Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 119. Uppfært til 1. október 1995.


Lög um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna

1965 nr. 16 24. apríl


1. gr.
     Sjóðurinn heitir Lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna.

2. gr.
     Sjóðfélagar eru í lögum þessum taldir allir þeir, sem skylt er að greiða iðgjöld í sjóðinn og rétt eiga á lífeyri úr honum.

3. gr.
     Stjórn sjóðsins skipa 3 menn, formaður Hjúkrunarfélags Íslands, landlæknir og einn maður tilnefndur af ríkisstjórninni til þriggja ára í senn, og er hann formaður stjórnarinnar.

4. gr.
     Stjórn sjóðsins heldur fund svo oft sem þörf er á, og skal hún halda gerðabók og skrá þar allar samþykktir sínar. Í stjórninni ræður meiri hluti atkvæða. Ekkert fé má greiða úr sjóðnum nema með samþykki sjóðsstjórnarinnar.
     [Stjórn sjóðsins skal sjá um ávöxtun á fé hans, og skal það gert á eftirfarandi hátt:
1.
Í ríkisskuldabréfum.
2.
Í skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs.
3.
Í skuldabréfum bæjar- og sveitarfélaga.
4.
Í skuldabréfum fjárfestingarlánasjóða sem starfa samkvæmt lögum, þ. á m. veðdeilda banka.
5.
Í bönkum og sparisjóðum sem fullnægja ákvæðum laga nr. 69/1941.1)
6.
Í skuldabréfum tryggðum með veði í húseignum allt að 65% af brunabótamatsverði, eða sé brunabótamat ekki fyrir hendi þá af matsverði, sem ákveðið er af tveim mönnum, sem fjármálaráðherra tilnefnir, og allt að 75% af fasteignamatsverði lóða í kaupstöðum og kauptúnum.]2)

     Ráðherra getur kveðið nánar á um útlán sjóðsins með reglugerð, þar á meðal sett fyrirmæli um lánveitingar til íbúðarhúsabygginga fyrir sjóðfélaga.

1)l. 43/1993.2)L. 17/1978, 1. gr.


5. gr.
     Tryggingastofnun ríkisins hefur á hendi reikningshald sjóðsins, heimtir inn tekjur hans og annast greiðslur úr honum, hvort tveggja eftir tilvísun sjóðsstjórnarinnar. Þóknun fyrir starf Tryggingastofnunarinnar fer eftir samkomulagi milli hennar og sjóðsstjórnarinnar. Náist ekki samkomulag, ákveður félagsmálaráðherra þóknunina.

6. gr.
     Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Ársreikningur skal birtur með ársreikningum Tryggingastofnunar ríkisins og endurskoðaður á sama hátt og þeir.

7. gr.
     Rétt til lífeyris úr sjóðnum hefur sérhver sjóðfélagi, sem hefur greitt iðgjöld til hans í 5 ár eða lengur og lætur af störfum sökum varanlegrar örorku eða elli. Rétturinn til að hætta störfum sökum elli miðast við 65 ára aldur, ef viðkomandi hefur makalífeyristryggingu í sjóðnum, en ella við 60 ára aldur.
     Þegar sjóðfélagi hefur greitt iðgjöld til sjóðsins í 30 ár, falla iðgjaldagreiðslur hans niður svo og iðgjaldagreiðslur launagreiðanda hans vegna.

