Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.
Lög um samþykktir um lokunartíma sölubúða
1936 nr. 17 1. febrúar
1. gr. Í kaupstöðum og kauptúnum geta bæjarstjórnir og hreppsnefndir gert samþykktir um lokunartíma sölubúða.
2. gr. Í samþykktum þessum má kveða á um það, að kaup og sala megi eigi fara fram í sölubúðum kaupmanna tiltekinn tíma á sólarhring hverjum eða tiltekna daga, eftir því sem til hagar á hverjum stað, svo og að kaupmenn skuli skyldir að loka sölubúðum sínum á tilteknum tíma.
Setja má og í samþykkt sams konar ákvæði um kaup og sölu utan sölubúða, er fram fer á götum eða torgum á varningi, sem eigi má selja nema samkvæmt verslunarleyfi.
Í samþykkt má enn fremur ákveða, að veita megi sérverslunum undanþágu að því er snertir lokunartíma sölubúða, gegn hæfilegu árgjaldi, sem stjórnarráðið ákveður, samkvæmt uppástungu bæjarstjórnar, fyrir eitt ár í senn, og renna skal í bæjarsjóð.
Enn er bæjarstjórnum heimilt að gera samþykktir um lokunartíma sölubúða og sölustaða, þar sem innlendar vörur eða innlendur varningur er hafður á boðstólum, t.d. konfektbúða, og um lokunartíma vinnustofa, sem hafa viðskipti við almenning, svo sem rakarastofur, þótt enginn varningur sé þar seldur.
Þá er og bæjarstjórnum heimilt að gera samþykktir um takmörkun á vinnutíma sendisveina, er starfa hjá hvers konar verslunar- eða iðnaðarfyrirtækjum eða skrifstofum. Til að tryggja vinnutíma sendisveina má í samþykkt meðal annars ákveða, að útsendingu á vörum, bréfaburði og innheimtu, er sendisveinar starfa að, skuli lokið eigi síðar en á lokunartíma. Heimilt er að ákveða vinnutíma sendisveina misjafnlega stuttan, eftir aldri þeirra.
3. gr. Nú hefur bæjarstjórn eða hreppsnefnd gert samþykkt samkvæmt 1. gr., og skal hún þá senda frumvarpið stjórnarráðinu til staðfestingar.
Nú virðist stjórnarráðinu ákvæði í samþykkt ganga of nærri rétti manna eða atvinnufrelsi, eða brjóta í bág við almennar grundvallarreglur laga, og synjar það þá samþykkt staðfestingar, en tilkynna skal það bæjarstjórn eða hreppsnefnd ástæður fyrir synjun sinni. Að öðrum kosti staðfestir stjórnarráðið samþykktina og ákveður, hvenær hún skuli koma til framkvæmdar.
Samþykkt heldur gildi sínu 10 ár í senn, nema breytt sé eða afnumin áður, en endurnýja má hana, á sama hátt og hún var sett, jafnlangan tíma.
Samþykktir samkvæmt lögum þessum skal birta í B-deild Stjórnartíðindanna.
[Brot á samþykktum, sem settar verða skv. lögum þessum, varða sektum.
Með mál út af brotum á samþykktunum skal farið að hætti opinberra mála.]1)
1)L. 75/1982, 30. gr.