Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Berklavarnalög

1939 nr. 66 31. desember


1. gr.
     Ákvæði laga þessara ná til allra tegunda berklaveiki, nema annað sé tekið fram. Með berklaveiki er átt við berklaveiki í mönnum, virka og óvirka, án tillits til þess, hvar hún er í líkamanum og hvort um er að ræða smitandi berklaveiki eða eigi. Virk berklaveiki er berklaveiki, sem gerir um sig í líkama sjúklings þannig, að sjálf berklaskemmdin ágerist eða veldur almennum sjúkdómseinkennum. Smitandi lungnaberklar og hvers konar berklaskemmdir með útferð teljast virk berklaveiki. Berklasjúklingar, sem loftbrjóstaðgerðir eru viðhafðar við, teljast og hafa virka berklaveiki. Óvirk berklaveiki er berklaveiki, sem ekki er virk. Smitandi berklaveiki er berklaveiki á því stigi, að gera má ráð fyrir, að hinir sýktu geti smitað frá sér. Eftirstöðvar eftir berklaveiki, sem auðsjáanlega er algerlega um garð gengin, teljast ekki berklaveiki.

2. gr.
     Tilgangur laga þessara er að reisa skorður við útbreiðslu berklaveiki hér á landi, með því að stuðla að því:
1.
að gerðar verði ráðstafanir til varnar því, að heilbrigt fólk sýkist af berklaveiki, bæði með einangrun smitandi berklasjúklinga og öðrum beinum sóttvarnarráðstöfunum, svo og til eflingar hverju því, er miðar til að auka viðnámsþrótt almennings gegn veikinni,
2.
að haldið verði uppi um land allt skipulagsbundinni leit að berklasýktu fólki,
3.
að berklaveiku fólki verði veitt sem skjótust og öruggust læknishjálp,
4.
að haft verði eftirlit með því og að því stutt, að fólk, sem verið hefur berklaveikt, en náð bata, búi við þau kjör, að sem minnst hætta sé á, að það veikist á ný.


3. gr.
     Yfirstjórn berklavarnastarfseminnar er í höndum ráðherra þess, sem fer með stjórn heilbrigðismála, enda nýtur hann í því efni ráða landlæknis. Framkvæmdarstjórn berklavarnanna skal falin sérfróðum berklalækni, berklayfirlækni landsins. Laun hans skulu ákveðin af ráðherra, uns þau verða ákveðin í launalögum.
     Gert er ráð fyrir, að hæfilega margar heilsuverndarstöðvar, sem starfræktar eru af bæjar- og sveitarfélögum, sjúkrasamlögum, eða öðrum almennum félagsskap, sem til þess er metinn gildur, njóti styrks úr ríkissjóði, eftir því sem ákveðið verður í fjárlögum, enda annist þær berklavarnastarfsemi eftir reglum, sem ráðherra setur með ráði berklayfirlæknis í samræmi við ákvæði þessara laga, og hlíti stöðvarnar að því leyti yfirumsjón berklayfirlæknis. Þar sem talað er um heilsuverndarstöðvar í lögum þessum, er aðeins átt við heilsuverndarstöðvar, sem starfa samkvæmt þessum reglum.
     Ráðherra er og heimilt, með ráði berklayfirlæknis, að setja reglur um aukna berklavarnastarfsemi héraðslækna í héruðum, þar sem sérstakar heilsuverndarstöðvar eru ekki starfræktar, enda sé veittur til þess styrkur í fjárlögum.

