Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um ríkisendurskoðun

1986 nr. 12 29. apríl


1. gr.
     Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis. Annast hún endurskoðun hjá ríkisstofnunum og þeim aðilum öðrum sem hafa með höndum rekstur eða fjárvörslu á vegum ríkisins. Enn fremur hefur hún eftirlit með framkvæmd fjárlaga.
     Ríkisendurskoðun skal vera þingnefndum og yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings, sbr. 43. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins.
     Ríkisendurskoðun er óháð ráðuneytum og öðrum handhöfum framkvæmdarvaldsins.

2. gr.
     Forsetar Alþingis ráða í sameiningu forstöðumann stofnunarinnar til sex ára í senn og nefnist hann ríkisendurskoðandi. Ríkisendurskoðandi skal hafa löggildingu sem endurskoðandi. Launakjör hans skulu ákveðin af Kjaradómi. Ríkisendurskoðandi er starfsmaður Alþingis og ber ábyrgð gagnvart því. Forsetar Alþingis geta, að fengnu samþykki sameinaðs Alþingis, vikið ríkisendurskoðanda úr starfi.

3. gr.
     Ríkisendurskoðandi nýtur sjálfstæðis í starfi sínu og er ekki bundinn af fyrirmælum um einstaka þætti þess. Forsetar Alþingis geta þó, ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna, krafið hann skýrslna um einstök mál.
     Ríkisendurskoðandi stjórnar ríkisendurskoðun. Hann ræður starfsmenn og skal leitast við að þeir hafi staðgóða menntun og þekkingu og séu í einu og öllu óháðir ráðuneytum og stofnunum sem þeir vinna að endurskoðun hjá.

4. gr.
     Ríkisendurskoðun er heimilt að fela óháðum löggiltum endurskoðendum að vinna að einstökum verkefnum sem stofnuninni eru falin í lögum þessum.

5. gr.
     Reikningar ríkisendurskoðunar skulu endurskoðaðir af óháðum löggiltum endurskoðanda sem tilnefndur er af forsetum Alþingis.
     Reikningsskil ríkisendurskoðunar skulu birt í ríkisreikningi.

6. gr.
     Ríkisendurskoðun skal annast endurskoðun ríkisreiknings og reikninga stofnana, sjóða og annarra aðila þar sem kostnaður eða reikningslegt tap er greitt af ríkissjóði samkvæmt fjárlögum eða af öðrum tekjum samkvæmt sérstökum lögum.
     Enn fremur skal ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga fyrirtækja og stofnana sem rekin eru á ábyrgð ríkissjóðs eða ríkissjóður á að hálfu eða meira, þar með talin hlutafélög og ríkisbankar.

7. gr.
     [Ríkisendurskoðun getur krafist reikningsskila af stofnunum, samtökum, sjóðum og öðrum aðilum sem fá fé eða ábyrgðir frá ríkinu. Jafnframt er ríkisendurskoðun heimilt að kalla eftir greinargerðum um ráðstöfun styrkja og annarra framlaga af ríkisfé. Þá er ríkisendurskoðun heimill aðgangur að og skoðun á grundvallargögnum eða skýrslum sem færðar eru samhliða reikningsgerð á hendur ríkinu eða ríkisstofnunum fyrir vinnu eða þjónustu, sem greiðsluskyld er að öllu leyti eða að verulegum hluta úr ríkissjóði á grundvelli laga, verksamninga eða gjaldskrársamninga við einstaklinga, félög eða stofnanir, til að sannreyna efni innsendra reikninga og greiðsluskyldu ríkissjóðs.
     Ríkisendurskoðun getur rannsakað reikningsskil sveitarfélaga sem varða sameiginlega starfsemi ríkisins og sveitarfélaga. Enn fremur getur hún rannsakað reikningsskil þeirra stofnana og félaga sem ríkissjóður á hlut í.
     Nú verður ágreiningur um skoðunarheimild ríkisendurskoðunar samkvæmt þessari grein og getur ríkisendurskoðandi þá leitað um hann úrskurðar [héraðsdóms].1)]2)

1)L. 19/1991, 195. gr.2)L. 35/1988, 1. gr.


8. gr.
     Endurskoðun skal á hverjum tíma einkum miða að eftirfarandi:
1.
Að reikningsskil gefi glögga mynd af rekstri og efnahag í samræmi við reikningsskilavenjur.
2.
Að reikningar séu í samræmi við heimildir fjárlaga, fjáraukalaga og annarra laga, lögmæt fyrirmæli og starfsvenjur.


9. gr.
     Ríkisendurskoðun getur framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun hjá ríkisfyrirtækjum en í slíkri endurskoðun felst að könnuð sé meðferð og nýting á ríkisfé. Skal stofnunin vekja athygli hlutaðeigandi stjórnvalda á því sem úrskeiðis fer í rekstri og gera tillögur um úrbætur.

10. gr.
     Í störfum sínum samkvæmt 6. gr. á ríkisendurskoðun aðgang að öllum gögnum sem máli skipta, þar á meðal fylgiskjölum, skýrslum, bókum og bréfum. Þá getur ríkisendurskoðun krafist þeirra upplýsinga og gagna sem þýðingu geta haft við störf hennar samkvæmt 7. gr.
     Ríkisendurskoðun ákveður hvar og hvenær endurskoðað er. Þegar ákveðið er að endurskoðun fari fram í skrifstofu stofnunar eða ríkisfyrirtækis er þeirri stofnun skylt að veita alla aðstöðu sem þarf til að unnt sé að endurskoða þar.
     Ríkisendurskoðun getur kveðið á um frest þeim til handa sem standa eiga skil á gögnum til endurskoðunar, svo og frest til þess að svara athugasemdum sem gerðar hafa verið við bókhald eða fjárvörslu.

11. gr.
     Nú ákveður ríkisendurskoðandi að beita ákvæðum 7. og 9. gr. og skal hann þá gera fjárveitinganefnd grein fyrir ákvörðunum sínum. Fjárveitinganefnd getur og haft frumkvæði að athugunum samkvæmt þessum lagaákvæðum.

12. gr.
     Árlega skal samin heildarskýrsla um störf ríkisendurskoðunar á liðnu almanaksári. Skal hún lögð fyrir Alþingi.

13. gr.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1987. ...