Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 121a. Uppfært til febrúar 1997.


Lög um Útflutningslánasjóð

1970 nr. 47 8. maí


1. gr.
     [Heimilt er að stofna samkvæmt lögum þessum sjóð er nefnist Útflutningslánasjóður. Í heiti sínu er sjóðnum rétt og skylt að hafa orðin „ríkisaðild með takmarkaðri ábyrgð“ eða skammstöfunina RTÁ.]1)
     [Stofnendur sjóðsins eru Seðlabanki Íslands, Landsbanki Íslands og Iðnlánasjóður. Þeir leggja honum til fé, sbr. 3. gr., fara með stjórn hans og fjármál og ábyrgjast fjárskuldbindingar hans með framlagi sínu.]2)
     Aðrir viðskiptabankar geta síðar orðið aðilar að sjóðnum, og fer þá um framlagsfé þeirra, ábyrgð og aðild að stjórn sjóðsins, eftir því sem um semst milli þeirra og sjóðsstjórnar.

1)L. 28/1987, 1. gr.2)L. 28/1987, 2. gr.


2. gr.
     Hlutverk Útflutningslánasjóðs er:
a.
að veita lán vegna útflutnings meiri háttar véla og tækja, þar á meðal skipa og annarra fjárfestingarvara, sem framleiddar eru innan lands, og skulu slík lán tryggð hjá tryggingardeild útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð eða með annarri fullgildri ábyrgð,
b.
að veita samkeppnislán, það er að segja lán til innlendra aðila, er kaupa vélar og tæki, þar með talin skip, sem framleidd eru innan lands, gegn bankaábyrgð eða annarri fullgildri ábyrgð.

     Heimilt er stjórn sjóðsins að veita útflutningslán eða samkeppnislán fleiri iðngreinum en þeim, sem a- og b-liðir ná til, ef hún metur það nauðsynlegt til að tryggja þeim sambærilega aðstöðu við erlenda samkeppnisaðila.

3. gr.
     Stofnaðilar sjóðsins leggja hver um sig fram 50 millj. króna, sem greiðast til sjóðsins á ekki skemmri tíma en þremur árum og ekki lengri tíma en fimm árum.
     Auk stofnfjár er sjóðnum heimilt að afla fjár til starfsemi sinnar með lántökum hjá innlendum bönkum og sjóðum. Einnig er honum heimilt að taka lán erlendis.

4. gr.
     Um stjórn sjóðsins og rekstur fer eftir stofnsamningi, er aðilar sjóðsins gera með sér, svo og reglugerð, sbr. 7. gr.

5. gr.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að fela Landsbanka Íslands eða annarri lánastofnun umsjá sjóðsins. Skal Landsbanki Íslands eða sú lánastofnun, sem til þess er kjörin, annast afgreiðslu lána og innheimtu.
     Laust fé sjóðsins skal geymt á reikningi í Seðlabanka Íslands.

6. gr.
     ...1)

1)L. 48/1992, 4. gr.


7. gr.
     Viðskiptaráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara að fengnum tillögum sjóðsstjórnar.1)

1)Rg. 336/1987.


[Ákvæði til bráðabirgða.
     Stofnendur sjóðsins bera ótakmarkaða ábyrgð á þeim skuldbindingum sjóðsins sem stofnað hefur verið til fyrir 1. janúar 1986. Helst hin ótakmarkaða ábyrgð þar til þessum skuldbindingum er lokið.]1)

1)L. 28/1987, brbákv.