4. gr.
     Nú rannsakar læknir sjúkling og telur hann berklaveikan, og skal hann þá senda héraðslækni tafarlaust eða eigi síðar en innan viku tilkynningu um sjúklinginn, ef hann hefur eigi tilkynnt hann áður eða ef ætla má, að hann sé eigi skráður eða eigi talinn berklaveikur í berklabók héraðsins. Ef heilsuverndarstöð starfar í héraði, skulu læknar senda tilkynningar sínar um berklasjúklinga þangað, en heilsuverndarstöð sendir þær áfram til héraðslæknis. Ef um utanhéraðssjúkling er að ræða, ber héraðslækni að senda tilkynninguna héraðslækni sjúklingsins eða heilsuverndarstöð í héraði hans.
     Tilkynningar þessar skal rita á sérstök eyðublöð, sem landlæknir lætur héraðslæknum í té og héraðslæknar öðrum læknum, og skal greina nafn, aldur, atvinnu og heimili sjúklings. Enn fremur sem nákvæmasta sjúkdómsgreiningu og ráðstafanir þær, er gerðar hafa verið um sjúklinginn.
     Lækni við sjúkrahús eða aðrar stofnanir, sem berklaveikur sjúklingur útskrifast frá eða deyr í, ber tafarlaust að tilkynna það héraðslækni héraðsins (heilsuverndarstöð). Sama skylda hvílir á lækni, er stundað hefur berklasjúkling utan sjúkrahúss eða annarrar stofnunar, ef sjúklingurinn flyst burtu í annað hérað eða deyr, og eins þó að aðaldánarorsök sé önnur er berklaveiki. Ber síðan héraðslækni (heilsuverndarstöð) að tilkynna flutninginn eða mannslátið héraðslækni sjúklingsins eða heilsuverndarstöð í héraði hans. Nær þetta einnig til lækna, sem gefa út dánarvottorð fyrir berklaveikan sjúkling, þó að þeir hafi ekki stundað hann í banalegunni. Héraðslæknir, sem lætur frá sér dánarskýrslur, þar sem talin eru mannslát berklaveikra, skal á sama hátt tilkynna þau þeirra mannsláta, sem honum er ekki kunnugt um, að áður hafi verið tilkynnt.

5. gr.
     Héraðslæknar skulu skrá alla berklaveika, sem vitað er um í héraði þeirra, í sérstaka bók (berklabók), er landlæknir lætur héraðslæknum í té. Þar sem heilsuverndarstöð starfar í héraði, annast hún þessa skrásetningu undir eftirliti héraðslæknis. Héraðslæknar skulu senda landlækni með ársskýrslum sínum útdrátt úr framangreindri bók, ritaðan á eyðublöð, er landlæknir lætur þeim í té. Á heilsuverndarstöð skal haldin spjaldskrá yfir alla berklaveika, er leita stöðvarinnar, eða stöðin hefur einhver afskipti af. Við skrásetning skal meðal annars leggja áherslu á að greina sundur eftir föngum virka og óvirka berklaveiki.

6. gr.
     Hafi læknir ástæðu til að ætla, að sjúklingur sé haldinn berklaveiki, skal hann svo fljótt sem auðið er gera ráðstafanir til þess að fá úr því skorið, hvort um berklaveiki sé að ræða, og tilkynna það þá tafarlaust héraðslækni (heilsuverndarstöð), sbr. 4. gr.
     Læknar eru skyldir að gefa berklaveikum sjúklingum, er þeir rannsaka, leiðbeiningar um, hverrar varúðar þurfi að gæta, til þess að veikin berist ekki á aðra, og brýna fyrir þeim nauðsyn fyllstu nákvæmni í því efni.
     Héraðslæknir (heilsuverndarstöð) skal hafa vakandi auga á, að allar rannsóknir, sem nauðsynlegt er að framkvæma í umhverfi berklaveiks manns, til þess að hindra útbreiðslu veikinnar, verði framkvæmdar, og að öllum settum fyrirmælum þar að lútandi sé hlýtt. Ef nauðsynlegt þykir, skal leita fulltingis lögreglustjóra til þess að framkvæma rannsóknir á slíkum heimilum eða öðrum stöðum þar sem grunsamlegt þykir, að um smitandi berklaveiki sé að ræða. Má lögreglustjóri fella úrskurð um, að rannsókn fari fram á einstökum mönnum og heimilum, sem skorast hafa undan að ganga undir slíka rannsókn.

