Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 120a. Uppfært til febrúar 1996.


Lög um Rafmagnseftirlit ríkisins

1979 nr. 60 31. maí


1. gr.
     Eftirlit af hálfu ríkisins með vörnum gegn hættu og tjóni af raforkuvirkjum skal vera í höndum stofnunar, er nefnist Rafmagnseftirlit ríkisins.
     Skal Rafmagnseftirlit ríkisins rekið sem sjálfstæð stofnun með sérstöku reikningshaldi.
     Rafmagnseftirlit ríkisins heyrir undir ráðherra þann, sem fer með orkumál.

2. gr.
     Ráðherra skipar framkvæmdastjóra Rafmagnseftirlits ríkisins. Nefnist hann rafmagnseftirlitsstjóri ríkisins.
     Rafmagnseftirlitsstjóri skal veita stofnuninni forstöðu og jafnframt vera ráðunautur ráðherra um allt, sem að lögum þessum lýtur.
     Ráðherra setur rafmagnseftirlitsstjóra erindisbréf.

3. gr.
     Ráðherra skipar og ræður starfsmenn stofnunarinnar, að fengnum tillögum rafmagnseftirlitsstjóra.

4. gr.
     Raforkuvirki, hvort heldur til vinnslu, umbreytingar, flutnings eða nýtingar raforku, með svo hárri spennu, þeim straumstyrk eða þeirri tíðni, að lífshætta eða hætta á heilsutjóni eða eignatjóni geti stafað af, skulu vera þannig úr garði gerð, notuð, haldið við og eftir þeim litið, að hætta af þeim verði svo lítil sem við verður komið.

5. gr.
     Raforkuvirki mega ekki hafa í för með sér hættu fyrir eignir manna eða hættu á truflunum á starfrækslu virkja, sem fyrir eru. Sé unnt að afstýra slíkum truflunum með öryggisráðstöfunum, skulu þær gerðar á kostnað eiganda hinna nýju virkja. Þó má skylda eiganda hinna eldri virkja til að bera nokkurn hluta kostnaðarins, ef framkvæmd öryggisráðstafana er til verulegra hagsbóta fyrir starfrækslu þeirra framvegis. Svo má og ákveða, að eigandi eldri virkja skuli kosta að nokkru eða öllu leyti þær öryggisráðstafanir, sem framvegis verða hluti af hans virkjum og hans eign, ef þær eru nauðsynlegar sökum þess, að hin eldri virki hafa verið ófullkomnari eða miður trygg en venja er til eða krafist verður um ný virki á þeim tíma þegar ráðstafanirnar koma til framkvæmda.
     Rafmagnseftirlitsstjóri sker úr ágreiningi um:
a.
hvort raforkuvirki hafa í för með sér hættu fyrir eignir manna eða hættu á truflunum við starfrækslu eldri virkja,
b.
hvaða öryggisráðstafanir skuli framkvæma til að afstýra slíkum hættum og truflunum,
c.
hver eigi að koma þeim í verk og
d.
hvort, og að hve miklu leyti, eigandi hinna eldri virkja skuli taka þátt í kostnaðinum við þær.

     Úrskurði rafmagnseftirlitsstjóra má áfrýja til ráðherra.
     Áfrýjun frestar ekki framkvæmd aðkallandi öryggisaðgerða.

6. gr.
     Rafmagnseftirlit ríkisins skal ætíð hafa óhindraðan aðgang að þeim raforkuvirkjum, sem það hefur eftirlit með, og rétt til að gera þær athuganir og rannsóknir, er það telur nauðsynlegar. Því er heimilt að kanna tæki og aðra hluta raforkuvirkja hjá verslunum, framleiðendum og öðrum, er hafa þau til sölu eða leigu.
     Rafmagnseftirlitið getur hvenær sem er tekið í sína vörslu eða innsiglað viðurkenningarskyld tæki og aðra hluta raforkuvirkja, sem ekki eru færðir til prófunar í tæka tíð eða ástæða er til að ætla, að notaðir verði án heimildar Rafmagnseftirlitsins.

