Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 119. Uppfært til 1. október 1995.


Lög um gjöld til holræsa, gangstétta og varanlegs slitlags á götum á Akureyri

1970 nr. 87 6. ágúst


1. gr.
     Þar sem bæjarstjórnin hefur lagt holræsi í götu á kostnað bæjarsjóðs, er hverjum húseiganda skylt að gera á sinn kostnað ræsi, er flytji allt skolp frá húsi hans út í göturæsið. Skulu þau ræsi ekki vera lakari að gerð en göturæsin og gerð undir umsjón veganefndar eða þess manns, er hún felur umsjónina, samkvæmt reglugerð, er bæjarstjórnin setur um tilhögun skolpræsa innan húss og utan. Skal í þeirri reglugerð ákveða, að regnvatn skuli leitt í göturæsin. Vanræki nokkur að gera þetta innan hæfilegs frests, sem bæjarstjórnin setur, getur bæjarstjórnin látið vinna verkið á kostnað húseiganda.
     Fyrir öllum kröfum, sem bæjarstjórnin öðlast á hendur húseigendum og lóðareigendum, samkvæmt framansögðu, hefur bæjarsjóðurinn lögveð í húsinu eða lóðinni, og gengur sá veðréttur fyrir öllum veðskuldum eftir samningi.

2. gr.
     Kostnaður við holræsagerð í götum bæjarins, og sömuleiðis kostnaður við steinlímdar, hellulagðar og aðrar jafnvandaðar gangstéttir og kostnaður við gerð varanlegs slitlags á götu, greiðist úr bæjarsjóði. En heimilt er bæjarstjórninni að leggja holræsa-, gangstétta- og gatnagerðarskatt á hús og lóðir í bænum, samkvæmt reglugerð, er hún setur og stjórnarráðið samþykkir.1) Skal gjaldið miðað við skattvirðingarverð húseigna og lengd lóða með fram götu, þar sem holræsi eða gangstéttir verða lagðar og/eða varanlegt slitlag.

1)Rg. 87/1990.


3. gr.
     Lögtaksréttur fylgir öllum kröfum samkvæmt lögum þessum.