7. gr.
     Fari hinn berklaveiki, aðstandendur hans eða aðrir, sem hann umgengst, eigi eftir reglum þeim, er læknir hefur sett til að koma í veg fyrir útbreiðslu veikinnar, er lækni, heilsuverndarstöð eða öðrum, sem um það er kunnugt, skylt að tilkynna það héraðslækni, sem, ef þörf er, leitar fulltingis lögreglustjóra. Lögreglustjóri getur, að fenginni umsögn berklayfirlæknis, úrskurðað hinn berklaveika í sjúkrahús. Nú óhlýðnast sjúklingurinn úrskurðinum, og er lögreglustjóra þá heimilt að annast flutning sjúklingsins þangað á kostnað hans. Slíkan sjúkling má eigi útskrifa frá sjúkrahúsinu, nema læknir sjúkrahússins og héraðslæknir votti fyrir hlutaðeigandi lögreglustjóra, að af honum stafi engin smithætta lengur, eða að full ástæða sé til að ætla, að hann muni gæta allrar varúðar og fylgja öllum settum reglum til að koma í veg fyrir útbreiðslu veikinnar, og fellir þá lögreglustjóri niður hinn fyrra úrskurð.
     Ráðherra getur úrskurðað, að menn, sem lagðir eru á sjúkrahús samkvæmt þessari grein, liggi á þar til gerðu sjúkrahúsi eða sjúkradeild, eða skuli hlíta sérstakri gæslu á almennu heilsuhæli eða sjúkrahúsi.

8. gr.
     Í mjólkurbúðum, mjólkursölustöðum, brauðgerðarhúsum, matsöluhúsum, farþegaskipum eða á öðrum tilsvarandi stöðum mega eigi starfa aðrir en þeir, sem með vottorði héraðslæknis (heilsuverndarstöðvar) hafa sýnt, að þeir séu eigi haldnir smitandi berklaveiki. Læknisvottorð þetta má eigi vera eldra en mánaðargamalt, er viðkomandi tekur til starfa, og ber að endurnýja það á 12 mánaða fresti. Skulu forstöðumenn þeirra stofnana, er hér um ræðir, bera ábyrgð á, að ákvæðum þessum sé framfylgt. Komi upp grunur um, að maður, sem við slík störf fæst, hafi sýkst af smitandi berklaveiki, eftir að læknisrannsókn fór fram ber að tilkynna slíkt hlutaðeigandi héraðslækni (heilsuverndarstöð), sem krefst þá rannsóknar á viðkomanda, sbr. 6. gr.
     Eigi má selja mjólk frá heimili, ef sjúklingur með smitandi berklaveiki fæst þar við gripahirðingu, mjaltir eða aðra meðferð mjólkur, og aldrei má selja mjólk frá heimili, þar sem smitandi berklasjúklingur dvelur, nema með leyfi héraðslæknis. Fái læknir, húsráðandi eða aðrir vitneskju um, að maður, sem annast afgreiðslu á matvörum og neysluvörum, einkum mjólk og mjólkurafurðum, fiski, kjöti, brauði, grænmeti, ávöxtum og sælgætisvörum, kunni að vera með smitandi berklaveiki, ber þegar í stað að tilkynna það héraðslækni (heilsuverndarstöð), sem krefst rannsóknar á honum sbr. 6. gr.