8. gr.
     Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af launum þeim, er á hverjum tíma fylgja starfi því, sem sjóðfélaginn gegndi síðast. Hundraðshluti þessi fer eftir iðgjaldagreiðslutíma og launaflokki samkvæmt 1. mgr. 13. gr. Hann er 1,6% fyrir hvert ár, sem iðgjöld hafa verið greidd til sjóðsins í lægsta launaflokki, og hækkar um 0,02% við hvern flokk upp í 2% af launum fyrir hvert ár í hæsta flokki. Fyrir hvert námsár reiknast 1,6%. Fyrir hvert starfsár, eftir að iðgjaldagreiðslu lýkur og þar til sjóðfélaginn öðlast rétt til að láta af störfum og fá ellilífeyri, bætist við 1% af launum í öllum flokkum, en 2% fyrir hvert starfsár, eftir að iðgjaldagreiðslu er lokið og sjóðfélaginn hefur öðlast rétt til að fá ellilífeyri.
     Heimilt er stjórn sjóðsins að greiða ellilífeyrisþegum á aldrinum 60 til 67 ára uppbót á ellilífeyri allt að einstaklingslífeyri almannatrygginga. Það er skilyrði fyrir slíkri uppbót, að sjóðfélaginn sé ekki lengur fullfær um að gegna starfi sínu. Því til sönnunar ber viðkomanda að leggja fram umsögn yfirmanns síns um starfshæfnina og vottorð trúnaðarlæknis sjóðsins um heilsufar. Við ákvörðun um uppbót á lífeyri skal sjóðsstjórnin hafa hliðsjón af heimilisástæðum viðkomandi sjóðfélaga og afstöðu hans til að nýta þá starfskrafta, sem hann kann að hafa.
     Til launa telst eigi aðeins laun greidd í peningum, heldur fæði og húsnæði, ef það fylgir stöðunni, og skal verðmæti þeirra fríðinda talið hið sama og þau eru metin til skatts.

9. gr.
     Sjóðfélagar, sem verða vegna örorku fyrir launalækkun, er nemur meira en 10% af laununum, eða verða að hætta störfum sökum varanlegrar örorku, eftir að þeir öðluðust aðild að sjóðnum, eiga rétt á lífeyri úr sjóðnum, enda sé örorkan metin meiri en 10%.
     Hámark örorkulífeyris miðast við áunnin lífeyrisrétt samkvæmt 8. gr. að viðbættum einstaklingslífeyri almannatrygginga. Ef rekja má aðalorsök örorkunnar til hjúkrunarstarfsins, skal þó reikna áunnin lífeyrisrétt eins og sjóðfélaginn hefði gegnt stöðu sinni til þess tíma, er hann hefði öðlast ellilífeyrisrétt. Áunnin lífeyrisréttindi skulu reiknast af launum í því starfi, sem sjóðfélaginn gegndi síðast, eins og þau eru á hverjum tíma. Ef um nema er að ræða, skal miða við laun almennra hjúkrunarkvenna á þeim spítala, sem viðkomandi starfaði.
     Sé örorkan milli 10% og 50%, er örorkulífeyririnn sami hundraðshluti af hámarksörorkulífeyri eins og örorkan er metin. Sé örorkan metin 50% til 75%, er örorkulífeyririnn 50% af hámarkinu að viðbættum 2% af því fyrir hvert 1%, sem örorkan er metin umfram 50%. Sé örorkan metin 75% eða meiri greiðist hámarksörorkulífeyrir að frádregnum örorkulífeyri almannatrygginganna. Þegar sjóðfélagi, sem er metinn undir 75% öryrki, nær 60 ára aldri, fær hann greiddan ellilífeyri samkvæmt ákvæðum 8. gr. Frá sama tíma fellur niður örorkulífeyrir hans. Þó skal hann halda til 67 ára aldurs þeim hluta hans, sem miðaður er við lífeyri almannatrygginga.
     Skylt er sjóðfélaga, sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur hans, að láta stjórn sjóðsins í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt, sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til örorkulífeyris. Örorkumatið skal framkvæmt af trúnaðarlækni sjóðsins, og skal það aðallega miðað við vanhæfi sjóðfélagans til að gegna hjúkrunarstörfum.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra öryrkja, sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti. Sömuleiðis ber stjórn sjóðsins að hækka örorkulífeyrinn, ef örorkan vex til muna og án sjálfskaparvíta frá því, sem hún var metin við fyrri ákvarðanir, enda hafi öryrkinn á þeim tíma, sem örorkan óx, ekki verið í þjónustu annarra en þeirra aðila, sem tryggja í sjóðnum hjúkrunarkonur, er starfa í þeirra þjónustu.
     Þrátt fyrir örorku getur enginn sjóðfélagi fengið örorkulífeyri, meðan hann heldur jafnháum launum og hann áður hafði, hjá aðila, sem tryggir starfsmenn sína í lífeyrissjóði, sem stofnaður er með lögum eða viðurkenndur af fjármálaráðuneytinu.

