Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um Leiklistarskóla Íslands

1975 nr. 37 26. maí


1. gr.
     Stofna skal á vegum ríkisins leiklistarskóla, og er heiti hans Leiklistarskóli Íslands.
     Hlutverk skólans er að þroska leiklistarhæfileika nemenda og þjálfa þá til leiklistarstarfa.
     Skólinn starfar í Reykjavík, en heimilt er að reka undirbúningsdeildir í tengslum við skólann annars staðar á landinu.
     Heimilt er að starfrækja nemendaleikhús á vegum skólans.
     Allur kostnaður við skólann greiðist úr ríkissjóði.

2. gr.
     Leiklistarskóli Íslands heyrir undir menntamálaráðuneytið. Skólinn er þriggja vetra skóli og skal starfa sem næst 8 mánuði á ári. Ákveða skal með reglugerð,1) hvert skuli vera námsefni skólans, inntökuskilyrði, hæfnismat (próf) og annað, er varðar starfsemi skólans og undirbúningsdeilda skv. 1. gr.

1)Rg. 190/1978, sbr. 333/1986, 158/1991 og 54/1992.


3. gr.
     Við skólann starfar skólastjóri, sem settur skal eða skipaður af ráðherra til fjögurra ára í senn. Skólastjóri getur sá einn orðið, sem öðlast hefur menntun og reynslu í leiklistarstörfum. Um starfskjör hans fer eftir hinu almenna launakerfi ríkisins, eftir því sem við á. Skólastjóri ræður kennara að skólanum í samráði við skólanefnd, eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.

4. gr.
     Skólanefnd er til ráðuneytis skólastjóra um málefni skólans. Menntamálaráðherra skipar skólanefndina, sem í eiga sæti 9 fulltrúar. Ráðherra skipar einn nefndarmanna án tilnefningar, og er hann formaður. Aðrir nefndarmenn eru skipaðir samkvæmt tilnefningu eftirtalinna aðila: Þjóðleikhúsráðs, leikhúsráðs Leikfélags Reykjavíkur, Leikfélags Akureyrar, Bandalags ísl. leikfélaga, Ríkisútvarpsins, Félags íslenskra leikara, kennara Leiklistarskóla Íslands, nemenda Leiklistarskóla Íslands. Nefndarmenn skulu skipaðir til fjögurra ára í senn nema fulltrúar nemenda og kennara, sem skipaðir eru til eins árs hverju sinni.

5. gr.
     Þjóðleikhús og önnur leikhús í landinu, sem ríkisstyrks njóta, svo og Ríkisútvarp (hljóðvarp og sjónvarp) skulu veita Leiklistarskóla Íslands aðstoð í starfi hans eftir því sem um semst milli aðila hverju sinni og við verður komið.

Ákvæði til bráðabirgða.
     ...