9. gr.
     Enginn, sem hefur smitandi berklaveiki, má fást við kennslu í skólum, heimiliskennslu né einkakennslu.
     Engan nemanda með smitandi berklaveiki má taka í skóla, til kennslu á heimili eða til einkakennslu.
     Engan, sem hefur smitandi berklaveiki, má ráða sem starfsmann við skóla.
     Engan nemanda má taka til kennslu á heimili, þar sem sjúklingur með smitandi berklaveiki dvelur.
     Skal leggja fram læknisvottorð hér að lútandi, eigi eldri en mánaðargömul, og endurnýist þau eigi sjaldnar en á 12 mánaða fresti. Skulu skólanefndir (húsráðendur) bera ábyrgð á, að ákvæði þessu sé framfylgt.
     Enginn má halda einkaskóla, nema hann hafi til þess skriflegt leyfi lögreglustjóra, og skal það leyfi eigi veitt, nema héraðslæknir telji húsnæði og aðbúnað fullnægja heilbrigðiskröfum, enda liggi fyrir tilskilin læknisvottorð um, að hvorki kennari eða aðrir á heimilinu né neinn nemendanna séu haldnir smitandi berklaveiki.
     Hafi skólalæknir, annar læknir eða einhver annar ástæðu til að ætla, að nemandi, kennari, starfsmaður eða heimilismaður við skóla eða á kennslustað gangi með smitandi berklaveiki, ber honum að tilkynna það hlutaðeigandi skólastjóra (kennara eða húsráðanda), sem ber ábyrgð á, að viðkomandi láti lækni rannsaka sig þegar í stað.
     Verði rannsókninni ekki komið við þegar í stað, skal hinn grunaði leggja niður nám sitt eða starf, uns rannsókn hefur farið fram. Reynist hinn rannsakaði hafa smitandi berklaveiki, skal hann hverfa frá skólanum (heimilinu) þegar í stað. Sanni hann síðar með vottorði héraðslæknis (heilsuverndarstöðvar), að engin smithætta stafi af honum lengur, getur hann aftur fengið aðgang að skólanum.
     Ef kennari við skóla, jafnt einkaskóla sem opinbera skóla, er sjúkur eða sýkist af smitandi berklaveiki, getur ráðherra með ráði berklayfirlæknis fyrirskipað, að hann víki úr stöðu sinni. Þeir kennarar, sem eru opinberir starfsmenn, en verða að láta af kennslu sakir berklaveiki samkvæmt síðastgreindu ákvæði, skulu í 2 ár fá sem biðlaun 2/3 hluta launa þeirra, er þeir nutu, þegar þeir létu af kennslu. Biðlaun þessi greiðast af sömu aðiljum og í sömu hlutföllum og hin fyrri laun.
     Ráðherra setur, með ráði berklayfirlæknis og fræðslumálastjóra, reglur um fræðslu berklaveikra barna til fullnægingar kröfum fræðslulaga, svo og um kennslu annarra berklaveikra.

10. gr.
     Um sérhverja aðra opinbera stofnun eða einkastofnun en um getur í 8. og 9. gr., sem vistar börn eða unglinga til gæslu eða uppeldis (barnahæli, dagheimili fyrir börn o.s.frv.), gilda að öllu leyti sömu reglur og settar eru í 9. gr. um skóla til varnar gegn útbreiðslu berklaveiki þar.
     Um sjúkrahús, elliheimili, fangelsi o.s.frv. fer samkvæmt ákvæðum 15. gr.

11. gr.
     Á heimili, þar sem er smitandi berklaveiki, má eigi ráða hjú né annað starfsfólk né taka fólk til dvalar um lengri eða skemmri tíma án þess að láta þess sérstaklega getið við hlutaðeigandi, að smitandi berklaveiki sé á heimilinu. Sama gildir um ráðningu fólks til starfa á vinnustað, þar sem maður með smitandi berklaveiki er starfandi.

12. gr.
     Enginn, sem haldinn er smitandi berklaveiki, má taka að sér að gæta barna.
     Kona með smitandi berklaveiki má eigi hafa barn á brjósti.
     Hafi einhver ástæðu til að ætla, að barnfóstra eða kona, sem hefur barn á brjósti, sé haldin smitandi berklaveiki, ber honum þegar í stað að tilkynna það lækni, sem gerir ráðstafanir samkvæmt fyrirmælum 6. gr.