10. gr.
     Stjórn sjóðsins getur heimilað sjóðfélögum að tryggja maka sínum makalífeyri úr sjóðnum gegn því, að viðkomandi sjóðfélagi öðlist ekki ellilífeyrisrétt fyrr en frá og með 65 ára aldri. Umsókn um slíkt verður sjóðfélaginn að hafa sent áður en hann nær 55 ára aldri. Sjóðfélagi, sem hefur þannig afsalað sér réttinum til að fá ellilífeyri frá 60 ára aldri, getur ekki öðlast þann rétt aftur. Það skal meðal annars sett sem skilyrði fyrir veitingu makalífeyristryggingar, að viðkomandi sjóðfélagi sé heilsuhraustur og afli að minnsta kosti eins mikilla peningatekna með vinnu sinni og maki hans. Stjórn sjóðsins getur krafist þess, að umsækjandi leggi fram vottorð trúnaðarlæknis sjóðsins um heilsufar sitt.
     Nú andast sjóðfélagi, sem notað hefur heimildarákvæði þessarar greinar, og lætur eftir sig maka á lífi, og á þá hinn eftirlifandi maki rétt á lífeyri úr sjóðnum, samkvæmt þeim reglum, er fara hér á eftir.
     Upphæð makalífeyris ákvarðast þannig, að samanlagður makalífeyrir úr sjóðnum og maka- og ellilífeyrir, sem makinn kann að eiga rétt á frá almannatryggingum, er hundraðshluti af launum þeim, er á hverjum tíma fylgja starfi því, er hinn látni gegndi síðast. Ef starfstími sjóðfélagans hefur verið 30 ár eða skemmri, er hundraðshluti þessi 20% af greindum launum að viðbættu 1% fyrir hvert iðgjaldagreiðsluár. Fyrir hvert ár, sem hinn látni hafði starfað, eftir að iðgjaldagreiðslu lauk, en áður en hann öðlaðist rétt til ellilífeyris, hækkar makalífeyririnn um 1/2% af launum, en um 1% fyrir hvert starfsár, eftir að iðgjaldagreiðslu var lokið og hann öðlaðist rétt til að taka ellilífeyri.
     Sé makalífeyrir samkvæmt næstu málsgrein hér á undan lægri en tvöfaldur einstaklingslífeyrir almannatrygginganna, skal greiða úr sjóðnum þeim makalífeyrisþegum, sem rétt eiga á maka- eða ellilífeyri frá almannatryggingunum, það, sem á vantar, að samanlagður lífeyrir þeirra nái tvöföldum einstaklingslífeyri almannatrygginganna. Þó skal greiðsla sjóðsins aldrei fara fram úr hundraðshlutum þeim, sem nefndir eru í 3. mgr. þessarar greinar.
     Nú hefur sjóðfélagi gengið í hjónaband, eftir að hann var orðinn 60 ára, eða á þeim tíma, er hann naut lífeyris úr sjóðnum eða hann var lagstur banaleguna, og úrskurðar þá stjórn sjóðsins, hvort eftirlifandi maki hans skuli njóta lífeyris úr sjóðnum eða eigi.
     Réttur til lífeyris samkvæmt þessari grein fellur niður, ef hinn eftirlifandi maki gengur í hjónaband að nýju, en kemur aftur í gildi, sé hinu síðara hjónabandi slitið, enda veiti hið síðara hjónaband eigi rétt til lífeyris úr sjóðnum. Veiti síðara hjónabandið einnig rétt til lífeyris, má eftirlifandi maki velja um, hvort hann tekur lífeyri eftir fyrri eða síðari makann.
     Þegar sjóðfélagi deyr, sem verið hefur tvígiftur, og lætur eftir sig tvo maka á lífi, skiptist makalífeyririnn milli þeirra, í beinu hlutfalli við þann tíma, sem hvor þeirra hefur verið giftur hinum látna sjóðfélaga á þeim tíma, er hann ávann sér lífeyrisréttindi og/eða naut lífeyris úr sjóðnum. Ef annar hinna eftirlifandi maka giftist að nýju, fellur allur lífeyririnn til hins, en skiptist aftur, sé því hjónabandi slitið, enda veiti síðara hjónabandið ekki rétt til lífeyris úr sjóðnum, eða öðrum hliðstæðum sjóði. Hliðstæð regla gildir, séu rétthafar makalífeyris fleiri en tveir.

