til barnaveiki, taugaveiki, heilasóttar og skarlatssóttar, þó að opinberum vörnum sé ekki beitt gegn útbreiðslu þeirra.
8. gr. Nú kemur sjúkdómur upp á heimili, eða yfirvofandi er, að hann komi upp á heimili, og auðsætt þykir eða líklegt, að verið hafi eða sé sóttvarnarsótt (sbr. 1. mgr. 3. gr.) eða einhver þeirra sótta, sem taldar eru í 3. mgr. 3. gr., eða vitað er eða grunsamlegt, að heimilismaður sé smitberi einhverrar þeirrar sóttar, og skal þá húsráðanda skylt að skýra lækni sínum þegar frá því. Ef læknirinn er ekki hlutaðeigandi héraðslæknir og fellst á, að um slíka sótt eða smitburð geti verið að ræða, gerir hann héraðslækninum við vart. Húsráðanda, sem er fjarri lækni, er og heimilt, ef hann kýs það heldur, að gera hreppstjóra eða hreppsnefndarmanni í hreppi sínum kunnugt um sjúklinginn (smitberann), en hreppstjóri (hreppsnefndarmaður) skal þá jafnskjótt gera hlutaðeigandi héraðslækni við vart. Með heimilismönnum eru einnig taldir aðkomumenn þeir, er hafa húsnæði eða náttstað á heimili um stundarsakir, svo og þeir, sem þar eru í fæði. Nú kemur slíkur sjúkdómur, sem hér um ræðir, eða smitburður, upp meðal þeirra, sem eru í nauðungarvist á einhverjum stað eða í sjúkrahúsi, elliheimili, barnahæli, heimavistarskóla eða þvílíkri stofnun, og er þá forstöðumanni eða forráðamanni skylt að skýra frá því. Komi sjúkdómurinn upp á skipi eða í veri á vertíð meðal skipshafnar, skal skipstjóri eða formaður skýra frá því.
Starfandi læknum er sérstaklega skylt að hafa vakandi auga á sóttum, er ástæða gæti verið til að beita opinberum vörnum gegn, og gera hlutaðeigandi héraðslækni jafnskjótt kunnugt, ef þeir verða slíkrar sóttar varir.
Viti einhver til þess, að vanrækt hafi verið að gera héraðslækni kunnugt um sjúkdóm eða smitburð samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, skal hann þegar í stað skýra frá því á þann hátt, er að framan segir.
Þurfi hreppstjóri eða hreppsnefndarmaður að takast ferð á hendur til að fullnægja fyrirmælum greinar þessarar, fær hann kostnaðinn endurgreiddan úr sveitarsjóði eftir reikningi, er hlutaðeigandi hreppsnefnd samþykkir.
9. gr. Nú er eigi unnt að hafa sjúkling eða smitbera svo afskekktan á heimili sínu, að ekki sé hætt við útbreiðslu sóttnæmis, og er þá hlutaðeigandi héraðslækni heimilt, í samræmi við ákvæði 3.–5. gr. að láta flytja sjúklinginn (smitberann) í sjúkrahús eða eitthvert annað hús, sem til þess er hentugt og hægt er að fá. Er sjúklingi (smitbera) skylt að vera þar, þangað til hættulaust er að flytja hann eða láta hann fara þaðan, enda sé honum látin þar í té hæfileg læknishjálp og aðhjúkrun. Heimilt er og að fara eins að, þá er rannsaka skal vafasöm sjúkdómstilfelli eða smitburð. Við flutning sjúklingsins (smitberans) skal þess gætt, að svo vel fari um hann sem unnt er, án þess að hætt sé við sóttnæmisútbreiðslu.