13. gr.
     Ekki má vista barn til fósturs eða langdvalar á heimili, nema borið sé undir héraðslækni (heilsuverndarstöð), og ekki sé ástæða til að ætla, að smitandi berklaveiki sé á heimilinu.
     Enginn má taka berklaveikt barn, sem smithætta getur stafað af, til fósturs eða dvalar, ef á heimilinu eru börn eða unglingar, sem ekki eru berklaveik, eða aðrir, sem sérstök ástæða er til að ætla, að séu næmir fyrir berklaveiki.
     Gilda þessi ákvæði jafnt um börn þau, sem bæjar- eða sveitarstjórnir ráðstafa og einstakir menn.
     Nú kemur smitandi berklaveiki upp á heimili, þar sem bæjar- eða sveitarstjórnir hafa ráðstafað börnum til fósturs eða dvalar, og skal þá gera annað tveggja, flytja barnið eða sjúklinginn burt af heimilinu. Sýkist barnið sjálft af smitandi berklaveiki á heimili, þar sem eru börn og unglingar, sem eigi eru berklaveik, eða aðrir, sem sérstök ástæða er til að ætla, að séu næmir fyrir berklaveiki, skal það tafarlaust tekið af heimilinu.
     Barnaverndarnefndum ber skylda til að hafa sérstakt eftirlit með því, að framfylgt sé fyrirmælum þessarar greinar, og leita til þess aðstoðar hlutaðeigandi héraðslæknis (heilsuverndarstöðvar).
     Börn nefnast í lögum þessum allir, sem eru innan 16 ára aldurs.

14. gr.
     Enginn, sem hefur smitandi berklaveiki, má stunda ljósmóður- eða hjúkrunarstörf. Ljósmæður og hjúkrunarkonur skulu, þegar þær eru skipaðar eða ráðnar til starfa, leggja fram vottorð héraðslæknis (heilsuverndarstöðvar), eigi eldra en mánaðar gamalt, um að þær séu eigi haldnar smitandi berklaveiki. Héraðslæknar skulu líta vandlega eftir heilsufari starfandi ljósmæðra og hjúkrunarkvenna í héruðum sínum með tilliti til berklaveiki. Sama skylda hvílir á sjúkrahúslæknum, varðandi hjúkrunarkonur og ljósmæður, er starfa við sjúkrahús þeirra.
     Nú sýkist starfandi ljósmóðir eða hjúkrunarkona af smitandi berklaveiki, og skal hún þá tafarlaust hætta að gegna því starfi. Ef hún er launuð af opinberu fé, þá skal greiða henni biðlaun fyrir sama tíma og á sama hátt og um getur í 9. gr. um kennara.

15. gr.
     Í sjúkrahúsum, geðveikra- og fávitahælum, elliheimilum, fangelsum, hegningarhúsum og öðrum tilsvarandi stofnunum ber að einangra alla þá, sem þar kunna að dvelja með smitandi berklaveiki.
     Ráðherra setur, með ráði berklayfirlæknis, reglur um, á hvern hátt koma skuli í veg fyrir útbreiðslu berklaveiki í stofnunum þeim, er að ofan greinir, svo og í vinnustofum, verksmiðjum, verbúðum, skrifstofum, verslunarbúðum, gistihúsum, matsölustöðum, kirkjum, skólum, leikhúsum, kvikmyndahúsum, danssölum og öðrum tilsvarandi samkomustöðum. Reglur þessar skulu enn fremur ná til opinberra bygginga og farþegaskipa, svo og flutnings berklaveikra á farþegaskipum, bifreiðum, flugvélum og öðrum flutningatækjum.
     Þá er ráðherra og heimilt, með ráði berklayfirlæknis, að setja sérstakar reglur um varnir gegn útbreiðslu berklaveiki meðal skipshafna á hvers konar farþega-, flutninga- og fiskiskipum.

16. gr.
     Að berklasjúkrahúsum, berklahælum, berklavarnarstöðvum eða öðrum slíkum stofnunum má eigi ráða hjúkrunarnema, hjúkrunarkonur eða annað starfsfólk, sem ætla má, að náin mök þurfi að hafa við sjúklingana, nema það sanni við berklapróf hjá héraðslækni (heilsuverndarstöð), að það sé þegar berklasmitað.
     Ráðherra er heimilt, með ráði berklayfirlæknis, að ákveða í reglugerð, að fólki, sem enn er ósmitað af berklaveiki og ætla má, að vegna starfs síns sé í sérstakri sýkingarhættu, gefist kostur á bólusetningu gegn berklaveiki. Í reglugerðinni má og ákveða, að aðstandendum barna, sem líkur eru til, að séu í sérstakri sýkingarhættu af berklaveiki, gefist kostur á að fá þau bólusett gegn berklaveiki.