7. gr.
     Ráðherra setur í reglugerð1) um raforkuvirki ákvæði til varnar gegn hættu og tjóni af þeim og til varnar gegn truflunum á starfrækslu virkja, sem fyrir eru eða síðar kunna að koma.
     Í reglugerð skal setja ákvæði um:
a.
Gerð, setningu og starfrækslu raforkuvirkja og annarra mannvirkja, sem sett eru eða notuð svo nálægt raforkuvirkjum, að tjón, hætta eða tilfinnanleg truflun geti stafað af.
b.
Takmörkun á eða bann við innflutningi, sölu og notkun tækja og einstakra hluta raforkuvirkja, sem fullnægja ekki settum skilyrðum.
c.
Skyldu til þess að gefa skýrslu um raforkuvirki, sem fyrir hendi eru, um ný virki og aukningu eldri virkja, svo og að hlíta fyrirmælum ráðherra um rannsókn á slíkum virkjum.
d.
Eftirlit með raforkuvirkjum af hálfu ríkisins, þar með talið eftirlit með innflutningi og sölu raforkuvirkja og hluta þeirra og með smíði þeirra innanlands. Má ákveða, að raforkuvirki, hlutar þeirra og efni til þeirra skuli merkt sérstöku viðurkenningarmerki. Er engum heimilt að nota merkið nema með leyfi Rafmagnseftirlits ríkisins og eftir þeim reglum, sem það setur um notkun þess.
e.
Prófun og viðurkenningu raffanga, sem flutt eru til landsins eða smíðuð innanlands.
f.
Löggildingu til rafvirkjunarstarfa og um menntun og hæfni eftirlitsmanna með raforkuvirkjum.
g.
Skyldu stjórna rafveitna til að hafa eftirlit með því, að rafmagnslagnir og tæki, sem notuð eru í sambandi við rafveitur þeirra, brjóti eigi í bága við ákvæði laga og reglugerða, og um heimild handa Rafmagnseftirliti ríkisins, eða rafveitum í umboði þess, að láta stöðva um stundarsakir starfrækslu raforkuvirkja og loka fyrir rafstrauminn hjá einstökum mönnum eða fyrirtækjum, sem hlíta ekki ákvæðum reglugerðarinnar, svo og að taka löggildingu um lengri eða skemmri tíma af þeim, sem hafa gerst brotlegir við reglugerðina.
h.
Ábyrgð eigenda, umráðamanna og notenda raforkuvirkja á ástandi og meðferð þeirra.
i.
Í reglugerð skal einnig setja ákvæði um hönnun og frágang raforkuvirkja með tilliti til umhverfis, endurbætur á raski við nýlagnir og samstarf við náttúruverndaraðila þar að lútandi.
j.
Í reglugerð má einnig setja ákvæði um fræðslu og upplýsingar til almennings um hættur af rafmagni og leiðir til að verjast þeim.

1)Rg. 264/1971, sbr. 177/1978, 462/1979, 621/1980, 640/1981, 217/1982, 185/1984, 243/1986, 346/1986, 378/1987, 116/1990, 131/1991, 542/1991, 67/1992, 107/1992, 457/1992, 543/1993 og 674/1994, sjá og námsskrá 372/1986. Rg. 52/1963 (um háspennusæstrengi).


8. gr.
     Undanþegin eftirliti Rafmagnseftirlits ríkisins eru raforkuvirki í farartækjum, svo sem skipum, bifreiðum og flugvélum.
     Ef ágreiningur verður um, hvort tiltekin raforkuvirki falla undir Rafmagnseftirlit ríkisins eða ekki, sker ráðherra úr.

9. gr.
     Til rekstrar Rafmagnseftirlits ríkisins skal fjár aflað á eftirfarandi hátt:
1.
Eigendur raforkuvera og rafveitna skulu árlega greiða til Rafmagnseftirlits ríkisins gjald allt að 1,2% af heildartekjum þeirra af raforkusölu og leigu mælitækja, að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku, söluskatti og verðjöfnunargjaldi. Ef eigandi raforkuvers notar sjálfur alla þá orku, sem þar er unnin, eða verulegan hluta hennar, og hún er ekki mæld eða verðlögð eða ekki er vitað um tekjur af raforkusölu, skal hann greiða gjald af áætlaðri notkun.
2.
Fyrir eftirlit með uppsetningu nýrra raforkuvirkja skal eftirlitinu greiðast kostnaður þess.
3.
Þeir, sem flytja inn til landsins eftirlitsskyld rafföng og hluta þeirra eða framleiða þau innanlands, greiði til eftirlitsins gjald, sem af innfluttum rafföngum og hlutum greiðist af tollverði viðkomandi vöru en af innlendri framleiðslu af verksmiðjuverði vörunnar. Má gjald þetta nema allt að 3/4 % af viðkomandi verði.
4.
Sérstök prófunar- og skrásetningargjöld af slíkum eftirlitsskyldum rafföngum.

     Ráðherra setur í reglugerð1) nánari ákvæði um gjöld þessi. Heimil er stöðvun á rekstri og notkun virkjanna, ef gjaldið er ekki greitt á réttum gjalddaga.

1)Rg. 497/1990.


10. gr.
     Með dómi er heimilt að gera upptæk þau rafföng, sem framleidd eru, seld, afhent eða notuð andstætt öryggisfyrirmælum Rafmagnseftirlits ríkisins.

11. gr.
     Öll gjöld samkvæmt lögum þessum má taka lögtaki á kostnað gjaldanda.

12. gr.
     Brot gegn lögum þessum varða sektum.

13. gr.
     Nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga skal setja í reglugerð.1)

1)Rg. 144/1994, 145/1994 og 146/1994, sbr. 429/1994.


14. gr.
     Með mál út af brotum á lögum þessum og reglugerðum samkvæmt þeim skal farið að hætti opinberra mála.

15. gr.
     Lög þessi öðlast þegar gildi ...