10. gr. Ef sjúklingur eða smitberi er ekki fluttur af heimili sínu, getur hlutaðeigandi lögreglustjóri eða hreppstjóri eftir fyrirmælum hlutaðeigandi héraðslæknis í samræmi við ákvæði 3.–5. gr., takmarkað samgöngur milli heimilis hans (húss eða bæjar) og annarra heimila eða bannað með öllu utanheimilismönnum að koma á heimilið og einnig heimamönnum að fara á annarra manna heimili. Þegar samgöngur eru takmarkaðar, skal, ef þörf krefur, setja mann af öðru heimili til að líta daglega eftir hinu sýkta heimili og annast nauðsynlega aðflutninga, en skylt er að gera það, ef samgöngur eru með öllu bannaðar. Banna má og að flytja af sýktu heimili muni og matvæli, einkum mjólk og mjólkurafurðir.
Á sama hátt getur hlutaðeigandi héraðslæknir takmarkað eða bannað sölu varnings, sem sótthætta getur stafað af, einnig verslunum, svo sem matvælabúðum, brauðbúðum og mjólkurbúðum, enn fremur veitingar á gistihúsum og veitingastöðum.
Matvælakaupmenn, matsalar, veitingamenn, brauðsalar og einkum mjólkursalar eru skyldir til, ef krafist er vegna framkvæmda í samræmi við ákvæði laga þessara, að láta í té skrá yfir viðskiptamenn sína, að svo miklu leyti sem þeir eru þeim kunnir. Einnig eru skyldir til að gefa sig fram menn, sem viðskipti hafa átt við slíkan tilgreindan kaupmann, útsölumann eða veitingamann, ef hlutaðeigandi héraðslæknir krefst þess með auglýsingu.
11. gr. Nú hefur sótt, sem opinberum vörnum er beitt gegn, gert vart við sig á heimili, þar sem eru börn eða aðrir nemendur, sem ganga í skóla, eða smitberi slíkrar sóttar hefst þar við, og má þá nemandi ekki sækja skóla, fyrr en ekki er hætt við sóttnæmisútbreiðslu frá honum, að áliti héraðslæknis eða samkvæmt úrskurði ráðherra. Þessa skal og jafnan gætt um barnaveiki, taugaveiki, heilasótt, mænusótt og skarlatssótt, þó að opinberum vörnum sé ekki beitt gegn þeim, og um farsóttir yfirleitt, nema þær séu svo útbreiddar orðnar, að ekki teljist svara tilgangi. Um skólakennara gildir sama að þessu leyti og nemendur.
12. gr. Í byggðarlagi, þar sem sótt gengur, sem opinberum vörnum er beitt gegn, svo og í nærsveitum, getur lögreglustjóri eða hreppstjóri, eftir fyrirmælum héraðslæknis í samræmi við ákvæði 3.–5. gr., skipað, að loka skuli skólum, jafnt almennum skólum sem einkaskólum, bannað almenna mannfundi og opinberar skemmtisamkomur (kvikmyndasýningar, leiksýningar, samsöngva, dansleiki, hlutaveltur o.s.frv.), aðrar samkomur (brúðkaupsveislur, innanfélagsskemmtanir o.s.frv.), þar sem margir koma saman í sama húsi, svo og messugerðir og líkfylgdir. Á sama hátt getur lögreglustjóri eða hreppstjóri lokað verslunum, svo sem matvælabúðum, brauðbúðum og mjólkurbúðum, enn fremur gistihúsum og veitingastöðum.
13. gr. Þegar mjög mikil hætta vofir yfir, getur hlutaðeigandi lögreglustjóri, eftir fyrirmælum hlutaðeigandi héraðslæknis í samræmi við ákvæði 3.–5. gr., skipað, að afkvía skuli sýktan kaupstað, kauptún, sveit, eða hluta þeirra, svo og önnur stór svæði, og skal lögreglustjóri þá annast nauðsynlegar ráðstafanir til að halda uppi slíku samgöngubanni.
[Nú óskar sveitarstjórn að afkvía sveitarfélagið eða hluta þess, til þess að ekki berist þangað hættuleg farsótt, og getur þá ráðherra, ef gild ástæða þykir til, heimilað afkvíunina og falið hlutaðeigandi lögreglustjóra framkvæmdirnar í samráði við hlutaðeigandi lækni. Kostnaður af slíkri afkvíun greiðist úr hlutaðeigandi sveitarsjóði.]1)
1)L. 108/1988, 14. gr.