11. gr.
     Börn eða kjörbörn, sem sjóðfélagi lætur eftir sig, er hann andast, og yngri eru en 18 ára, skulu fá árlegan lífeyri úr sjóðnum, þar til þau eru fullra 18 ára að aldri, enda hafi hinn látni sjóðfélagi séð um framfærslu þeirra að nokkru eða öllu leyti. Sama gildir um börn eða kjörbörn, er sá sjóðfélagi lætur eftir sig, er naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum, er hann andaðist.
     Ef barnið á foreldri eða kjörforeldri á lífi, er sér um framfærslu þess, er samanlagður lífeyrir þess frá almannatryggingum og úr þessum sjóði 50% hærri en barnalífeyrir almannatrygginga. Að öðrum kosti er lífeyririnn tvöfaldur barnalífeyrir almannatrygginga.
     Sama rétt öðlast börn og kjörbörn þeirra sjóðfélaga, er njóta elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum, þó svo, að barnalífeyrir úr þessum sjóði til barna eða kjörbarna örorkulífeyrisþega skal vera jafnmargir hundraðshlutar af fullum barnalífeyri eins og örorkulífeyrir hans er margir hundraðshlutar af hámarksörorkulífeyri.
     Fósturbörn, er sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, njóta sama réttar og börnum og kjörbörnum er veittur hér að framan.

12. gr.
     Nú frestar sjóðfélagi að taka ellilífeyri og tekur jafnframt við öðru starfi hjá stofnun, er veitir aðgang að sjóðnum, lægra launuðu en því, er hann gegndi áður, og skal þá reikna lífeyri eftir því starfinu, sem hærra var launað.
     Sama regla gildir, þegar sjóðfélagi verður af heilsufarsástæðum að láta af stöðu sinni, en tekur við öðru léttara og lægra launuðu starfi, er veitir aðgang að sjóðnum. Þegar svo stendur á sem í þessari málsgrein ræðir um, er viðkomandi heimilt að kaupa sér réttindi í sjóðnum fyrir þann tíma, sem úr hefur fallið. Stjórn sjóðsins getur krafist vottorðs trúnaðarlæknis sjóðsins til sönnunar því, að sjóðfélaginn verði að láta af stöðu sinni vegna heilsubrests.

13. gr.
     Sjóðfélagar skulu greiða iðgjöld til sjóðsins, er séu ákveðinn hundraðshluti af launum, mismunandi eftir upphæð launa. Hundraðshluti þessi getur verið lægstur 21/4, en hæstur 41/4, og skal hann ákveðinn á sama hátt og hjá sjóðfélögum í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 29/1963.
     Sjóðfélagar bera eigi ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins nema með iðgjöldum sínum.
     Launagreiðendur greiði í iðgjöld til sjóðsins 6% af launum þeim, er sjóðfélagar taka hjá þeim. Launagreiðendum ber að halda iðgjöldum launþega eftir af launum þeirra og greiða þau ásamt eigin iðgjöldum til sjóðsins innan tveggja vikna frá útborgun launanna. Vanræki launagreiðandi að halda eftir iðgjaldi sjóðfélaga, er hann þrátt fyrir það ábyrgur fyrir öllu iðgjaldinu gagnvart lífeyrissjóðnum.
     Iðgjöld skal reikna af föstum launum að meðtöldum fríðindum, svo sem fæði og húsnæði, ef slík fríðindi fylgja stöðunni, sbr. 3. mgr. 8. gr.

