Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um skemmtanaskatt

1970 nr. 58 12. maí


1. gr.
     Greiða skal skatt samkvæmt lögum þessum, þegar aðganga er seld að skemmtunum fyrir almenning.
     Í sveitarfélögum, sem hafa færri en 1.500 íbúa, skal þó ekki innheimta skatt af verði aðgöngumiða á skemmtanir, sem taldar eru í 1., 2. og 3. flokki.
     [Skattur af verði aðgöngumiða á skemmtanir, sem taldar eru í 2. flokki, skal ekki innheimtur í sveitarfélögum með færri en 2.500 íbúa.]1)

1)L. 61/1984, 1. gr.


2. gr.
     Þessar skemmtanir teljast skattskyldar og flokkast þannig:
1.
flokkur.
a.
Hljómleikar og söngskemmtanir.
b.
Sjónleikar.
c.
Danssýningar.
d.
Fyrirlestrar og upplestrar.
e.
Hlutaveltur, í hverju skyni sem haldnar eru.

Af skemmtunum, er til þessa flokks teljast, greiðist 10% skattur af brúttóverði seldra aðgöngumiða. Af hlutaveltum greiðist sami skattur, einnig af brúttóverði seldra hlutaveltumiða.

2.
flokkur. Kvikmynda- og skuggamyndasýningar.

Af skemmtunum, sem til þessa flokks teljast, greiðist 15% skattur af brúttóverði seldra aðgöngumiða.

3.
flokkur.
a.
Dansleikir allir, hvort sem einstök félög eða dansskólar stofna til þeirra eða þeir eru haldnir fyrir allan almenning, enn fremur dansæfingar, er standa fram yfir kl. 11 að kvöldi. Haldi félag dansleik og sé aðganga ókeypis, er [tollstjóra]1) heimilt að ákveða skattinn.
b.
Trúðleikasýningar.
c.
Fjölleikasýningar.
d.
Aðrar almennar skemmtanir, sem aðganga er seld að og eru ekki taldar sérstaklega.

Af skemmtunum þeim, er til þessa flokks teljast, greiðist 20% skemmtanaskattur af brúttóverði seldra aðgöngumiða.

4.
flokkur. Af hverju knattborði (billiard) fyrir almenning greiðist 300 kr. skemmtanaskattur fyrir hvern mánuð eða hluta úr mánuði, sem knattborðið er notað handa almenningi eða félögum. Gjalddagi á skattinum er síðasti dagur hvers mánaðar.

Skattinn greiðir eigandi knattborðs, enda er knattborðið að veði fyrir skattinum, og gengur það veð fyrir öðrum veðum í eitt ár frá gjalddaga skattsins.

Nú eru fleiri en eitt knattborð í sama húsnæði, og er þá nægilegt, að eitt sé notað, til að öll séu skattskyld.

5.
flokkur. Nú eru vínveitingar um hönd hafðar í veitinga- eða samkomuhúsi, án þess að skemmtanaskattur sé greiddur samkvæmt ákvæðum 1. eða 3. flokks, og skal þá greiða kr. 8,00 í skemmtanaskatt og kr. 2,00 í Menningarsjóð fyrir hvern mann, er aðgang fær að húsinu að kvöldi á þeim tíma, er ákveðinn verður í reglugerð.

1)L. 92/1991, 55. gr.


3. gr.
     Undanþegnar öllum skemmtanaskatti eru þessar skemmtanir:
a.
Hljómleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, svo og aðrir klassískir tónleikar og klassískar söngskemmtanir, eftir nánari ákvörðun ráðherra.
b.
Leiksýningar Þjóðleikhússins, svo og hliðstæðar leiksýningar annarra aðila, eftir nánari ákvörðun ráðherra.
c.
Sýningar á listdansi og þjóðdönsum.
d.
Fræðandi fyrirlestrar.
e.
Sýningar á íslenskum kvikmyndum, og telst það sýning á íslenskri kvikmynd, ef hún tekur a.m.k. helming venjulegs sýningartíma, þótt erlend kvikmynd sé sýnd með henni.
f.
Íþróttasýningar, enda renni ágóðinn óskiptur til íþróttastarfsemi.
g.
Skemmtanir skóla og skólafélaga, annarra en dansskóla, enda séu þær aðeins fyrir nemendur og kennara ásamt gestum þeirra og haldnar undir umsjá skólastjórnar.
h.
Innanfélagsskemmtanir, aðrar en dans, sem eru aðeins fyrir félagsmenn og gesti þeirra. En sannist það, að utanfélagsmenn hafi átt kost á að kaupa aðgöngumiða að slíkum skemmtunum, skal það skoðað sem brot á lögum þessum, og ber þá að greiða skatt af slíkri skemmtun eftir 2. gr., 3. flokki.