14. gr. Nú hefur verið beitt opinberum vörnum gegn sóttnæmisútbreiðslu frá grunuðum taugaveikissmitbera eða öðrum grunuðum smitbera, og á hinn grunaði smitberi þá kröfu á, að hann verði rannsakaður til hlítar og úr því skorið, ef unnt er, hvort grunurinn er á rökum reistur. Á sama hátt á taugaveikissmitberi eða annar smitberi, sem opinberum vörnum hefur verið beitt gegn, kröfu á að fá þá læknishjálp, sem til þess þarf, að hann verði, ef unnt er, losaður við smitburðinn.
Ráðherra er heimilt að semja um að veita viðvarandi taugaveikissmitbera eða aðstandendum slíks smitbera, og eins þó að einungis sé um að ræða grun, sem ekki verður hnekkt, styrk úr ríkissjóði um lengri eða skemmri tíma, gegn því að smitberanum verði tryggilega ráðstafað, svo að sýkingarhætta stafi ekki af honum.
15. gr. Skylt er mönnum að þola, að fram fari sótthreinsun á sjálfum þeim og skylduliði þeirra, búslóð, húsum og bæjum, einnig á skipum og öðrum farartækjum, svo og á lausum munum, þar er verið hefur einhver af sóttum þeim sem nefndar eru í 1. og 3. mgr. 3. gr., eða smitberar slíkra sótta, og þá endranær, er héraðslæknir fyrirskipar sótthreinsun í samræmi við ákvæði laga þessara.
Sé miklum umsvifum og erfiðleikum bundið að sótthreinsa lausa muni, má láta brenna þá eða eyða þeim á annan hátt, en skaðabætur skulu greiddar eiganda.
Að jafnaði annast hlutaðeigendur sjálfir sótthreinsun heimila sinna og annarra húseigna, skipa og annarra tækja samkvæmt fyrirsögn og leiðbeiningum hlutaðeigandi héraðslæknis eða heilbrigðisfulltrúa fyrir hans hönd og ætíð, þegar ekki er um annað að ræða en almenna hreingerningu húss (skips, farartækis) og muna, málningu (kölkun) eða veggfóðrun herbergja, böðun fólks, fataþvott og þess háttar, og eins þó að fyrirskipað sé að nota við hreingerningu og þvott venjulegt sótthreinsunarlyf.
Þegar mikið liggur við, svo sem þegar um er að ræða sótthreinsun vegna sóttvarnarsóttar (sbr. 1. mgr. 3. gr.), skipar héraðslæknir í samráði við landlækni sérfróðan sótthreinsunarmann til að annast einstakar sótthreinsanir.
Ef sveitarstjórn telur henta að hafa á að skipa föstum sótthreinsunarmanni, er hlutaðeigandi lögreglustjóra heimilt að löggilda til sótthreinsunarstarfa í hlutaðeigandi sveitarfélagi hæfan mann, að dómi hlutaðeigandi héraðslæknis og heilbrigðisnefndar, ef til er.
16. gr. Ríkissjóður ber kostnað af opinberum farsóttavörnum, þ.e. vörnum gegn sóttvarnarsóttum (sbr. 1. mgr. 3. gr.) og vörnum, sem ráðherra fyrirskipar sérstaklega samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 3. gr., nema fyrir sé mælt, að kostnaðinn skuli greiða úr hlutaðeigandi sveitarsjóði ...1) (sbr. 4. mgr. 2. gr., 4. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 13. gr.) eða hlutaðeigendur beri hann sjálfir (sbr. 2., 3. og 6.–8. mgr. þessarar greinar).
Ríkissjóður ber meðal annars kostnað af sótthreinsun, sem héraðslæknir í samráði við landlækni skipar sérstakan sótthreinsunarmann til að annast samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 15. gr. Heimilismönnum er þó skylt að annast endurgjaldslaust alla þá vinnu við sótthreinsunina, sem þeir geta af hendi leyst og sótthreinsunarmaður þarf með og heimtar. Þeim er og skylt að leggja til ókeypis heitt vatn og kalt, eldivið og sápu eftir þörfum.