14. gr.
     Nú lætur sjóðfélagi í lifanda lífi og af öðrum ástæðum en elli eða örorku af stöðu þeirri, er veitti honum aðgang að sjóðnum, og á hann þá rétt á að fá endurgreidd með vöxtum iðgjöld þau, er hann hefur greitt í sjóðinn. Stjórn sjóðsins ákveður vextina með hliðsjón af ávöxtun sjóðsins. Hafi hann verið sjóðfélagi í 5 ár, er hann lætur af stöðunni, getur hann með samþykki sjóðsstjórnarinnar valið um, hvort hann fær iðgjöld sín endurgreidd eða hann lætur þau standa inni í sjóðnum. Velji hann síðari kostinn, fellur niður réttur hans og skylda til að greiða framvegis iðgjöld til sjóðsins og réttur hans til örorkulífeyris. Ellilífeyrir hans, sbr. 8. gr., miðast þá við starfstíma hans og laun þau, er hann hafði, er hann lét af stöðu þeirri, er veitti aðgang að sjóðnum, en tekur sömu breytingum og lífeyrir annarra, eftir að taka lífeyris hefst. Hafi hann gegnt stöðunni skemur en 30 ár, skal barnalífeyrir ákveðinn þannig, að full upphæð samkvæmt 11. gr. skal margfölduð með hlutfallinu á milli þess ellilífeyris, sem hann hefur öðlast rétt til, og þess ellilífeyris, sem hann hefði öðlast rétt til, ef hann hefði gegnt starfinu í 30 ár.
     Sé staða eða starfi sjóðfélagans lagður niður, á hann rétt á að vera áfram í sjóðnum og greiða iðgjöld, sem miðuð séu við laun í þeim launaflokki, er staða hans var í, er hún var lögð niður. Nýtur hann þá sömu réttinda úr sjóðnum sem hann hefði gegnt starfi sínu áfram.
     Láti sjóðfélagi um stundarsakir af starfi, sem veitir aðgang að sjóðnum, er honum heimilt að greiða iðgjöld fyrir þann tíma, er hann var í burtu, enda hafi hann verið við framhaldsnám eða unnið að hjúkrunarstörfum, sem ekki veita aðgang að sjóðnum.

15. gr.
     Nú flyst sjóðfélagi, er verið hefur í þessum lífeyrissjóði, í starf, sem veitir aðgang að öðrum lífeyrissjóði, sem stofnaður er með lögum, og má þá endurgreiða með vöxtum öll iðgjöld, sem greidd hafa verið í sjóðinn hans vegna. Það er skilyrði fyrir þessari endurgreiðslu, að hún gangi til kaupa á lífeyrisréttindum fyrir viðkomandi sjóðfélaga í þeim sjóði, er hann flyst til. Þó má aldrei endurgreiða hærri upphæð en þarf til þess að kaupa réttindi í hinum nýja sjóði, er svari til þess starfstíma, er sjóðfélaginn hafði öðlast.
     Sjóðsstjórninni er heimilt að nota sömu endurgreiðslureglu, þegar sjóðfélagi flyst í annan sjóð, sem viðurkenndur er af fjármálaráðuneytinu, eða kaupir sér lífeyri hjá tryggingafélagi eða stofnun, sem starfar eftir reglum, er fjármálaráðuneytið samþykkir, enda gildi þar sömu reglur um endurkaup og greiðslu lífeyris eins og ákveðnar eru í þessum lögum.
     Á tilsvarandi hátt er sjóðsstjórninni heimilt, að fengnu samþykki fjármálaráðherra, að veita viðtöku, vegna sjóðfélaga, er gerist sjóðfélagi í þessum sjóði, fé því, er kann að vera endurgreitt hans vegna úr sjóði, tryggingafélagi eða stofnun, sem að framan greinir, og veita honum réttindi í samræmi við það.
     Einnig getur stjórnin, þegar sérstaklega stendur á, og með samþykki fjármálaráðherra, heimilað réttindakaup aftur í tímann, þó ekki sé um að ræða yfirfærslu á réttindum annars staðar frá. Það skal meðal annars sett sem skilyrði fyrir slíkum réttindakaupum, að mælt sé með þeim af forstöðumanni þeirrar stofnunar, er sjóðfélaginn vinnur hjá, að gengið sé frá réttindakaupunum innan árs, frá því hann var ráðinn, og að hann sé eldri en 30 ára, þegar hann öðlast aðgang að sjóðnum.