     Ráðherra er heimilt að láta haldast að nokkru eða öllu leyti undanþágur þær frá greiðslu skemmtanaskatts, er þær skemmtanir hafa notið, sem haldnar eru til fjáröflunar fyrir góðgerðar-, líknar- og björgunarstarfsemi, sjúkrasjóði með staðfestri skipulagsskrá, sjúkrahús, elliheimili, æskulýðsheimili, kirkjustarfsemi eða bindindisstarfsemi, sem nýtur styrks úr ríkissjóði.
     Ráðherra er enn fremur heimilt að undanþiggja skemmtanaskatti dansleiki, sem unglingar frá 16 til 21 árs aldurs eiga einir aðgang að, enda sé aðgangur seldur vægu verði og fullnægt öðrum skilyrðum, er ráðherra setur.
     Loks er ráðherra heimilt að undanþiggja skemmtanaskatti dansskemmtanir, með eða án minni háttar skemmtiatriða, enda sé vín ekki um hönd haft á þessum skemmtunum og þær ekki haldnar í danshúsum, sem löggilt eru fyrir 300 gesti eða fleiri í sæti. Ráðherra ákveður, hvaða skemmtistaðir skuli teljast danshús í þessu sambandi. Þó skulu samkomu- eða veitingahús, þar sem dans fer að jafnaði fram 20 sinnum á mánuði, ávallt talin danshús. Þeir, sem fá undanþágu frá greiðslu skemmtanaskatts samkvæmt framansögðu, eru skyldir til að greiða þann kostnað af löggæslu, sem nauðsynleg er talin í þessu sambandi.

4. gr.
     Til að halda skemmtun, sem aðgangur er seldur að, skal fá leyfi lögreglustjóra, og skal tilkynna honum, hvar og hvenær hún skuli haldin.

5. gr.
     [Tollstjóri innheimtir skemmtanaskattinn.]1) Setja skal nánari ákvæði um innheimtuna í reglugerð.2)

1)L. 92/1991, 55. gr.2)Rg. 127/1937, sbr. 73/1963, 91/1983 og 128/1984.



6. gr.
     [Frá gildistöku laga þessara skal skemmtanaskatti ráðstafað, í samráði við fjármálaráðherra, til framkvæmda í lista- og menningarmálum og til forvarnarstarfa í áfengis- og fíkniefnamálum. Nánari ákvæði um ráðstöfun fjárins skal menntamálaráðherra setja í reglugerð.]1)
     Að því er tekur til reglugerða fyrir bæjar- og hreppsfélög, sem settar hafa verið og staðfestar samkvæmt lögum um skemmtanaskatt, nr. 34 22. nóv. 1918, og enn eru í gildi, þá skal haldast réttur viðkomandi bæjar- og hreppsfélaga til að innheimta í bæjar- eða sveitarsjóði skemmtanaskatt, svo sem í reglugerðunum greinir, enda fer og um önnur atriði, sem skattinn varða, eftir ákvæðum reglugerðanna. Skattur samkvæmt lögum þessum lækkar um þann hluta, sem fellur til hrepps- eða bæjarfélaga samkvæmt reglugerðunum. Felld er niður undanþága sú frá greiðslu skemmtanaskatts, sem kvikmyndasýningar í Reykjavík á vegum Sáttmálasjóðs og kvikmyndasýningar bæjarsjóða Akraness og Hafnarfjarðar hafa notið samkvæmt d-lið 3. gr. laga nr. 56/1927, sbr. 2. gr. laga nr. 24/1963, svo og undanþágur, sem kvikmyndahúsum hafa verið veittar skv. 2. mgr. 3. gr. l. nr. 56/1927, sbr. l. nr. 24/1963. Skemmtanaskattinn skal þó ráðherra heimilt að endurgreiða þeim aðilum, sem að undanförnu hafa notið tekna vegna framannefndra undanþága, með þeim skilmálum, að féð verði notað í því skyni, sem var ástæða undanþágunnar. Endurgreiðsluréttur nær þó eigi til þess hluta skemmtanaskattsins, sem renna á til Sinfóníuhljómsveitar og Menningarsjóðs, sbr. 7. og 8. gr. Heimilt er ráðherra að veita sams konar endurgreiðslurétt vegna eins kvikmyndahúss, er rekið sé af opinberum aðila, í hverjum hinna annarra kaupstaða, enda sé fénu varið til menningar- eða mannúðarmála.

1)L. 87/1989, 57. gr.


7. gr.
     [Af skemmtanaskatti skv. 2. gr. renna 10% til Sinfóníuhljómsveitar Íslands og 10% til Menningarsjóðs félagsheimila.]1)

1)L. 87/1989, 58. gr.


8. gr.
     Leggja skal sérstakt gjald á alla selda aðgöngumiða samkvæmt 2. flokki 2. gr., að undanteknum kvikmyndasýningum fyrir börn, og að dansleikjum samkvæmt a-lið 3. flokks sömu greinar. Nemur gjald þetta 1,5% af brúttóverði seldra aðgöngumiða að kvikmyndahúsum og 3% af brúttóverði seldra aðgöngumiða að dansleikjum.
     Gjald þetta rennur óskipt í Menningarsjóð.
     Um innheimtu gjaldsins gilda sömu reglur og um innheimtu annars skemmtanaskatts samkvæmt lögum þessum.

9. gr.
     Gjalddagi skemmtanaskatts er næsti virki dagur eftir að skemmtunin hefur verið haldin. Heimilt er þó að leyfa kvikmyndahúsum og öðrum skemmtistofnunum, sem rekin eru sem föst atvinnufyrirtæki, að greiða skattinn mánaðarlega.
     Þeim, er skemmtun heldur eða lætur halda, ber að sjá um skilvísa greiðslu skattsins. Eigandi húsnæðis þess, sem skemmtun er haldin í, ber ábyrgð á greiðslu skattsins.
     Ef ágreiningur verður um skattskyldu, sker ráðherra úr honum, en bera má úrskurð hans undir dómstólana.
     Deila um skattskyldu frestar ekki eindaga skattsins né neinum þeim viðurlögum, sem lögð eru við vangreiðslu hans, en ef skatturinn er lækkaður eða felldur niður með úrskurði eða dómi, skal þegar endurgreiða það, sem lækkuninni nemur.