Kostnað af sótthreinsun, sem héraðslæknir fyrirskipar og framkvæmd er samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 15. gr., ber hlutaðeigandi sjálfur og eins, þó að til slíkrar sótthreinsunar sé fenginn löggiltur sótthreinsunarmaður (sbr. 5. mgr. 15. gr.), nema hlutaðeigandi sveitarsjóður beri kostnaðinn samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar. Ríkissjóður ber þó jafnan allan kostnað af því, ef héraðslæknir fyrirskipar að flytja burtu af heimili sængurfatnað eða annað til sótthreinsunar í sótthreinsunarofni.
Ríkissjóður ber kostnað af flutningi sjúkra manna vegna opinberra farsóttavarna, einnig ferðakostnað smitbera af heimili á sjúkrahús eða annað, svo og fyrir dvöl þeirra þar samkvæmt ákvæðum 9. gr., þar með talin aðhjúkrun, lyf og læknishjálp, enn fremur ferðakostnað smitbera til rannsóknar eða lækninga samkvæmt ákvæðum 14. gr., svo og allan kostnað af rannsókninni og læknishjálpinni, þar með talinn dvalarkostnaður á sjúkrahúsi.
Ráðherra er heimilt að láta greiða úr ríkissjóði að meira eða minna leyti kostnað af læknishjálp, aðhjúkrun og eftirliti með sjúklingum í heimahúsum, þegar um sótt er að ræða, sem opinberum farsóttavörnum er beitt gegn og ætla má, að slíkt sé nauðsynlegt til að hefta útbreiðslu sóttarinnar.
Ákvæði tveggja síðustu málsgreina leysa ekki hlutaðeigandi sjúkrasamlag undan þeirri kvöð að greiða eðlilegan sjúkrakostnað fyrir tryggðan meðlim, enda þótt farsóttavörnum sé beitt gegn honum, og tekur það bæði til nauðsynlegrar sjúkrahúsvistar sjúkdómsins vegna og venjulegrar læknishjálpar utan sjúkrahúss. Sama gildir um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla, ef svo ber við, að hún á hlut að máli.
Ríkissjóður ber ekki þann kostnað, sem leiðir af því, er ferðir manna eða farartækja eru hindraðar samkvæmt ákvæðum laga þessara, né greiðir skaðabætur fyrir þau atvinnuspjöll, er leiða kann af framkvæmd þeirra.
Ríkissjóður ber ekki kostnað af farsóttavörnum, sem læknir fyrirskipar í samræmi við ákvæði 1. gr. laga þessara, og ekki heldur þótt í hlut eigi héraðslæknir, sem í samræmi við þau ákvæði fyrirskipar að haga slíkum vörnum að meira eða minna leyti samkvæmt ákvæðum farsóttareglugerðar.
1)L. 108/1988, 15. gr.
17. gr. Brot gegn ákvæðum laga þessara eða gegn almennum eða sérstökum fyrirmælum samkvæmt ákvæðum þeirra varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 6 mánuðum.
Ef maður er haldinn sóttvarnarsótt (sbr. 1. mgr. 3. gr.) eða er smitberi slíkrar sóttar eða maður hefur dvalist á heimili, þar sem slík sótt gengur eða slíkur smitberi dvelst, þá skal sá maður jafnan, er hann kemur á önnur heimili, á skip eða í önnur fólksflutningatæki, gera þetta kunnugt húsráðanda, skipstjóra eða forráðamanni. Sama gildir um þær sóttir, sem taldar eru í 3. mgr. 3. gr., ef opinberum vörnum er beitt gegn þeim, og einnig án þess um barnaveiki, taugaveiki, heilasótt og skarlatssótt. Nú vanrækir maður þetta, og má þá, auk hegningar, sem ákveðin er í 1. mgr. þessarar greinar, dæma hann til skaðabóta fyrir það, er leiða kann af vanrækslu hans.
Mál, sem rísa út af brotum á lögum þessum, skulu rekin að hætti opinberra mála.