16. gr.
     Stjórn sjóðsins skal hið fimmta hvert ár láta tryggingafræðing rannsaka fjárhag sjóðsins. Þyki honum rannsókn sín leiða í ljós, að fjárhagsgrundvöllur sjóðsins sé ótryggur, skal hann gera tillögur til stjórnar sjóðsins um aðgerðir til að efla sjóðinn. Sýni rannsóknin hins vegar, að fjárhagur sjóðsins sé svo góður, að iðgjöld mætti lækka, skal hann athuga vandlega, hversu mikil sú lækkun mætti vera, og gera tillögur sínar um það til sjóðsstjórnarinnar. Sjóðsstjórnin má aldrei lækka iðgjöld meira en tryggingafræðingur hefur lagt til.

17. gr.
     Allar hjúkrunarkonur, sem vinna hjúkrunarstörf í þjónustu ríkis, bæjar- og sveitarfélaga eða annarra opinberra stofnana eða við heilbrigðisstofnanir, sem eru viðurkenndar af heilbrigðisstjórninni, skulu vera skyldutryggðar í sjóði þessum. Heimilt er að taka í sjóðinn aðrar hjúkrunarkonur, er starfa að hjúkrun, enda sé viðkomandi eigi ráðinn til skemmri tíma en eins árs, eða með að minnsta kosti þriggja mánaða uppsagnarfresti.
     [Einnig er heimilt að taka í sjóðinn hjúkrunarkonur, sem starfa að félagsmálum hjúkrunarkvenna á vegum Hjúkrunarfélags Íslands, enda séu ráðningarkjör þeirra hin sömu og hjúkrunarkvenna, sem starfa við hjúkrun hjá öðrum aðilum en opinberum aðilum.]1)

1)L. 14/1969, 1. gr.


18. gr.
     Ríkissjóður og aðrir aðilar, sem tryggja hjúkrunarkonur í sjóði þessum, ábyrgjast hver fyrir sinn hóp greiðslur úr honum. Nú reynist einhver aðili, sem tryggt hefur hjúkrunarkonur í sjóðnum, ekki fær um að standa við ábyrgðarskuldbindingu sína, og er ríkissjóður þá bakábyrgur.
     Lífeyrir greiðist með 1/12 árslífeyris fyrirfram á hverjum mánuði.

19. gr.
     Óheimilt er að framselja eða veðsetja lífeyriskröfur samkvæmt lögum þessum, og ekki má leggja á þær löghald né gera í þeim fjárnám eða lögtak. Enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hefur rétt til að skerða kröfurnar á nokkurn hátt, og eigi má halda lífeyrisfé eftir til greiðslu opinberra gjalda.

20. gr.
     Frá og með 1. janúar 1964 hafa allar hjúkrunarkonur öðlast full réttindi samkvæmt lögum um almannatryggingar og greiða frá sama tíma fullt gjald til þeirra. Stjórn sjóðsins semur við Tryggingastofnun ríkisins um uppgjör fyrir liðinn tíma í samræmi við ákvæði almannatryggingalaga um það atriði.
     Hjúkrunarkonur, sem fengið hafa lífeyri fyrir gildistöku laga þessara, skulu fá greiddan lífeyri samkvæmt ákvæðum laga þessara frá gildistöku þeirra. Ríkissjóður og aðrir aðilar, sem tryggt hafa hjúkrunarkonur í sjóðnum, endurgreiða honum mismuninn á þeim lífeyri, sem þannig verður greiddur, og þeim lífeyri, er viðkomandi lífeyrisþegum bar samkvæmt eldri reglum.

21. gr.
     Nú verður almenn hækkun á áður úrskurðuðum elli-, örorku- og makalífeyri vegna almennrar hækkunar á launum hjúkrunarkvenna, sbr. 8., 9. og 10. gr., og endurgreiðir þá ríkissjóður og aðrir þeir aðilar, sem tryggt hafa hjúkrunarkonur í sjóðnum, honum þá hækkun, er þannig verður á lífeyrisgreiðslum.

22. gr.
     Ákvæði þessara laga gilda einnig um karla, er annast hjúkrunarstörf og hafa réttindi til þess samkvæmt hjúkrunarlögum.