17. gr.
     Héraðslæknar (heilsuverndarstöðvar) skulu gefa nánar gætur að berklaveiki í nautgripum sem smitunaruppsprettu, er leitt geti til berklaveiki í mönnum, enda leita samvinnu við dýralækna um eftirlit og ráðstafanir hér að lútandi. Eigi má selja mjólk úr fjósi eða frá heimili, þar sem nautgripur er berklaveikur, fyrr en gripnum hefur verið fargað eða hann einangraður tryggilega að dómi dýralæknis og héraðslæknis og sótthreinsun farið fram (sbr. lög nr. 25 20. júní 1923, um berklaveiki í nautpeningi).1)

1)l. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.


18. gr.
     Nú deyr smitandi berklaveikur maður, eða skiptir um dvalarstað, og skal þá læknir sá, er stundað hefur sjúklinginn, tilkynna það tafarlaust héraðslækni (heilsuverndarstöð).
     Húsráðandi er meðábyrgur um, að tilkynning þessi sé ekki vanrækt.
     Héraðslæknir (heilsuverndarstöð) tilkynnir síðan sótthreinsunarmanni, sem annast, að sótthreinsað sé á heimilinu, og skal sótthreinsa herbergi þau, fatnað, sængurklæði og annað, er hætta getur stafað af. Þessa lausu muni má eigi láta af hendi, hvorki til eignar né afnota, senda í þvott eða aðgerð, nema sótthreinsaðir hafi verið. Eigi má heldur fá öðrum til íbúðar herbergi þau, er sjúklingurinn dvaldi í, fyrr en þau hafa verið sótthreinsuð, nema héraðslæknir telji sótthreinsun óþarfa.

19. gr.
     Berklasjúklingar njóta styrks úr ríkissjóði til sjúkrahúsvistar og læknishjálpar samkvæmt ákvæðum laga nr. 78 23. júní 1936,1) um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla.
     Landlæknir úthlutar í samráði við berklayfirlækni fé því, sem kann að vera veitt í fjárlögum til styrktar þurfandi berklasjúklingum, sem dvalið hafa í sjúkrahúsum eða hælum og náð þeim bata, að þeir teljist að meira eða minna leyti vinnufærir. Skal leitast við að haga styrkveitingunum þannig, að þær miði til þess, að styrkþegarnir verði síðar færir um að sjá sér farborða við þá atvinnu og þau kjör, er hentar heilsufari þeirra.

1)l. 117/1993.


20. gr.
     Ráðherra er heimilt, með ráði berklayfirlæknis, að setja reglur um hvers konar félagsskap eða stofnanir, sem hafa með höndum berklavarnir, hjálparstarfsemi meðal berklaveikra eða fræðslustarfsemi meðal almennings til tryggingar því, að starfsemi þessari sé eigi misbeitt og að hún torveldi á engan hátt berklavarnaframkvæmdir hins opinbera.

21. gr.
     [Nú þarf læknir að taka sér ferð á hendur vegna fyrirmæla laga þessara, og greiðir þá hlutaðeigandi sveitarsjóður ferðakostnaðinn, en ríkissjóður endurgreiðir helminginn.]1)
     Fyrir tilkynningar lækna samkvæmt lögum þessum skal ekkert gjald greiða.
     Kostnaður við sótthreinsanir greiðist af sóttvarnarfé samkvæmt ákvæðum laga nr. 66 19. júní 1933,2) um varnir gegn útbreiðslu næmra sjúkdóma.
     Kostnaður við berklabækur og eyðublöð undir tilkynningar greiðist úr ríkissjóði.

1)L. 108/1988, 8. gr.2)l. 34/1954.


22. gr.
     Brot gegn lögum þessum varða sektum ...1) nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

1)L. 10/1983, 18. gr.