Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 120a. Uppfært til febrúar 1996.
Lög um landflutningasjóð
1979 nr. 62 31. maí
1. gr. Stofna skal sjóð er nefnist landflutningasjóður. Hlutverk sjóðsins er að veita stofnlán til kaupa á vöruflutningabifreiðum, er eiga að annast vöruflutninga á langleiðum og fyrir dreifbýli, og til nauðsynlegra bygginga, sem eru í beinum tengslum við slíka flutningastarfsemi.
2. gr. Landflutningasjóður er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins og lýtur yfirstjórn samgönguráðherra. Ráðherra skipar þrjá menn í stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn. Þar af er einn skipaður án tilnefningar og er hann jafnframt skipaður formaður sjóðsstjórnar.
Tveir stjórnarmenn skulu tilnefndir af eftirtöldum aðilum:
- a.
- Einn fulltrúi tilnefndur af Framkvæmdastofnun ríkisins.
- b.
- Einn fulltrúi tilnefndur af Landvara, landsfélagi vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum.
Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
3. gr. Fela skal Framkvæmdastofnun ríkisins að annast vörslu, umsjón og endurskoðun landflutningasjóðs samkvæmt sérstökum samningi þar um.
4. gr. [Tekjur landflutningasjóðs eru þessar:
- 1.
- Framlög úr ríkissjóði, eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni.
- 2.
- Tekjur af starfsemi sjóðsins að frádregnum kostnaði við rekstur hans.
Landflutningasjóði er heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að taka lán til starfsemi sinnar.]1)
1)L. 54/1984, 1. gr.
5. gr. Lán úr landflutningasjóði skulu veitt til kaupa á vöruflutningabifreiðum til skipulagsbundinna vöruflutninga á langleiðum, enda sé um nýjar bifreiðar að ræða. Einnig má veita lán úr sjóðnum til nauðsynlegra bygginga, sem beinlínis eru tengdar þessari flutningastarfsemi.
[Rétt til lána úr sjóðnum eiga þeir einir sem eru fullgildir félagar í Landvara, landsfélagi vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum.]1)
Upphæð lána má nema allt að helmingi kaupverðs bifreiða, og lán til bygginga mega nema allt að einum þriðja hluta af kostnaðarverði eða matsverði, hvort heldur sem lægra er. Lán má veita úr stofnlánasjóðnum gegn öruggu veði í þeim bifreiðum eða byggingum, sem lánað er til, ásamt tilheyrandi fylgifé og réttindum, svo og vátryggingarverði þeirra. Hámarkslánstími skal vera fimm ár til kaupa á bifreiðum og tíu ár til byggingarframkvæmda.
Vextir og verðtrygging eða gengistrygging lána úr landflutningasjóði ákveðast með hliðsjón af kjörum þess fjár, er sjóðurinn hefur til ráðstöfunar á hverjum tíma. Lánskjör eru háð ákvörðun ríkisstjórnarinnar skv. 11. gr. laga nr. 13/1975.2)
1)L. 54/1984, 2. gr.2)Felld úr gildi með l. 99/1988, 3. gr.
6. gr. Verði eigendaskipti að eign, sem veðsett er landflutningasjóði, hvort heldur bifreið eða fasteign, er stjórn sjóðsins heimilt að heimta lánið endurgreitt að fullu, enda skal bæði seljanda og kaupanda skylt að tilkynna sjóðnum eigendaskipti þegar í stað.
7. gr. ...1)
1)L. 90/1991, 90. gr.
8. gr. ...1)
1)L. 48/1992, 4. gr.
9. gr. Setja skal með reglugerð nánari ákvæði um starfsemi landflutningasjóðs og framkvæmd laga þessara.